Setningarávarp á samráðsfundi ríkis- og sveitarfélaga
Enn erum við mætt til samráðsfundar. Margt hefur gerst í samskiptum okkar frá síðasta samráðsfundi. Fyrst vil ég nefna að í morgun undirrituðum við endurskoðaðan samstarfssáttmála ríkis- og sveitarfélaga. Breytingar eru ekki miklar og þið hafið sáttmálann í höndum en helstu atriðin eru að leitast við að samræma stefnu beggja aðila í opinberum rekstri. Áréttað er mikilvægi formlegs samstarfs um efnahagsmál með skipun fjögurra manna embættismannanefndar sem skipuð verður fulltrúum félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og tveimur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nefndin á að fjalla um þróun efnahags- og kjaramála svo og um meiriháttar breytingar í fjármálalegum samskiptum og á tekjustofnum sveitarfélaga.
Þá undirrituðum við samkomulag um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis- og sveitarfélaga. Í þessu samkomulagi voru leyst til frambúðar nokkur ágreiningsmál sem hafa verið til umfjöllunar í allt sumar. Í fyrsta lagi var ágreiningur um fasteignaskattinn eftir hækkunina á fasteignamatinu í Reykjavík. Þá nægðu ekki 1100 milljónir sem samið var um til að bæta tekjutap sveitarfélaga vegna lagabreytingarinnar árið 2000. Þegar farið var að miða við raunvirði eigna og hætt að miða við uppreiknað Reykjavíkurverð. Ágreiningurinn var leystur með eftirfarandi hætti:
a. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær aukaframlag á fjáraukalögum 2002 260 milljónir sem verja skal til að jafna tekjutap einstakra sveitarfélaga.
b. Framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð hækkar úr 0,64% í 0,72% af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum sem innheimtir eru í ríkissjóð. Þetta gerir 160 milljóna árlega hækkun til sveitarfélaganna.
Húsaleigubætur hafa stóraukist og verða í ár um 900 milljónir. Aukningin er vegna lagabreytinga þar sem námsmenn á stúdentagörðum, öryrkjar á sambýlum o.fl. fengu rétt til húsaleigubóta, fjölgunar leiguíbúða og skattfrelsis húsaleigubóta sem gerði þær eftirsóknarverðari.
Talið er að í landinu séu 10.000 leiguíbúðir. 2800 leigjendur skila þinglýstum leigusamningum og fá húsaleigubætur. Hinir leigjendurnir 7200 sem ekki sækja húsaleigubætur eru yfir tekju- og eignamörkum, leigja hjá ættingjum eða leigja svart. Húsaleigubætur verða alfarið verkefni sveitarfélaga og fjármagnaðar af þeim og Jöfnunarsjóði. Jöfnunarsjóður fær sérstakt aukaframlag á fjáraukalögum 2002, 150 milljónir til greiðslu húsalaleigubóta.
Framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs hækkar um 0,27% samkvæmt a lið 8. gr. laganna. Þetta gefur sveitarfélögunum 220 milljónir kr. til hækkunar húsaleigubóta árlega.
Þá er samið um að ríkið yfirtaki 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði, tækjakaupum og meiriháttar viðhaldi heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Þetta léttir 100 milljóna árlegum kostnaði af sveitarfélögunum.
Fjórði liður samkomulagsins er um tilraunaverkefni sem gengur út á að meta sérstaklega kostnaðaráhrif lagafrumvarpa og reglugerða frá félagsmálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti á fjárhag sveitarfélaganna.
Þá eru ákvæði um áframhaldandi vinnu á grundvelli yfirlýsingar frá 28. desember 2001, breytingu á viðmiðunargrunni útreikninga á framlagi úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs. Hinn nýi grunnur er sveitarfélögunum mun hagstæðari en eldri grunnur enda gefur hann Jöfnunarsjóði 70 milljónir árlegar viðbótartekjur. Samtals batnar hagur sveitarfélaganna um 860 milljónir um þessi áramót með fjáraukalögum 2002 og fjárlögum 2003. Loks eru í samkomulaginu ákvæði um samráð um kjaramál. Ég mun í framhaldi af samkomulaginu leggja í dag fyrir þingflokka stjórnarinnar Fumvarp um tekjustofna sveitarfélaga og breytingar á lögum um húsaleigubætur. Tekjustofnafrumvarpið tekur einnig á nefndaráliti frá í haust um Jöfnunarsjóðskaflann. Það er að hætta greiðslum til lítilla tekjuhárra sveitarfélaga og þrýsta á um sameiningu sveitarfélaga með gildum gulrótum. Bæði þessi frumvörp þurfa að verða að lögum fyrir áramót.
Nú eru sveitarfélögin sem óðast að vinna í fjárhagsáætlunum og væri betur að þær stæðust betur en 2001 þegar þær fóru fram úr fjárhagsáætlunum um 7,5 milljarða. Samkvæmt áætlunum 2002 er gert ráð fyrir 830 milljóna afgangi og að rekstur málaflokka verði 76,9 af skatttekjum.
Það er mjög ánægjulegt að mörg sveitarfélög sem undanfarið hafa verið í miklum skuldakröggum eru búin að vinna sig út úr þeim og eru komin í prýðilega rekstrarhæft ástand. Þar munar mestu um sveitarfélögin á Vestfjörðum. Ríkið keypti af þeim hlut þeirra í Orkubúinu og þau gátu með andvirðinu losnað við skuldabaggana og komist úr fjárþröng sem búin var að þjaka þau sum um árabil.
Nokkur umræða hefur spunnist um framtíð Orkubúsins en 7. nóvember 2000 var eftirfarandi staðfest f.h. félagsmála-, fjármála- og iðnaðarráðuneyta. "Orkubúið starfi sem sjálfstæð eining. Gjaldskrá OV verði aðlöguð gjaldskrá Rarik í áföngum. Engum starfsmanni OV verði sagt upp störfum vegna breytinga á félagsformi og kaupa ríkisins á eignarhluta einstakra sveitarfélaga. Að stjórn OV skipi sem mest heimamenn. Kauptilboð ríkisins standi óbreytt fram að gildistöku nýrra orkulaga gagnvart þeim sveitarfélögum sem ekki vilja selja hlut sinn í upphafi. Komi til sameiningar OV við annað eða önnur orkufyrirtæki eftir gildistöku nýrra raforkulaga mun ríkisvaldið eftir því sem í þess valdi stendur beita sér fyrir því að hluti starfsemi hins sameinaða fyrirtækis fari fram á Vestfjörðum". Tilvitnun lýkur. Allt tal um að flytja starfsemi Orkubúsins í aðra landshluta á því ekki rétt á sér.
Þá höfum við gert samkomulag um endurskipulagningu á fjármálum Raufarhafnar með aðkomu Lánasjóðs sveitarfélaga og uppgreiðslu skammtímaskulda. Raufarhöfn ætti að vera komin úr mestu hættunni en eftir stendur hve geysilega mikilvægt er að sveitarstjórnir sýni ábyrgð.
Þegar við ræðum fjárhagsstöðu sveitarfélaga ber að hafa það í huga að 2002 fullnýta ekki 46 sveitarfélög hámarksheimild til innheimtu útsvars þ.á.m. öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nema Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur. Þau 46 sveitarfélög sem ekki fullnýta heimildir hafa því borð fyrir báru.
Þess má geta í alþjóðlegum samanburði að hlutfall skatttekna opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, af landsframleiðslu er hér á landi með því lægsta sem þekkist í OECD ríkjunum eða 34,8% árið 2001. Einungis 5 ríki voru með lægra hlutfall en Ísland. Það eru Bandaríkin, Japan, Ástralía, Írland og Sviss.
Félagslega íbúðakerfið hefur verið mörgum sveitarfélögum þungur baggi vegna íbúða sem þau hafa orðið að innleysa. Í kjölfar lagasetningar sl. vor er þess vænst að á næstu 5 árum leysist þessi vandi sveitarfélaganna að mestu leyti. Myndaður hefur verið varasjóður húsnæðismála og er hann vistaður á Sauðárkróki og framkvæmdastjóri ráðinn Sigurður Árnason.
Varasjóðurinn er myndaður úr varasjóði viðbótarlána, tryggingasjóði vegna byggingagalla, en þeir eru báðir stöndugir, með um 900 milljóna eigið fé og nær engin útgjöld hingað til. Varasjóður húsnæðismála tekur við verkefnum þessara sjóða en fær auk þess árlegt ríkisframlag. Varasjóðurinn veitir framlag til sveitarfélaga vegna rekstrar leiguíbúða þar sem markaðsleiga stendur ekki undir rekstri þeirra. Í öðru lagi aðstoðar sjóðurinn sveitarfélög sem vilja selja innlausnaríbúðir en markaðsverð nægir ekki til að greiða áhvílandi lán.
Þá er áformað að Íbúðalánasjóður leggi varasjóðnum 20 milljónir árlega gegn jafnháu framlagi viðkomandi sveitarfélags til þess að afskrifa lán á íbúðum sem ekki borgar sig að endurbæta. Er þetta talið duga til að gera rekstur félagslegra leiguíbúða sveitarfélaganna sjálfbæran með markaðsleigu á hverjum stað. Þetta miðast auðvitað við fyrirsjáanlega íbúaþróun.
Ég tel þessa niðurstöðu ákaflega mikilvæga fyrir sveitarfélögin sem hafa átt við vanda að glíma vegna innlausnaríbúða.
Sveitarfélög sem breyta innlausnaríbúð í leiguíbúð geta yfirtekið áhvílandi lán á upphaflegum vöxtum 1% eða 2,4% og látið það standa út upphaflegan lánstíma, síðan eiga þau kost á láni á markaðsvöxtum þannig að heildarlánstími íbúðar í eigu sveitarfélags verði 50 ár.
Á undanförnum árum hafa verið miklir fólksflutningar innanlands og frá útlöndum. Þetta kallar á mikil viðskipti með húsnæði og nýbyggingar. Íslendingar skipta um heimili 8 sinnum á ævinni að meðaltali.
40% Íslendinga hafa fluttst búferlum á síðustu fjórum árum. Sem betur fer hefur heldur dregið úr fólksstreyminu til höfuðborgarsvæðisins það sem af er árinu. Brottfluttir umfram aðflutta voru langflestir í Reykjavík, síðan koma Vestmannaeyjar, Húsavík og Seltjarnarnes.
Árið 1998 voru 10.000 félagslegar íbúðir í landinu, þ.e. 6.600 félagslegar eignaríbúðir og um 3.400 leigu- og kaupleiguíbúðir.
Frá stofnun Íbúðalánasjóðs 1999 eða á síðustu tæpum fjórum árum hafa um 7.900 fjölskyldur til viðbótar fengið félagslega aðstoð í húsnæðismálum. Um 6.701 íbúðir með viðbótarláni hafa verið byggðar eða keyptar og um 1.200 leiguíbúðir fyrir tekjulága. Frá 1. janúar 1999 eða á tæpum fjórum árum hafa útlán á félagslegum grunni, þ.e.a.s. viðbótarlán og leiguíbúðarlán tvöfaldast úr 50 milljörðum í yfir 100 milljarða.
Með lagabreytingu síðastliðið vor, var sveitarfélögum heimilað að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti á félagslegum eignaríbúðum og hafa allmörg sveitarfélög gert það nú þegar formlega. Þau verða áfram að leysa til sín félagslegar eignaríbúðir óski seljandi þess. Þessi aðgerð var mjög til hagsbóta fyrir seljendur á þeim svæðum þar sem söluverð eigna er hærra en reikningsverð í félagslega eignaríbúðarkerfinu. Hér á höfuðborgarsvæðinu er hagnaður sennilega á þriðju milljón á hverja íbúð að meðaltali. Á þeim svæðum þar sem fasteignaverð er lágt tapar fólk engum réttindum sem það hafði öðlast lögum samkvæmt.
Viðbótarlánin eru veitt fólki undir skilgreindum tekju- og eignarmörkum og ástæða er til að fylgjast vel með að það sé haldið. Ástæða er til að kanna þróun viðbótarlánanna með tilliti til mikils útstreymis hvort um misnotkun gæti verið að ræða í einhverjum tilfellum. Húsbréfalán er veitt fyrir 65 eða 70% kaupverðs ef um fyrstu íbúð er að ræða og stendur eignin að veði fyrir húsbréfunum. Síðan veitir Íbúðalánasjóður peningalán fyrir 25 eða 20% kaupverðsins þannig að lánað er 90% kaupverðs.
Viðbótarlánið er veitt að beiðni viðkomandi sveitarfélags sem leggur fram í varasjóð 5% af upphæð hvers viðbótarláns og stendur varasjóður að veði fyrir viðbótarlánunum. Þeir sem hafa fengið viðbótarlán eiga kost á samtímagreiddum vaxtabótum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og sveitarfélögin leyst sinn hluta vel af hendi.
Handhafar viðbótarlána eiga kost á samtímagreiddum vaxtabótum.
Það er mikil fjarstæða að halda því fram að félagsleg aðstoð í húsnæðismálum hafi minnkað þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa, hún hefur stóraukist eða úr 10.000 í 17.900 íbúðir á þremur og hálfu ári.
Tvímælalaust er verulegur skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á landsbyggðinni. Það er samkomulag um að lána til 400 leiguíbúða árlega með 3,5% niðurgreiddum vöxtum. Þessar íbúðir eru ætlaðar fólki innan skilgreindra tekju- og eignamarka. Þetta eru t.d. leiguíbúðir sveitarfélaga, námsmannasamtaka, Öryrkjabandalags, Þroskahjálpar og félaga aldraðra.
Þar að auki er komið í gang að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins og með þátttöku Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða. Áformað er að byggja 600 leiguíbúðir á næstu fjórum árum, 150 íbúðir á ári. Lánin verða með niðurgreiddum vöxtum 4,5%. Búseti mun byggja og reka 300 af þessum íbúðum og hefur þegar hafist handa.
38 félög sem hyggjast reka leiguíbúðir hafa lagt inn samþykktir sínar hjá félagsmálaráðuneytinu til staðfestingar.
Íbúðalánasjóður lánar í ár út á 200 leiguíbúðir á markaðsvöxtum. Þannig munu bætast við 2.400 - 3.000 leiguíbúðir á næstu fjórum árum.
Verði eftirspurn meiri eftir lánum til leiguíbúða en 550 á ári munu þau lán bera markaðsvexti. Sveitarfélögum er ætlað að leggja til lóðir á góðum kjörum.
Heildarútlán Íbúðalánasjóðs voru 1. júlí síðastliðinn 375 milljarðar eða tæpur helmingur af skuldum heimilanna. Vanskil eru í sögulegu lágmarki eða 0,52% af útistandandi skuldum við Íbúðalánasjóð.
Framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi vilja ekki hafa mig lengur á þingi eða í félagsmálaráðuneytinu þannig að þetta verður seinasti samráðsfundurinn minn. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur sveitarstjórnarmenn einstaklega gott samstarf undanfarin bráðum 8 ár. Ég tel að sveitarfélögin hafi styrkst mikið á þessum 8 árum og samskipti ykkar og ríkisins verið í góðu horfi.