Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp við undirritun þjónustusamnings um geðfatlaða á Egilsstöðum

Góðir gestir.

Við erum hér saman komin í dag til að undirrita samkomulag um aukna þjónustu við fólk sem býr við geðfötlun. Það er táknrænt og ánægjulegt að fá þetta tækifæri nú þegar vorið fer í hönd, daginn lengir og birtir í hug og hjarta.

Aðstæður og réttindamál geðfatlaðs fólks hafa verið í brennidepli undanfarin misseri. Þörf er fyrir fjölbreyttari þjónustuúrræði er auka lífsgæði fólksins og mikilvægt að efla áhrif notenda sjálfra á þjónustuna. Sjónarmið er varða félagsleg áhrif á eðli, framvindu og umfang geðfötlunar hafa verið viðurkennd og hugmyndum um að færa beri þjónustu við fólk með geðraskanir út í samfélagið – frá hefðbundnum sjúkrastofnunum – vex fylgi. Þannig megi rjúfa einangrun, efla sjálfstæði fólksins og virkja reynslu þeirra og þekkingu til batahvetjandi viðfangsefna.  

Í ljósi þessa hef ég sem félagsmálaráðherra í samstarfi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tekið frumkvæði til að tryggja fjármuni til átaks í uppbyggingu þjónustu við geðfatlað fólk. Þeim fjármunum verður varið á grundvelli stefnu og framkvæmdaáætlunar 2006–2010 vegna átaks í þjónustu við geðfatlað fólk sem ráðuneytið hefur mótað í samstarfi við notendur þjónustunnar, aðstandendur og hagsmunafélög geðfatlaðs fólks, sérfræðinga og fagfólk starfandi við málaflokkinn.

Þríþætt samkomulag

Samkomulagið sem við undirritum í dag er í þremur liðum. Ég nefni fyrst uppbyggingu búsetu sem er ígildi fjögurra leiguíbúða ásamt starfsmannaaðstöðu. Búsetuúrræðið verður hluti af húsnæðiskosti fyrir fatlaða á svæðinu öllu og nýtt í samstarfi við svæðisskrifstofuna. Þannig er unnt að tryggja sveigjanleika í búsetutilboðum sem er afar mikilvægt á víðfeðmu þjónustusvæði eins og Austurland er.  

Þá er samið um stuðning við þróunarverkefni til að koma á fót félags- og vinnuaðstöðu fyrir fólk með geðraskanir og geðfötlun. Við þróun og mótun þjónustunnar verður lögð áhersla á þátttöku og virkni notenda og aðstandenda þeirra. Ég vil sérstaklega fagna þeirri miklu samstöðu og þeim lifandi áhuga sem þetta verkefni nýtur í austfirsku samfélagi. Samstarfsaðilar í þróunarverkefninu eru Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs, Félagsþjónusta Fjarðabyggðar, Heilbrigðisstofnun Austurlands, deild Geðhjálpar á Austurlandi og Austurlandsdeild Rauða kross Íslands. Það er dýrmætt fyrir eitt samfélag að búa yfir svo ríkri samkennd sem birtist í þessu samstarfi. Ég óska ykkur til hamingju með það.  

Einnig er í samkomulaginu stuðningur til að auka frekari liðveislu í búsetu við fólk sem býr við geðfötlun. Þetta framlag átaksverkefnisins gerir Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi kleift að ráða fleira fagfólk til starfa.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum

Góðir tilheyrendur. Á þessari hátíðarstundu langar mig til að nota tækifærið og fagna stofnun Þekkingarseturs á Egilsstöðum en samningar um stofnun þess voru undirritaðir síðastliðinn laugardag.

 Hér er á ferðinni mikilvægt átak til að efla vísinda- og rannsóknastarfsemi á Austurlandi sem getur lagt grunn að staðbundnu háskólanámi á svæðinu.  Þekkingarsetrið mun stuðla að aukinni nýsköpun í atvinnulífinu og skapa skilyrði fyrir frekari þróun þekkingarsamfélags á Austurlandi.

Það er sérstakt ánægjuefni að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Austurlandi skuli vera þátttakandi í þessu mikilvæga verkefni. Á svæðisskrifstofunni er mikill brunnur þekkingar hvað varðar félagslega þjónustu sem ausa má af. Einnig veitir samstarfið starfsfólki skrifstofunnar aðgang að þekkingu sem aðrar stofnanir á öðrum sviðum búa yfir. Þannig sameinast kraftar margra til að styrkja enn frekar samfélag á Austurlandi.

Góðir tilheyrendur.

Ég ítreka að það er afar ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag og fá tækifæri til að undirrita þetta samkomulag um eflingu þjónustu við fólk sem býr við geðfötlun. Ég óska þess að sumarið sem nú fer í hönd verði ykkur öllum sólríkt og sú þjónusta sem hér er skotið stoðum undir vermi og efli þá sem hennar njóta og þá sem hana veita.

Góðar stundir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta