Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. ágúst 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tryggur, nýr þjónustuvefur Tryggingastofnunar ríkisins, tekinn í notkun

Góðir gestir, stjórnendur og annað starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins.

Tryggingastofnun ríkisins siglir nú hraðbyri inn í upplýsingaöldina, tæknivæðist og gerist æ nútímalegri. Hér er verið að taka í notkun nýjan þjónustuvef stofnunarinnar með það markmið að leiðarljósi að stórbæta þjónustu við viðskiptavini, efla hana og gera aðgengilegri.

Tryggur er gott heiti á þjónustuvefnum og ég er viss um að hann á eftir að verða dyggur þjónn viðskiptavina stofnunarinnar. Dómnefnd sem valdi besta nafnið úr tillögum starfsmanna mun hafa sagt um vinningstillöguna að Tryggur vekti öryggistilfinningu hjá fólki, nafnið væri sígilt og vinalegt nafn á íslenskum fjárhundi, traustum vini eiganda síns sem væri boðinn og búinn til að hjálpa til, gæta fjár eiganda síns og smala því saman eftir þörfum. Þetta fellur vel að tilgangi þjónustuvefjarins og því vel til fundið.

Tölvunotkun meðal Íslendinga er með því mesta sem gerist í heiminum. Þeim fjölgar stöðugt sem nýta sér kosti rafrænnar þjónustu og ná á því góðum tökum og mér skilst að hér á landi sé eftirspurn eftir rafrænni þjónustu hins opinbera mun meiri en framboðið. Rafræn skil á skattframtölum sýna þetta betur en nokkuð annað, en skilin hafa farið langt umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Ég tel víst að enginn myndi vilja hverfa frá því fyrirkomulagi til fyrra horfs.

Fyrstu skref Tryggs verða að halda utan um greiðsluyfirlit og tekjuáætlanir og gera bráðabirgðaútreikninga á greiðslum til viðskiptavina Tryggingastofnunar. Fyrir viðskiptavini verður það gífurleg framför að geta fengið tafarlausan bráðabirgðaútreikning og áttað sig þannig á stöðu sinni hverju sinni. Smám saman mun þjónusta Tryggs aukast og er stefnt að því að nær öll þjónusta verði í boði á þjónustuvefnum eftir fáein ár. Þeir sem ekki sjá sér fært að nota þjónustuvefinn munu auðvitað getað gengið að þjónustu starfsmanna Tryggingastofnunar vísri eftir sem áður, þannig að áhersla verður lögð á að veita öllum greiðan aðgang að þjónustu, hvort sem þeir nota vefinn, símann eða mæta í eigin persónu.

Tryggingastofnun ríkisins hefur stundum sætt ámæli fyrir að vera þunglamaleg og að erfitt sé að nálgast þjónustu hennar. Þjónustuvefurinn Tryggur trúi ég að muni leiða til verulega bættrar þjónustu stofnunarinnar við viðskiptavini og styrkja innra starf hennar.

Annað mál er það að Tryggur getur auðvitað ekki einfaldað almannatryggingakerfið og þær flóknu reglur um samspil margvíslegra þátta sem liggja til grundvallar greiðslum almannatrygginga. Einföldun þess kerfis er hins vegar brýn nauðsyn og að því er unnið af verkefnisstjórn sem ég skipaði til að skila tillögum um nýskipan almannatrygginga. Tillögur hennar eru væntanlegar undir lok þessa árs.

Ég óska starfsmönnum Tryggingastofnunar og viðskiptavinum hennar til hamingju með nýja þjónustuvefinn, um leið og ég þakka þeim sem ég veit að hafa unnið hörðum höndum að því að þróa vefinn og koma hugmyndinni í framkvæmd.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta