Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing Jafnréttisráðs um launajafnrétti

Góðir fundarmenn

Ég veit að málþingið í dag hefur verið einkar áhugavert og jafnvel komið fram ábendingar um hvað betur megi fara. Það minnir okkur á að við þurfum alltaf að vera á varðbergi og reiðubúin að endurskoða þá þætti sem hugsanlega geta leitt okkur að settu marki. Fyrir mitt leyti get ég þá sagt að málþingið hafi skilað tilætluðum árangri þannig að við getum haldið þróuninni áfram. Til þess er leikurinn gerður, ekki satt.

Kynbundinn launamunur er ekkert náttúrulögmál. Hér áður fyrr má segja að hann hafi átt sér sögulegar skýringar, en getum við sagt það í dag? Að sjálfsögðu taka breytingar tíma og auðvitað hefur menning meðal þjóða og fyrri kynslóða áhrif á þessu sviði sem öðrum. En í dag búum við, hér á Íslandi og Norðurlöndum, yfir svo miklum upplýsingum, tækjum, möguleikum til fræðslu og úrbóta að við höfum einfaldlega enga afsökun lengur. Konur og karlar hafa lögbundinn rétt til að njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf og það er með öllu óásættanlegt að á Íslandi sé enn til staðar kynbundinn launamunur. Ég hef sagt það áður og ég segi það hér enn einu sinni að eitt brýnasta verkefnið í jafnréttismálum er að með öllum tiltækum ráðum verði unnið gegn kynbundnum launamun.

Ég hef líka sagt að Stjórnarráðið og opinberar stofnanir hljóti að fara fyrir með góðu fordæmi. Hjá okkur eru hæg heimatökin og ég sé einfaldlega ekki að við getum borið fyrir okkur einhverjar afsakanir. Ég hef látið fara yfir þessi mál í ráðuneytinu hjá mér og aftur verður farið yfir þau nú þegar nýir stofnanasamningar verða gerðir. Þetta er ekki eitthvað sem við gerum einu sinni og svo ekki meir. Nei, við þurfum reglulega að fara yfir stöðu mála og á það vil ég leggja áherslu.

Ég hef jafnframt hrint í framkvæmd áætlun til að vinna gegn ætluðum kynbundnum launamun í stofnunum er starfa á verksviði félagsmálaráðuneytisins og á fundi með forstöðumönnum þeirra í lok síðastliðinnar viku kynnti ég þetta verkefni. Markmið þess er að fara kerfisbundið í gegnum launakerfi stofnananna til að kanna hvort þar sé að finna óútskýrðan launamun sem rekja má til kynferðis starfsmanna í sambærilegum störfum. Þá hef ég jafnframt ritað samráðherrum mínum í ríkisstjórninni bréf þar sem ég fer þess á leit að þeir geri hið sama gagnvart ráðuneytum sínum og stofnunum.

Ég veit að þið eruð mér sammála um að baráttan gegn kynbundnum launamun eigi að vera forgangsmál og að það verði unnið að því með markvissum og skipulegum hætti. Allar opinberar stofnanir og fyrirtæki á almennum markaði ættu að greina launakerfi sín með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Til þess að fylgja aðgerðum eftir og ekki síður hvetja til þeirra hef ég lagt til að komið verði á eins konar gæðavottunarkerfi. Niðurstöður könnunar sem unnin var sameiginlega í sex Evrópulöndum árið 2002, þar á meðal á Íslandi, sýndu að hér er kynbundinn launamunur meiri á almenna vinnumarkaðnum en á þeim opinbera. Sömu vísbendingar hafa komið fram í launakönnunum sem Félagsvísindastofnun hefur unnið fyrir Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og í launakönnunum sem gerðar hafa verið á vegum Reykjavíkurborgar. Við vitum það að þetta skýrist að hluta til af því að fyrirtæki á almennum vinnumarkaði hafa oft meira svigrúm við kjaraákvarðanir en almennt gildir um hið opinbera þar sem slíkar ákvarðanir markast jafnan af ramma kjarasamninga.

Við höfum jú góða reynslu af umhverfisvottun eða mati sem hefur það markmið að verja umhverfið sem lengi hefur hallað á. Ég hef trú á því að hægt sé að ná árangri með því að koma á gæðavottun um jöfn laun í því skyni að hvetja stofnanir og fyrirtæki til að jafna laun kynjanna. Stofnanir og fyrirtæki sem fengju slíka viðurkenningu geta kynnt sig sem áhugaverðan vinnustað. Þannig yrði árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til aðgerða.

Í félagsmálaráðuneytinu er nú unnið að útfærslu íslensks jafnlaunavottunarkerfis og verður unnið að því í nánu samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu sem og fulltrúa vinnuveitenda og launafólks. Ég er sannfærður um að jafnlaunavottun geti gagnast vel sem tæki til framfara við að koma í veg fyrir áhrif kyns á launaákvarðanir enda þótt það hvarfli ekki að mér eitt augnablik að það eitt feli í sér hina einu sönnu töfralausn. Menn þurfa áfram að vinna vinnuna sína eins og ég kom inn á áðan og henni lýkur ekki með vottun einni saman.

Kynbundinn launamunur er margslungið fyrirbæri sem kallar á mismunandi úrræði og verkfæri í verkfæratöskuna okkar. Aðgerðir á borð við sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs sem rétti hlut karla í fæðingarorlofi er að mínu mati eitt mikilvægasta verkfærið sem við höfum mótað. Fyrir mig sem jafnréttisráðherra hefur verið ótrúlegt að ferðast um heiminn og greina frá þeim árangri sem við erum að ná þegar þátttaka feðra er annars vegar. Lögin vekja athygli fyrir það sem við köllum „use it or loose it“ réttinn og fyrir það að um 90% feðra eru að nýta rétt rúmlega þrjá mánuði. Við hljótum að vera sammála um að markmið laganna um þátttöku feðra hefur heppnast vel og einhverra hluta vegna virðast íslenskir feður skera sig úr í þessu efni. Rannsóknir benda til þess að feður í aðildarríkjum Evrópusambandsins myndu ekki nýta slíkan rétt í jafn ríkum mæli, enda þótt hann væri fyrir hendi.

Ég hef lagt áherslu á að önnur áhrif laganna, svo sem áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og á laun kynjanna, verði rannsökuð og í því megum við engan tíma missa. Rannsóknir á stöðu kynjanna eru mikilvæg forsenda úrbóta og stefnumótunar og við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, að þar höfum við ekki staðið okkur nægilega vel. Á formennskuári okkar í norrænu samstarfi í fyrra lagði ég mikla áherslu á að við beittum okkur í þágu rannsókna í jafnréttismálum. Ísland tók að sér að leiða tvö verkefni. Annars vegar úttekt á þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndunum sem Jafnréttisstofa hafði umsjón með en skýrslan var gefin út á þriðjudaginn. Hana er að finna á heimasíðum Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar og vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja ykkur til að kynna ykkur efni hennar.

Við höfðum einnig frumkvæði að því koma í framkvæmd verkefninu Mælistikur á launajafnrétti sem dr. Lilja Mósesdóttir hefur kynnt fyrir ykkur í dag. Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga að geta teflt fram í þessu verkefni fræðimanni sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu af slíkum rannsóknum. Ég hef miklar væntingar til þessa verkefnis og tel að það geti markað þáttaskil í áframhaldandi samstarfi á norrænum vettvangi við að útrýma kynbundnum launamun.

Og síðast en ekki síst vil ég leyfa mér að nefna þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í tilefni af kvennafrídeginum 24. október síðastliðinn um að veita 10 milljónum króna til að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð. Þetta er mál sem ég taldi mikilvægt að fengi framgang og með fulltingi góðra og framsýnna samráðherra minna náðist það í gegn. Markmið sjóðsins er að styrkja kynjarannsóknir almennt og er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði sérstök áhersla lögð á veita annars vegar fé til rannsókna á stöðu kvenna á vinnumarkaði, bæði að því er varðar launakjör og stöðu, og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar hér á landi eins og til dæmis fæðingarorlofslaganna þar sem kveðið er á um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Jafnréttissjóðurinn verður vistaður í forsætisráðuneyti en eins og ég hef áður sagt finnst mér skynsamlegast að í framtíðinni vistuðust jafnréttismálin undir það ráðuneyti. Þetta eru mannréttindamál sem öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands eiga að láta sig varða.

Að lokum vil ég segja þetta: Þið sem hér eruð í dag eruð öll önnum kafið fólk. Við vitum öll að hver dagur er dýrmætur og að við þurfum að forgangsraða hjá okkur hvert og eitt, bæði í starfi og einkalífi.

En ég vil segja við ykkur að í dag hafið þið forgangsraðað rétt. Þið hafið varið þessum dýrmæta degi vel. Fyrir það vil ég þakka ykkur, ég vil þakka ykkur öllum fyrir framlag ykkar, Jafnréttisráði, fyrirlesurum og ykkur sem hér sitjið og farið nú hvert og eitt fróðari og viljugri til þess að taka með okkur á því meini sem kynbundinn launamunur er og hefur verið í íslensku samfélagi.

Takk fyrir mig.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta