Tímamót
Heimildarmyndin „Tímamót“, sem er sýnd í Háskólabíói sunnudaginn 15. apríl, lýsir tímamótum í lífi Guðjóns Árnasonar, Sigurbjörns Guðmundssonar og Steinþórs Edvardssonar sem bjuggu saman á vistheimilinu Tjaldanesi í Mosfellsdal um áratugaskeið uns því var lokað og þeir komu sér fyrir á nýjum stað og aðlöguðust nýju lífi.
Kvikmyndagerðarmennirnir fylgdu þeim eftir á þriggja ára tímabili og fylgdust með breytingum á lífi þeirra og högum.
Heimildarmyndin lýsir öðrum þræði tímamótum í opinberri þjónustu. Hún sýnir vegferð fatlaðra einstaklinga frá búsetu á svokallaðri „altækri“ stofnun utan skipulagðrar íbúðarbyggðar til búsetu í almennu íbúðarhverfi þar sem fatlaðir og ófatlaðir eiga samleið í fjölbreytileika daglegs lífs.
Í byrjun þótti einhverjum sá kostur óhugsandi að þessir menn, sem búsettir voru á Tjaldanesi, ættu einhverja möguleika á því að flytjast þaðan. Fötlun þeirra væri mikil og það þyrfti að vernda þá frá áreiti umhverfisins og umhverfið fyrir þeim.
Þeir sem vildu breytingar á þessari stöðu þurftu að berjast við viðhorf sem áttu sér langa sögu og voru rótgróin í samfélagsvitundinni.
Með tilkomu nýrra hugmynda á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var þó farið að hreyfa þeim spurningum hvort ekki væri eðlilegt og rétt að þeir sem byggju við aðstæður eins og þær sem voru á Tjaldanesi gætu átt þess kost að flytja þaðan og velja aðra búsetu við hæfi. Um aldamótin komst skriður á málið. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi tók þar öflugt frumkvæði í góðu samstarfi við þá sem bjuggu á Tjaldanesi, foreldra þeirra, aðstandendur og starfsfólk og réðst í það verkefni sem myndin „Tímamót“ lýsir.
Á þremur til fjórum árum var Tjaldanesheimilið selt, íbúum þess boðið upp á nýja valkosti í búsetu og atvinnu og hverjum og einum gefið tækifæri til að takast á við lífið á eigin forsendum. Kjarni málsins er að allir, fatlaðir sem ófatlaðir, eigi þess kost að eiga verðugt líf. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessu verkefni fyrir framlag þeirra og þá sérstaklega starfsfólki Svæðisskrifstofu Reykjaness.
Guðjóni, Sigurbirni og Steinþóri óska ég alls góðs, bæði í daglegu lífi og á hvíta tjaldinu.