Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna um starfsmannaleigur

Ágætu ráðstefnugestir.

Á undanförnum áratugum hefur frekar lítið farið fyrir umræðum í þjóðfélaginu um það sem meðal annarra þjóða er kallað stefna í vinnumálum eða vinnumarkaðsmálum. Hvað felist í slíkri stefnu. Að hverju sé stefnt. Hvaða leiðir séu valdar til þess að ná settum markmiðum.

Mér finnst þetta miður. Aðrar þjóðir hafa lagt mikla áherslu á stefnu í vinnumálum og hún hefur í lýðræðissamfélögum verið tilefni pólitískra átaka eins og eðlilegt er. Í stuttu máli snýst stefna í vinnumálum um það að gera öllum sem vilja og geta kleift að taka virkan þátt í atvinnulífinu. Með öðrum orðum að beita tiltækum tækjum til að koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Stefna í vinnumálum snýr að því að starfsskilyrði og allur aðbúnaður sé með þeim hætti að vinnan veiti þá gleði og ánægju sem er forsenda þess að starfsmaður leysi starf sitt vel og samviskusamlega af hendi. Stefna í vinnumálum snýst um það að vinna gegn hvers kyns misrétti á vinnustöðunum og er launamisrétti þar með talið. Markvissar aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum er spurning um stefnu í vinnumálum. Það að gera einstaklingum kleift að taka virkan þátt í atvinnulífinu þrátt fyrir fötlun sína er einnig stefna í vinnumálum. Endurmenntun og starfstengd þjálfun sem gerir starfsmönnum kleift að takast á við nýja tækni eða ný viðfangsefni er líka spurning um stefnu í vinnumálum. Þetta eru örfá dæmi af mörgum um það hvað felst í stefnu í vinnumarkaðsmálum.

Ég nefni þetta hér vegna þess eina málið sem hefur fengið verulega umfjöllun í þjóðfélaginu undanfarin missiri og flokka má til vinnumarkaðsmála og stefnu í vinnumálum er starfsemi starfsmannaleiga hér á landi. Þótt hér hafi vissulega verið og sé á ferðinni mikilvægt málefni sem nauðsynlegt var að taka á má alls ekki gleyma því að málefni vinnumarkaðarins eru miklu fleiri og taka til margra þátta samfélagsins.

Ég vil því strax í uppihafi láta í ljósi þá von mína að sú ráðstefna vinnumarkaðssetursins hér að Bifröst sem hér er að hefjast marki upphafið að mun ítarlegri og málefnalegri umfjöllun um málefni vinnumarkaðarins en við höfum átt að venjast fram til þessa. Þau eru ekki einkamálefni þeirra sem við köllum aðila vinnumarkaðarins og þau snúast ekki eingöngu um krónur og aura þótt það reiptog sé vissulega mikilvægt.

Mig rekur ekki gjörla minni til þess hvenær ég heyrði fyrst nefnt orðið starfsmannaleiga. Ætli ég hafi ekki fyrst séð orðið fyrir einhverjum áratugum í viðtali við ónefndan íslenskan athafnamann sem hafði haslað sér völl í Suður-Afríku með því að leiga út hjúkrunarkonur. Ekki varð annað ráðið af viðtalinu en að sú starfsemi hafi verið blómleg og gefið eitthvað í aðra hönd, að minnsta kosti virtist þessi íslenski athafnamaður ekki vera á flæðiskeri staddur.

Það er ekki fyrr en ég sest í stól félagsmálaráðherra að fyrirbrigðinu ber aftur fyrir. Að þessu sinni í tengslum við virkjunarframkvæmdirnar við Kárahnjúka. Segja má að frá því framkvæmdirnar hófust fyrir austan hafi málefni starfsmannaleiga verið framarlega í forgangsröð málefna í félagsmálaráðuneytinu.

Við upphaf framkvæmdanna var mjög takmörkuð reynsla af starfsemi starfsmannaleiga. Þegar ég tók við embætti félagsmálaráðherra hafði einungis eitt mál af því tagi komið til kasta ráðuneytisins. Það verður að segjast eins og er að það vafðist fyrir mönnum að taka á því máli. Skýringin er sú, sem kemur fram í ágætri greinargerð sem tekin var saman af rannsóknarsetrinu í vinnurétti og jafnréttismálum, að ekki hafa og eru ekki í gildi lög um starfsemi starfsmannaleiga. Það var einfaldlega litið þannig á að þessi starfsemi væri óheimil og að alls ekki mætti heimta gjald af leigustarfsmönnum hér á landi. Þetta byggist á því að í lögum um vinnumiðlun frá árinu 1956 var lagt blátt bann við því að rekin sé vinnumiðlun í ágóðaskyni. Á þeim tíma var vinnumiðlun eingöngu á vegum sveitarfélaga. Þetta bann er afnumið árið 1969 og með lögum 1985 er opnað á það að fleiri en sveitarfélög geti haft milligöngu um ráðningar. En ætíð er tekið fram að það skuli gert atvinnuleitandanum að kostnaðarlausu. Af þessari ástæðu hefur félagsmálaráðuneytið ætíð litið svo á að óheimilt væri að heimta gjald af starfsmanni vegna milligöngu um ráðningu hvort sem hún fer fram á vegum Hagvangs, Mannaafls - Liðsauka eða starfsmannaleigu.

Það sem breytir aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði að þessu leyti er tilskipun 96/71/EB störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Efni tilskipunarinnar var tekið í íslenskan rétt með lögum nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja. Markmið tilskipunar er að skapa virkt umhverfi fyrir veitingu þjónustu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í henni kemur fram að þetta sé ekki hægt að gera nema fyrirtækin geti sent starfsmenn tímabundið til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis að EES-samningnum. Ákvæði EES-samningins um þjónustuviðskipti og tilskipun 96/71 opna gáttina fyrir starfsmannaleigunum.

Félagsmálaráðuneytið og stofnanir þess sem fjalla um vinnu- og jafnréttismál hafa áratugareynslu í samstarfi við hliðstæðar erlendar stofnanir. Að því er félagsmálaráðuneytið varðar hefur samstarfið við Alþjóðavinnumálastofnunina - ILO og nefndarstarf á vegum norrænu ráðherranefndarinnar verið þýðingarmest. Eitt af því sem hafði að vissu leyti háð þessu samstarfi var skortur á hagtölum um íslenska vinnumarkaðinn. Starfsgreinaskiptingin sem Hagstofan notaði var heimatilbúin og rímaði illa við starfsgreinaskiptingu ILO. Sama gilti um mælingu á vinnutíma. Kjararannsóknarnefnd notaði aðrar aðferðir við að reikna út vinnutíma en bæði ILO og OECD. Þar af leiðandi kom Ísland oft mjög einkennilega út í öllum samanburðarrannsóknum á vegum erlendra stofnana. Af þessu leiddi misskilning og leiðindi.

Með þessa reynslu í farteskinu var ákveðið að hafa í eitt skipti vaðið fyrir neðan sig. Á vettvangi Evrópusambandsins höfðu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar verði lagðar fram nokkrar tillögur að Evrópulöggjöf um starfssemi starfsmannaleiga eða réttindi starfsmanna á þeirra vegum. Fyrsta tillagan að tilskipun um þetta efni var lögð fram árið 1982. Tillögunni var breytt árið 1984 en hún náði aldrei fram að ganga. Það var engin tilviljun að framkvæmdastjórnin lagði fram tillögu að tilskipun um þetta efni. Það sama gilti um aðildarríki ESB og okkur Íslendinga. Frelsi til að veita þjónustu yfir landamæri hafði ýmsar hliðarverkanir sem að mati ýmissa voru óæskileg.

Árið 1995 ákvað framkvæmdastjórnin að beita ákvæðum sem heimila henni að beina málum til Evrópusamtaka aðila vinnumarkaðarins og fela þeim að taka málið á dagskrá í samningaviðræðum sín í milli. Í samningaviðræðunum kom fram stuðningur við það grundvallarsjónarmið að á þessu sviði væri nauðsynlegt að setja ákveðnar lágmarksreglur. Auðvitað voru skiptar skoðanir um umfang og inntak slíkra reglna og um formið. Hvort byggja ætti á kjarasamningi eða skuldbindandi Evrópulöggjöf. Árangurinn af þessum viðræðum var m.a. tilskipunin um starfsmenn með tímabundna ráðningarsamninga. Hins vegar tókust ekki samningar um að setja starfsemi starfsmannaleiga ákveðinn ramma.

Þegar sýnt þótti að Evrópusamtökum aðila vinnumarkaðarins tækist ekki að ná samkomulagi lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram á fyrri hluta árs 2002 nýja tillögu að tilskipun um starfsmannaleigur. Þessi tillaga hlaut misjafnar móttöku. Danir lýstu því strax yfir að þeir myndu ekki gera þetta að forgangsmáli í formennskutíð sinni í ESB. Hins vegar voru Hollendingar jákvæðari en þeir gegndu formennskunni seinni hluta árs 2004. Það þóttu því góðar líkur á því að innan ekki langs tíma yrðu settar samræmdar Evrópureglur á þessu sviði. Ekki væri ráðlegt að setja séríslenskar reglur sem ef til vill yrðu á skjön við ákvæði væntanlegrar Evrópulöggjafar. Þetta er ef til vill veigamesta ástæðan fyrir því að það dróst að hefja markvissa vinnu við að setja sérstakar íslenskar reglur um starfssemi starfsmannaleiga. Það kom hins vegar í ljós að bilið á milli aðildarríkja ESB í þessu máli hefur reynst óbrúanlegt og Evrópureglurnar hafa enn ekki séð dagsins ljós.

Þótt stjórnvöldum hafi þannig fundist það fýsilegri kostur að bíða eftir samræmdri Evrópulöggjöf um starfssemi starfsmannaleiga, sem má segja með nokkrum sanni að sé í eðli sínu alþjóðleg, er ekki þar með sagt að þau hafi setið með hendur í skauti. Á vettvangi EFTA og norrænu ráðherranefndarinnar var unnið að því að hnika málum áfram og safna upplýsingum sem síðar komu að góðu gagni.

Þegar sýnt þótti að ekki væri í bráð von á Evrópureglum um starfsmannaleigur var ákveðið að hefja smíði íslenskra reglna um þetta efni. Ljóst var að það stefndi í óefni ef ekkert yrði að gert. Bæði komu upp mál þar sem fram kom að réttur starfsmanna var mjög fyrir borð borinn. Einnig reyndist stjórnvöldum og hagsmunaaðilum nánast ókleift að sannreyna á óyggjandi hátt launakjör þessara starfsmanna.

Ég skipaði því starfshóp í ágúst 2004 til að fjalla um stöðu starfsmannaleiga á íslenskum vinnumarkaði Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins auk fulltrúa félagsmálaráðuneytisins. Enn fremur fól ég Rannsóknarsetrinu á Bifröst í apríl sl. að taka saman greinargerð um starfsmannaleigur hér á landi og erlendis. Endanleg útgáfa hennar var afhent 6. október sl. en þá höfðu ASÍ og SA verið gefin kostur á að gera við hana athugasemdir. Á þeim grundvelli var samið frumvarp til laga sem lagt var fyrir Alþingi. Mælt var fyrir frumvarpinu á mánudaginn þessari viku. Ég mun nú með nokkrum orðum gera grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins.

Fyrst vil ég taka fram að verði frumvarpið um starfsmannaleigur að lögunum er ekki gerð breyting á þeirri meginreglu sem ríkir á vinnumarkaði um að atvinnurekandi ráði starfsmann milliliðalaust ótímabundið í þjónustu sína. Frumvarpinu er með öðrum orðum ekki ætlað að raska þeim sveigjanleika við ráðningu starfsmanna sem hér er við lýði og margir telja að hafi auðveldað fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í rekstri. Á þessu eru auðvitað tvær hliðar. Þessi hlið snýr að fyrirtækjunum. Síðan er sú hlið sem snýr að starfsmönnum. Það er ljóst að hér á landi búa starfsmenn við minna öryggi varðandi uppsagnir en í mörgum öðrum Evrópuríkjum. Auðvitað verður að vega þetta saman og meta kosti og galla. Niðurstaðan hefur orðið sú að viðhalda þessum sveigjanleika. Ég vil einnig leggja á það áherslu að það er sameiginlegt markmið stjórnvalda og helstu samtaka á vinnumarkaði, þ.e Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, að ótímabundnir ráðningarsamningar sem gerðir eru milliliðalaust á milli starfsmanna stjórnenda fyrirtækja verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Þetta frumvarp breytir þar engu um.

Ég legg á það ríka áherslu að atvinnurekendur gangist við ábyrgð um að virða framangreinda meginreglu sem og aðrar þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Margt bendir til þess að samskiptareglur á íslenskum vinnumarkaði séu býsna góðar. Reynslan hefur sýnt samdráttarskeið í atvinnu- og efnahagsmálum síðustu áratugina hafa varað í fremur skamman tíma. Fyrirtækin hafa verið fljót að laga sig að breyttum aðstæðum. Nýráðningum hefur fljótt fjölgað í kjölfar uppsagna og atvinnuleysis. Hins vegar bjóða sveigjanleiki og rúmar reglur þeirri hættu heim að glufur í löggjöf séu nýttar til að ganga á svig við það sem menn hafa sammælst um eða um var samið í kjarasamningi. Þess vegna verða allir aðilar standa saman um þau gildi sem hafa þrátt fyrir allt ráðið í samskiptum samtakanna á vinnumarkaðnum. Það tapa allir á deilum, óþarfa núningi og óánægju. Forsenda hagsældar er að hjól atvinnulífsins snúist snurðulaust, tekjuskiptingin sé réttlát og samfélagsþjónustan í lagi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að starfsmannaleigur þurfi að hlíta upplýsingaskyldu gagnvart stjórnvöldum. Kveðið er á um það að í síðasta lagi átta dögum áður en starfsmannaleiga hefji starfsemi hér á landi skuli hún tilkynna Vinnumálastofnun um þá fyrirætlan. Starfsmannaleiga sem hyggst veita þjónustu á Íslandi lengur en í tíu virka daga á hverju tólf mánaða tímabili skal útnefna sérstakan fulltrúa sinn hér á landi. Vinnumálastofnun skal hafa tiltæka skrá yfir starfsmannaleigur sem hafa sinnt þessari tilkynningaskyldu sem er forsenda fyrir starfsleyfi hér á landi. Leigurnar þurfa einnig að láta í té tilteknar grunnupplýsingar um starfsmenn sem starfa á þeirra vegum.

Þessar skyldur eru óháðar því hvort starfsmannaleigan hafi staðfestu hér á landi eða veitir hér þjónustu með stoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég gerði fyrr í máli mínu að umtalsefni greiðslur starfsmanna til starfsmannaleiga. Í frumvarpinu er tekið af skarið varðandi þetta atriði. Lagt er til að starfsmannaleigum verði með öllu óheimilt að krefjast greiðslu frá starfsmönnum sem starfa á þeirra vegum og gildi þá einu hvort sú krafa er gerð við upphaf ráðningarsambands eða síðar.

Einnig er lagt til að líða þurfi a.m.k. sex mánuðir áður en starfsmannaleigu er heimilt að leigja út starfsmenn til fyrirtækis sem hann hefur áður starfað hjá. Með þessu er stefnt að því að koma í veg fyrir að fyrirtæki segi upp starfsmönnum til þess eins að endurráða þá í gegnum starfsmannaleigu. Þetta er mikilvægt til þess að viðhalda meginreglunni um milliliðalausa ótímabundna ráðningarsamninga á milli starfsmanns og atvinnurekanda. Þótt þessi kvöð verði lögð á starfsmannaleigu og hlutaðeigandi fyrirtæki hefur starfsmaðurinn full frelsi til að ráða sig til starfa hjá fyrirtækinu sem nýtti starfskrafta hans meðan hann var í þjónustu starfsmannaleigu. Með þeirri reglu er verið að nýta þann kost sem þrátt fyrir allt felst í ráðningu starfsmanns á vegum starfsmannaleigu. Það getur opnað starfsmanninum leið í hefðbundið ráðningarsamband og ótímabundið starf.

Eftirlit með framkvæmd laganna er hjá félagsmálaráðuneytinu eins og með öðrum lögum um málefni vinnumarkaðarins. Vinnumálastofnun gegnir hins vegar veigamiklu hlutverki varðandi framkvæmd þeirra. Að uppfylltum tilteknum skilyrðum er lagt til að stofnuninni verði veitt heimild til þess að óska eftir því að lögregla stöðvi tímabundið vinnu eða stöðvi starfsemi starfsmannaleigunnar þangað til úrbætur hafa verið gerðar. Reynsla undanfarna mánuði gerir það nauðsynlegt að veita stofnuninni þessa heimild.

Reynslan hefur einnig leitt í ljós að nauðsynlegt er að breyta öðrum lögum. Þannig er lagt til að heiti laga um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi verði breytt þannig að í stað orðsins “réttarstaða” komi orðið “starfskjör”. Með breytingunni er verið að draga fram meginatriði laganna en þau fjalla fyrst og fremst um starfskjör starfsmanna erlendra fyrirtækja sem eru sendir tímabundið hingað til lands til að veita þjónustu en starfa að jafnaði utan Íslands. Nokkrar aðrar breytingar eru gerðar á efni laganna sem miða að því að taka af tvímæli um það hvað telst til lágmarkskjara samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum.

Samkvæmt frumvarpinu eru einnig gerðar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Lagt til að óheimilt verði að veita atvinnuleyfi vegna starfa hjá starfsmannaleigum. Veiting atvinnuleyfis vegna starfa hjá starfsmannaleigum er ekki í samræmi lögin þar sem byggt er á þeirri meginreglunni á milliliðalaust ráðningarsamband á milli starfsmanns og atvinnurekanda.

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég hef í þessu ávarpi mínu gert grein fyrir tilurð frumvarps til laga um starfsmannaleigur. Ég hef í stuttu máli farið yfir viðleitni Evrópusambandsins til að setja samræmdar Evrópureglur um þetta svið vinnumarkaðarins. Þótt þessi starfsemi taki til þjónustu á landsvísu sýnir reynslan a.m.k. á Evrópska efnahagssvæðinu að hún gegnir vaxandi hlutverki í nánara samstarfi Evrópuríkja í efnahags- og atvinnumálum.

Það hefur verið afstaða íslenskra stjórnvalda að heppilegast hefði verið að samstaða hefði tekist með aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um að setja starfssemi starfsmannaleiga ramma sem gilti á öllu svæðinu. Íslensk stjórnvöld tóku af skarið þegar sýnt þótti að ekki mundi takast samstaða um að leysa málið við sameiginlegt borð aðildarríkja EES. Frumvarpið um starfsmannaleigur hefur verið samið í samstarfi við heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins. Í slíku samstarfi eru mismunandi sjónarmið sem endurspegla ólíka hagsmuni. Hlutverk stjórnvalda er að velja þá leið sem telja verður farsælasta fyrir þjóðfélagið í heild og aðilar geti búið við. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi tekist í því tilviki sem hér um ræðir. Hins vegar er rétt að undirstrika að Alþingi hefur síðasta orðið. Frumvarpið hefur verið lagt fyrir Alþingi og er til meðferðar þær. Það hefur löggjafarvaldið og niðurstaðan ræðst þar.

Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta