Starfsgreinasamband Íslands
Upptaka frá ræðu félagsmálaráðherra:
Starfsgreinasamband Íslands
(mp3-snið / 3MB)
Forseti Alþýðusambands Íslands, formaður Starfsgreinarsambandsins, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofunnar, ágætu ársfundarfulltrúar.
Ég vil hefja mál mitt á því að þakka fyrir að fá enn einu sinni tækifæri til að ávarpa ársfund Starfsgreinasambandsins. Ég ítreka það sem áður hefur komið fram að ég met mikils að fá tækifæri til að eiga milliliðalaus samskipti við fulltrúa samtaka aðila vinnumarkaðarins um framvinduna á sviði félags- og vinnumála. Ég hef lagt mikið upp úr slíku samstarfi þann tíma sem ég hef gegnt embætti félagsmálaráðherra og átt reglulega samráðsfundi með fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Á þeim fundum hafa átt sér stað hreinskilin skoðanaskipti og ljóst að málin horfa oft misjafnlega við mönnum þegar á er horft frá mismunandi sjónarhorni. Ég held að um eitt atriði ríki full samstaða milli mín og talsmanna samtaka launafólks og það er að allar vinnufúsar hendur hafi verk að vinna.
Ég tek eftir því að fyrir þessum fundi liggja nokkrar tillögur, þar á meðal um atvinnu- og kjaramál. Ég þori að fullyrða að í alþjóðlegu samhengi eru þessar tillögur nokkuð sér á báti fyrir það að í þeim er ekki minnst einu orði á atvinnuleysi. Þetta segir meira en mörg orð.
Dregið hefur mjög úr atvinnuleysi á síðustu misserum og mældist það 1,8% að meðaltali í ágúst sl. Atvinnuástandið er því mjög gott – eitt það besta í Evrópu. Við skulum þó ekki hælast um of vegna þess að enn er fólk á atvinnuleysisskrá. Gera má jafnvel ráð fyrir að enn erfiðara sé fyrir fólk að vera án atvinnu þegar atvinnulífið blómstrar. Vinnumálastofnun leggur nú mikla áherslu á að veita þessu fólki aðstoð en við höfum jafnframt tekið eftir því að konur eru hlutfallslega fleiri en karlar á skrá. Sú staðreynd veldur mér hugarangri.
Ég tel að því verði ekki í móti mælt að ríkisstjórnin hefur fylgt framsækinni stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum sem er að bera mikinn árangur eins og sjá má víða. Sumir segja að árangurinn sé of mikill og að það megi greina ýmis hættumerki. Þessa gætir m.a. í þeim ályktunum sem liggja fyrir þessum ársfundi. Í ályktun um kjaramál er réttilega bent á að verðbólga sé meiri en gert var ráð fyrir þegar kjarasamningar voru undirritaðir í ársbyrjun 2004. Ég ætla ekki að draga fjöður yfir þá staðreynd. Þvert á móti tel ég mjög mikilvægt að stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins taki höndum saman um að stýra þjóðarskútunni gegnum þann efnahagslega brimskafl sem við blasir næstu mánuðina. Árangursríkt samstarf tryggir að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar litið er til atvinnustigs og hagsældar almennings. Kaupmáttarauknin síðustu tíu ár er um 60%. Það er einstakur árangur sem við betum ekki fórna.
Það var viðbúið að nokkur spenna myndi ríkja í efnahagslífi þjóðarinnar á þessum tíma þegar framkvæmdir þær sem nú eiga sér stað í landinu eru í hámarki. Ofan á það hefur síðan bæst hækkun á olíverði í ljósi heimsviðburða og hækkun húsnæðisverðs sem kemur í kjölfar breytinga á húsnæðismarkaði, einkum innkomu banka og sparisjóða á þann markað. Þetta og eflaust eitthvað fleira, svo sem gríðamikil einkaneysla er ástæða þess að verðbólga er að aukast með þeim alvarlegu fylgisfiskum sem það hefur í för með sér. Þeir eru til sem vilja kenna Íbúðalánasjóði og þá einkum aðgerðum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum á síðasta ári, sem raunar leiddi af sér 1% lækkun á langtímavöxtum, þensluna í hagkerfinu, það er mikil einföldun.
Í því samhengi vil ég minna á að útlán Íbúðalánasjóðs á síðastliðnu ári eru eitthvað nálægt 70-80 milljörðum króna sem er í ágætum takti við þau útlán sem hafa verið hjá sjóðnum á undanförnum árum. Á sama tíma hafa útlán bankanna vegna húsnæðislána verið á bilinu 260–280 milljarðar króna. Ég hafna því þeim málflutningi að Íbúðalánasjóður eigi stærsta sök á því að hér fari verðbólgan hækkandi, hann á eflaust sinn þátt í því en það verður hver að taka það sem hann á í þessum efnum og þar eru bankar og sparisjóðir engin undantekning.
Nú fer fram skoðun á því í samstarfi við stjórn Íbúðalánasjóðs hvort sjóðurinn geti og eigi að starfa með sama hætti og hann hefur gert til þessa. Miklar og örar breytingar hafa verið á húsnæðismarkaði undangengna mánuði og ljóst að þessi markaður er í sífelldri þróun. Ég hef lagt upp með að starfshópurinn sem vinnur að þessari úttekt skili af sér áfangaáliti fyrir lok mánaðarins og allt útlit er fyrir að það muni ganga eftir.
Verði gerðar breytingar á opinbera húsnæðislánakerfinu, sem ég útiloka alls ekki, er í mínum huga alveg skýrt að halda verður í heiðri þau grundvallarmarkmið þess að með því verði trygt að andsmenn allir, hvar sem þeir búa og við hvaða félagslegu aðstæður, njóti áfram bestu kjara á húsnæðislánamarkaði. Riki hefur þar mikilvægu hluverki að gegna sem það á ekki og má ekki, hlaupast frá. Því trúi ég því að Íbúðalánasjóður muni áfram gegna mikilvægu hlutverki, jafnvel þótt það kunni að breytast í framtíðinni, rétt eins og í fortíðinni.
Góðir fundarmenn.
Sá kraftur sem ríkir nú á innlendum vinnumarkaði hefur leitt til þess að atvinnulífið hefur þurft að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Eftirspurn eftir erlendu vinnuafli hefur því aukist mjög að undanförnu og höfum við sætt gagnrýni fyrir að seinlega hafi gengið að afgreiða atvinnu- og dvalarleyfi. Þar af leiðandi hafa heyrst þær raddir að atvinnurekendur hafi leiðst út í að verða sér út um aukið vinnuafl í gegnum þjónustuviðskipti, þar á meðal starfsmannaleigur.
Til að bregðast við þessu, breyttu Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun verklagi sínu í byrjun september sl. þar sem markmiðið var að gera stjórnsýsluna skilvirkari. Nú ætti því seinvirkt kerfi ekki lengur að vera ástæða þess að erlendir starfsmenn séu ráðnir í gegnum óhefðbundið ráðningarform þar sem jafn greiðlega ætti að ganga að ráða starfsmenn frá nýju ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins með hefðbundinni ráðningu. Að sjálfsögðu er ekki langur tími liðinn frá því þessu nýja fyrirkomulagi var komið á en þó skilst mér að mörg fyrirtæki breyti um farveg þegar þau heyra af hinum nýju verklagsreglum – og þannig séum við á réttri leið.
Það hefur ekki farið fram hjá mér að samtök launafólks hafa haft verulegar áhyggjur af framgangi mála að því er varðar starfsemi starfsmannaleiga. Sé ég að þessi fundur er þar engin undanteking. Eins og ég hef oft sagt áður hef ég haft vilja til að skoða þessi mál og hef meðal annars fylgst með þróuninni í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þegar ég hef rætt við starfsbræður mína innan Evrópu þá virðast flestir vera að horfast í augu við sömu aðstæðurnar. Ríkisborgarar nýju ríkjanna hafa verið duglegir að veita þjónustu í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Málefni starfsmannaleiga hafa lengi verið á dagskrá Evrópusambandsins þar sem markmiðið hefur verið að setja samræmdar reglur um starfsemi af þessu tagi. Tillögurnar hafa ekki náð fram að ganga enda skiptar skoðanir meðal aðildarríkjanna um þetta efni.
Fyrir rúmu ári síðan eða í september 2004 skipaði ég starfshóp um málið þar sem í eiga sæti fulltrúar Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Sú vinna hefur gengið hægar fyrir sig en áætlað var í upphafi enda málin flókin og að mörgu að hyggja. Við höfum viljað skoða málið út frá sem flestum hliðum. Í vor var meðal annars ákveðið í samráði við starfshópinn, að óska eftir greinargerð frá Rannsóknarsetrinu í vinnurétti og jafnréttismálum á Bifröst. Áður hafði ég sent bréf til samstarfsráðherra minna innan Evrópska efnahagsvæðisins til að afla upplýsinga um reglur er gilda í öðrum ríkjum um starfsmannaleigur. Sú uppýsingaöflun nýttist síðan í vinnu Rannsóknarsetursins. Til marks um það hversu margþætt eða umfangsmikið efnið er tók sú vinna jafnframt lengri tíma en vonir stóðu til. Greinargerðin liggur nú fyrir og get ég upplýst það að hópurinn fundar nú mjög oft þannig að tillagna er að vænta á næstu vikum. Vænti ég þess að unnt verði að finna viðundandi lausn fyrir alla hlutaðeigandi aðila.
Ég tek fram að ég tel að vel komi til greina að setja sérstaka löggjöf um starfsmannaleigur eða setja ákvæði í gildandi löggjöf sem taka sérstaklega á starfsmannaleigum. Til að mynda er ég þeirrar skoðunar að starfsmannaleigum eigi að verða með öllu óheimilt að taka gjald af starfsfólki sínu enda ekki venja hér á landi að atvinnurekendur taki fé af fólki þegar þeir ráða það til starfa. Ég verð þó að viðurkenna að ég er ekki alveg sannfærður um hvort slíkt regluverk eigi eftir að koma í veg fyrir þær aðstæður sem við horfumst í augu við í sambandi við veitingu þjónustu yfir landamæri á grundvelli Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það dregur hins vegar ekki úr nauðsyn þess að við gerum það sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um íslenskan vinnumarkað.
Þá vil ég leggja áherslu á að sveigjanleikinn sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði verði varðveittur sem og önnur grundvallareinkenni hans. Þar á ég ekki síður við að samtök aðila vinnumarkaðarins haldi hlutverkum sínum við að halda uppi skipulagi á vinnumarkaði og þar með því vinnumarkaðskerfi sem við höfum verið að þróa í sameiningu í tugi ára.
Í því efni tel ég stéttarfélögin gegna afar veigamiklu hlutverki. Þess vegna langar mig að varpa þeirri spurningu fram um hvernig þið hafið hugsað ykkur að nálgast þessa erlendu gesti okkar ef svo má að orði komast til að kynna fyrir þeim starfsemi ykkar og bjóða þá velkomna í ykkar hóp. Ég tel að þið eigið að líta á þessa alþjóðavæðingu ekki síður sem sóknarfæri fyrir ykkur. Það er mikilvægt að þið leitist við að vekja áhuga þeirra á verkefnum ykkar í því skyni að hvetja þá til virkar þátttöku innan stéttarfélaganna.
Fyrir einhverjum árum var umræða meðal Norðurlandaþjóðanna um mikilvægi þess að kynna vinnumarkaðskerfi okkar í Eystrasaltslöndunum og jafnvel einnig í Póllandi. Ýmis verkefni voru sett af stað og eru eflaust einhver þeirra enn í gangi. Eigum við ekki að segja að þeir hafi nú komið til okkar í stað þess að við færum til þeirra. Ég er líka ráðherra þess hluta innflytjendamála er lýtur að aðlögun útlendinga hér á landi. Mér leikur því forvitni á að vita hvort einhverjir hinna erlendu starfsmanna sem hafa komið hingað á síðastliðnum árum séu farnir að láta að sér kveða í starfi ykkar? Þá á ég ekki endilega við að þeir séu félagsmenn heldur taki þátt í málefnastarfinu sem slíku.
Meðal mikilvægustu mála sem framundan eru hjá okkur eru starfsmenntamálin og starfsendurhæfing. Þetta er eitt af þeim grundvallaratriðum sem við þurfum að vinna að og er ein hlið á þríhyrningnum þar sem byggt er á efnahagsmálum, atvinnumálum og velferðarmálum og mikilvægi þess að þessi svið spili saman, samfélaginu í heild til hagsbóta. Ég veit að þið eruð sammála mér um þetta. Þetta ræddum við meðal annars á mjög góðum fundi sem ég átti með forystumönnum Alþýðusambandsins í sl. viku. Þeir vöktu m.a. réttilega athygli mína á því að tímabært sé að skoða starfsmenntamálin í víðara samhengi en áður hefur verið gert. Þá sérstaklega með tilliti til þeirra sem hafa litla sem enga fagmenntun en vilja bæta stöðu sína á vinnumarkaði eða einfaldlega komast inn á hann aftur eftir að hafa heltst úr lestinni.
Ég hef lýst mig reiðubúinn til þess að fara ítarlega yfir þessi mál m.a. í samvinnu við menntamálaráðherra og aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að auka sveigjanleika og mæta raunverulegum þörfum samfélagsins. Þessi mál tengjast að sjálfsögðu einnig störfum nefndar sem ég skipaði til þess að endurskoða vinnumarkaðsaðgerðir enda þótt ekki sé tímabært að greina hér og nú frá tillögum sem eru að mótast innan nefndarinnar á þessu stigi. En þar hafa meðal annars komið fram mjög góðar tillögur um uppbyggingu til frambúðar. Nefndin mun vonandi ljúka störfum innan skamms.
Þessi mál eru víðfeðm og snerta marga fleti en ég hef sjálfur áhuga á því að finna lausnir sem varða sem flesta hópa í okkar ágæta þjóðfélagi. Hópa sem einhverra hluta vegna ganga ekki beina braut að því er atvinnu varðar. Markmið mitt er að ná á skynsamlegan og raunhæfan hátt utan um atvinnulausa, þá sem eru lítið menntaðir, öryrkja, geðfatlaða og aðra þa sem eiga erfitt uppdráttar. Allt eru þetta mjög mikilvægir hópar þar sem fjöldi hæfra einstaklinga hefur af misjöfnum ástæðum lent á hliðarlínunni. Það eigum við ekki að viðurkenna sem óbreytanlega staðreynd. Nei, til mín hafa líka komið afar áhugasamir og kraftmiklir einstaklingar í þjóðfélaginu sem hafa lýst áhuga á því að taka höndum saman með mér og mínu fólki til þess að byggja upp viðtæka starfsendurhæfingu og mér finnst áhugavert að finna flöt á slíku samstarfi. Í mínum huga er þetta eitt af stærri málunum framundan, mál sem nást þyrfti þjóðarsátt um.
Þá langar mig að upplýsa ykkur um að ríkisstjórnin samþykkti á dögunum tillögu mína um að skipaður verði starfshópur sem ætlað er að fjalla um efni gerða Evrópusambandsins um bann við mismunun með hliðsjón af aðstæðum á innlendum vinnumarkaði. Ég taldi mikilvægt að fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins ættu þar sæti. Má kannski segja að um hefðbundna skipan sé að ræða þegar að málefnum vinnumarkaðarins kemur enda legg ég áherslu á að viðhalda hinu þríhliða samstarfi sem er svo mikilvægt. Ég legg þó jafnframt áherslu á að starfshópurinn fái á sinn fund fulltrúa þeirra samtaka sem fjalla um mál þeirra hópa sem gerðirnar taka til. Má segja að umræðuefnið liggi fyrir og geri ég mér grein fyrir að skiptar skoðanir geti verið milli aðila um hvaða leiðir er best að fara í þessu efni. Kannski einmitt af þeirri ástæðu þótti mér farsælast að leggja málið í nefnd þar sem allir geta komið sjónarmiðum sínum að. Fyrir mig er kannski lítið annað nú að gera en að bíða og sjá hverju framvindur.
Ágætu fundargestir.
Það liggur fyrir að mörg krefjandi en um leið spennandi verkefni bíða vetrarins enda þótt kjaramálin séu þar kannski hvað efst á baugi. Ég hvet fólk til að beita skynseminni í þeim efnum og reyna að leita sátta með friðsamlegum hætti. Oft má finna lausnir á erfiðum málum ef báðir samningsaðilar viðhalda jákvæðu hugarfari, ákveðnir í að finna lausnir á þeim álitaefnum er liggja á borðinu.
Ég óska ykkur góðs gengis í starfi ykkar hér í dag og á morgun sem og í þeim verkefnum sem bíða handan við hornið.