Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra við undirritun þjónustusamnings við Norðurþing

Góðir gestir.

Mér er það mikið ánægjuefni að staðfesta hér í dag endurnýjun þjónustusamnings um þjónustu við fatlaða milli félagsmálaráðuneytisins og Norðurþings auk þess sem ég mun staðfesta samkomulag varðandi búsetu- og stoðþjónustu fyrir fólk sem býr við geðfötlun í Þingeyjarsýslum.

Það er liðinn rúmur áratugur frá því að Húsavíkurkaupstaður og skömmu síðar Héraðsnefndin urðu meðal fyrstu sveitarfélaga til þess að gera þjónustusamning við ráðuneytið. Norðurþing mun samkvæmt samningi þessum taka að sér að veita þá þjónustu sem Héraðsnefndin sinnti áður.

Nýr samingur byggist á góðri reynslu

Þessi nýi samningur gildir til þriggja ára eða til ársloka 2009. Samningurinn er til marks um þá jákvæðu reynslu sem er að baki og það gagnkvæma traust og trúnað sem skapast hefur með farsælu og gjöfulu samstarfi. Það má raunar einnig hafa til marks um þau viðhorf sem stöðugt vex fylgi að þjónusta við fatlaða sé best komin í heimabyggð fólks, hjá sveitarfélögunum eða samlagi þeirra. Með því móti gefst tækifæri til þess að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna annarri félagslegri þjónustu, færa hana nær notendunum og auðvelda þannig aðgang að henni. Ég er þess fullviss að sú tilhögun er til þess fallin að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og auka þjónustugæði.  

Þessi nýi samningur felur í sér ýmis nýmæli sem vert er að nefna hér. Í honum er gerð grein fyrir framtíðarsýn, grundvallarsjónarmiðum og markmiðum sem fram koma í hinni nýju stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra sem búa við fötlun, enda er gert ráð fyrir að tekið skuli mið af þeim atriðum við framkvæmd samningsins. Þá er þar að finna, í samræmi við hina nýju stefnu, ákvæði um svonefndan notendagrunn. Það er rafrænn gagnagrunnur, sem ráðuneytið mun leggja til þar sem verður að finna samræmdar upplýsingar um þjónustuþarfir allra notenda þjónustunnar.

Hvað börn varðar skulu þar liggja fyrir þarfir fyrir skammtímaþjónustu, stuðningsfjölskyldur, viðeigandi ráðgjöf, þjálfunaráætlanir, eftirfylgd, endurmat og önnur stuðningsúrræði. Um fullorðna skal liggja fyrir mat á þörfum fyrir stuðning til búsetu og atvinnu auk stoðþjónustu af öðru tagi. Notendagrunnurinn verður notaður jafnt til þess að meta þarfir einstaklinga sem til almennra starfsáætlana.

Gert er ráð fyrir að á þessu ári og því næsta verði þarfir allra notenda metnar, bæði þeirra er þegar njóta þjónustu og nýrra notenda. Það verður gert með nýju bandarísku þjónustumatskerfi sem ráðuneytið hefur látið þýða og leggur þjónustuaðilum til. Því er ætlað að leiða í ljós þjónustuþarfir fatlaðs fólks, bæði hvers konar þjónustu er þörf og í hve miklum mæli.

Þá eru í samningnum ákvæði um gæðaeftirlit, bæði hvað varðar stjórnskipulag og gæði þjónustunnar og reglulegt mat á árangri. Jafnframt er gert ráð fyrir að sett séu fram árlega staðbundin stefnumið í samræmi við hina nýju stefnu ráðuneytisins og áherslur félagsmálaráðherra á hverjum tíma. Það verður gert í samstarfi við ráðuneytið.

Óhætt er að fullyrða að þessi nýi þjónustusamningur sé fyllri og vandaðri en sá sem fyrir er og fyllilega í takti við nýjustu áherslur og viðmið í gæðamálum og vönduðum stjórnsýsluháttum.

Aukin þjónusta við geðfatlaða

Eins og ég nefndi í inngangi hefur samkoma okkar tvíþættan tilgang. Vík ég nú máli mínu að samkomulagi um aukna þjónustu við fólk sem býr við geðfötlun.

Aðstæður og réttindamál geðfatlaðs fólks hafa verið í brennidepli undanfarin misseri. Þörf er fyrir fjölbreyttari þjónustuúrræði sem auka lífsgæði fólksins og mikilvægt er að efla áhrif notenda sjálfra á þjónustuna. Sjónarmið er varða félagsleg áhrif á eðli, framvindu og umfang geðfötlunar hafa verið viðurkennd og hugmyndum um að færa beri þjónustu við fólk með geðraskanir út í samfélagið, frá hefðbundnum sjúkrastofnunum, vex fylgi.  Þannig megi rjúfa einangrun, efla sjálfstæði fólksins og virkja reynslu þeirra og þekkingu til batahvetjandi viðfangsefna.

Í ljósi þessa hef ég sem félagsmálaráðherra í samstarfi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tekið frumkvæði til þess að tryggja fjármuni til átaks í uppbyggingu þjónustu við geðfatlað fólk. Þeim fjármunum verður varið á grundvelli  stefnu og framkvæmdaáætlunar 2006-2010 vegna átaks í þjónustu við geðfatlað fólk sem ráðuneytið hefur mótað í samstarfi við notendur þjónustunnar, aðstandendur og hagsmunafélög geðfatlaðs fólks, sérfræðinga og fagfólk starfandi við málaflokkinn. 

Samkomulagið er í þremur liðum.

Ég nefni fyrst verkefni til að koma á fót og reka endurhæfingu og dagþjónustu (geðræktarmiðstöð) í Þingeyjarsýslum undir heitinu Setrið. Starfsemi Setursins byggir á samþættingu á félagslegri þjónustu, þjónustu við fatlaða, heilbrigðisþjónustu á geðsviði og samfélagsþjónustu. Ég vil sérstaklega fagna þeirri miklu samstöðu og þeim lifandi áhuga sem þetta verkefni nýtur í þingeysku samfélagi en samstarfsaðilar við framkvæmd verkefnisins eru Húsavíkurdeild Rauða kross Íslands og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga auk fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga. Fyrir þetta vil ég sérstaklega þakka.

Þá er samið um uppbyggingu búsetu í einstaklingsíbúðum fyrir þrjá einstaklinga.  Framkvæmdahópur mun undirbúa og stýra verkefninu. Húsnæðið verður tekið í notkun eigi síðar en á árinu 2009.

Einnig gerir samkomulagið ráð fyrir stuðningi til að efla frekari liðveislu (sértæka þjónustu) í þremur leiguíbúðum fyrir einstaklinga sem búa við geðfötlun.

Heildarfjármunir sem átaksverkefnið leggur fram á samningstímanum eru 54,7 milljónir. Við það mun síðan bætast stofnframlag vegna búsetu sem samið verður um á grundvelli tillagna framkvæmdahópsins sem ég nefndi áðan.

Samstarf um velferð

Góðir tilheyrendur.

Það er mikilvægt fyrir fólkið í landinu að ríki og sveitarfélög geti unnið vel saman að velferðarverkefnum. Ég vil þakka Norðurþingi fyrir afar ánægjulegt og gott samstarf við undirbúning þeirra samninga sem hér hafa verið staðfestir. Ég ítreka að það er afar ánægjulegt að vera með ykkur í dag og fá tækifæri til að undirrita þessa samninga sem ég tel að marki ákveðin tímamót í þjónustu við fatlað fólk hér á svæðinu. Ég óska þess að sumarið sem nú fer í hönd verði ykkur öllum sólríkt og sú þjónusta sem hér er skotið stoðum undir vermi og efli þá sem hennar njóta og þá sem hana veita.

Góðar stundir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta