Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnun sambýlis við Skagasel

Ágæta samkoma

Í dag fögnum við opnun annars áfanga í sambýlisuppbyggingu fyrir íbúa á fyrrum Kópavogshæli. Með þessum áfanga tekst að bjóða fimm einstaklingum búsetu við hæfi. Það eru ekki meira en fjórar vikur síðan við opnuðum fyrsta áfanga í þessu stóra og viðamikla verkefni sem tekur til flutnings á 20 einstaklingum frá fyrrum Kópavogshæli í búsetu á sambýlum. Hér við Skagasel 9 er gert ráð fyrir að búi fimm einstaklingar, fjórir á efri hæð og einn á neðri hæð, þegar sú aðstaða verður tilbúin. Með opnun þessa sambýlis er búið að bjóða níu einstaklingum ný búsetuúrræði sem eru líkleg til þess að bera með sér meiri lífsgæði en þessi hópur hefur áður þekkt.

Mér veitist einnig sú ánægja að tilkynna að búið er að festa kaup á tveimur nýjum húseignum sem eru við Erluás 68 í Hafnarfirði og við Miðskóga 22 á Álftanesi og munu væntanlega rúma 10 einstaklinga í búsetu. Heimilið við Erluás verður væntanlega tilbúið snemma vors, en heimilið við Miðskóga verður tilbúið í maí. Með kaupunum á þessum fjórum heimilum á einungis eftir að fjármagna eitt hús til viðbótar og er gert ráð fyrir því að það verði staðsett í Reykjavík og verði komið í notkun í júní á næsta ári.

Með opnun þessa sambýlis hér í dag hefur tekist að rýma að fullu tvær svokallaðar heimiliseiningar að Kópavogsbraut 5 og er það mér einnig mikið ánægjuefni, því eins og við vitum þá er það húsnæði á Kópavogsbrautinni ekki í samræmi við þær kröfur sem við gerum til íbúðarhúsnæðis í dag.

Breyting á högum þeirra sem nú eru að flytja og þeirra sem koma til með að flytja munu ekki einungis birtast í búsetuhögum heldur mun verða stórkostleg breyting á þeirri dagþjónustu sem þeir fá. Allir þeir sem flytjast fá tækifæri til þess að sækja dagþjónustu til þeirra hæfingastöðva sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu og eru í nálægð við heimili þeirra. Flestir íbúanna hafa ekki fengið mikla dagþjónustu í gegnum tíðina, sumir jafnvel ekki meira en 15 mínútur á dag. Þetta mun gjörbreytast þar sem markmiðið er að flestir hafi aðgang að þriggja – fjögurra klst.þjónustu á degi hverjum. Einnig er gert ráð fyrir að fyrir hvern og einn þeirra verði unnin þjónustuáætlun sem hefur það að markmiði að tryggja að sú þjónusta sem þeir fá sé alltaf við hæfi og í samræmi við þjónustuþarfir þeirra. Það er gert ráð fyrir að þessar þjónustuáætlanir verði síðan tengdar inn á þá þjónustu sem veitt er á sambýlunum og þannig verði sköpuð eins heildstæð þjónusta eins og unnt er.

Mér þykir rétt að nota þetta tækifæri til að telja upp þá áfanga sem við höfum náð eða erum komin áleiðis með á þessu ári.

Hafin er bygging sambýlis við Jöklasel og áformað er að það verði tilbúið næsta sumar. Þroskahjálp er að undirbúa byggingu sambýlis við Þverholt í Mosfellsbæ.
Við höfum á árinu tekið í notkun sambýli við Blikaás, Barðastaði, Hólmasund og Sólheima.

Vegna útskrifta af Kópavogshæli eru komin sambýli við Svöluhraun og Skagasel, búið að kaupa Erluás og Miðskóga eins og áður sagði og eitt verður keypt til viðbótar í Reykjavík. Þá verður Sæbrautin gerð að sambýli. Í gær var tekið í notkun endurbyggt sambýli á Hvammstanga.

Við Holtaveg er komin skammtímavistun sem er með sex – sjö pláss en gæti nýst 10 - 15 hluta úr degi.

Hæfingin í Kópavogi er með 20 heilsdagspláss eða 40 hálfsdags. Á þessari upptalningu má sjá að aldrei hafa á einu ári verið tekin stærri skref í búsetumálum fatlaðra eða vistunarúrræðum.

Ég hef hér talið upp 15 staði sem allir bæta stórlega lífsaðstöðu þeirra sem koma til með að njóta og fjölskyldna þeirra.

Þá vil ég einnig nefna nýja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun ellilífeyris og örorkubóta en þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda 2005 þá er árleg hækkun bóta fimm milljarðar. Hve mikil hækkunin er til öryrkja hef ég ekki á takteinum. Bótaþegar eru um 25.000. Öryrkjar eru um 9.900 og hækkun til þeirra er tiltölulega meiri þar sem þeir njóta fæstir greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Það er mér mikið gleðiefni að þessu Kópavogsverkefni verði lokið á ári fatlaðra 2003 og táknrænt fyrir markmið ársins sem er að auka lífsgæði fólks sem býr við fötlun. Félagsmálaráðuneytið hefur til þess mikinn metnað að vel takist til við framkvæmd þeirra hugmynda sem stefnt er að verði að veruleika á ári fatlaðra. Markmiðið er að árið færi fólki sem býr við fötlun aukin lífsgæði og umræðan og þær ákvarðanir sem verða teknar muni stuðla að því.

Félagsmálaráðuneytið leggur á það ríka áherslu að vel takist til með framkvæmd ársins og að allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta, hvort sem um er að ræða ríki, sveitarfélög, hagsmunasamtök eða einstaklinga, leggi sitt af mörkum þannig að árið geti orðið árangursríkt. Atburðir ársins eiga að bera með sér og vera öflugur vettvangur skoðanaskipta, þekkingarmiðlunar, sköpunar og síðast en ekki síst veganesti til mikilla framkvæmda. Hér skiptir því máli að mikil og góð samvinna takist um alla framkvæmd og verði því grundvöllur framfara í þjónustunni. Afrakstur þeirrar vinnu mun vafalaust birtast í enn betri þjónustu við m.a. þá sem hér koma til með að búa.

Ég óska íbúum, aðstandendum og starfsfólki innilega til hamingju með daginn. Einnig vil ég þakka Öryrkjabandalaginu fyrir þeirra mikilsverða framlag í þágu þessa verkefnis. Megi farsæld hvíla yfir því starfi sem hér mun fara fram.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta