Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp við undirritun samnings um þjónustu við fatlaða á Norðurlandi vestra

Góðir gestir.

Mér er það mikil ánægja að undirrita hér í dag samning um þjónustu við fatlaða sem gerður hefur verið milli félagsmálaráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Þótt dimmt sé yfir á þessum skammdegisdögum er bjart yfir þessum samningi því hann byggir á gagnkvæmu trausti og trúnaði. Það helgast af þeirri reynslu sem er að baki, en nú eru liðin rúm sjö ár síðan fyrsti samningurinn af þessu tagi var undirritaður við sveitarfélögin á þessu landsvæði. Og það er til marks um þá reynslu og það traust sem hefur skapast á milli aðila að hann gildir nú til sex ára, allt til ársins 2012. Það má raunar einnig hafa til marks um þau viðhorf sem stöðugt vex fylgi að þjónusta við fatlaða sé best komin í heimabyggð fólks, hjá sveitarfélögunum eða samlögum þeirra.

Með samningnum taka Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra að sér að veita fötluðum börnum og fullorðnum á starfssvæði sínu þá þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Ég lít svo á að samningurinn sé afar mikilvægur fyrir þjónustu við fatlaða á svæðinu því meginmarkmið hans er að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna í heimabyggð og fella hana eins og framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila; færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Þetta er gert með meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármuna og aukin þjónustugæði að leiðarljósi.

Það er meðal nýmæla í þessum samningi að hann grundvallast meðal annars á nýrri stefnu félagsmálaráðuneytisins um þjónustu við fötluð börn og fullorðna sem nú er í burðarliðnum og verður kynnt stuttlega hér á eftir. Drög að þeirri stefnu er nú að finna á vefsíðu ráðuneytisins – ég segi drög vegna þess að þau eru þar til umsagnar allra þeirra sem láta sig málefni fatlaðra varða. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja fólk til þess að kynna sér þessi drög og setja fram ábendingar sínar og athugasemdir við þau eins og gefinn er kostur á á vefsíðunni.

Að lokum vil ég lýsa því yfir að samstarfið við samtök sveitarfélaga hér á svæðinu í þessum efnum hefur verið einkar farsælt og gjöfult og ég er þess fullviss að svo muni verða áfram.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta