Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp á ársfundi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna

Góðir ársfundargestir.

Það er sérstakt ánægjuefni að fá að ávarpa ykkur aðstandendur og velunnara Ráðgjafarstofunnar hér í dag þegar farið er yfir starfið á liðnu ári og horft til framtíðar.

Ráðgjafarstofan er um margt sérstök. Hún starfar sem óháður aðili og tengir saman 15 aðila í farsælu ráðgjafar- og leiðbeiningarstarfi sem varað hefur í rúm 11 ár. Ég held að hvergi í víðri veröld sé að finna samsvarandi samstarf ríkisins við lánastofnanir, kirkjuna, launaþegasamtök, sveitarfélög og fleiri um að aðstoða fólk sem lent hefur í greiðsluvandræðum.

Ráðgjafarstofan hefur unnið brautryðjendastarf á mörgum sviðum og komið með tillögur til úrbóta til stjórnvalda líkt gert er í dag í ársskýrslunni. Fjárhagsráðgjöf byggð á viðmiðunarneyslu var algjör nýlunda fyrir rúmum 11 árum þegar Ráðgjafarstofan lagði það til grundvallar ráðgjöf ásamt heildaryfirliti yfir skuldirnar. Fjölmargir aðilar bæði á vegum ríkisins sem og almennar lánastofnanir hafa byggt mat á framfærsluþörf og greiðslugetu á grunni sem Ráðgjafarstofan lagði á sínum tíma.

Nefnd sem Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, skipaði til að kanna hvort framkvæmanlegt væri að semja neysluviðmið fyrir Ísland svipað og gert hefur verið á Norðurlöndunum skilaði niðurstöðum í október í fyrra. Skýrslan er mjög mikilvæg fyrir þróun aðgerða og úrbóta í málum skuldsettra á Íslandi. Niðurstaðan er að gerð neysluviðmiðunar fyrir Ísland sé framkvæmanleg. Á ársfundi Ráðgjafarstofunnar 2005 var íslensk neysluviðmiðun aðalviðfangsefnið.

Þörf fyrir ný úrræði

Í starfsemi Ráðgjafarstofu hefur komið í ljós þörf fyrir ný úrræði vegna lausnar á greiðsluerfiðleikum einstaklinga til frambúðar. Því má ekki gleyma að greiðsluerfiðleikar hjá fjölskyldum eru mikið alvörumál í þjóðfélaginu sem kosta alla aðila mikið, þ.e. einstaklinginn, kröfuhafann og samfélagið í heild. Það er því til mikils að vinna að finna úrræði sem gefur einstaklingum annað tækifæri og til að sanna að það sé hægt að vinna sig út úr þessum erfiðleikum. En hvar þrengir að? Ráðgjafarstofan hefur meðal annars vakið athygli á fjölgun viðskiptavina undanfarin ár meðal ungs fólks. Einnig á stöðu einstæðra mæðra sem hafa verið fjölmennasti hópur viðskiptavina frá upphafi starfs Ráðgjafarstofu og stöðu einhleypra karla með háar skatta- og meðlagsskuldir, en fjöldi þeirra meðal viðskiptavina hefur farið stigvaxandi milli ára.

Ég tel að skoða eigi kosti þess að setja sérstaka löggjöf um úrræði vegna greiðsluerfiðleika svipað og frændur okkar á Norðurlöndunum eru með langa reynslu af. Mikilvægt er að mínu viti að tryggja skuldara viss réttindi meðan unnið er að greiðslu skulda samkvæmt sérstöku samkomulagi. Nauðsynlegt er að tryggja skuldurum samningsrétt, rétt til að halda eftir ákveðnu lágmarki tekna til að geta séð sér farborða og heimilisrétt sem tryggir húsnæði sem uppfyllir lágmarkskröfur. Hugmyndir þessa efnis hef ég rætt við viðskiptaráðherra sem skipaði nefnd þann 5. mars síðastliðinn til að vinna drög að frumvarpi til sérstakra laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt skipunarbréfi á nefndin að hafa hliðsjón af norrænni löggjöf og reynslu af lagaframkvæmd um sambærileg úrræði.

Það er því mikið fagnaðarefni að Ráðgjafarstofan hefur kosið að ræða þessi mál í dag og gefa okkur kost á að skyggnast inn um gluggann hjá Norðmönnum og heyra hvernig þeir standa að málum. Löggjöfin um skuldaaðlögun á Norðurlöndunum hefur marga kosti í för með sér bæði fyrir skuldarann og kröfuhafa en ekki síst fyrir samfélagið í heild. Það sem er jákvætt við þetta úrræði er að skuldaranum er gert kleift að standa í skilum og hjálpað til við að komast úr erfiðleikunum, oftast án þess að til gjaldþrots komi. Fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans skiptir þó mestu máli að skuldaaðlögun getur komið í veg fyrir upplausn heimilanna og þá óhamingju sem því fylgir. Fyrir lánardrottna aukast líkur á því að þeir fái að minnsta kosti hluta skuldanna greiddan. Í raun er þetta því beggja hagur. Samfélagið hagnast einnig þar sem með því að opna einstaklingum leið út úr verulegum greiðsluerfiðleikum má spara útgjöld fyrir ríkið og sveitarfélögin.

Hér á landi var farin sú leið að setja lög um sérstaka réttaraðstoð, lög um einstaklinga sem leita nauðasamninga, nr. 65/1996. Hér á eftir verður fjallað um reynsluna af þessum lögum. Ég tel fulla ástæðu til að meta árangur þessa úrræðis og kanna kosti þess að setja sérstaka löggjöf um skuldaaðlögun svipaða og á Norðurlöndunum.

Aukin greiðslugeta, minni vanskil

Jafnvægi milli skulda og eigna heimilanna er meira í dag en þegar Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína fyrir rúmum 11 árum. Stórlega hefur dregið úr vanskilum og greiðslugeta aukist. Í árdaga Ráðgjafarstofunnar annaði hún engan veginn eftirspurn enda voru erfiðleikar meiri og erfiðari. Til að gefa vísbendingu um breytta stöðu heimilanna má nefna að 1. janúar 1996 voru 11,8% lántakenda hjá forvera Íbúðalánasjóðs, Húsnæðisstofnun, með vanskil sem voru þriggja mánaða og eldri. Samsvarandi hlutfall þann 1. janúar síðastliðinn var 1,1%. 

Það er mikið ánægjuefni að sjá að lækkun matarskattsins er farin að skila sér í pyngju almennings og mun án efa nýtast vel þeim hópi sem þarf að kljást við greiðsluerfiðleika. Aðilar vinnumarkaðarins og Neytendasamtökin hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar í þessu sambandi með hertu verðlagseftirliti.

Þrátt fyrir bættan hag þjóðarinnar hefur Ráðgjafarstofan enn mikilvægu hlutverki að gegna sem sterkur bakhjarl þeirra sem lenda í greiðsluvandræðum af ýmsum orsökum. Breyttar forsendur í lífinu vegna veikinda eða skilnaða eða tekjumissis eru algengustu orsakir greiðsluerfiðleika þeirra sem hafa leitað til Ráðgjafarstofunnar. Við eigum í nútímavelferðarþjóðfélagi að efla aðgerðir og úrræði fyrir þá sem verða fyrir skakkaföllum í lífinu.

Framhald á starfsemi Ráðgjafarstofu

Núgildandi þriggja ára samningur rennur út í upphafi næsta árs. Ég hef lýst því yfir að ég vilji beita mér fyrir áframhaldandi starfsemi og skilst mér að afstaða aðila að samningum sé jákvæð um framhald. Framundan er að endurskoða samkomulagið og móta starfsemina næstu árin. Með hliðsjón af því að yngra fólk hefur leitað í meira mæli til stofunnar og þeim fjölgar sem nefna vankunnáttu í fjármálum sem ástæðu vanda tel ég einboðið að freista þess að nýta Ráðgjafarstofuna meira til fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerða. Einnig er mikilvægt að mínu mati að kanna hvort auka megi þjónustu Ráðgjafarstofunnar við sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka framkvæmdastjórn Ráðgjafarstofunnar fyrir gott starf og sérstaklega vil ég þakka starfsfólki Ráðgjafarstofunnar sem hefur unnið erfitt og árangursríkt starf.

Megi Ráðgjafarstofan starfa áfram til heilla fyrir okkur öll.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta