Ávarp félagsmálaráðherra á ársfundi Alþýðusambands Íslands fimmtudaginn 20. október 2005
Ágætu ársfundarfulltrúar.
Það eru liðin rétt tvö ár síðan ég fyrst fékk tækifæri til að ávarpa ársfund Alþýðusambands Íslands sem félagsmálaráðherra. Þetta hefur verið viðburðaríkur tími og með nokkrum sviptingum á sviði vinnumarkaðsmála þótt að mínu mati hafi tekist nokkuð vel til þegar á heildina er litið. Þar skiptir auðvitað höfuðmáli að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði tókust án átaka.
Það er að mínu mati stundum hollt að velta fyrir sér, rifja upp og halda til haga ákveðnum grundvallaratriðum. Í okkar samfélagi hefur mótast almenn samstaða um að gefa heildarsamtökum atvinnurekenda og launafólks nokkuð mikið svigrúm til að semja sín á milli um kaup og kjör á vinnumarkaði.
Þetta gerir það að verkum að svigrúm stjórnmálamannanna verður að sama skapi þrengra. Það er einfaldlega ekki hægt að verða við kröfum annars aðilans án þess að hyggja að afstöðu hins og kanna hvaða áhrif tilteknar aðgerðir hafa á umhverfið bæði í heild sem og á einstökum sviðum og greinum. Ég legg á það áherslu að ráðuneytið er ráðuneyti beggja aðila, bæði atvinnurekenda og launafólks. Hlutverk okkar er oftar en ekki hliðstætt hlutverki sáttasemjara í þeim skilningi að því ber að leita leiða sem báðir aðilar geti sætt sig við – og í versta falli búið við. Slíkar lausnir eru sjaldnast hristar fram úr erminni. Leit að þeim tekur tíma.
Ég hef á þeim tíma sem ég hef gegnt embætti félagsmálaráðherra lagt áherslu á náið og reglubundið samráð við samtök atvinnurekenda og launafólks. Á þessum tíma hafa verið haldnir nokkuð reglulega samráðsfundir með fulltrúum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Á fundunum hafa fulltrúar heildarsamtakanna farið yfir helstu hagsmunamál sín og þar hafa farið fram hreinskiptin skoðanaskipti. Það hefur ekki farið fram hjá mér að fulltrúum Alþýðusambandsins hefur á stundum fundist hlutirnir ganga hægt og óþarflega langur tími líða án þess að botn fáist í mál. Þetta má að einhverju leyti til sanns vegar færa en eðli þeirra mála er um ræðir er nú það að þar takast á ólíkir hagsmunir og skoðanir og því taka þau tíma.
Ég leyfi mér að nefna reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga, starfsemi starfsmannaleiga og fullgildingu alþjóðasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda í þessu sambandi.
Í þessum málum sem og öðrum hefur ráðuneytið fylgt þeirri stefnu að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti, reynt að skapa gagnkvæmt traust á milli aðila og freistað þess að beita á jákvæðan hátt áhrifum sínum til að niðurstaða fáist sem dragi úr ágreiningi, skapi forsendur fyrir því að vél samfélagsins gangi sem snurðulausast og starfsfólk búi við gott vinnuumhverfi. Þetta er að mínu mati forsendan fyrir því að hægt sé að viðhalda og endurbæta það velferðarsamfélag sem við búum við hér á landi. Þetta hefur ekki alltaf reynst auðvelt og auðvitað hafa menn mismunandi skoðanir á því hvernig til hefur tekist. Það er eðlilegt.
Ánægjulegasta þróunin á þessum tveimur árum snertir atvinnustigið. Fyrr í mánuðinum hélt Vinnumálastofnun ársfund sinn og þar var farið ítarlega yfir framvinduna á vinnumarkaðinum, lagðar fram tölur um stöðuna og reynt að spá fyrir um þróunina næstu misserin. Það sem stendur upp úr er að fá lönd ef nokkur geta státað af jafngóðu atvinnuástandi og Íslendingar. Í síðasta mánuði var skráð atvinnuleysi 1,4% af vinnuaflinu. Þetta eru mikil umskipti á síðastliðnum tveimur árum svo að ekki sé talað um ástandið eins og það var árið 1995 þegar núverandi stjórnarsamstarf hófst en þá mældist atvinnuleysið fimm prósent. Stundum er eins og mönnum finnst þetta sjálfsagt og eðlilegt mál. Það er það hins vegar ekki. Markviss stjórnarstefna skiptir hér sköpum. Auðvitað dettur engum í hug að neita því að ytri aðstæður hafa áhrif á framvinduna heima fyrir ekki síst í landi sem á jafnmikið undir utanríkisviðskiptum og Íslandingar. En slæm stefna, framtaks- og viljaleysi og bábiljur ýmiss konar geta gert slæmt ástand ennþá verra.
Ríkisstjórnin hefur á stundum sætt harðri gagnrýni fyrir stefnu sína í atvinnumálum. Andstæðingar stóriðjuframkvæmda á Austurlandi hafa notað hvert tækifæri til að beina skeytum sínum að stjórnvöldum og reynt eftir mætti að torvelda vinnu á virkjunarsvæðinu allt undir merkjum náttúruverndar. Auðvitað ber að taka tillit til viðkvæmrar náttúru landsins þegar ráðist er í stórframkvæmdir. Almenningur gerir hins vegar þær kröfur til stjórnmálamanna að þeir leggi sig fram um að þjóðin hafi vinnu og njóti fjárhaglegs öryggis og lífsgæða. Undir þeim kröfum viljum við rísa.
Ég tel að því verði ekki í móti mælt að ríkisstjórnin hefur fylgt framsækinni stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum sem er að bera mikinn árangur eins og sjá má hvert sem litið er. Sumir segja að árangurinn sé of mikill og að það megi greina ýmis hættumerki. Ábendingar og áhyggjur talsmanna heildarsamtaka á vinnumarkaði hafa hvorki farið fram hjá mér né öðrum í ríkisstjórninni en bent hefur verið á að verðbólga sé mun meiri en gert var ráð fyrir þegar kjarasamningar voru undirritaðir í ársbyrjun 2004. Ég ætla ekki að draga úr áhyggjum manna yfir þessari þróun. Þvert á móti tel ég mjög mikilvægt að ríkisvald, sveitarfélög og samtök aðila vinnumarkaðarins taki höndum saman um að stýra þjóðarskútunni gegnum þann efnahagslega brimskafl sem við blasir næstu mánuðina eins og ég orðaði það á ársfundi Starfsgreinasambandins fyrir skömmu.
Árangursríkt samstarf tryggir að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar litið er til atvinnustigs og hagsældar almennings. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar áttu mjög góðan fund með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar fyrr í þessari viku þar sem öll helstu mál voru reifuð. Það kom glöggt í ljós hve hagsmunir okkar fara vel saman og fyrir mig er ánægjulegt að taka þátt í verkefni þar sem ég finn að menn koma fram af skynsemi og yfirvegun. Og ég get alveg sagt það hér í þessum hópi að ykkar forystusveit er sterk, ákveðin, raunsæ og framsýn. Ég segi framsýn af því að mér finnst afar mikilvægt að við, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins, séu framsýn. Við eigum ekki að horfa á hlutina gerast, við eigum saman að móta framtíðina. Það eru margar áhugaverðar hugmyndir og mikilvægar lausnir sem eru þegar til skoðunar og menn farnir að reifa sín á milli. Þær varða m.a. starfsmannaleigur, atvinnuleysisbótakerfið, fræðslumál og málefni lífeyrissjóða. Allt mikilvæg grundvallaratriði sem mikilvægt er að við náum að þróa saman.
Málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hafa mikið verið til umfjöllunar á undanförnum tveimur árum. Aukin umsvif innanlands og velgengni íslenskra fyrirtækja í útlöndum hafa valdið mikilli eftirspurn eftir vinnuafli. Fyrirtæki hafa keppst um starfsmenn ekki síst í byggingariðnaði. Þetta hefur stórlega dregið úr atvinnuleysi eins og ég kom að fyrr í ræðu minni. En fleira hefur gerst.
Ásókn í erlent vinnuafl hefur farið verulega fram úr því sem áður hefur þekkst hér á landi. Gissur Pétursson gerði þessu vel skil í ræðu sinni á ársfundi Vinnumálastofnunar en eins og kunnugt er fer stofnunin með veitingu atvinnuleyfa. Hinn 1. maí 2004 fjölgaði aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagsvæðið úr 15 í 25. Að öllu jöfnu hefðu reglur um gagnkvæmt frelsi til að ferðast í atvinnuskyni um svæðið tekið gildi við þessi tímamót. Íslensk stjórnvöld ákváðu hins vegar að beita nokkrum takmörkunum gagnvart átta þeirra til að hafa betri stjórn á málunum. Af takmörkunum leiðir að áfram þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir borgara þessum frá þessum átta nýju aðildarríkjum.
Á aðlögunartímabilinu hefur nokkuð borið á því að íslensk fyrirtæki ráði til sín starfsmenn með þjónustusamningum við erlendar starfsmannaleigur. Þetta hefur haft í för með sér að kjör og aðstæður þeirra sem hingað koma til starfa fyrir milligöngu starfsmannamiðlana eða á grundvelli þjónustusamninga eru í mörgum tilvikum óljós og erfitt að sannreyna að fylgt sé íslenskum lögum og samningum sem eru í gildi um þetta efni. Þetta er þó ekki séríslenskt fyrirbrigði. Um þetta er eðlilega rætt á öllu EES-svæðinu, enda byggist frjálst flæði vinnuafls á þeim ágæta samningi sem við höfum öll hagnast á. Ég hef viljað ná samstöðu um að taka á þessum hlutum með samræmdum hætti og tekið málið upp við erlenda og innlenda aðila.
Ég hef sagt að vel komi til greina að setja sérstaka löggjöf um starfsmannaleigur eða setja ákvæði í gildandi löggjöf sem taka sérstaklega á starfsmannaleigum. Það er engu síður skýrt í mínum huga að við þurfum að vernda það kerfi sem við höfum verið að byggja upp saman á síðustu öld. Við ætlum ekki að kasta því fyrir róða. Þeir sem koma erlendis frá inn á okkar vinnumarkað þurfa hins vegar að virða okkar leikreglur kjósi þau að starfa hér á landi. Það er í mínum huga algjört grundvallaratriði.
Það er enn verið að skoða starfsemi starfsmannaleiga og veit ég að það er kominn skriður á viðræður innan nefndarinnar. Það liggur fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins eru ekki á sama máli um þetta efni jafnframt því sem efnið er flókið og að mörgu að hyggja.
Sveigjanleikinn á innlendum vinnumarkaði hefur reynst mikilvægur í því skyni að mæta sveiflum í efnahagslífinu en ég hef jafnframt lagt á það áherslu að fyrirtæki ráði til sín starfsfólk með hefðbundnum hætti. Þá er ég ekki síður að vísa til þess mikilvæga hlutverks sem aðilarnir sjálfir hafa við að halda uppi skipulagi á vinnumarkaði og móta leikreglurnar í samvinnu við stjórnvöld. Löng hefð er fyrir því hér á landi að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og önnur starfsskilyrði og hafa þeir samningar haft almennt gildi á íslenskum vinnumarkaði. Við höfum ekki liðið að slíkir samningar séu brotnir og það ætlum við heldur ekki að gera nú. Um það eru allir sammála.
Síðustu vikurnar hafa birst tvær gagnmerkar skýrslur um stöðu og framvindu efnahagsmála. Önnur er tekin saman af starfsfólki Seðlabankans en hin af fjármálaráðuneytinu. Þegar á heildina er litið er ástæða til gleðjast yfir góðum árangri. Hagvöxtur hefur verið mikill og verður ekki lát á á næsta ári. Á árinu 2004 var hann hvorki meira né minna en 6,2%, á þessu ári er gert ráð fyrir að hann verði 6% en eitthvað minni á árinu 2006. Það sem hlýtur að skipta launafólk miklu er að þrátt fyrir meiri verðbólgu hefur kaupmáttur launa haldið áfram að aukast. Á tímabilinu júlí 2004 til júlí 2005 hækkaði launavísitalan um 6,6% og kaupmáttur launa um 2,9% á þessum tíma. Í skýrslunum er einnig dregin upp glögg mynd af vandanum sem við er að glíma.
Viðskiptahalli hefur aukist mjög mikið, raungengi hefur ekki verið hærra í langan tíma, íbúðaverð hefur hækkað mikið og skuldir heimila, fyrirtækja og þjóðarbúsins hafa því miður vaxið umtalsvert. Í stað þess að nota góðærið á sama hátt og ríkissjóður og grynnka á skuldum hafa einstaklingar og fyrirtæki aukið við skuldaklafann. Við þessu hefur Seðlabankinn aðeins átt eitt svar og það er að hækka stýrivexti sem hafa haldið raungengi íslensku krónunnar háu með tilheyrandi vanda fyrir fyrirtæki sem eru í framleiðslu á vöru og þjónustu fyrir markaði í útlöndum.
Í skýrslu Seðlabankans er þetta orðað þannig að vandamálið nú sé jafnvel meira en um aldamótin. Á móti komi að gjörbreytt umgjörð peningastefnunnar frá fyrra tímabili felur í sér aukið svigrúm til þess að takast á við verðbólgu. Það er nauðsynlegt að hlutaðeigandi setjist sem fyrst niður og ræði þau úrræði sem koma til álita. Það er enginn sem græðir á því ef efnahagsmálin fara úr böndunum, allra síst skuldsettar fjölskyldur.
Það var viðbúið að nokkur spenna myndi ríkja í efnahagslífi þjóðarinnar á þessum tíma þegar framkvæmdir þær sem nú eiga sér stað vegna stóriðjuframkvæmda í landinu væru í hámarki. Ofan á það hefur síðan bæst hækkun á olíuverði í ljósi heimsviðburða og hækkun húsnæðisverðs sem kemur í kjölfar breytinga á húsnæðismarkaði og innkomu banka og sparisjóða á þann markað. Þetta og eflaust eitthvað fleira er ástæða þess að verðbólga er að aukast með þeim alvarlegu fylgifiskum sem það hefur í för með sér. Þeir eru til sem vilja eigna Íbúðalánasjóði og aðgerðum í húsnæðismálum á síðasta ári, sem raunar leiddi af sér 1% lækkun á langtímavöxtum, þensluna í hagkerfinu, það er mikil einföldun.
Í því samhengi vil ég minna á það að útlán Íbúðalánasjóðs á síðastliðnu ári eru eitthvað nálægt 70-80 milljörðum króna, sem er í ágætum takti við þau útlán sem hafa verið hjá sjóðnum á undanförnum árum. Á sama tíma hafa útlán bankanna vegna húsnæðislána verið um 280 milljarðar króna. Ég hafna því þeim málflutningi að Íbúðalánasjóður eigi stærstu sök á því að hér fari verðbólgan hækkandi, hann á eflaust sinn þátt í því en það verður hver að taka það sem hann á í því og þar eru bankarnir og sparisjóðirnir engin undantekning. Nú fer fram athugun á því hvort Íbúðalánasjóður geti og eigi að starfa með sama hætti og hann hefur gert til þessa. Miklar og örar breytingar hafa orðið á húsnæðismarkaði undangengna mánuði og ljóst að þessi markaður er í sífelldri þróun.
Ég hef lagt upp með að starfshópurinn sem vinnur að úttekt á framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs skili af sér áfangaáliti fyrir lok mánaðarins og allt útlit er fyrir að það muni ganga eftir. Þær ábendingar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið fram með eru í takt við þetta og ég vil vekja sérstaka athygli á því að í skýrslu sjóðsins er lögð áhersla á að við varðveitum góða kosti þess kerfis sem við höfum þegar byggt upp. Mér finnst sjálfum að það gleymist oft í umræðunni sem vel er gert og ég hef fengið tækifæri til þess sem félagsmálaráðherra að kynnast afar góðu þróunarstarfi sem unnið hefur verið hjá sérfræðingum Íbúðalánasjóðs.
Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu í heimsókn hingað til lands og undirbjuggu þá skýrslu sem nú hefur litið dagsins ljós og vitnað hefur verið til. Þeir hældu ítrekað mörgu í uppbyggingu Íbúðalánasjóðs en gagnrýndu annað. Ég vil undirstrika það hér að markmið stjórnvalda er fyrst og fremst að tryggja að allir íbúar þessa lands, hver sem kjör þeirra eru og hvar á landinu sem þeir búa, njóti öruggs umhverfis þegar íbúðarhúsnæði er annars vegar. Gott húsnæðiskerfi og öruggt aðgengi að hagstæðu fé til þess að eignast húsnæði er og verður einn af horsteinum þess þjóðfélags sem við viljum sjá. Því megum við aldrei gleyma. Við eigum hins vegar í þessu sem öðru að líta til þess sem vel er gert í nágrannalöndum okkar og að sjálfsögðu að þróa okkur áfram í takt við tímann. Það vil ég gera og að því er nú unnið.
Meðal mikilvægustu mála sem framundan eru hjá okkur eru starfsmenntamálin og starfsendurhæfing. Þetta er eitt af þeim grundvallaratriðum sem við þurfum að vinna að og er ein hlið á þríhyrningnum þar sem byggt er á efnahagsmálum, atvinnumálum og velferðarmálum og mikilvægi þess að þessi svið spili saman, samfélaginu í heild til hagsbóta.
Ég veit að þið eruð sammála mér um þetta. Þetta ræddum við meðal annars á mjög góðum fundi sem ég átti með forystumönnum Alþýðusambandsins í sl. viku. Þeir vöktu m.a. réttilega athygli mína á því að tímabært sé að skoða starfsmenntamálin í víðara samhengi en áður hefur verið gert. Þá sérstaklega með tilliti til þeirra sem hafa litla sem enga fagmenntun en vilja bæta stöðu sína á vinnumarkaði eða einfaldlega komast inn á hann aftur eftir að hafa heltst úr lestinni.
Ég hef lýst mig reiðubúinn til þess að fara ítarlega yfir þessi mál m.a. í samvinnu við menntamálaráðherra og aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að auka sveigjanleika og mæta raunverulegum þörfum samfélagsins. Þessi mál eru víðfeðm og snerta marga fleti, en ég hef sjálfur áhuga á því að finna lausnir sem varða sem flesta hópa í okkar ágæta þjóðfélagi. Hópa sem einhverra hluta vegna ganga ekki beina braut að því er atvinnu varðar. Markmið mitt er að ná á skynsamlegan og raunhæfan hátt utan um atvinnulausa, þá sem eru lítið menntaðir, öryrkja, geðfatlaða og aðra þá hafa af einhverjum ástæðum ekki verið fullir þátttakendur í samfélaginu og atvinnulífinu. Allt eru þetta mjög mikilvægir hópar þar sem fjöldi hæfra einstaklinga hefur af misjöfnum ástæðum lent á hliðarlínunni. Það eigum við ekki að viðurkenna sem óbreytanlega staðreynd. Nei, til mín hafa líka komið afar áhugasamir og kraftmiklir einstaklingar í þjóðfélaginu sem hafa lýst áhuga á því að taka höndum saman með mér og mínu fólki til þess að byggja upp víðtæka starfsendurhæfingu og mér finnst áhugavert að finna flöt á slíku samstarfi. Í mínum huga er þetta eitt af stærri málunum framundan, mál sem nást þyrfti þjóðarsátt um og ég hef mikinn áhuga á því að leggjast með ykkur á árarnar í þeim efnum.
Þessi mál tengjast að sjálfsögðu einnig störfum nefndar sem ég setti á laggirnarí fyrra. Hún er skipuð fulltrúum Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, fjármálaráðuneytisins og tveimur fulltrúum mínum. Nefndin fékk það hlutverk að endurskoða málefni er varða atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir.
Markmiðið með endurskoðuninni er að bæta stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi, tryggja gæði vinnumarkaðsaðgerða og auka skilvirkni og þjónustu við hinn atvinnulausa almennt. Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um stjórnsýslu, ábyrgð og yfirstjórn í málaflokknum, bótarétt, bótatíma og bótafjárhæðir auk þess að fjalla um samræmingu í tryggingarvernd og auka stuðning við fólk utan vinnumarkaðar.
Nefndin hefur haldið fjölda funda og haft samráð við fjölmarga aðila sem með málefni atvinnulausra fara. Mér er tjáð að gott samstarf hafi verið innan nefndarinnar og að starf hennar hafi verið mjög uppbyggilegt þar sem fram hafi komið mjög framsæknar hugmyndir um bætt kjör og þjónustu til handa hinum atvinnulausa. Ég hef lagt á það áherslu að nefndin skili af sér fljótlega enda hugsanlegt að þær hugmyndir sem þar eru uppi á borði geti nýst við þá endurskoðun á kjarasamningum sem nú stendur yfir.
Ágætu ársfundarfulltrúar.
Í þessu sem öðrum verkefnum er gott samstarf og traust algjört grundvallaratriði. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka góð og ég vil segja gefandi kynni af forystu ASÍ. Ég met þessi samskipti mikils og mun leggja mitt af mörkum til þess að stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins geti stigið í takt og haldist í hendur næstu ár. Á því er mikil þörf og forsenda þess að hagstæðar aðstæður verði þjóðinni gjöfular í margvíslegum skilningi en snúist ekki upp í andstæðu sína.