Tuttugasti og fimmti landsfundur jafnréttisnefnda
Góðir landsfundargestir.
Það er mér bæði heiður og ánægja að fá að ávarpa ykkur sem eins konar hlutgervingur félags- og tryggingamálaráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir er því miður upptekin á ríkisráðsfundi. Hún hefði svo gjarnan viljað deila þessari stund með ykkur hér í dag en ég færi ykkur í staðinn hennar bestu kveðjur og þakkir fyrir starf ykkar að jafnréttismálum vítt og breitt um landið.
Mér telst svo til að landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga sé nú haldinn í 25. sinn, en slíkur fundur var fyrst haldinn á Akureyri árið 1983 og hefur verið árlegur viðburður síðan.
Á fundum sem þessum er rætt um stöðu jafnréttismála, hvað hefur áunnist og hvað er framundan.
Sjálfur sat ég sem borgarfulltrúi og fulltrúi í jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar eftirminnilegan fund jafnréttisnefnda fyrir einum sex eða sjö árum síðan, en sá fundur var einmitt haldin á Akureyri einnig. Þar man ég að heitasta umræðuefnið var hvort jafnréttisnefndir væru ef til vill að verða óþarfar og í staðin myndu koma eins konar mannréttindanefndir. Sú umræða er enn lifandi tek ég eftir þó eflaust séum við öll sammála um að brýna nauðsyn beri til að halda jafnréttismálunum á lofti á vettvangi sveitarfélaganna, hvort sem það er gert á vettvangi mannréttindanefnda eða hreinræktaðra jafnréttisnefnda.
Því er ekki að neita að ýmsar blákaldar tölulegar staðreyndir um stöðu jafnréttismála valda áhyggjum. Það á til dæmis við um hlut kvenna í sveitarstjórnum, á Alþingi, í stjórnum fyrirtækja og forstjórastólum fyrirtækja.
Það á ekki síður við um launamál kynja eins og sýndi sig í niðurstöðum nýlegrar launakönnunar SFR þar sem óútskýrður launamunur kynja hafði aukist úr 14,3% í fyrra í 17,2% í ár. Til samanburðar hefur kynbundinn launamunur innan VR nánast staðið í stað og er um 12%.
Við getum ekki sætt okkur við þessa þróun. Það er gjörsamlega ólíðandi að launamunur kynja aukist hjá því opinbera, sem að sjálfsögðu á einmitt að ganga á undan öðrum með góðu fordæmi í því að eyða kynbundnum launamun.
Launamunur kynja er í raun tvenns konar. Annars vegar launamunur sem liggur í því að hefðbundin kvennastörf eru lægra metin en hefðbundin karlastörf og munurinn birtist þá oft á milli karlavinnustaða og kvennavinnustaða.
Hins vegar er launamunur kynja innan sömu stofnunar þar sem konur í svipuðum störfum og karlar fá lægri laun. Formaður SFR telur launamuninn mestan þar sem skýringin liggur í lágu mati á hefðbundnum kvennastörfum. Þá telur hann jafnframt að launamunurinn verði oftsinnis til í ákvörðunum forstöðumanna á þann hátt að karlar fái meira út úr aukagreiðslum, fastri yfirvinnu og öðrum aukagreiðslum. Launamunurinn sé þannig ekki fólginn í kjarasamningum nema að litlum hluta, heldur gerist hann í persónulegum viðbótum þar sem konur beri minna úr býtum en karlar.
Ég óttast að þetta sé rétt og tel nauðsynlegt að skoða vandlega hvernig staðið er að launasetningu hjá hinu opinbera. Ég mæli ekki gegn því að fólki sé að hluta til greidd laun á grundvelli frammistöðu og annarra einstaklingsbundinna þátta sem nýtast í starfi. Slíkar ákvarðanir þurfa hins vegar að byggjast á skýrum og rökréttum forsendum en ekki á geðþóttaákvörðunum.
Jafnrétti kynja snýst númer eitt, tvö og þrjú um viðhorf. Á fyrstu árum og áratugum jafnréttisbaráttunnar hér á landi var meginviðfangsefnið að ryðja úr vegi lagalegum hindrunum fyrir þátttöku kvenna í samfélaginu til jafns við karla. Vitanlega snérist baráttan þá einnig um að breyta viðhorfum. Nú er breyting viðhorfa hins vegar meginviðfangsefni jafnréttisbaráttunnar og þar virðist þyngst fyrir fæti.
Við höfum ýmis tæki til að vinna að jafnrétti kynjanna og við eigum að nýta þau vel. Lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla eru slíkt verkfæri og ég bind miklar vonir við að nýja löggjöfin sem samþykkt var í lok síðasta vorþings muni skila okkur auknum árangri. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort ástæða sé til að ganga enn lengra og koma á kynjakvótum til að auka hlut kvenna í valdastöðum, líkt og Norðmenn hafa gert. Ég veit að ráðherra vill að sá möguleiki verði skoðaður vandlega.
Fyrir ekki margt löngu gerði fyrirtækið Creditinfo Ísland athuganir sem birtu meðal annars upplýsingar um tengsl vanskila fyrirtækja og samsetningar kynja í stjórnum þeirra. Niðurstöður leiddu í ljós að minni líkur eru á að þau fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum og jafnframt að fyrirtæki eru alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn. Í stuttu máli bentu niðurstöðurnar til þess að fyrirtækjum kæmi best að hafa jafnt konur og karla við stjórnvölinn.
Þetta er nokkuð sem ætti ekki að koma á óvart en virðist þó ganga erfiðlega að hjá mörgum að skilja miðað við stöðu þessara mála.
Hér á landi höfum við líka sérstöðu varðandi fæðingarorlof karla en þar var löggjöfinni beitt til að stuðla að aukinni ábyrgð og auknum möguleikum karla til að axla foreldraábyrgð. Um 90% feðra nýta sér í dag rétt til fæðingarorlofs og taka að meðaltali 97 daga. Það er því óhætt að fullyrða að aldrei áður hafa íslenskir karlmenn verið jafn virkir í umgengni, umönnun og uppeldi ungra barna sinna.
Slík grundvallarbreyting á hlutverkaskipan kynjanna hlýtur að færa okkur á nýjan stað í jafnréttisbaráttunni, í því felst að minnsta kosti gullið tækifæri sem við þurfum að nýta vel til frekari sigra.
Við þurfum einnig að ala börnin okkar upp í anda jafnréttis og byggja þar á gömlum sannindum á borð við þau að það læra börnin sem fyrir þeim er haft og eins að lengi býr að fyrstu gerð.
Þetta kann að hljóma klisjukennt en það liggur í augum uppi að gagnvart börnum skipta fyrirmyndirnar mestu máli á mótunarárum þeirra og því er trúlega ekkert eins árangursríkt til lengri tíma litið en að ala börnin okkar upp í umhverfi þar sem jafnrétti er ástundað jafnt í orði og verki.
Um þetta snýst tilraunaverkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum. Verkefninu var ýtt úr vör í maí síðastliðnum með samstarfssamningi félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Jafnréttisstofu, Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, Akureyrarbæjar, Mosfellsbæjar og Kópavogsbæjar. Fyrr í þessari viku opnaði verkefnið heimasíðu á slóðinni jafnrettiiskolum.is þar sem finna má ýmis gögn og fróðleik sem vonandi nýtist vel í jafnréttisstarfi víða um land.
Góðir gestir.
Hér á eftir verður undirritaður Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Með undirritun hans skuldbinda sveitarfélög sig til þess að virða grundvallarregluna um jafnrétti kvenna og karla og innleiða skuldbindingar sáttmálans.
Ég trúi því og treysti að undirritun sáttmálans verði sveitarfélögum hvatning til að standa sig og gera enn betur í jafnréttismálum og ég hvet til þess að sveitarstjórnir kynni sáttmálann fyrir íbúum á markvissan hátt og geri þeim grein fyrir þeirri ábyrgð sem í honum felst.
Nálægð sveitarstjórna við íbúa sína veitir þeim mikla möguleika til að hafa áhrif og móta samfélagið þannig að raunverulegt jafnrétti sé iðkað á öllum sviðum sem eðlilegur og sjálfsagður hluti af daglegu lífi.
Jafnréttismál eiga ekki að vera einangrað fyrirbrigði sem unnið er að af og til þegar tími gefst til.
Jafnréttismál eiga ekki að vera átaksverkefni sem spretta upp hér og þar, af og til, en liggja dauð þess á milli.
Jafnrétti skal ástundað allan sólarhringinn, alla daga ársins, alls staðar.
Þá verður það með tíð og tíma jafn sjálfsagt og að draga andann.