Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur við Sveitarfélagið Hornafjörð um þjónustu við fatlaða

Góðir gestir,

Mér er það mikið ánægjuefni að staðfesta hér í dag endurnýjun þjónustusamnings um þjónustu við fatlaða milli félagsmálaráðuneytisins og sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það er liðinn rúmur áratugur frá því að Hornafjörður varð meðal fyrstu sveitarfélaga til þess að gera slíkan samning við ráðuneytið. Með honum tók Hornafjörður að sér að veita fötluðum börnum og fullorðnum á starfssvæði sínu þá þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Þessi nýi samningur gildir til sex ára, allt til ársins 2012. Það er til marks um þá jákvæðu reynslu sem er að baki og það gagnkvæma traust og trúnað sem skapast hefur með farsælu og gjöfulu samstarfi. Það má raunar einnig hafa til marks um þau viðhorf sem stöðugt vex fylgi að þjónusta við fatlaða sé best komin í heimabyggð fólks, hjá sveitarfélögunum eða samlögum þeirra. Með því móti gefst tækifæri til þess að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna annarri félagslegri þjónustu, færa hana nær notendunum og auðvelda þannig aðgang að henni. Ég er þess fullviss að sú tilhögun er til þess fallin að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og auka þjónustugæði.  

Þessi nýi samningur felur í sér ýmis nýmæli sem vert er að nefna hér. Í honum er gerð grein fyrir framtíðarsýn, grundvallarsjónarmiðum og markmiðum sem fram koma í hinni nýju stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra sem búa við fötlun, enda er gert ráð fyrir að tekið skuli mið af þeim atriðum við framkvæmd samningsins. Þá er þar að finna, í samræmi við hina nýju stefnu, ákvæði um svonefndan notendagrunn. Það er rafrænn gagnagrunnur, sem ráðuneytið mun leggja til, þar sem verður að finna samræmdar upplýsingar um þjónustuþarfir allra notenda þjónustunnar. Hvað börn varðar skulu þar liggja fyrir þarfir fyrir skammtímaþjónustu, stuðningsfjölskyldur, viðeigandi ráðgjöf, þjálfunaráætlanir, eftirfylgd, endurmat og önnur stuðningsúrræði. Um fullorðna skal liggja fyrir mat á þörfum fyrir stuðning til búsetu og atvinnu, auk stoðþjónustu af öðru tagi. Notendagrunnurinn verður notaður jafnt til þess að meta þarfir einstaklinga sem til almennra starfsáætlana.

Gert er ráð fyrir að á þessu ári og því næsta verði þarfir allra notenda metnar, bæði þeirra er þegar njóta þjónustu og nýrra notenda. Það verður gert með nýju bandarísku þjónustumatskerfi sem ráðuneytið hefur látið þýða og leggur þjónustuaðilum til. Því er ætlað að leiða í ljós þjónustuþarfir fatlaðs fólks, bæði hvers konar þjónustu er þörf og í hve miklum mæli.

Þá eru í samningnum ákvæði um gæðaeftirlit, bæði hvað varðar stjórnskipulag og gæði þjónustunnar og reglulegt mat á árangri. Jafnframt er gert ráð fyrir að sett séu fram árlega staðbundin stefnumið í samræmi við hina nýju stefnu ráðuneytisins og áherslur félagsmálaráðherra á hverjum tíma. Það verður gert í samstarfi við ráðuneytið.

Ég tel að lokum óhætt að fullyrða að þessi nýi þjónustusamningur sé fyllri og vandaðri en sá sem fyrir er og fyllilega í takti við nýjustu áherslur og viðmið í gæðamálum og vönduðum stjórnsýsluháttum. Ég er þess jafnframt fullviss að hann muni stuðla að áframhaldandi farsælu samstarfi sveitarfélagsins Hornafjarðar og ráðuneytisins á þessu málasviði.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta