Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tæknin skiptir sköpum

Tölvumiðstöð fatlaðra
Tölvumiðstöð fatlaðra

Ágætu ráðstefnugestir.

Það er mér fagnaðarefni að fá tækifæri til að vera með ykkur á ráðstefnunni hér í dag þar sem viðfangsefnið er ný tækni og notkun hennar og gildi tækninnar fyrir þá sem hennar þurfa með til að geta átt samskipti við aðra á sem auðveldastan hátt. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Tæknin skiptir sköpum“. Það eru örugglega orð að sönnu. Í dag munum við hlýða á kynningar bæði notenda og þeirra sem starfa við að veita aðstoð við tæknilegar úrlausnir af ýmsum toga. Við munum sjá og heyra hvernig hægt er að nota tölvu sem tjáskiptatæki. Hvernig hægt er að nota ýmiss konar tæknibúnað til að auðvelda líf fólks svo það geti tekið þátt í lífi og starfi samfélagsins á sem auðveldastan hátt. Fjallað verður um hvernig blindir og sjónskertir nota tölvur, hvernig má nota táknmálsviðmót, hvernig tölvutækninni er beitt í daglegu lífi og hvernig nota má tölvu í skólastarfi á ýmsum skólastigum svo eitthvað sé nefnt.

Hér verður því boðið upp á ýmislegt sem gerir bæði lærðum og leikum kleift að skyggnast inn í hinn stórbrotna heim tækninnar þar sem ekkert virðist ómögulegt. Í raun eru takmarkanirnar fyrst og fremst í huga þeirra sem standa frammi fyrir því að finna verkefnunum farveg.

Stofnun Tölvumiðstöðvar fatlaðra fyrir um það bil 20 árum markaði tímamót í huga margra þeirra sem þurftu á ýmiss konar sértækum lausnum á sviði tölvumála að halda. Tölvumiðstöðin sem stofnuð var að frumkvæði Safír hópsins árið 1985 bar með sér mikla framsýni og skilning á mikilvægi tölvunnar sem tjáskiptatækis og hjálpartækis fyrir fjölda fólks sem auðveldaði því aðgengi að samfélaginu. Ég held að við getum öll horft til þess með aðdáun hver framsýnin var á þessum árum. Þegar við skoðum stöðu tölvunnar fyrir 20 árum síðan óraði fáa fyrir því hversu stórkostlegar breytingar ættu eftir að eiga sér stað á þessu sviði.

Blindrafélagið, Félag heyrnalausra, Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, ásamt Öryrkjabandalagi Íslands eiga því þakkir skildar fyrir þá forsjálni að sjá þá möguleika sem fólgnir voru í tölvutækninni.

Verkefni Tölvumiðstöðvarinnar hafa vitaskuld breyst og vaxið á undanförnum árum eftir því sem tölvunotkun hefur aukist. Kjarninn í starfseminni byggir á nokkrum meginþáttum. Þar er fyrst að nefna einstaklingsbundna ráðgjöf sem felur í sér mat á þörf fyrir tölvubúnað, val á búnaði, prófun hans og notkun. Í þessu sambandi er einnig unnið heildstætt þar sem höfð er samvinna um þróun lausna í samstarfi við þá aðila sem þurfa á búnaðinum að halda.

Í öðru lagi er það mikilvægt verkefni Tölvumiðstöðvarinnar að vera í ráðgefandi hlutverki gagnvart fjölmörgum fagstéttum, þ.m. t. iðjuþjálfum, þroskaþjálfum og foreldrum, og öðrum aðstandendum þeirra sem þurfa á þjónustu miðstöðvarinnar að halda. Í nánum tengslum við ráðgjöfina er námskeiðahald og önnur upplýsingamiðlun þar sem reynt er að koma á framfæri því sem efst er á baugi bæði hérlendis og erlendis.

Samtvinnun þeirra þátta sem fyrr eru nefndir er afar mikilvæg, eigi sem mestur árangur að nást.

Segja má að á síðustu árum hafi samfélagið þróast í þá átt að tæknilegar lausnir hafa sífellt öðlast viðameira hlutverk. Sú þróun mun halda áfram ef að líkum lætur. Horft er til áður óþekktra möguleika í upplýsingatækni sem fært gætu okkur öllum nýja sýn á lífið. Í þessari hröðu þróun er mikilvægt að sjónarhornið sé skýrt og vinnan sé markviss til þess að möguleikar, fjármunir og snjallar lausnir hverfi ekki frá okkur.

Það er ljóst að á næstu árum komum við til með að standa frammi fyrir mörgum áskorunum þar sem t.d. miklar lýðfræðilegar breytingar munu eiga sér stað. Fjölgun aldraðra mun m.a. hafa í för með sér aukna eftirspurn eftir hjálpartækjum og endurhæfingu þar sem möguleikar tölva munu geta veitt okkur aukið liðsinni. Markmiðið er að tryggja fullt aðgengi fyrir alla þjóðfélagsþegna þannig að þeir sem búa við skerta færni geti haft sömu möguleika til fullrar virkni og þátttöku og aðrir.

Tengsl tækni og notenda eru einnig á miklu breytingaskeiði. Tæknin og notkun hennar verður sífellt einstaklingsbundnari þar sem notandinn mun fá aukið hlutverk við að þróa tæknilausnir af ýmsu tagi. Í því tilliti eru margar áskoranir handan við hornið. Það er því mikið gleðiefni að sjá hversu vitund um það hvernig tæknilausnir hafa aukist, hvort sem við erum að ræða um möguleika tölvutækninnar beint eða annarra tengdra lausna og möguleika.

Við horfum til þess að draga með enn ákveðnari hætti fram möguleika slíkra hjálpartækja sem endurhæfandi þáttar í samfélaginu. Netið er og verður miðill fyrir allan almenning og á þess vegna að vera aðgengilegt fyrir alla. Aðgengilegt samfélag fyrir alla er hugmynd sem er raunhæf og mun örugglega verða viðurkennt markmið í allri samfélagsumræðu þegar til framtíðar er litið. Í samfélagi fyrir alla ber að líta á fötlun sem bilið milli getu einstaklingsins og möguleika hans til fullrar félagslegrar þátttöku. Í því tilliti skiptir skipan samfélagsins – m.a. tæknin – einmitt sköpum.

Tjáskipti eru grundvallarþörf hverrar manneskju svo hún geti skapað sér sjálfstæða búsetuhætti, notið samfélags við aðra og þar með lífsgæða. Hindranir á sviði tjáskipta gera kröfur um hjálpartæki sem geta komið á móts við misjafnar þarfir. Tæknin þróast hratt og eðlilegt er að hjálpartæki fylgi henni til þess að hægt sé að gera öllum kleift að taka þátt í samfélaginu á líkum forsendum.

Þróun tæknilausna fyrir fötluð börn fleygir líka stöðugt fram. Í því sambandi er mikilvægt að benda á þá möguleika sem felast í tölvutækninni til þess að auðvelda aðgengi að sértækum lausnum og samhæfa aðstoð hinna ýmsu þjónustukerfa þannig að sem bestur árangur náist.

Loks má nefna stöðu aldraðs fólks og fatlaðs á heimilum sínum. Markmiðið er að sem flestir búi heima og þjónustan komi í meira mæli inn á heimilið en raunin hefur verið á undanförnum árum. Aðstæður hér á landi eru um margt líkar því sem gerist á Norðurlöndunum og getum við því sótt margt til þeirra varðandi úrlausnir af ýmsu tagi. Það er því mikilvægt að við horfum til aukins samstarfs og samvinnu við Norðurlöndin þar sem við höfum einatt ekki þá reynslu sem aflað hefur verið þar. Fyrir suma hópa er norrænt samstarf því lykill að lausnum sem erfitt hefði verið að leysa á heimavettvangi.

Það má því með sanni segja að við Íslendingar stöndum frammi fyrir mörgum verkefnum á sviði tölva og tæknilausna þeim tengdum. Við þurfum að vera vakandi yfir þeim möguleikum sem við höfum og leita um leið samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir – innan lands sem utan – sem lagt geta lóð á þessar vogarskálar.

Ég óska Tölvumiðstöð fatlaðra innilega til hamingju með árin 20 og segi hér með ráðstefnuna „Tæknin skiptir sköpum“ formlega setta.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta