Ræða félagsmálaráðherra á fundi trúnaðarmanna SFR haldinn 22. nóvember
Ágætu trúnaðarmenn.
Það er mér sönn ánægja að verða við þeirri ósk SFR að segja hér nokkur orð um það helsta sem er að gerast á vettvangi félagsmálaráðuneytisins. Á þessum fundi eru mættir trúnaðarmenn sem margir hverjir hafa aflað sér mikillar reynslu og viðtækrar þekkingar með störfum sínum hjá stofnunum hins opinbera. Mér finnst því mikilvægt að fá þetta tækifæri til að eiga við ykkur milliliðalaus skoðanaskipti um framvinduna í félags- og vinnumálum í þjóðfélaginu.
Um þessar mundir eru um það bil tvö og hálft ár síðan ég tók við embætti félagsmálaráðherra. Áður hafði ég aflað mér nokkurrar reynslu og þekkingar á verkefnum Stjórnarráðsins sem aðstoðarmaður ráðherra í tveimur ráðuneytum. Það kom mér samt á óvart hversu verkefni félagsmálaráðuneytisins eru víðfeðm og í raun ólík innbyrðis. Ráðuneytið fer með eins og þið vitið jafn ólíka málaflokka og sveitarstjórnarmál, húsnæðismál, málefni fatlaðra, fjölskyldumál og síðast enn ekki síst jafnréttis- og vinnumál.
Ég segi síðast en ekki síst jafnréttis- og vinnumál. Þetta segi ég vegna þess að eitt af forgangsmálum mínum félagsmálaráðuneytinu er munur á launum kvenna og karla. Ég tek eftir því að á dagskrá þessa trúnaðarmannafundar er einmitt framkvæmd á bókun 2 með kjarasamningi fjármálaráðherra og SFR. Í þessari bókun er tekið fram að samningsaðilar séu sammála um að skipa vinnuhóp sem skal fara yfir ástæður launamunar sem kom fram í úttekt á launum kvenna og karla í SFR sem var framkvæmd í október 2004. Hér eigum við sameiginlegt áhugamál sem er að eyða mun á launum kvenna og karla. Í mínum huga liggur málið ljóst fyrir. Konur og karlar eiga lögbundinn rétt til að njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Ég hef margsagt það áður og endurtek það hér að það er með öllu óásættanlegt að á Íslandi sé enn til staðar kynbundinn launamunur.
Eitt mitt fyrsta verk sem félagsmálaráðherra var að óska eftir úttekt á stöðu þessara mála í ráðuneytinu. Þegar hún lá fyrir var gengið í það að leiðrétta það sem hallaði á konur. Þetta hefur tekist. Er viðunandi verkefni er verður nú endurtekið. Næsta skrefið fólst í því að öllum forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins var sent minnisblað. Í því er vakin athygli á að kannanir sýni að kynbundinn launamunur sé fyrir hendi á íslenskum vinnumarkaði, jafnt á almennum vinnumarkaði sem og hjá hinu opinbera. Kynbundinn launamunur sé ekki óbreytanleg staðreynd heldur mannanna verk sem unnt er að hafa áhrif á. Forstöðumenn ríkisstofnana hafi þannig tækifæri til að taka virkan þátt í að koma í veg fyrir að vinnuframlag kvenna og karla verði metin á grundvelli ólíkra sjónarmiða.
Í minnisblaðinu er þess getið að það hafi vafist fyrir mörgum að finna leiðir að settum markmiðum. Kynbundinn launamunur komi ekki eingöngu fram í misjafnri röðun starfsfólks í launaflokka heldur sýni kannanir að svo virðist sem að yfirborganir og ýmis konar hlunnindi á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera gangi frekar til karla en kvenna. Mikilvægt sé að taka þessi atriði til markvissrar skoðunar við ákvörðun launa starfsfólks þar sem ávallt er hætta á að enn eimi af staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla án þess að það sé ætlunin. Í minnisblaðinu er nefnt í dæmaskyni að það megi leiða að því líkum að yfirmaður hafi tilhneigingu til að telja líklegra að konan vinni síður yfirvinnu en karlinn þegar hann metur fjölda yfirvinnutíma við gerð fastlaunasamninga við starfsfólkið. Enn fremur geti verið tilhneiging til að líta svo á að karlinn beri meiri ábyrgð á verkefnum sínum en konan í sambærilegri stöðu.
Með þetta í huga ákvað ráðuneytið að hrinda í framkvæmd verkefni er lýtur að meintum launamun kynjanna hjá stofnunum þess. Markmið verkefnisins er að fara kerfisbundið yfir launakerfi stofnana ráðuneytisins til að kanna hvort þar er að finna óútskýrðan launamun sem rekja má til kynferðis starfsmanna í sambærilegum störfum. Það skal tekið fram að tilgangurinn er ekki að finna að því hvernig launaákvarðanir hafa verið teknar innan einstakra stofnana heldur er einfaldlega verið að stuðla að viðunandi úrbótum reynist óútskýrður launamunur vera fyrir hendi sem megi rekja til kynferðis hlutaðeigandi starfsmanna.
Hugsun okkar er sú að forstöðumenn stofnana flokki starfsfólk sem eru að vinna sambærileg störf, svo sem sviðstjóra og forstöðumenn útibúa, deildarstjóra, sérfræðinga og almennt starfsfólk og greini það eftir kyni. Síðan verði farið yfir röðun í launaflokka, dagvinnulaun og grunnlaun innan hvers hóps, hver hluti yfirvinnu í launakjörum er og þá hvort um er að ræða óunna eða unna yfirvinnutíma auk ýmissa hlunninda sem kunna að koma til.
Komi fram launamunur milli einstakra starfsmanna innan sama hóps verði farið yfir það hvort hlutlægar ástæður geti legið þar að baki, t.d. ábyrgð og þá forsendur hennar, aldur, starfsaldur hjá stofnuninni eða önnur starfsreynsla sem metin er til launa. Standi enn eftir óútskýrður launamunur verði að finna leiðir til að uppræta þann mun.
Áætlað er að verkefnið standi yfir í vetur en gera má ráð fyrir að þáttur hverrar stofnunar standi yfir í skemmri tíma. Hafist var handa í byrjun nóvember og byrjað á Vinnumálastofnun.
Til þess að fylgja aðgerðum eftir og ekki síður hvetja til þeirra hef ég ákveðið að komið verði á sérstakri jafnlauna gæðavottun. Niðurstöður könnunar sem unnin var sameiginlega í sex Evrópulöndum árið 2002, þar á meðal á Íslandi, sýndu að hér er kynbundinn launamunur meiri á almenna vinnumarkaðnum en á þeim opinbera. Sömu vísbendingar hafa komið fram í launakönnunum sem Félagsvísindastofnun hefur unnið fyrir Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og í launakönnunum sem gerðar hafa verið á vegum Reykjavíkurborgar. Við vitum að þetta skýrist að hluta til af því að fyrirtæki á almennum vinnumarkaði hafa oft meira svigrúm við kjaraákvarðanir en almennt gildir um hið opinbera þar sem slíkar ákvarðanir markast jafnan af ramma kjarasamninga.
Við höfum góða reynslu af umhverfisvottun eða mati sem hefur það markmið að verja umhverfið sem lengi hefur hallað á. Ég hef trú á því að hægt sé að ná árangri með því að koma á gæðavottun um jöfn laun í því skyni að hvetja stofnanir og fyrirtæki til að jafna laun kynjanna. Stofnanir og fyrirtæki sem fengju slíka viðurkenningu geta kynnt sig sem áhugaverðan vinnustað. Þannig yrði árangur í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til aðgerða.
Í félagsmálaráðuneytinu er nú unnið að útfærslu þessa kerfis og verður unnið að því í nánu samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu sem og fulltrúa vinnuveitenda og launafólks. Ég er sannfærður um að jafnlaunavottun geti gagnast vel sem tæki til framfara við að koma í veg fyrir áhrif kyns á launaákvarðanir enda þótt það hvarfli ekki að mér eitt augnablik að það eitt feli í sér hina einu sönnu töfralausn. Menn þurfa áfram að vinna vinnuna sína eins og ég kom inn á áðan og henni lýkur ekki með vottun einni saman.
Kynbundinn launamunur er margslungið fyrirbæri sem kallar á mismunandi úrræði og verkfæri í verkfæratöskuna okkar. Aðgerðir á borð við sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs sem rétti hlut karla í fæðingarorlofi er að mínu mati eitt mikilvægasta verkfærið sem við höfum mótað. Fyrir mig sem jafnréttisráðherra hefur verið ótrúlegt að ferðast um heiminn og greina frá þeim árangri sem við erum að ná þegar þátttaka feðra er annars vegar. Lögin vekja athygli fyrir það sem við köllum „use it or loose it“ réttinn og fyrir það að um 90% feðra eru að nýta rétt rúmlega þrjá mánuði. Við hljótum að vera sammála um að markmið laganna um þátttöku feðra hefur heppnast vel og einhverra hluta vegna virðast íslenskir feður skera sig úr í þessu efni. Rannsóknir benda til þess að feður í aðildarríkjum Evrópusambandsins myndu ekki nýta slíkan rétt í jafn ríkum mæli, enda þótt hann væri fyrir hendi.
Megin markmið jafnréttislaganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Samþætting er ein þeirra aðferða sem hefur verið talin vænleg til árangurs að þessu markmiði. Aðferðin felur meðal annars í sér að sjónarhorn kynferðis er fléttað inn í alla stefnumótun, litið er til þeirra áhrifa sem einstakar ákvarðanir kunna að hafa á bæði kynin sem og hvaða áhrif kyn getur haft á efni ákvörðunar. Áhersla er lögð á þessa aðferðafræði í áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
Það hefur hins vegar vafist fyrir mörgum hvað samþætting felur í sér og flestir eru í góðri trú um að þeir taki ákvarðanir um rétt og skyldur einstaklinga óháð kynferði. Í ljósi þessa er í undirbúningi að félagsmálaráðuneytið í nánu samstarfi við stofnanir þess hefji tilraunaverkefni á sviði samþættingar. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði brotið upp í þrjú smærri verkefni sem taki til Barnaverndarstofu, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi og Vinnumálastofnunar auk Jafnréttisstofu.
Markmið verkefnisins er að kanna hvort þjónusta stofnana sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins nýtist jafnt körlum sem konum þannig að ekki sé um kynbundna þjónustu að ræða. Gildir þá einu hvort um er að ræða barnavernd, þjónustu við fatlaða eða miðlun vinnu. Fundnar verði leiðir til úrbóta komi í ljós að kynin sitji ekki við sama borð að þessu leyti.
Þótt við höfum þannig lagt áherslu á að byrja á okkur sjálfum í félagsmálaráðuneytinu höfum við látið til okkar taka annars staðar. Á formennskuári okkar í Norrænu samstarfi í fyrra lagði ég mikla áherslu á að við beittum okkur í þágu rannsókna í jafnréttismálum. Ísland tók að sér að leiða tvö verkefni. Annars vegar úttekt á þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndunum sem Jafnréttisstofa hafði umsjón með en skýrslan var gefin út um miðjan október. Hana er að finna á heimasíðum Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar og vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja ykkur til að kynna ykkur efni hennar.
Við höfðum einnig frumkvæði að því koma í framkvæmd verkefninu Mælistikur á launajafnrétti sem dr. Lilja Mósesdóttir hefur kynnt fyrir ykkur í dag. Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga að geta teflt fram í þessu verkefni fræðimanni sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu af slíkum rannsóknum. Ég hef miklar væntingar til þessa verkefnis og tel að það geti markað þáttaskil í áframhaldandi samstarfi á norrænum vettvangi við að útrýma kynbundnum launamun.
Í jafnréttislögunum frá árinu 2000 er að finna ákvæði um að skipa skuli jafnréttisfulltrúa í hverju ráðuneyti sem fjalli um og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra. Í byrjun þessa mánaðar, nánar tiltekið 3. nóvember sl. voru samþykktar á fundi ráðuneytisstjóra sérstakar starfsreglur um hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Með reglunum er jafnréttisfulltrúunum skapaður góðar forsendur til að vinna að umbótum á sviði jafnréttismála í stjórnsýslu ríkisins og stofnana þess.
Mér finnst einnig ástæða til að nefna hér þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í tilefni af kvennafrídeginum 24. október síðastliðinn um að veita 10 milljónum króna til að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð. Þetta er mál sem ég taldi mikilvægt að fengi framgang. Markmið sjóðsins er að styrkja kynjarannsóknir almennt og er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði sérstök áhersla lögð á veita annars vegar fé til rannsókna á stöðu kvenna á vinnumarkaði, bæði að því er varðar launakjör og stöðu, og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar hér á landi eins og til dæmis fæðingarorlofslaganna þar sem kveðið er á um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Jafnréttissjóðurinn verður vistaður í forsætisráðuneyti en mér finnst skynsamlegast að í framtíðinni heyri jafnréttismálin undir það ráðuneyti. Þetta eru mannréttindamál sem öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands eiga að láta sig varða.
Áður en ég segi skilið við jafnréttismálin vil ég endurtaka það sem ég sagði á Alþingi í síðustu viku. Ég er þeirrar að til að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna þurfi að virkja karlana. Ég greip því hugmynd frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, á lofti er hún kvað vera kominn tími til að karlar hittust á fundum til að ræða þessi mál á sama hátt og þeir sjá ástæðu til að fjalla um önnur málefni, svo sem efnahagsmál og fiskveiðar. Ég hef ákveðið að byrja hér innanlands og halda karlaráðstefnu þann 1. desember nk. og hef ég fengið góða menn til liðs við mig við að undirbúa slíka ráðstefnu. Ég hvet alla viðstadda karla til að taka tímann frá og koma til fundar um þess mikilvægu mál í Salnum í Kópavogi kl. 9.
Góðir fundarmenn.
Ég hef í ræðu minni dvalið við jafnréttismálin sem mér finnast mjög mikilvæg. En eins og ég gat um í upphafi hefur félagsmálaráðuneytið fleira á sinni könnu.
Staða og vinnuaðstæður útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hafa verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum það sem af er þessu kjörtímabili einkum þeirra sem starfa hjá starfsmannaleigum sem er tiltölulega nýtt fyrirbrigði hjá okkur. Í síðustu viku náðist víðtæk samstaða um leiðir til að setja starfsmannaleigum lögbundnar starfsreglur. Nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins með aðild Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins varð sammála um efnisþætti frumvarps til laga sem verður lagt fyrir Alþingi fyrir jól.
Í frumvarpinu er fjallað um fjölmörg atriði og réttur starfsmanna á þeirra vegum tryggður með ýmsu móti. Meðal annars er lagt til að starfsmannaleigum verði óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu, hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar. Enn fremur er gert ráð fyrir að starfsmannaleigu sé óheimilt að leigja út starfsmann til fyrirtækis sem hann hefur áður starfað hjá fyrr en að sex mánuðir eru liðnir frá því að ráðningarsambandi hans við það fyrirtæki lauk. Einnig er starfsmannaleigu óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki. Samkvæmt frumvarpinu er Vinnumálastofnun falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna nái frumvarpið fram að ganga.
Í síðustu viku tókst samstaða með stjórnvöldum og heildarsamtökum á vinnumarkaði um annað stórmál. Um er að ræða breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingasjóð og lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Breytingarnar sem verða lagðar til við Alþingi að gerðar verði á atvinnuleysisbótakerfinu eru að mínu mati einhverjar þær veigamestu sem gerðar hafa verið á þeirri hálfu öld sem lögin hafa verið í gildi. Forseti ASÍ hefur tekið í svipaðan streng. Í lagafrumvarpi sem verður lagt fyrir Alþingi verður til dæmis gerð tillaga um þá grundvallarbreytingu að við útreikninga á atvinnuleysisbótum verði tekið tillit til launa áður en kom til atvinnumissis. Tekjutengingin verður miðuð við 70% af heildartekjum samkvæmt launaseðlum síðastliðna sex mánuði, að undanskildum síðasta mánuði fyrir atvinnumissi. Þak er sett á hámarksbætur sem geta ekki orðið hærri en 180 þúsund krónur á mánuði. Rétturinn til tekjutengdra bóta verður að hámarki þrír mánuðir á þriggja ára tímabili og hefst þegar sá atvinnulausi hefur verið í tíu virka daga á grunnbótum. Jafnframt verða lágmarksbætur hækkaðar úr rúmum 91 þúsund krónum í 96 þúsund krónur. Með þessari breytingu verður stórlega dregið úr því fjárhagslega áfalli sem uppsögn vinnu getur reynst einstaklingum og fjölskyldum.
Í mínum huga er hér um að ræða mjög mikilvægt framfaraskref á sviði vinnumála ... ef ekki stærsta framfaraskrefið á síðari árum. Ég vil geta þess að nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins með aðild heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins hefur unnið að þessu máli í rúmt ár og skilað góðu verki.
Málefni sveitarfélaganna er umfangsmikill málaflokkur í félagsmálaráðuneytinu. Það hefur sett sitt mark á starfsemi ráðuneytisins að undanfarin ár hefur verið unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að eflingu sveitarstjórnarstigsins. Markmiðið hefur verið að stækka sveitarfélögin og gera þau betur í stakk búinn til að taka að sér verkefni sem eru þess eðlis að ætla má að þeim verði betur sinnt af staðbundnum stjórnvöldum eins og sveitarstjórnirnar eru. Mér finnst rétt að víkja með nokkrum orðum að framvindunni á þessu sviði þar sem það tengist á ýmsan hátt starfi ykkar sem trúnaðarmanna á stofnum ríkisins. Ég vil einnig geta þess að efling sveitarstjórnarstigsins kom til ítarlegrar umfjöllunar á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem lauk fyrir um hálfum mánuði síðan. Forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson flutti þar erindi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
Samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga var skipt í þrjá þætti. Í fyrsta lagi lagði verkefnisstjórn fram tillögur í apríl 2004 sem meðal annars fela í sér að sveitarfélögin taki að sér nánast alla nærþjónustu á sviði velferðarmála. Í öðru lagi skilaði tekjustofnanefnd tillögum sem þessa dagana er verið að hrinda í framkvæmd með lagabreytingum. Í þriðja lagi lagði sameiningarnefnd fram tillögur um verulega fækkun sveitarfélaga með sameiningu þeirra. Kosið var um þær tillögur þann 8. október sl. Aðeins ein tillaga var samþykkt í öllum sveitarfélögum sem tillagan varðaði. Í aðdraganda átaksins voru samþykktar nokkrar sameiningar sveitarfélaga og stefnir í allnokkra fækkun á kjörtímabilinu, eða úr 101 í 89. Áfram verður mikill fjöldi sveitarfélaga með mjög fáa íbúa þótt einungis lítið brot landsmanna búi þar.
Forsætisráðherra kvað réttilega þessa niðurstöðu vekja margar spurningar um hvert skuli stefna í málefnum sveitarfélaga.
Bæði ríki og sveitarfélög hafa gengið út frá því að stækkun og efling sveitarfélaga væri forsenda þess að sveitarfélögin gætu tekið að sér aukin verkefni. Þótt í gildi séu nokkrir þjónustusamningar á sviði velferðarmála sem gerðir voru á grundvelli verkefnisins um reynslusveitarfélög hefur það sýnt sig að æskilegast er að ábyrgð á framkvæmd þjónustu og fjármögnun hennar sé á sömu hendi. Almenn yfirfærsla verkefna á grundvelli þjónustusamninga er því ekki góður kostur. Á meðan stærðarmunur sveitarfélaga er jafn gríðarlegur og hann er í dag er vandséð að aðrar leiðir séu færar, nema þá mögulega að t.d. stærstu sveitarfélögum í hverjum landshluta verði falið að þjónusta hin minni og fái til þess tekjustofna. Slíkt fyrirkomulag þekkist erlendis en það á sér ekki fordæmi hér á landi. Það eins og annað þarf að ræða í framhaldinu.
Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að huga að áframhaldandi flutningi ýmissa þjónustuverkefna frá ríki til sveitarfélaga og stuðla þannig að bættri þjónustu við íbúa hvers sveitarfélags. Markmiðið er að bæta þjónustuna við íbúana. Sérstaklega má nefna málefni fatlaðra, heilsugæslu, heimahjúkrun, öldrunarþjónustu og minni sjúkrahús auk svæðismiðlunar og atvinnuráðgjafar. Það er álit býsna margra að sveitarfélögin séu betur í stakk búin en ríkið að sinna þessari þjónustu, þau eru í nánari tengslum við sitt heimafólk og finna betur hvaða þörfum er brýnast að sinna og hvernig þjónustunni verður best fyrir komið. Að sjálfsögðu verður þó ekki af slíkum verkefnaflutningi nema sveitarfélögin lýsi sig tilbúin til að taka við auknum verkefnum og að fundin verði leið til að færa þeim tekjustofna til að standa straum af kostnaði.
Ágætu trúnaðarmenn.
Ég hef í þessu ávarpi mínu farið yfir nokkur málefni sem hafa verið ofarlega á baugi í félagsmálaráðuneytinu og snerta starf ykkar með einum eða öðrum hætti. Mér þótti við hæfi að dvelja nokkuð við jafnréttismálin. Bæði vegna þeirra vinnu sem er að hefjast í sambandi við útfærslu á bókuninni við kjarasamning ykkar og ríkisins. En ekki síður vegna þess að á jafnréttissviðinu er upp viðvarandi vandi sem þarf með þjóðaátaki að leysa. Þessi vandi er sannanlegur munur á launum kvenna og karla. Hér hefur of lengi rekið á reiðanum. Það er mál að linni.
Ég þakka fyrir.