Mótum framtíð - ávarp við setningu ráðstefnu um félagsþjónustu
Ágætu ráðstefnugestir, Dear guests from Scotland and Scandinavia.
Það er afar ánægjulegt hve margir hafa ákveðið að verja tíma til þess að fjalla um framtíð félagslegrar þjónustu hér á landi á þessari viðamiklu og glæsilegu ráðstefnu. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóg og gert hana að veruleika.
Ég tel brýnt að efna til slíkrar ráðstefnu einmitt nú þegar blásið hefur verið á ný auknu lífi í umræðuna um félagslega þjónustu hér á landi, skipulag hennar og innviði. Það á við um velferðarþjónustuna almennt. Áhugi á þessum málaflokki fer greinilega vaxandi. Hann er til marks um að við Íslendingar kjósum sem fyrr samfélagsgerð sem byggist á samhjálp og jöfnuði.
Framundan er umfangsmikið samvinnuverki ríkis og sveitarfélaga þar sem rætt er um hugsanlegan flutning málefna fatlaðra og málefna aldraðra til sveitarfélaga. Ítrekað hefur verið fjallað um mikilvægi þess að nærþjónusta verði flutt til sveitarfélaganna. Kannanir sýna að fyrir því er almennur stuðningur. Skýr afstaða kemur jafnframt fram í skorinorðri ályktun frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðastliðinni viku.
Ríkt hefur ánægja með verkefni sem byggja á samþættingu félagslegrar þjónustu á þessum sviðum og heilbrigðisþjónustu sem veitt er af hálfu ríkisins. Þeir sem við eigum að þjóna hverju sinni spyrja ekki hver veitir þjónustuna heldur hvort hún sé fyrir hendi og hve góð hún er.
Þjónustuna nær fólki
Við eigum að færa þjónustuna nær fólki, færa hana frá stofnunum inn á heimili fólks eins og kostur er. Almenn samstaða er um að öldruðu fólki sé gert kleift að halda eigið heimili eins lengi og kostur er, einnig þótt það þarfnist aðstoðar með heimaþjónustu og heimahjúkrun.
Sama gildir um fatlað fólk. Að það eigi kost á sjálfstæðu heimilishaldi með því einkarými sem stenst kröfur um friðhelgi einkalífsins, hvernig sem fötlun þess er háttað. Krafa dagsins í þessum efnum snýst því ekki síst um sjálfræði, mannlega reisn og friðhelgi. Mannréttindi sem við teljum öll sjálfsögð.
Þessi viðhorf endurspeglast vel í nýrri stefnu félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna, sem frekar verður fjallað um hér á ráðstefnunni. Hið sama á við um stefnu og framkvæmdaáætlun um að bæta verulega þjónustu við geðfatlað fólk. Þau sjónarmið sem ég hef nefnt kalla að sjálfsögðu líka á samþættingu félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og í mörgum tilvikum einnig skólakerfis þar sem mörkin milli þessara þjónustukerfa eru einatt óljós. Sú samþætting er eitt meginþema þessarar ráðstefnu og því vil ég fagna.
Mér er fullkunnugt um að sveitarfélögin veita þegar margvíslega félagsþjónustu af djörfung og dug en ættum við ef til vill að stíga skrefið til fulls í þeim efnum: Fela sveitarfélögunum slíka þjónustu að fullu og samþætta hana heilbrigðisþjónustu eins og verða má? Ég tel að það sé skynsamlegt, svo fremi að um það náist samkomulag milli þeirra aðila er í hlut eiga.
Umtalsverðar breytingar
Umtalsverðar breytingar hafa orðið á fjölskyldumynstri og heimilishaldi sem gera auknar kröfur um samfélagslega þjónustu. Áður hefðbundið hlutverk kvenna við umönnun barna, eldra fólks og þeirra sem búa við veikindi er á hröðu undanhaldi. Æ fleiri konur taka eðlilega virkan þátt í atvinnulífinu og mennta sig til þess ekki síður en karlar. Það hefur aukið kröfur um að umönnunin sé hluti af ábyrgð samfélagsins. Við því þarf að bregðast, meðal annars með aukinni samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu.
- Fámenni og strjálbýli kalla á sameiningu krafta þeirra sem veita félagslega þjónustu og heilsugæslu. Verkefni í félagslegri þjónustu eru sums staðar orðin fleiri og flóknari en svo að lítil þjónustukerfi ráði við þau svo vel sé. Aukin samþætting yrði styrkur í því tilliti.
- Lýðfræðilegar breytingar eiga sér stað meðal þjóðarinnar og enn frekari breytingar eru fyrirsjáanlegar. Þær felast einkum í breyttri aldurssamsetningu – hlutfallslegri fjölgun eldra fólks – en einnig því að innflytjendum hefur fjölgað mjög.
- Þess er að vænta að Ísland verði fjölmenningarþjóðfélag í æ ríkari mæli. Allt þetta mun auka kröfur um sveigjanleika og fjölbreytni velferðarþjónustu. Í því efni má telja að staðbundin og samþætt þekking og reynsla muni nýtast best.
- Einsýnt er að því heildstæðari sem þjónustan er þeim mun meiri líkur eru á að hún verði skilvirk og hagkvæm og árangur í samræmi við það. Það tel ég að verði best gert með heildstæðri félagsþjónustu í heimabyggð, samþættri við heilbrigðisþjónustu eins og unnt er. Þörf er á staðbundinni og aðgengilegri nærþjónustu sem tekur mið af einstaklingsbundnum þörfum. Þeir sem eru staðkunnugir eru líklegastir til að finna hentugustu úrræðin. Það eru raunar helstu rökin fyrir því að almenn félagsþjónusta er viðfangsefni sveitarfélaga en ekki ríkis.
Í nokkrum tilvikum hafa sveitarfélög eða samtök þeirra tekið alfarið að sér þjónustu við fatlaða innan sinna vébanda með sérstökum samningi við félagsmálaráðuneytið og samþætt hana við aðra félagslega þjónustu við íbúa sína. Það er mat margra sveitarstjórnamanna að í meginatriðum hafi sú tilhögun tekist vel og sé röksemd fyrir frekari þróun í þá veru.
Eru þá engir ókostir við þá samþættingu sem ég hef hér fjallað um? Því verður að svara játandi. Einkum hefur verið bent á tvennt í því sambandi:
- Eins og skipan sveitarfélaga er nú eru mörg hinna minni bæði fjárhagslega og faglega vanburðug til þess að veita þjónustu á borð við þá sem fatlað fólk og aldrað þarfnast. Forsenda fyrir breytingu þar á er að umtalsverð sameining minni sveitarfélaga eigi sér stað. Óvíst er hvort svo verði í bráð í nægjanlegum mæli. Samlög sveitarfélaga hafa verið mynduð í þessu skyni en bent hefur verið á að stjórnsýsluleg staða þeirra sé óljós og að einstök sveitarfélög hafi ekki áhrif í samræmi við stærð sína.
- Fram hefur komið að á móti kostum nærþjónustu vegi sá ókostur að sumu fólki sé óljúft að sækja þjónustu vegna fötlunar sinnar til sveitarfélags síns, einkum hinna fámennu, einmitt vegna nálægðarinnar. Því þyki erfiðara að sækja slíka aðstoð í svo þröngu samfélagi, kostnaðurinn við hvern einstakling sé greinanlegri, og þá geti orðið stutt í að farið sé að líta á viðkomandi sem byrði á samfélaginu. Meðan greiðslur koma úr sameiginlegum sjóði landsmanna væri þessi hætta síður fyrir hendi.
Niðurstaða mín er sú að kostirnir við að færa þjónustu við fatlað fólk og aldrað að mestu leyti til sveitarfélaganna séu ókostunum yfirsterkari og að samþætta eigi hana heilbrigðisþjónustunni eins og verða má.
Breytingar í þessa veru varða alla aðila málsins: Notendur fengju betri þjónustu, veitendum þjónustunnar yrði gert auðveldara fyrir við störf sín og greiðendur – stjórnvöld og skattborgarar – myndu sjá skattfé betur varið.
Ég mun vissulega leggja mitt af mörkum til þess að sú geti orðið raunin enda hefur sú stefna verið mörkuð með afgerandi hætti hvað varðar fatlaða í hinni nýju stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra.
Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Eins og ég gat um í upphafi samþykkti landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga ályktun í fyrri viku sem styður eindregið yfirfærslu þjónustu við fatlaða og aldraða til sveitarfélaganna hið fyrsta. Á árlegum samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga sem haldinn var 16. febrúar síðastliðinn var ákveðið að hefja formlegar viðræður um að sveitarfélög taki að sér verkefni sem ríkið hefur á sinni könnu. Var einkum rætt um málefni fatlaðra og aldraðra. Ég vil upplýsa hér í því sambandi að ég skipaði í fyrri viku verkefnisstjórn sem hefur það að meginverkefni að fjalla um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarmála. Hún lýtur forystu Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra.
Þessi verkefnisstjórn mun einnig stýra vinnu tveggja nefnda sem fjalla eiga um verkaskiptingu á sviði málefna fatlaðra annars vegar og hins vegar á sviði þjónustu við aldraða. Ég hef þegar skipað í nefndina sem fjallar um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði málefna fatlaðra og mun Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, stýra starfi hennar.
Þessir hópar munu taka til starfa nú þegar þannig að það er augljós gróska í þeim málefnum sem ég hef hér verið að fjalla um og eru meginþema þessarar ráðstefnu. Vonandi munu frekari tillögur í þessum efnum líta dagsins ljós sem fyrst.
Nýr samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra
Ágætu ráðstefnugestir.
Svo vill til að morgundagurinn er afar markverður í réttindabaráttu fatlaðra á alþjóðavísu. Þá hefst undirritun ríkja að nýjum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað á árinu 2001 að samin yrðu drög að samningi um að vernda og efla réttindi og virðingu þeirra sem búa við fötlun. Unnið var að því verki næstu árin af hálfu fulltrúa aðildarríkjanna, mannréttindasamtaka, alþjóðlegra félaga og hagsmunasamtaka fatlaðra. Félagsmálaráðuneytið fylgdist vel með þessu starfi og tók þátt í því.
Í ágúst 2006 náðist samkomulag um drög að samningi í þessa veru og ákváðu yfir 100 þátttökulönd að leggja samningsdrögin fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
Þessi alþjóðlegi réttindasamningur mun auka rétt og frelsi fatlaðra einstaklinga í öllum heimsálfum, en í meirihluta ríkjanna er ekki fyrir hendi sérstök löggjöf um málefni fatlaðra.
Ég tel að samningur þessi kveði á um raunverulegar réttarbætur þar sem hann skýrir réttarstöðu fatlaðra og kveður skýrt á um rétt þeirra til að standa jöfnum fæti við aðra í samfélaginu. Til þess þarf að tryggja aðgang allra að samningnum með því að þýða hann á íslensku. Þannig geta allir sem áhuga hafa kynnt sér hann og veitt með honum það aðhald sem ætlast er til. Unnið er að þýðingunni.
Samningurinn var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006. Á morgun, 30. mars, verður opnað fyrir undirritun hans í höfuðstöðum Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar með geta aðildarríkin staðfest sáttmálann með undirritun sinni. Honum er ætlað að öðlast gildi 30 dögum eftir að ríkin sem hafa staðfest hann eru orðin að minnsta kosti 20 talsins. Með samningnum er einnig sérstök viðbótarbókun sem staðfesta þarf sérstaklega. Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir því við utanríkisráðuneytið að það undirritaði hinn nýja samning og viðbótarbókunina fyrir hönd Íslands.
Félagsmálaráðuneytið leggur ríka áherslu á að samningur Sameinuðu þjóðanna um rétt þeirra sem búa við fötlun fái þá mikilvægu viðurkenningu sem honum ber. Því er brýnt að undirrita hann af Íslands hálfu nú þegar.
Ég mun leggja áherslu á að heildarsamtök fatlaðra, þ.e. Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp, muni bæði koma að því eftirliti og aðhaldi hér á landi sem gert er ráð fyrir í samningnum. Fjallað verður nánar um fyrirkomulag þess í tengslum við fullgildingu eða lögfestingu samningins.
Í mörgum löndum hefur verið horft til fatlaðra sem einstaklinga sem þarfnist einkum félagslegrar verndar og samúðar fremur en virðingar. Þessi nýi samningur er mikilvægt skref í þá átt að breyta eldri og úreltum viðhorfum til fatlaðs fólks í þeim efnum og tryggja því félagslega viðurkenningu og fjölbreytt tækifæri.
Þau aðildarríki sem undirrita samninginn skuldbinda til sig til þess að innleiða mælikvarða sem efla mannréttindi fatlaðra og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun. Þær skyldur kveða á um löggjöf í þeim efnum. Auk þess er rík áhersla lögð á samráð við hagsmunasamtök fatlaðra þegar stefnumiðum eða verkefnum er breytt. Enn fremur er fjallað um mikilvægi aðgengis fatlaðra að fjölmiðlum og fjarskiptatækni.
Mikill ávinningur kann að hljótast af aðild að þessum nýja samningi og ákvæðum hans. Þótt verðmæti mannréttinda og virðingar gagnvart þeim sem búa við fötlun verði ekki metin á hlutlægan mælikvarða er ljóst að umtalsverð verðmæti felast í því að eiga þess kost að geta lifað samkvæmt væntingum sínum um verðugt líf og fullgilt hlutverk í samfélaginu. Þeir fái þannig tækifæri til þess að vera jafnt starfsmenn, neytendur og skattgreiðendur, rétt eins og aðrir þegnar samfélagsins.
Stefnumótun ráðuneytisins á lokastigi
Góðir ráðstefnugestir.
Ég verð að stytta mál mitt því hátt í hundrað aðrir þurfa að komast að! Áður en ég lýk máli mínu vil ég geta þess að undanfarið hefur verið unnið að því að leggja lokahönd á nýja stefnu félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna. Þetta hefur verið mjög viðamikið verk sem hefur verið í mótun allt frá haustdögum 2004.
Undanfarna mánuði hafa drög að stefnunni verið til kynningar á vefsíðu ráðuneytisins og leitað var með tölvupósti til hundruða aðila sem beðnir voru að segja álit sitt á henni. Jafnframt hafa þau á undanförnum mánuðum verið kynnt sveitarfélögum og samtökum þeirra og meðal annars leitað formlegrar umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. En það er jafnframt mikilvægt að ríkisvaldið móti sér stefnu í þessum efnum til þess að skýra af sinni hálfu hvert það telur að stefna beri og hver markmið þess séu þegar kemur að samningum við sveitarfélög landsins um framkvæmdaþáttinn. Þessi stefnumótun mun reynast góður grunnur í þeirri umfjöllun sem framundan er um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga.
Þessi nýja stefna verður kynnt sérstaklega síðar í dag auk þess sem ég vil vísa til hennar á vefsíðu ráðuneytisins.
Ég vil að lokum þakka farsælt samstarf við þá sem standa að þessari ráðstefnu ásamt félagsmálaráðuneytinu: Norrænu ráðherranefndina, Velferðarssvið Reykjavíkurborgar, Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Rauða kross Íslands, Samtökin Ís-Forsa og fjölmargra hagsmunaaðila sem láta sig varða félagslega þjónustu.
Þakka ykkur fyrir og gangi ykkur vel í áhugaverðum verkefnum í dag og á morgun.