Ávarp félagsmálaráðherra á fundi með borgara- og velferðarnefnd Norðurlandaráðs
Kæru vinir
Það er bæði mikill heiður og ánægja að fá að hitta ykkur hér í dag til að ræða við ykkur um fæðingarorlofið og jafnréttismál á Íslandi.
Óhætt er að fullyrða að lögin um fæðingar- og foreldraorlof eru róttæk aðgerð í þágu jafnréttis á Íslandi og eins sú öflugasta í langan tíma.
Þau gjörbreyttu stöðu íslenskra foreldra. Aukin þátttaka karla í umönnun barna sinna ásamt jöfnun á stöðu kynjanna á vinnumarkaði er lykilatriði. Fæðingarorlofið leiðir til þess að karlar taka aukinn þátt í uppeldi barna sinna sem gefur þeim möguleika á að byggja upp náið samband við barn sitt strax frá byrjun. En fæðingarorlofið stuðlar einnig að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þegar faðirinn kemur í meira mæli inn á heimilið, eins og fæðingarorlofið gerir kleift, auðveldar það móðurinni að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir fæðingu.
Í raun má segja að fæðingarorlofið snúist um að koma á jafnvægi milli karla og kvenna inni á heimilinu sem og úti á vinnumarkaðnum. Meginbreytingarnar á lögunum um fæðingar- og foreldraorlof sem samþykkt voru árið 2000 má draga saman í sex atriði.
Orlofið var lengt í áföngum úr sex mánuðum í níu.
Upp var tekin skipting þannig að þrír mánuðir eru bundnir föður, þrír eru bundnir móður og þremur geta foreldrarnir skipt á milli sín eins og þeim hentar. Bundnu mánuðirnir eru ekki millifæranlegir nema annað foreldrið deyi áður en það hefur fullnýtt sinn rétt.
Orlofsmánuðina þarf að nýta áður en barnið nær 18 mánaða aldri.
Foreldrar á vinnumarkaði fá greidd 80% launa í fæðingarorlofi. Þær greiðslur koma frá sérstökum Fæðingarorlofssjóði sem fær tekjur sínar af ákveðnu hlutfalli tryggingagjalds sem allir launagreiðendur greiða.
Lágmark er á greiðslunum og mjög hátt þak.
Taka orlofsins er sveigjanleg þannig að í samráði við atvinnurekanda má finna einhverja þá blöndu orlofs og vinnu sem öllum hentar. Launþegi á þó alltaf fullan rétt á að taka orlof og óheimilt er að segja upp karli eða konu eftir að viðkomandi hefur látið vita af því að til standi að fara í orlof.
Meginmarkmið þessara lagabreytinga voru ferns konar.
Í fyrsta lagi að bæta fjárhagslega stöðu barnafjölskyldna. Fyrir breytinguna hafði greiðsla til fólks í fæðingarorlofi verið flöt fjárhæð og frekar lág. Í mörgum tilfellum hafði það alvarleg áhrif á efnahagslega stöðu fólks að eignast barn. Ljóst er að ef báðir foreldrar höfðu verið á vinnumarkaði var það faðirinn – vegna launamunar kynjanna – sem var nauðbeygður til að auka launavinnu sína meðan konan var í orlofi til að tryggja efnahagslega stöðu fjölskyldunnar. Þetta markmið náðist auðvitað strax.
Í öðru lagi var vonast til þess að staða kynjanna á vinnumarkaði yrði jafnari. Margar athuganir hafa bent til þess að atvinnurekendur líti á konur sem óöruggara vinnuafl sökum þess að þær ganga með og fæða börn, eru í kjölfarið fjarri vinnumarkaði og axla síðan fjölskylduábyrgð í ríkari mæli en karlar. Ef unnt væri að breyta þessu þá væri ástæða til að ætla að við hefðum stigið skref í átt að launajafnrétti og auknum möguleikum kvenna til frama á vinnumarkaði. Það er of snemmt að segja til um hvort þetta hafi tekist. En við höfum vissulega ákveðnar vísbendingar og ég nefni hér tvö dæmi:
Þegar nokkuð var liðið á fyrsta árið sem lögin voru í gildi áttuðu yfirmenn slökkviliðsins í Reykjavík sig á því að þeir stóðu frammi fyrir vanda. Um fjórðungur slökkviliðsmannanna átti von á barni á árinu og allir ætluðu að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Þetta hafði auðvitað aldrei gerst áður á þessum karlavinnustað en varð til þess að það varð að kalla til nýja menn og það þýddi aukin útgjöld. Yfirstjórnin varð að óska eftir aukafjárveitingu frá borginni því fæðingarorlof var atriði sem aldrei hafði þurft að reikna með við gerð fjárhagsáætlunar. En nú þurfa karlavinnustaðir ekkert síður en kvennavinnustaðir að reikna slíkt inn í fjárhagsáætlanir sínar.
Hitt dæmið er ef til vill nokkru daprara, en fyrir skömmu sagði eitt af stærstu stéttarfélögum okkar frá því að mikil aukning hefði orðið á fjölda þeirra karla sem leita til félagsins sökum þess að þeim hefur verið sagt upp vegna fæðingarorlofs. Það er að sjálfsögðu ólöglegt og oftast hafa þau mál verið leyst í friði þegar viðkomandi atvinnurekanda hefur verið bent á lagaákvæðin. Konur hafa lengi þekkt þessa mismunun en nú bitnar hún einnig á körlum.
Í þriðja lagi var vonast til að lögin myndu ýta undir þá tilhneigingu sem auðsæ var meðal karla að vilja auka þátttöku sína í umönnun og uppeldi barna sinna. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að það hafi tekist. Um 90% feðra nýta sér rétt sinn að hluta eða öllu leyti.
Það þýðir með öðrum orðum að þeir taka um það bil þá þrjá mánuði sem er þeirra sérstaki réttur. Mæðurnar taka hins vegar hina sex. Ég fullyrði að í dag eru fleiri íslenskir feður virkir við umönnun ungra barna sinna en nokkru sinni fyrr. Við vitum því miður enn of lítið um það hvernig foreldrar eru nákvæmlega að nýta orlofið en nú er unnið að úttekt á því.
Þessi atriði eru gríðarlega mikilvæg ekki síst í ljósi þess að samfara aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hefur verulega dregið úr frjósemi kvenna í Evrópu.
Minni frjósemi hefur blasað við á Íslandi í nokkur ár. Við höfum að vísu verið með ákveðna sérstöðu í Evrópu því saman hefur farið einhver mesta vinnumarkaðsþátttaka kvenna sem um getur eða um 80% og ein mesta frjósemi í Evrópu.
En það seig á ógæfuhliðina hjá okkur líka. Árið 1990 var frjósemi íslenskra kvenna 2,31 barn, tíu árum síðar var hún 2,08 og fór niður í 1,93 árið 2002. Síðan hefur þróunin snúist við og árið 2004 fór frjósemi íslenskra kvenna í 2 börn samkvæmt bráðabirgðatölum. Við erum sem sagt aftur á uppleið. Af hverju? Við vonum að hér leiki ný löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof stórt hlutverk. Í fyrsta lagi þýðir tekjutengingin að efnahagslegar áhyggjur ættu ekki að þurfa að standa í vegi fyrir barneignum. Í öðru lagi hafa aðrar rannsóknir sýnt að ein meginforsenda þess að konur vilja eignast annað barn og það þriðja, er hversu virkur faðirinn hefur verið við umönnun fyrsta barnsins.
Ef konan er ein um vökunæturnar, bleyjuskiptin, matargjafirnar og annað sem fylgir, þá er hún ekki spennt fyrir frekari fjölgun. Þurfi hún ein að yfirgefa vinnumarkaðinn þá er barneignin engan veginn jafn skemmtileg. Hafi faðirinn hins vegar axlað sinn hluta af byrðunum (og notið ánægjunnar) þá er líklegra að konan vilji fleiri börn. Og við höldum að vænlegasta leiðin til að auka þessa þátttöku feðranna sé að þeir geti verið með alveg frá byrjun.
Eins og áður kom fram þá eru frjósemistölur okkar heldur á uppleið og við höldum jafnframt að það séu, enn sem komið er, fyrst og fremst hinar efnahagslegu ástæður sem þar eru að baki. Hitt er líklega meira spurning um langtímaáhrif.
Fæðingarorlofið hefur tekist vel – um 90% karla nýta sér fæðingarorlofsréttinn eins og áður hefur komið fram. Eru íslenskir karlmenn duglegastir allra karlmanna á Norðurlöndunum að taka fæðingarorlof. Þessar upplýsingar má lesa í skýrslu undir heitinu „Norræn reynsla af fæðingarorlofi og áhrifum þess á jafnrétti karla og kvenna“ sem kemur út í dag og verður í dag birt á heimasíðum Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar.
Á formennskuári Íslands var lagt upp með verkefnið á vegum norræns samstarfs í jafnréttismálum. Skýrslan er unnin á vegum íslensku Jafnréttisstofunnar. Þetta er afar fróðleg skýrsla sem gefur góða yfirsýn yfir mismunandi nálgun á Norðurlöndunum.
Það þarf ekki að deila um það að tilkoma fæðingarorlofsins á Norðurlöndunum var stórt stökk fram á við í jafnréttismálum. Hvergi í heiminum hefur feðraorlof fengið jafnstóran sess og á Norðurlöndum og er Svíþjóð þar fremst á meðal jafningja. Með tilkomu núgildandi laga um fæðingarorlof hefur þróunin á Íslandi verið afar hröð og munar nú litlu á Íslandi og Svíþjóð þegar litið er til fæðingarorlofsin karla, enda hafa íslenskir karlar brugðist hratt við og nýta rétt sinn vel.
Ég fullyrði því hér og nú að íslensku lögin um fæðingar- og foreldraorlof séu á öllum sviðum að skila því sem að var stefnt. Þau séu að auka frjósemi Íslendinga og þau eru stórt og mikilvægt skref í átt að auknu jafnrétti karla og kvenna. Maður sér þetta bara í Reykjavík, götumyndin er önnur en hún var fyrir nokkrum árum. Miklu fleiri karlar, einir eða í hóp, eru á göngu með barnavagna, tilla sér niður á bekk eða á útiveitingahúsi og gefa barninu pela.
Íslenska þjóðkirkjan hefur lengi verið með samverustundir fyrir nýorðna foreldra. Fyrir nokkrum árum hétu þetta alltaf mömmumorgnar. Langflestir söfnuðir tala í dag um foreldramorgna. Og þannig væri hægt að halda áfram en allt ber þetta að sama brunni, okkur hefur skilað verulega fram á við með fæðingarorlofslögunum frá árinu 2000.