Jafnréttisþing á Akureyri
Heiðraða samkoma.
Fyrst af öllu vil ég lýsa ánægju minni með það að hér skuli í dag efnt til jafnréttisþings. Það mun vafalaust stuðla að aukinni umræðu um jafnréttismál og vonandi skila okkur fram á veg til aukins jafnréttis. Jafnrétti mun hvergi í veröldinni vera betur tryggt með lögum en á Íslandi, þó er ýmislegt sem betur mætti fara. Ég vil fyrst í örstuttu máli drepa á nokkra þætti jafnréttismála sem unnið hefur verið að á undanförnum átta árum eða á þeim tíma sem ég hef borið ábyrgð á málaflokknum. Eitt mitt fyrsta verk að jafnréttismálum var að skipa Elínu Líndal formann Jafnréttisráðs. Hlaut ég fyrir það hvassa gagnrýni en ég þekkti Elínu mætavel og vissi að henni væri vel treystandi fyrir þessu verkefni. Ég tel enda að reynslan hafi sýnt að svo var og þakka ég henni sérstaklega fyrir vel unnin störf. Ísland var valið til sérstakrar athugunar hjá sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum en nefndin er skipuð 23 sérfræðingum sérvöldum og mættum við fyrir nefndinni í janúar 1996. Rannsókn nefndarinnar var mjög ítarleg. Niðurstaða var okkur hagstæð en þó sérstaklega fundið að tveimur atriðum, kynbundnum launamun og réttleysi sveitakvenna. Við höfum reynt að bæta úr hvoru tveggja. Ég setti í gang nefndarstarf undir forystu Sivjar Friðleifsdóttur til að gera kynhlutlaust starfsmat í því skyni að vinna gegn kynbundnum launamun. Nefndin skilaði niðurstöðum úr þremur stofnunum og fyrir liggur gott módel að kynhlutlausu starfsmati. Síðan höfum við skilað skýrslum til sérfræðinga-nefndar Sameinuðu þjóðanna og mætt á fundi með nefndinni og fengið allgóða umsögn Nú er svo komið að Ísland á þess kost að fá sérfræðing í nefndina og mun Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, fara í það verkefni og er það mikil viðurkenning fyrir jafnréttisstarf á Íslandi og heiður fyrir okkur. Ný framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna var samþykkt á Alþingi 1998. Við Sigríður Lillý Baldursdóttir, þá skrifstofustjóri í ráðuneytinu, lögðum mikla vinnu í undirbúning jafnréttisáætlunarinnar. Héldum við fundi víða um land til að safna hugmyndum og efla umræðu um jafnréttismál. Flestöllu því sem áformað var í jafnréttisáætluninni hefur verið hrundið í framkvæmd. Ný jafnréttislög voru sett árið 2000. Þar tel ég að stigið hafi verið stórt skref fram á við. Nýju lögin eru miklu vænlegri til árangurs en eldri lög og Jafnréttisstofa sem sett var á fót í kjölfar laganna hefur sannað gildi sitt undir forystu Valgerðar H. Bjarnadóttur.
Í jafnréttislögum er sérstakt ákvæði um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þar er atvinnurekendum gert skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera báðum foreldrum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Slíkar ráðstafanir geta falið í sér aukinn sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að hagsmunir allra séu hafðir að leiðarljósi. Sem dæmi má taka getur verið erfitt fyrir foreldra ungra barna að mæta á fundi á þeim tíma er sækja þarf börn á leikskóla. þá geta sjórnendur hvatt foreldra til að skipta veikindadögum barns á milli sín ef þau eru bæði útivinnandi.
Þá er í jafnréttislögunum í fyrsta sinn skilgreint í lögum kynferðislegt áreiti. Óhætt er að reyna en ef gagnaðili hafnar en haldið er áfram þá er það kynferiðislegt áreiti.
Á grundvelli jafnréttislaganna hafa verið settir jafnréttisfulltrúar í ráðuneytin. Jafnréttisfulltrúi var settur á Norðurlandi vestra, það var tilraunaverkefni en hefur tekist svo vel í höndum Bjarnheiðar Jóhannsdóttur að ákveðið hefur verið í samstarfi við Byggðastofnun að fjölga jafnréttisfulltrúum í þrjá og hafa þeir einnig með höndum ráðgjöf um atvinnumál. Þetta var m.a. gert til að reyna að bæta stöðu bændakvenna. Bjarnheiður lét vinna stórmerkilega könnun á lífsaðstöðu kvenna í sveitum, þar er enn úrbóta þörf.
Þá er á vegum ráðuneytisins unnið að ýmsum öðrum málum sem varða jafnrétti. Ég hef til dæmis nýlega skipað samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum. Í þeirri nefnd eiga sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk formanns sem kemur frá félagsmálaráðuneyti og er Ásta Sigrún Helgadóttir, deildarstjóri. Nefndin á að samræma aðgerðir og gera tillögur til úrbóta. Þá tekur ráðuneytið þátt ásamt Jafnréttisstofu í margvíslegu erlendu samstarfi og á morgun er ráðherrafundur í Stokkhólmi um aðgerðir gegn verslun með konur og þangað fer Ásta Sigrún. Í því skyni að gera starf ráðuneytisins skilvirkara var því skipt upp í fjórar skrifstofur. Ein þeirra er skrifstofa jafnréttis- og vinnumála. Skrifstofustjóri er Gylfi Kristinsson og með honum starfa þrír öflugir lögfræðingar. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er María Sæmundsdóttir, deildarstjóri.
Nýlega lauk tilraunaverkefni sem miða átti að því að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Starfsmaður nefndarinnar var Una María Óskarsdóttir. Konur eru nú 36,5% alþingismanna en heldur virðist hætta á því að hlutur þeirra minnki í næstu kosningum. Ég hef nefnt hér í símskeytastíl nokkur verkefni af handahófi sem koma jafnréttisstarfi við. Þó er ógetið þeirrar lagasetningar sem tvímælalaust hefur mest áhrif í jafnréttisátt. Þar á ég við lögin um fæðingar- og foreldraorlof. Sú löggjöf er brautryðjendaverk og hvergi í heiminum er löggjöf sem tryggir báðum kynjum jafnan rétt og sami réttur gildir um allan vinnumarkaðinn. Hluti tryggingagjalds rennur í sérstakan sjóð - Fæðingarorlofssjóð - og greiðir hann foreldrum í orlofi 80% af meðaltali heildarlauna, óháð starfshlutfalli. Orlofið geta foreldrar tekið saman eða sitt í hvoru lagi og með hlutastarfi. Þetta fyrirkomulag gerir foreldra jafnsetta á vinnumarkaði. Ekki er minni hætta á að karl hverfi frá starfi tímabundið vegna fæðingar heldur en kona og því ætti þetta að stuðla að launajafnrétti. Þá er réttur sveitakvenna vel tryggður í fæðingarorlofslögunum, svo og námsmanna.
Foreldrar á innlendum vinnumarkaði eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur milli foreldra enda var það talið einn af lykilþáttum þess að lögin næðu tilgangi sínum. Til viðbótar eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum sem þeir eiga kost á að hagræða milli sín að eigin vild. Getur annað foreldrið tekið leyfi frá störfum sem svarar til þriggja mánaða eða foreldrar skipt leyfinu með sér.
Meginreglan er að réttur foreldris sé bundinn við það að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst. Mikilvægt er að barn njóti umgengni við báða foreldra enda þótt foreldrar búi ekki saman og fari ekki með sameiginlega forsjá. Til að svo megi verða á forsjárlaust foreldri einnig rétt til fæðingarorlofs enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarlorlof stendur yfir. Slíkt samþykki leiðir af inntaki forsjár en það foreldri sem fer eitt með forsjá barns síns ber að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð högum og þörfum barns að mati lögmæts stjórnvalds.
Rétturinn til fæðingar- og foreldraorlofs á við hvort sem er að ræða fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Þegar um fjölburafæðingu er að ræða lengist sameiginlegi réttur foreldra um þrjá mánuði fyrir hvert barna umfram eitt.
Áhersla er lögð á sveigjanleika við töku fæðingarorlofs sem gerir foreldrum auðveldara að samræma betur þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi. Foreldrum er heimilt að taka fæðingarorlofið á fleiri tímabilum eða í hlutastarfi kjósi þeir það frekar en að taka orlofið í heild. Þessi sveigjanleiki er háður samkomulagi við vinnuveitenda sem er gert að leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs. Þessi sveigjanleiki gefur aukna möguleika vilji foreldri síður hverfa frá störfum í langan tíma en slíkt getur óneitanlega einnig verið vinnuveitanda í hag. Jafnframt standa vonir til þess að þetta kerfi hvetji karla til að taka fæðingarorlof þannig að þeir taki virkari þátt í uppeldi barna sinna frá fyrstu tíð. Reynslan er sú að feður taka rétt sinn í yfir 80% tilfella.
Í því skyni að röskun á tekjuöflun heimilanna yrði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þeirra er foreldrum tryggður réttur til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem nemur 80% af meðaltali heildarlauna þeirra óháð starfshlutfalli. Enn fremur ávinna foreldrar sér tiltekin starfstengd réttindi meðan á fæðingarorlofi stendur, svo sem lífeyrisréttindi, rétt til orlofstöku, veikindaréttar og réttar til atvinnuleysisbóta.
Þá er foreldrum heimilt að taka sér launalaust frí frá störfum, þrettán vikur hvort, samtals misseri á barn á fyrstu átta árum í ævi þess.
Lögð er sérstök áhersla á að ráðningarsamband vinnuveitenda og starfsmanns verði viðhaldið á orlofstímanum hvort sem foreldri er í fæðingar- eða foreldraorlofi. Starfsmanni er því tryggður réttur til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
Þá er bannað með lögum að segja fólki upp störfum vegna þess að það þurfi að sinna fjölskylduábyrgð sinni. Þetta eru mikilvæg réttindi fyrir barnafólk, til dæmis þegar starfsdagar kennara dynja yfir eða veikindi herja.
Í skýrslu kjararannsóknarnefndar kemur í ljós að launamunur sem rekjanlegur er til kynferðis fer minnkandi þótt alltof hægt gangi og enn sé hann verulegur.
Þegar leita á skýringa á launamun er það ekki einfalt. Við höfum haft það bundið í lög í 40 ár að konur og karlar skuli hafa sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Ég hef ekki trú á að vinnuveitendur vilji almennt hlunnfara konur í launum.
Launamunur getur ef til vill skýrst að einhverju leyti af ólíku gildismati. Karlar hafi meiri metnað vegna frama í starfi og hvað kröfur um laun og fríðindi varðar. Ég held hins vegar að konur séu yfirleitt samviskusamari í vinnu en í mörgum tilfellum leggja þær meiri metnað í heimilishald og barnauppeldi. Þetta er þó mjög að breytast. Ungir karlar taka sívaxandi þátt í heimilishaldi og barnauppeldi. Í ýmsum tilfellum virðist áhugi kvenna fremur standa til þess að eiga fallegt og vistlegt heimili heldur en að streða upp metorðastiga í vinnunni og binda sig um of af ábyrgð þar.
Það er mjög greinilegt að konur eru miklu tregari til að veðsetja húsnæði sitt en karlar. Þess vegna settum við á fót Lánatryggingasjóð kvenna þar sem konur geta fengið veð vilji þær stofna til atvinnurekstrar. Þá lánar bankinn út á viðskiptahugmyndina og tekur sjálfur áhættu að hálfu á móti Lánatryggingasjóðnum. Þessi sjóður hefur gert talsvert gagn. Einnig veitum við beina styrki til kvenna sem vilja skapa sér og öðrum atvinnu.
Jafnréttismál eru ekkert einkamál kvenna, sumsstaðar hallar á karlana, svo sem í forræðismálum. Meginmarkmiðið er að skapa samfélag þar sem bæði kyn una saman í sátt og samlyndi.
Síðastliðin laugardag hófum við formlega þátttöku Íslands í Evrópuári fatlaðra með morgunverðarfundi í Reykjavík. Þar kom það fram að af þeim sem þiggja örorkubætur á Íslandi eru konurnar helmingi fleiri en karlar. Á móti hverjum karlkyns öryrkja eru tvær konur. Þetta virðist mér leiða til þess að ástæða sé til þess að leita skýringa. Er eitthvað það í umhverfi okkar eða samfélagi sem konur þola verr en karlar. Því er þeim hættara við þunglyndi og stoðkerfisvandamálum en körlum. Er það ef til vill vinnuálag sem er þeim óbærilegt, leggjast áhyggjur fremur á konur og þá af hverju.
Vinnueftirlit ríkisins sem er undirstofnun félagsmálaráðuneytisins, hefur gert rannsóknir á heilsufari kvenna og starfsánægju. Það eru dr. Hólmfríður Gunnarsdóttir og dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir sem einkum hafa staðið fyrir þessum rannsóknum.
Fyrir tveimur til þremur árum var haldið í Norræna húsinu í Reykjavík málþing um "Kulnun í starfi". Það var mjög vel sótt en athygli mína vakti að allur þorri fundargesta voru konur.
Tvímælalaust er það að kynin eru ekki eins og eiga heldur ekki að vera það. Þau eiga bæði rétt á að njóta lífs og starfa á eigin forsendum við hliðstæða möguleika.
Hlutur kvenna liggur nokkuð eftir og þær eru enn lakar settar á sumum sviðum. Við erum þó tvímælalaust á réttri leið og hlutur kvenna getur ekki annað en batnað á næstu árum, þá þegar af þeirri ástæðu að þær eru orðnar verulega betur menntaðar en karlar. Í öllum deildum Háskóla Íslands eru konur í rífum meirihluta nema í verkfræði. Konur eru um 60% nemenda Háskólans og yfirburðir í menntun geta ekki annað en skilað sér í launajöfnuði og meiri þáttöku í æðstu stjórnunarstörfum.
Ég segi Jafnréttisþing 2003 sett.