Þjónustusamningur við Reykjavíkurborg um þjónustu við geðfatlaða
Ávarp félags- og tryggingamálaráðherra við undirritun yfirlýsingar og þjónustusamnings við Reykjavíkurborg um þjónustu við geðfatlaða
Borgarstjóri og aðrir góðir gestir.
Það er ástæða til að gleðjast í dag og fagna merkum áfanga í þjónustu við geðfatlaða í Reykjavík. Að undanförnu hefur verið unnið ötullega að því að skapa trausta umgjörð um þá ákvörðun að flytja þjónustu við geðfatlaða frá ríki til borgar.
Afraksturinn lýtur hér dagsins ljós þar sem fyrir liggur þjónustusamningur ráðuneytisins við borgina um að hún taki nú þegar að sér mikilvæg verkefni í þjónustu við geðfatlaða.
Jafnframt liggur fyrir yfirlýsing þess efnis að borgin taki að sér framkvæmd allrar þjónustu við geðfatlaða á næsta ári. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun á samningstímanum verja 850 milljónum króna í stofnkostnað og rekstur vegna þeirra verkefna sem borgin tekur að sér samkvæmt þjónustusamningnum.
Þetta er viðamesta verkefni sem ríkið flytur yfir til sveitarfélaga á sviði þjónustu við geðfatlaða.
Stóra spurningin sem mestu varðar snýst auðvitað um það hvað þetta þýðir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda?
Svarið er þetta: Borgin tekur nú þegar að sér uppbyggingu þjónustu- og búsetuúrræða sem hingað til hefur verið sinnt á vegum Straumhvarfa sem er átaksverkefni á þessu sviði á vegum ríkisins. Framkvæmdum í Reykjavík verður flýtt og lýkur þegar á næsta ári í stað ársins 2010. Með þessu leysist vandi 44 geðfatlaðra einstaklinga sem hingað til hafa ýmist búið á stofnunum, hjá aðstandendum eða í óviðunandi húsnæði vegna skorts á búsetuúrræðum með viðeigandi þjónustu.
Yfirlýsing ráðuneytisins og borgarinnar snýr að því að borgin taki að sér framkvæmd allrar þjónustu við geðfatlaða um næstu áramót en nú þegar hefur 61 geðfatlaður einstaklingur í Reykjavík fengið búsetuúrræði við hæfi, meðal annars vegna tilstuðlan Straumhvarfa. Þegar þetta verkefni er að fullu komið til framkvæmda hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tekið að sér þjónustu við 105 geðfatlaða einstaklinga og ég fullyrði að eftir þessar breytingar munu þeir njóta heilsteyptari og betri þjónustu en áður.
Það sem mestu skiptir er að þjónustan verður á einni hendi, samþætt og þar með aðgengilegri fyrir notendur. Að baki þessum breytingum liggur sú hugmyndafræði sem mótuð hefur verið hjá Straumhvörfum í samvinnu við hagsmunasamtök geðfatlaðra að færa beri þjónustu við fólk með geðraskanir eftir því sem kostur er út í samfélagið frá hefðbundnum sjúkrastofnunum. Þannig sé unnt að rjúfa einangrun, efla sjálfstæði fólksins og virkja reynslu þeirra og þekkingu til batahvetjandi viðfangsefna.
Átaksverkefnið Straumhvörf nær til 160 íbúa á landinu öllu sem útvega átti búsetuúrræði ásamt sérhæfðum stuðningi og stoðþjónustu sem lýtur að atvinnu, menntun, endurhæfingu og annarri dagþjónustu. Verkefnistími Straumhvarfa er nú hálfnaður og þegar er búið að taka í notkun eða semja um kaup á húsnæði fyrir 136 einstaklinga á landinu öllu. Til þeirra verkefna hefur verið ráðstafað um 2 milljörðum króna í stofnkostnað og rekstur.
Ég trúi því og veit að Reykjavíkurborg mun axla þá ábyrgð sem hér um ræðir af metnaði og standa undir væntingum okkar allra um að með þessu sé stigið stórt skref fram á við í þjónustu við gefðfatlaða í borginni.
Það er ekki nokkur vafi á því að í náinni framtíð verður málefnum fatlaðra í heild sinni sinnt af sveitarfélögum. Sú er stefna ríkisstjórnarinnar og að henni er unnið af krafti. Áfanginn sem við fögnum hér í dag er mikilvægt skref í þessa átt. Hér er um eðlilega nærþjónustu að ræða sem á best heima hjá sveitarfélögunum, rétt eins og félagsþjónustan er á þeirra ábyrgð.
Þannig eyðum við þeirri óvissu sem notendum stafar af skiptri ábyrgð og óljósri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þannig byggjum við upp gott og heildstætt þjónustunet fyrir fatlaða sem ófatlaða og hættum að aðgreina þjónustu við fólk. Með því stuðlum við að blönduðu samfélagi þar sem fólk nýtur þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir sínar og aðstæður og þannig vinnum gegn fordómum.
Þjónustusamningurinn og yfirlýsingin sem eru til undirritunar hér í dag eru mikilvægt skref í þá átt að flytja ábyrgð á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna, færa þannig þjónustuna nær íbúunum og efla sveitarstjórnarstigið.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem unnið hafa að undirbúningi og gerð þjónustusamningsins sem og yfirlýsingunni. Ég veit að ómæld vinna liggur að baki. Borginni óska ég velfarnaðar á vegferð sinni með nýjum og mikilvægum verkefnum sem ég veit að hún mun sinna með sóma. Síðast en ekki síst vil ég þakka forsvarsmönnum samtaka og hagsmunafélaga geðfatlaðra fyrir þátttöku og mikilvæga aðkomu við gerð stefnumótunar og mótun hugmyndafræði varðandi málefni geðfatlaðra og þjónustu við þá.
Á grundvelli þessarar hugmyndafræði var ráðist í Straumhvarfaverkefnið á sínum tíma og vegna þess erum við stödd á þessum mikilvægu tímamótum hér í dag.
Ég óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju.