Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp á málþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um málefni innflytjenda

Ágætu gestir.

Mér er sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þetta málþing Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um stefnumótun í málefnum innflytjenda. Hér er spurt hvort við tökum nógu vel á móti þeim öfluga mannauði sem felst í nýjum Íslendingum.

Nálgunin ber víðsýni og mannúð vitni. Spurt er eðlilegra spurninga. Ákvarðanir og aðgerðir eiga að byggjast á upplýstri umræðu og fræðslu.

Yfirskrift málþingsins er nýir Íslendingar – öflugur mannauður. Með auknum fjölda innflytjenda á undanförnum árum hefur mannauður á Íslandi sannarlega aukist. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var hlutfall erlendra ríkisborgara hér á landi um 3,6% árið 2004 en 6% árið 2006. Hér á svæði Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi er hlutfallið svipað eða um 5,4%. Á bak við þessar hlutfallstölur eru margar vinnufúsar hendur sem framkvæmdagleði og bjartsýni íslenskra atvinnurekenda hafa kallað hingað til lands. Það er sjálfsagt að taka vel á móti þeim og velta því fyrir sér hvernig best sé að því staðið.

Frjáls för launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins fylgir grunnlögmálum markaðarins. Þangað flytur vinnuaflið sem atvinnu er að fá. Um þessar mundir er atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara meiri á Íslandi en víða annars staðar. Í ársbyrjun 2007 er áætlað að um 10% fólks á innlendum vinnumarkaði séu erlendir ríkisborgarar. Nokkur hluti þeirra sem hingað koma kýs að setjast hér að til frambúðar ásamt fjölskyldum sínum. Þess vegna verðum við að búa svo um hnútana að þessir einstaklingar aðlagist samfélaginu til að koma í veg fyrir fordóma og mismunun. Við þurfum einnig að huga að aðlögun íbúa þessa lands að fjölmenningarlegu samfélagi.

Gagnkvæm virðing er lykillinn að aðlögun þeirra sem hingað koma og okkar hinna sem hér erum fyrir. Ég hitti í gær fulltrúa Kanadamanna sem hafa getið sér gott orð fyrir innflytjendastefnu sína. Þeir tjáðu okkur að þeirra innflytjendastefna byggðist fyrst og fremst á mannauðssjónarmiðum. Þegar talað sé um aðlögun innflytjenda að samfélaginu í Kanada eigi það bæði við um innflytjendurna sjálfa og Kanadamenn. Báðir aðilar vinni að því að nýta sér mannauðinn sem felst í okkur öllum. Það finnst mér skynsamleg nálgun. Þá var okkur jafnframt tjáð að þeir innflytjendur sem hefðu aðlagast best væru þeir sem hefðu í senn hlúð að eigin rótum og lagt áherslu á að aðlagast kanadísku samfélagi.

Greining Fjölmiðlavaktarinnar

Umræðan um málefni innflytjenda hér á landi hefur að langmestu leyti verið á skynsamlegum nótum. Greining sem ég fól Fjölmiðlavaktinni að gera á umfjöllun fjölmiðla um innflytjendamál og erlent launafólk á árinu 2006 sýnir að opinber umræða er alla jafna hófstillt og málefnaleg. Slík umræða um viðkvæm málefni sem varðar heill og hamingju fjölskyldna í landinu er eftirsóknarverð. En á þessu voru því miður undantekningar.

Stjórnvöld voru sökuð um að opna landið um of fyrir erlendu verkafólki og fullyrt var að það hefði skelfilegar afleiðingar. Greining Fjölmiðlavaktarinnar sýnir hve ómarkviss þessi umræða hefur verið. Hún fjallaði um innflytjendur almennt fremur en erlent verkafólk og málefni þess. Auk þess var hún til þess fallin að skapa neikvætt viðhorf gagnvart innflytjendum og nokkuð bar á kynþáttafordómum. Þótt jákvæð umræða hafi mælst jafnmikil neikvæðri umræðu í þessari pólitísku orrahríð sýnir samantekt Fjölmiðlavaktarinnar svart á hvítu hve mikilvægt það er að gæta orða sinna í þessu sambandi og fara rétt með staðreyndir.

Á vettvangi eins og þessum hér í dag gefst tækifæri til að leiðrétta ranghugmyndir um að mál sem varða innflytjendur og aðbúnað þeirra, íslenskt velferðarkerfi og vinnumarkaðinn lúti hvorki skipulagi né séu tekin föstum tökum. Málefnaleg og upplýsandi umræða er til þess fallin að eyða tortryggni og koma réttum skilaboðum og staðreyndum á framfæri.

Ný skoðanakönnun gefur vísbendingar um að rúmlega helmingur landsmanna vilji strangari reglur um búsetu útlendinga hér á landi. Þessi niðurstaða færir okkur heim sanninn um að enn sé verk óunnið við að upplýsa almenning um þau lög og reglur sem eru í gildi. Fyrr á kjörtímabilinu sættu stjórnarflokkarnir harðri gagnrýni á Alþingi fyrir að setja of ströng skilyrði fyrir innflytjendur, hér væru að ósekju meiri takmarkanir en hjá nágrannaþjóðum okkar.

Með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld meðal annars skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og bætt starfsskilyrði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta hefur meðal annars þá þýðingu að sérhver ríkisborgari annars aðildarríkis nýtur þeirra réttinda að ráða sig til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis. Íslensk stjórnvöld hafa áréttað þessar skuldbindingar um forgang ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það var meðal annars gert með sameiginlegri yfirlýsingu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra þegar í september 2005. Það var líka gert samhliða lagabreytingum 1. maí 2006 þar sem ríkisborgurum þeirra tíu ríkja sem gerðust aðilar að samningunum um Evrópska efnahagssvæðið var veitt aukið aðgengi að innlendum vinnumarkaði.

Þessi skýra stefna íslenskra stjórnvalda um forgang ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins að innlendum vinnumarkaði hefur leitt til þess að frá september 2005 hefur útgefnum dvalar- og atvinnuleyfum til ríkisborgara ríkja utan svæðisins fækkað verulega.

Ekki skilyrði til takmörkunar

Þess misskilnings gætir að unnt sé að grípa til neyðarúrræðis í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að hefta frjálsa för launafólks til landsins. Vissulega er til staðar ákveðin heimild í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem heimilar aðildarríkjum að grípa til ákveðinna ráðstafana ef viss skilyrði eru fyrir hendi. Þau felast meðal annars í neikvæðum afleiðingum frjálsrar farar launafólks á vinnumarkað viðkomandi ríkis. Engin slík skilyrði eru hins vegar fyrir hendi hér á landi nú.  Auk þess er vert að hafa í huga að ef gripið yrði til þessa neyðarúrræðis myndu Íslendingar glata dýrmætum réttindum sínum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem samningurinn felur ekki bara í sér skyldur fyrir okkur Íslendinga heldur einnig mikil réttindi. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Jafnframt hef ég orðið var við það í kosningabaráttunni að farið sé fram á að Alþingi setji lög til að tryggja að ekki verði grafið undan íslenskum vinnumarkaði og kjarasamningar brotnir. Ég vil benda á að í desember síðastliðnum lagði ég fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga í þeim tilgangi að styrkja innviði vinnumarkaðarins og stöðu erlends launafólks hér á landi. Með því er tryggt að erlent launafólk sem sent er tímabundið til Íslands í tengslum við veitingu þjónustu njóti sambærilegra kjara og réttinda og íslenskt launafólk. Frumvarp þetta var síðan samþykkt sem lög frá Alþingi á síðustu dögum þingsins nú í vor. Þessi lög ganga langt í þessu efni og í þeim felast ýmis mikilvægi nýmæli.

Enn fremur þótti nauðsynlegt að samhæfa aðgerðir stjórnvalda í málefnum innflytjenda. Við því var brugðist í ráðuneytinu með skipun á sérstöku ráði, innflytjendaráði, til að vera stjórnvöldum innan handar. Ráðið samdi drög að stefnu um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi sem ríkisstjórnin samþykkti. Þetta er í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin markar sér stefnu í þessum efnum.

Í stefnunni er fjallað um íslenskunám fyrir fullorðna, miðlun og öflun upplýsinga, atvinnumál og atvinnuþátttöku, menntamál, heilbrigðisþjónustu og hlutverk sveitarfélaga. Sett eru fram markmið og skilgreindar leiðir til að ná þeim.

Sveitarfélög huga í auknum mæli að stefnumótun á þessu sviði og njóta þar dyggrar aðstoðar Fjölmenningarsetursins sem er starfrækt á Ísafirði og Alþjóðahússins í Reykjavík. Þessar stofnanir vinna gott og þarft starf í því að efla þjónustu við fólk af erlendum uppruna og greiða götu þess í ýmsum skilningi.

Ég vil nefna í framhaldi af þessu að félagsmálaráðuneytið hefur hlotið afar jákvæð viðbrögð gagnvart aðlögun flóttamanna hér á landi. Þau verkefni hafa verið unnin í góðri samvinnu við Rauða krossinn og þau sveitarfélög sem tekið hafa á móti flóttamönnum hverju sinni. Alþjóðaflóttamannastofnunin hefur óskað eftir því að fá að nýta sem fyrirmynd „hið íslenska módel“ sem var þróað á Ísafirði. Það felst meðal annars í því að hver flóttamannafjölskylda fái íslenska stuðningsfjölskyldu úr sínu nánasta umhverfi. Þetta undirstrikar að mínu mati þýðingu góðrar samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar móttöku flóttamanna og innflytjenda. Jafnframt undirstrikar þetta mikilvægi góðrar samvinnu innflytjenda og þeirra sem fyrir eru við aðlögun beggja.

Ný verkefni

Ég sé fyrir mér að vinnubrögð okkar hvað varðar móttöku flóttamanna verði yfirfærð á aðlögun innflytjenda almennt. Ég hef því ákveðið að styðja sérstök aðlögunarverkefni á tveimur stöðum á landinu í tilraunaskyni árin 2007 og 2008.  Þau eru annars vegar í Bolungarvík fyrir Vestfirði og í Fjarðabyggð fyrir Austurland.

Verkefnin felast í því að tryggja að nýir Íslendingar finni að þeir séu velkomnir og að þeir fái sömu tækifæri og aðrir til að búa sér og sínum fjölskyldum farsæla framtíð. Þannig hvetjum við nýja Íslendinga best til að læra að meta menningu okkar og siði og til að leggja sig fram um að taka fullan þátt í samfélaginu.

Þessi tvö verkefni eru meðal fjölmargra verkefna sem við munum vinna að á næstunni. Við þurfum öll að leggja hér hönd á plóg. Við munum uppskera eins og við sáum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta