Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samfélag fyrir alla

Fundarstjóri, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra aðrir góðir gestir.

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til þessa morgunverðarfundar. Það er mér sérstök ánægja að vera hér í dag þar sem ætlunin er að marka með skýrum hætti upphaf árs fatlaðra á Íslandi árið 2003. Ég átti þess kost fyrir fáum vikum að að vera viðstaddur áhrifamikla opnun árs fatlaðra í Aþenu.

Það er afar dýrmætt fyrir fatlaða og fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild að til staðar sé skýr framtíðarsýn um það hvernig þjónusta við fatlaða skuli vera. Það gerir okkur kleift að vera samhuga og samferða á þeirri vegferð sem framundan er þannig að þjónustan og gæði hennar verði með þeim hætti að allir geti vel við unað. Það er því nauðsynlegt að við öll setjum okkur skýr markmið og reynum að átta okkur á þeim leiðarljósum sem við þurfum að hafa meðferðis til þess að árangur náist.

Í Evrópu er það mat manna að fólk með fötlun geti verið allt að 10% af hverri þjóð. Það má gera ráð fyrir því að í Evrópu sem heild geti fjöldi fatlaðra því verið um 50 milljónir einstaklinga.

Í desember 2001 tók Evrópusambandið ákvörðun um það að tileinka árið 2003 málefnum fatlaðra. Markmiðin sem skilgreind voru, beindust að því að auka meðvitund almennings í Evrópu um réttindi fatlaðra og réttindi til atvinnu og jafnframt leggja áherslu á tillögur og athafnir sem gætu aukið þennan rétt til jafns við þá sem ekki búa við fötlun. Áhersla var einnig lögð á hlutverk menntakerfisins og atvinnumarkaðarins í því að tryggja þennan jöfnuð.

Í mars 2002 í Madríd voru síðan unnar hugmyndir að áætlunum um það hvernig hægt væri að ná meginmarkmiðum ársins í góðri samvinnu við alla þá sem gætu lagt sitt af mörkum. Til að ná fullri þátttöku fólks sem býr við fötlun í samfélaginu er lagt til að aðferð samruna eða blöndunar sé notuð sem byggð er á stefnu sem útilokar mismunun og áhersla á aðgerðir sem tryggja það.

Þessi nálgun er í anda grundvallarákvæða í stofnskrá Evrópusambandsins sem útilokar m.a. mismunun á grundvelli fötlunar, viðurkennir rétt þeirra og nauðsyn þess að tryggja sjálfstæði þeirra og blöndun bæði félagslega og á sviði vinnumála og fullri þátttöku í lífi og starfi samfélagsins.

Fólk sem býr við fötlun stendur frammi fyrir fjölda hindrana sem koma í veg fyrir fulla þátttöku þess í samfélaginu. Þessar hindranir geta lotið að viðhorfum, atvinnumálum, ferlimálum, búsetumálum, ferðamálum, menntamálum, skipulagsmálum, sveitarstjórnarmálum, upplýsingamálum, heilbrigðis og tryggingamálum og rannsóknum og áætlanagerð.

Hindranirnar geta þó verið mismunandi eftir því hvaða hópur fatlaðra á í hlut.

Þessar hindranir eru einnig til staðar vegna þess að fólk með fötlun gleymist þegar ný starfsemi eða þjónusta eru skipulögð og búinn til. Fyrir marga í samfélaginu er hópur fatlaðra ósýnilegur og þarfir hans því ekki hafðar með við skipulag og þjónustu.

Það er því ljóst að til þess að til fullrar þátttöku komi þá verði hópar fatlaðra að vera sýnilegri svo að þeir sem taka ákvarðanir á öllum sviðum samfélagsins verði að taka tillit til þarfa allra þegar ný þjónustuúrræði eru sett á laggirnar.

Til þess að stuðla að fullri þátttöku fatlaðra í samfélaginu þarf að skilgreina forgangsatriði m.t.t. þarfa þeirra á öllum þeim sviðum er snerta líf þeirra og starf með það að markmiði að jafna rétt þeirra með ákveðnum aðgerðum. Þetta þarf að gerast strax á frumstigi áætlana og þessu þarf að fylgja eftir við framkvæmd og með virku eftirliti og reglulegu mati.

Fólk með fötlun hefur ekki einungis réttindi heldur einnig ábyrgð og skyldur. Hindranir í samfélaginu koma oft í veg fyrir að fatlaðir geti fengið tækifæri til þess að standa undir ábyrgð. Hluti af sjálfsvirðingu hvers einstaklings byggir á því að hann hafi hlutverk og þá um leið geti hann þroskast af þeirri ábyrgð sem hann tekur.

Á ári fatlaðra 2003 eru því mörg og veigamikil atriði sem taka þarf til frekari umfjöllunar. Í mínum huga er nú kjörið tækifæri til þess að takast á við nýjar áskoranir undir yfirskriftinni, samfélag fyrir alla.

En til þess að við náum þeim markmiðum sem við setjum okkur þurfa allir, sem að koma, að vera sammála um þann grundvöll sem við ætlum að byggja okkar starf á til framtíðar. Vinnan sem við nú vinnum á ári fatlaðra mun einungis marka fyrstu sporin sem þó eru veigamikil og kannski ákvarðandi um það hvernig til tekst. Árangur ársins ræðst að því að, við öll, hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög, atvinnulífið og hagsmunasamtök ásamt öllum almenningi leggjum okkur fram.

Við munum einnig líta til nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndunum við mótun framtíðarsýnar. Stefnumið þeirra eins og okkar byggja á hugmyndinni um samfélag fyrir alla. Þessi hugmyndafræði byggir m.a. á því að við allt skipulag í samfélaginu sé lagt út frá því að allir geti notið þess með sem út frá almennum lausnum, þannig að ekki þurfi nema í litlum mæli að búa til sérlausnir sem þá einungis eigi við ákveðin hóp eða hópa. Þetta þýðir að þau úrræði sem boðin eru ófötluðu fólki geti líka átt við þegar fatlað fólk á í hlut. Skipulag og þjónusta samfélagsins skal því byggja á almennum aðgerðum fyrir alla og vera eðlilegur hluti af hönnun, arkitektúr, áætlanagerð og þjónustu svo eitthvað sé nefnt.

Tillit til þarfa á breiðum grunni er því hornsteinninn í þessari hugmyndafræði. Þessar þarfir geta verið t.d. verið margar og fjölbreytilegar. Þær geta verið vegna andlegrar, líkamlegrar eða fjölfötlunar.

Þessi hugmyndafræði um samfélag fyrir alla, er í burðarliðunum í hinum Norrænu löndum. Þar hefur verið sýnt fram á góðan árangur með að setja aðgengi og notagildi í forgang. Hér eru um að ræða hugmyndir sem undirstrika ákveðna grundvallarpólitík. Hér er sérstaklega átt við jafnréttishugmyndir og þróun lýðræðis fyrir fatlaða ásamt því að hver starfsgeiri mæti þörfum allra þeirra sem til hans leita. Hér getum við tekið dæmi um að félagsþjónustan veiti öllum sem til hennar leita þjónustu hvort sem þeir búa við fötlun eða ekki. Sama á við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, umhverfismál, upplýsingamál svo eitthvað sé nefnt.

Það má því segja að hugmyndin um samfélag fyrir alla, byggi á því að vinna alltaf í átt að almennum lausnum fyrir sem flesta þó svo þarfirnar geti verið fjölbreyttar. Á sama hátt er áhersla á markvisst samstarf og skýra þverfaglega ábyrgð þeirra þjónustukerfa sem hlut eiga að máli.

Á grundvelli þessara hugmynda sem ég hef fyrr nefnt vil ég leggja áherslu á eftirfarandi áhersluatriði í aðgerðaráætlun sem við í félagsmálaráðuneytinu höfum markað:

Fyrst er að telja þá hækkun örorkubóta sem ákveðin var með fjárlögum fyrir jólin.

Í öðru lagi ber að nefna þá breytingu sem varð á breytingu og hækkun og breytingu á örorkubótum sem ríkisstjórn ákvað fyrir nokkrum vikum.

Í þriðja lagi verður sett á stofn samstarfsnefnd ráðuneyta ásamt fulltrúum frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp sem mun vinna með ráðuneytinu á ári fatlaðra.

Í fjórða lagi mun félagsmálaráðuneytið beita sér fyrir öflugu samstarfi ráðuneytanna þar sem skoðað verður hvernig þau og undirstofnanir þeirra geta betur með almennum hætti tekist á við fjölbreyttar þarfir fatlaðra. Farið verður af stað með þetta verkefni í maí. n.k. og aðgerðaráætlun kynnt í lok nóv.

Í fimmta lagi mun félagsmálaráðuneytið í samstarfi við samstarfsnefndina veita styrki til verkefna á sviði rannsókna og tilrauna við framkvæmd þjónustu við fatlaða. Gert er ráð fyrir að fyrstu styrkjum verði úthlutað í júní n.k.

Í sjötta lagi mun félagsmálaráðuneytið í samstarfi við samstarfsnefndina veita styrki til einstaklinga og stofnana sem eru að veita þjónustu sem þykir framúrskarandi og til eftirbreytni fyrir aðra.

Í sjöunda lagi mun félagsmálaráðuneytið í lok ársins í framhaldi af málþingi um búsetu fatlaðra leggja fram skýra framtíðarsýn um þróun og fyrirkomulag á sérhæfðri búsetu fatlaðra og tengdri þjónustu við þá.

Í áttunda lagi mun félagsmálaráðuneytið í samráði við hagsmunasamtök fatlaðra standa að kynningafundum meðal almennings sem hafa það að markmiði að auka þekkingu og skilning á fötlun og áhrifum fötlunar.

Í níunda lagi mun félagsmálaráðuneytið mun standa fyrir ráðstefnu í samvinnu við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og hagsmunaaðila um fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Ráðstefnan verður haldin eigi síðar en í oktober næstkomandi.

Í tíunda lagi félagsmálaráðuneytið leggja fram skýra framtíðarsýn um þróun og fyrirkomulag þjónustu við fatlaða á almennum vinnumarkaði.

Í ellefta lagi mun félagsmálaráðuneytið í samvinnu við menntamálaráðuneytið og fleiri hlutaðeigandi aðila vinna að aðgerðaráætlun sem miðar að því að fatlaðir séu að fullu þátttakendur í þróun og uppbyggingu upplýsingasamfélagsins, hvort sem um verði að ræða þróun almennra lausna eða sértækra stuðningslausna fyrir fatlaða.

Loks mun félagsmálaráðuneytið hefja á árinu endurskoðun á almennu skipulagi og þjónustu við fatlaða á Íslandi. Markmiðið er að leggja mat á það sem vel hefur gengið og það sem styrkja mætti enn frekar. Slíkt mat verði síðan grunnur að endurskoðaðri áætlun til framtíðar.

Félagsmálaráðuneytið á árinu sem og endranær leggja ríka áherslu náið og öflugt samstarf við hagsmunasamtök fatlaðra og aðra sem þessum verkefnum kunna að koma.

Ég vona að þess sjáist víða áþreifanleg merki í lok ársins að vel hafi verið að verki staðið og að byrjað hafi verið á góðum verkum sem skila muni miklu þegar fram líða stundir og ársins 2003 verði minnst sem ársins þar sem nýjar dyr voru opnaðar til nýrra tíma þar með samfélags fyrir alla.

Þrátt fyrir að við sjáum að margt er ógert í málefnum fatlaðra vil ég þó í allri hógværð benda á að talsvert hefur áunnist undanförnum átta árum, eða á þeim tíma sem ég hef haft með þennan málaflokk að gera, enda hefur hann notið algjörs forgangs í ráðuneytinu.

Á árinu 1995 voru á fjárlögum áætlaðar 1749 milljónir til reksturs málefna fatlaðra. 2003 er þessi upphæð orðin 5309.2 milljónir.

Þá hafa verið tekin í notkun 142 ný pláss á sambýlum á þessu tímabili og 60 dagvistunarúrræði og 35 ný pláss til skammtímavistunar. Ég vil leyfa mér að vona að á næstu tveimur kjörtímabilum náist einnig góður árangur.

Ég vil geta þess að við höfum breytt skipulagi félagsmálaráðuneytisins og sett upp sérstaka skrifstofu fjölskyldumála undir stjórn Þórs G. Þórarinssonar og á það m.a. að stuðla að enn aukinn áherslu á málefni fatlaðra. Ég vil þakka starfsfólki ráðuneytisins og sérstaklega Þór og Kristni Tómassyni yfirlækni hjá Vinnueftirlitinu fyrir undirbúning að ári fatlaðra á Íslandi.

Ég segi Evrópuár fatlaðra á Íslandi formlega hafið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta