Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Karlar um borð

Karlar um borð
Frá ráðstefnu karla um jafnréttismál

Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti, forsætisráðherra, ráðstefnustjóri.

Ágætu ráðstefnugestir.

Til hamingju með daginn. Það er ánægjulegt að sjá hve margir karlar eru mættir hér á fullveldisdaginn til þessarar ráðstefnu. Fyrstu eiginlegu karla­ráðstefnunnar sem haldin er hér á landi um jafnréttismál, þar sem eingöngu eru karlar, með mikilvægri undantekningu þó. Ég leyfi mér að segja að það var kominn tími til. Það var kominn tími til að sú stund rynni upp að íslenskir karlar sýndu í verki að jafnréttismál skipta þá máli í raun og veru. Að við kæmum saman til að ræða þau mál okkar á milli. Ég hef orðið var við í störfum mínum að karlar hafa metnað fyrir hönd jafnréttisbaráttunnar en hafa ekki kunnað við eða viljað, jafnvel ekki þorað að mæta á ráðstefnur um málefnið þar sem þær hafa hingað til höfðað til kvenna. Nú mun það breytast og ekki síst vegna þess að konur vilja það einnig.

Karlar um borðFram til þessa hafa jafnréttismál verið álitin kvennamál og framlag karla í umræðunni hefur fyrst og fremst verið að fylgja í fótspor kvenna. Á því eru auðvitað mikilvægar undantekningar og sumar þeirra lifandi undantekninga eru hér með okkur í dag.

Á undanförnum árum og áratugum hefur jafnréttisbaráttan skilað okkur vel á veg, í rétta átt, undir handleiðslu vaskra kvenna. En það er ekki nóg að gert. Á það hefur skort að við karlar ræddum málin í okkar hópi og kryfðum þau til mergjar. Ég tel að við þurfum að brjótast út úr því fari, sem mér hefur stundum þótt bera á í umræðum, að við karlar lítum á okkur sem fórnarlömb jafnréttisbaráttunnar, jafnvel að hún beinist gegn okkur.

Við karlar höfum, ekki síður en konur, fært miklar fórnir til að viðhalda hefðbundinni verkaskiptingu kynjanna. Ég get nefnt dæmi: Hversu margir hér inni kannast ekki við að hafa „orðið“ að sleppa þátttöku í afmæli barna sinna, ekki getað farið með þeim á jólaskemmtanir, ekki verið heima þegar barnið kom með fyrstu einkunnirnar, ekki tekið þátt í foreldraviðtali, ekki getað verið heima hjá veiku barni, ekki náð því að horfa á afrek unnin á sviði íþrótta? Hverjir kannast ekki við að hafa ekki mátt vera að því að vera heima hjá nýfæddu barni, ekki gefið sér tíma til að lesa fyrir barn að kvöldi? Hversu margir vita hver er uppáhaldslitur barnanna þeirra, hvað þeim þykir best að borða, hvað það er sem þau þola síst? Hvað þau langar mest að fá í jólagjöf? Auðvitað gætu margar konur samsamað sig þessari lýsingu en karlarnir eru örugglega talsvert fleiri. Og er það þannig sem við viljum hafa þetta? Viljum við halda áfram að færa þessar fórnir eða erum við tilbúnir að standa með sjálfum okkur og gefa meira af okkur á þessu sviði?

Karlar um borðVið höfum eftir miklu að sækjast með auknu jafnrétti kynjanna. Auknum lífsgæðum, betra fjölskyldulífi, réttlátara samfélagi — fyrir okkur sjálfa en einnig syni okkar og dætur, eiginkonur og mæður. Jafnréttisbaráttan snýst um að bæta samfélagið og þess vegna er hún mál okkar karla ekki síður en kvenna.

Nú er það svo að löggjöfin í landinu á að vera kynhlutlaus og fullt jafnrétti tryggt í orði kveðnu. Við vitum að á það vantar á ýmsum sviðum og í því sambandi er launamunur kynjanna það sem sker hvað mest í mín augu. Um leið tel ég að það sé auðvelt að ráðast gegn honum og útrýma — ef menn bara hafa viljann að vopni. Þegar hefur verið tekið á því máli innan félagsmálaráðuneytisins og vinnan er hafin í undirstofnunum þess. Ég hef hvatt til þess að það sama gerist í öðrum ráðuneytum Stjórnarráðsins og ég vona sannarlega að sú áeggjan beri áþreifanlegan árangur á næstu mánuðum.

En einkamarkaðurinn er síður en svo undanskilinn. Ég greindi nýlega frá áformum sem ég hef um að koma á sérstakri gæðavottun jafnra launa. Slík vottun ætti að verða eftirsóknarvert verkfæri til að bæta og byggja upp ímynd fyrirtækja og þar með gera þau eftirsóknarverðari vinnustaði. Hugmynd þessari hefur verið afar vel tekið og nú þegar hafa fyrirtæki gert vart við sig og sýnt áhuga á að hljóta slíka vottun.

Ég hef nú skipað hóp af góðu fólki til þess að hrinda í framkvæmd vottun jafnra launa. Hópnum er ætlað að móta verklag og kerfi til þess að gera úttekt á launakerfi fyrirtækja og stofnana. Markmiðið er að með kerfinu verði unnt að kanna hvort kynbundinn launamunur sé fyrir hendi og reynist svo ekki vera hljóti fyrirtækið eða stofnunin umrædda vottun. Formaður hópsins er Orri Hlöðversson bæjarstjóri og með honum starfa þau Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Avion Group, Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Fanný Gunnarsdóttir, formaður Jafnréttisráðs, og Elín Blöndal, forstöðumaður Rannsóknarseturs í vinnurétti og jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Ég vænti þess að hópurinn ljúki störfum snemma í vor og að næsta sumar verði fyrstu vottanirnar að veruleika.

Ágætu ráðstefnugestir.

Framundan er athyglisverð ráðstefna þar sem er valinn maður í hverju rúmi. Við höfum lagt okkur fram um að skipuleggja hana með það í huga að hér eigi sér stað fjölbreytt nálgun að viðfangsefninu. Að hver og einn geti fundið hér umfjöllunarefni sem falla að áherslum hans og áhugasviði. Ég er þess fullviss þegar ég horfi yfir hópinn sem er saman kominn hér í dag að við erum að brjóta blað í sögu jafnréttisbaráttunnar.

Ég vona að þessi dagur marki upphafið að kröftugri umræðu karla um jafnréttismál. Að upp frá þessum degi tökum við virkan þátt í jafnréttisumræðunni og að við tökum á því sviði forystu á heimsvísu. Ég skora á ykkur að stíga um borð í þennan bát og leggjast í árarnar. Standa keikir með konum í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna á öllum sviðum og um allan heim. Karlar – um borð.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta