40 ára afmæli Þroskaþjálfafélagsins
Ágætu þroskaþjálfar, aðrir gestir.
Það er alltaf ánægjulegt að fá afmælisboð og það er mér sem félagsmálaráðherra sérstök ánægja að fá að vera með ykkur hér í dag til að fagna 40 ára afmæli Félags þroskaþjálfa. Afmælisbarnið er vel á sig komið og á besta aldri og á framtíðina fyrir sér.
En við sem erum hér inni vitum að það kostaði baráttu að fá félagið viðurkennt sem samningsaðila fyrir kaupi og kjörum stéttarinnar. Það kostaði frumkvöðlana þrautseigju og áræðni að hasla félaginu völl og vinna því sess. Já, það þurfti svo sannarlega að berjast fyrir hlutum sem okkur í dag finnast svo sjálfsagðir að í raun taki því ekki að nefna þá og ég vona að þeir sem hér lögðu hönd á plóg hafi tækifæri til þess að fagna hér í dag.
Fyrir 40 árum bjuggum við Íslendingar við aðstæður sem voru að mörgu leyti gjörólíkar því sem er í dag. Það á við um mörg svið þjóðfélagsins og á þeim tíma voru til dæmis enn í gildi lög sem áttu sér rætur í viðhorfum og menningu frá upphafi síðustu aldar. Frumkvöðlar í þroskaþjálfastétt stóðu í sínu starfi oft frammi fyrir verkefnum sem voru bæði erfið og vandmeðfarin en með óbilandi krafti, baráttuhug og elju átti stéttin drjúgan þátt í því að búa fötluðum þær aðstæður og þá þjónustu sem veitt er í dag.
Fróðir menn, og mér eldri, hafa sagt mér frá því hvernig stétt þroskaþjálfa barðist fyrir rétti þess fólks sem ekki hafði sjálft getu eða möguleika til þess að krefjast sjálfsagðra grundvallarréttinda sér til handa. Já, ég segi sjálfsagðra, af því að á Íslandi, sem víðast hvar í heiminum, hefur mikið vatn runnið til sjávar í umræðu um grundvallarmannréttindi. Umræða um mannréttindi er sem betur fer orðin hávær og á vonandi eftir að skila okkur betra samfélagi í ókominni framtíð.
Við getum öll verið sammála um mikilvægi þeirra fagstétta sem í nútímaþjóðfélögum veita almenningi þjónustu. Þroskaþjálfar sjá mjög margar hliðar mannlífsins og þær starfa á heimilum, vinnustöðum, endurhæfingarstofnunum, sjúkrastofnunum, skólum og leikskólum og svæðisskrifstofum svo ég nefni helstu staðinu. Þroskaþjálfastéttin hefur því verið órjúfanlegur hluti af réttindabaráttu fatlaðra síðustu 40 árin og hefur ásamt hagsmunasamtökum stuðlað að því að skapa aðstæður í þjónustu við fatlaða á Íslandi sem á margan hátt teljast til fyrirmyndar þótt víða væri leitað. Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega frumkvöðlunum sem ruddu brautina fyrir þeirra framlag í þágu fatlaðra á Íslandi og ekki síður í þágu þjóðarinnar allrar, því starf þroskaþjálfa hefur stuðlað að mennskara og litríkara samfélagi þar sem allir eiga möguleika á virkni og þátttöku í samfélagi þar sem fjölbreytileikinn er ekki hindrun heldur miklu frekar tækifæri okkar allra til framtíðar. Þessa dagana er mikið rætt um stöðu öryrkja og starfsendurhæfingu og í mínum huga er það eitt af stóru forgangsmálum í samfélagi okkar í dag.
Ég hef í starfi mínu sem félagsmálaráðherra fengið tækifæri til þess að hitta fólk um allt land sem telst fatlað eða með skerta starfsorku og ég verð að segja að mér finnst að í þessu fólki búi alveg sérstök orka, já óbeisluð orka. Mig langar til þess að fá tækifæri til þess að virkja hana en til þess þarf ég liðsinni ykkar sérfræðinganna, ég get stuðlað að breytingum en kemst skammt án liðsinnis ykkar og þekkingar.
Já, ágætu þroskaþjálfar. Á tímamótum sem þessum eigum við að horfa til framtíðar. Í nútímasamfélagi eru tækifærin ótalmörg. Það er sagt að áhrif fötlunar birtist í samspili einstaklings og þess umhverfis sem hann býr í hverju sinni. Það er því m.a. hlutverk þroskaþjálfans að tryggja að þetta samspil verði með þeim hætti að allir fái þar notið sín með sem árangursríkustum hætti. Ég hef því mikla trú á því að þroskaþjálfar eigi um ókomna framtíð eftir að gegna lykilhlutverki við það verkefni að tryggja að fatlaðir eigi aðgang að þeim lífsgæðum sem aðrir íbúar þessa lands eiga aðgang að.
Í félagsmálaráðuneytinu er í dag verið að vinna að mörgum verkefnum sem hafa verið þroskaþjálfum hugleikin í gegnum árin. Unnið er nú að stefnumörkun í málefnum fatlaðra sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Þessi vinna er unnin í samræmi við megináherslur þær sem lagðar voru í málefnum fatlaðra á lokaráðstefnu Evrópuárs fatlaðra á síðasta ári.
Á þessari lokaráðstefnu var fjallað um fjölda viðfangsefna sem nauðsynlegt er að horfa til þegar skilgreind er stefna og markmið til framtíðar. Það var einnig ljóst miðað við þá þátttöku og samhug sem birtist á lokaráðstefnunni að við þurfum í engu að örvænta á leið okkar þar sem stefnan er að skapa samfélag fyrir alla. Vinnan við stefnumótunina hefur verið skemmtileg og gefandi. Að þessari vinnu hafa komið sex starfshópar, notenda, veitenda og greiðenda og hafa þessir hópar síðan haft samvinnu og samráð við fjöldann allan af notendum, öðrum sérfræðingum og fagfólki sem lagt hafa sitt lóð á vogarskálarnar til að afraksturinn yrði sem bestur. Ég á von á því að grunnþættir stefnumótunarinnar liggi fyrir í sumar.
Félagsmálaráðuneyti í samráði við önnur ráðuneyti og hagsmunasamtök fatlaðra vinna að því að kortleggja stöðu íslensks samfélags í ljósi tuttugu og tveggja viðmiðunarreglna Sameinuðu þjóðanna um aðgengi fyrir alla. Í framhaldi af þessari kortlagningu er gert ráð fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun um það hvernig aðgengi fyrir alla verði tryggt til framtíðar.
Ágætu þroskaþjálfar,
Mér hefur verið það umhugsunarefni um nokkurt skeið hvernig hægt verði að tryggja og styrkja innviði þeirrar þjónustu sem fötluðum er veitt. Í mínum huga er nauðsynlegt að horfa meðal annars til þess á hvern hátt hægt sé að tryggja það að þroskaþjálfar séu til staðar þar sem þeirra er þörf og að fagmennska þeirra nýtist notendum þjónustunnar sem best. Í tengslum við stefnumótun þá sem hér hefur verið minnst á verður sérstaklega horft til hlutverka þroskaþjálfa í þessu sambandi.
Rannsóknir í málaflokki fatlaðra eru afar mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni að skapa þjónustu sem er alltaf í samræmi við óskir og þarfir þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta. Ég mun á næsta ári beita mér fyrir frekari umbótum á þessu sviði og á von á því að þar geti þroskaþjálfar gegnt mikilvægu hlutverki.
Ég vil að lokum óska Þroskaþjálfafélaginu innilega til hamingju með árin 40, það er ekki annað að sjá en félagið beri aldurinn með sóma.
Til hamingju og njótið dagsins og þess sem framtíðin ber í skauti sér.