Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræða félags- og tryggingamálaráðherra á Alþingi 2. október 2008

Herra forseti, góðir landsmenn.

Eins og alþjóð og þingheimi er kunnugt hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tekist á við óvænt veikindi síðustu tíu daga. Það er mér gleðiefni að geta flutt ykkur öllum kveðjur hennar, henni heilsast vel og allt hefur gengið að óskum.

Utanríkisráðherra er nú í daglegu sambandi við okkur, fylgist með og veitir leiðsögn í erfiðum viðfangsefnum hér heima.

Ég veit að það hefur verið Ingibjörgu Sólrúnu mikill styrkur að finna þann hlýhug og góðu bataóskir sem til hennar streyma úr öllum áttum.

Góðir landsmenn.

Áhrif hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu munu ráða miklu um framvindu efnahagsmála hjá okkur Íslendingum á næstu misserum en miklu máli skiptir hvernig okkur sem þjóð tekst að spila úr spilunum sem á hendi eru.

Við lifum á tímum þar sem ábyrgð og sveigjanleiki við efnahagsstjórn þarf að vera fyrir hendi um leið og samheldni og samstaða í samfélaginu skiptir okkur máli.

Nú reynir á samfélagslega innviði og samfélagslegan styrk eins og ávallt þegar kreppir að. Það er við aðstæður sem þessar sem grunngildi jafnaðarmanna verða haldreipi og bjargráð þeirra samfélaga sem best vegnar. Því miður hættir mönnum til að gleyma þessum mikilvægu gildum þegar allt leikur í lyndi.

Á slíkum stundum þurfa allir að snúa bökum saman til að vinna okkur út úr erfiðleikunum, ná hér niður verðbólgu og tryggja efnahagslegan stöðugleika og þar með verja stöðu heimila og fyrirtækja. Ég óska eftir stuðningi almennings við þessi viðhorf, ég óska eftir ábyrgu aðhaldi stjórnarandstöðu. Allra síst nú þurfum við á að halda óábyrgum upphrópunum eða úrtölum sem grafa undan efnahagslegum eða pólitískum stöðugleika.

Leit að sökudólgi sem einkennir málflutning ýmissa um þessar mundir skilar engum árangri. Það er einfaldlega rangt að reyna að stimpla það inn hjá þjóðinni að ríkisstjórnin sé ekkert að gera. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að treysta fjármálastöðugleikann. Sömuleiðis hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að treysta betur velferðarkerfið og stöðu fyrirtækja og heimila í landinu.

Nú þegar við glímum við erfiðar efnahagsaðstæður og óstöðugleika á fjármálamörkuðum heimsins, sem vonandi eru tímabundnar, er mikilvægt að við byggjum á styrkleikum okkar og nálgumst viðfangsefnið með jákvæðum hætti.

Innviðir samfélagsins eru almennt sterkir, ríkissjóður er skuldlaus og því betur í stakk búinn til að taka á vandanum. Við eigum gífurleg verðmæti í náttúruauðlindum og mikinn mannauð í vel menntuðu vinnuafli og öfluga lífeyrissjóði sem í raun eru okkar olíusjóðir. Allt þetta gerir okkur betur kleift að takast á við þann mikla efnahagsvanda sem við búum við um stund eins og öll hagkerfi heimsins.

Takist stjórnvöldum bæði ríki og sveitarfélögum með aðilum vinnumarkaðarins og fjármálamarkaðnum að snúa bökum saman og sýna samstöðu á erfiðum tímum, sem hefur og verður alltaf stærsti styrkleiki þjóðarinnar þegar á móti blæs, þá munum við vinna okkur út úr erfiðleikunum. Verkefnið er að koma á stöðugleika, forða fjöldagjaldþrotum og stórauknu atvinnuleysi.

Við verðum að fara að sjá vaxtalækkunarferlið hefjast til að verja fjárhag og velferð heimila og fyrirtækja þessa lands og berjast fyrir hag þeirra sem höllustum fæti standa. Þar duga hvorki kreddur frjálshyggjunnar eða ríkiskapítalismi Sovétríkjanna sálugu. Þar dugar best að nýta markaðskerfið í þágu almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna og standa vörð um öflugt velferðarkerfi.

Útrás fjármálafyrirtækja virðist hafa einkennst meira af kappi en forsjá og kaupréttarsamningar hafa vafalaust átt sinn þátt í því að gera stjórnendur of áhættusækna - græðgin réð því miður för og með ofurkjörunum slitu menn sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Af því verða þeir að læra.

Atburðir síðustu daga kalla á endurskoðun á leikreglum fjármálakerfisins, svo sem á krosseignartengslum, eignarhaldi fjármálastofnana í óskyldum rekstri og réttmæti kaupréttarsamninga og ofurlauna í fjármálageiranum.

Fjármálastofnunum ber einnig skylda til að koma mjög sterkt inn í þann björgunarleiðangur sem gæti verið framundan til að bjarga heimilunum og fyrirtækjum. Björgunarleiðangrar eiga ekki bara að snúa að bönkunum í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin stendur nú í. Þeir eiga fyrst og fremst að snúa að fólkinu í landinu.

Það er mikilvægt að allir lánadrottnar, hvort sem það eru bankar eða opinberir aðilar, setjist yfir það hvernig hægt sé að auðvelda skuldugum heimilum lausn sinna mála. Heimilum sem lenda nú tímabundið í vanskilum eða miklum greiðsluerfiðleikum. Það er ekki boðlegt eins og haft var eftir einum bankastjóranna að segja að nú sé hver sinnar gæfu smiður.

Nú verða allir að standa saman og sýna ábyrgð og samhjálp. Ég hef þegar falið Íbúðalánasjóði að skoða hvort hægt sé, að minnsta kosti tímabundið, að rýmka þær heimildir sem sjóðurinn hefur yfir að ráða fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.

Það er einnig mikið áhyggjuefni ef það verður að veruleika að einhverjar bankastofnanir nýti endurskoðunarákvæði í núverandi lánasamningum til að hækka vexti verulega og kollvarpa þannig fjárhag margra heimila.

Í núverandi ástandi má jafna því við einokunarþvingun, enda hvergi í annað skjól fyrir lántakendur að leita þar sem allir bankar hafa nú nánast lokað á húsnæðislán. Í slíku ástandi hlýtur að koma til greina að Íbúðalánasjóður verði það skjól sem lántakendur þurfa á að halda og opni þeim dyr til endurfjármögnunar, ætli bankarnir að gera alvöru úr þeim möguleika að margfalda vaxtabyrðina hjá lántakendum.

Fjárlagafrumvarpið ber merki þeirra þrenginga sem við erum að ganga í gegnum. Mikilvægt er að fjárlögin fyrir næsta ár dýpki ekki enn meira þann samdrátt sem efnahagslífið er að ganga í gegnum og að við spornum gegn atvinnuleysi og verjum heimilin og fyrirtækin í landinu eins og kostur er. Það á því ekki að koma á óvart að þrátt fyrir samdráttinn mun ríkisstjórnin halda áfram í uppbyggingu velferðarkerfisins.

Þessi ríkisstjórn var ekki síst mynduð til að styrkja velferðarkerfið. Þar höfum við þegar stigið mörg og markviss skref og er mér til efs að nokkurn tímann hafi jafn mikið verið gert á sviði velferðarmála eins og á því tæpa eina og hálfa ári sem þessi ríkisstjórn hefur starfað. Að því munum við nú búa á meðan við erum að ganga í gegnum þessa efnahagserfiðleika, en aðgerðirnar hafa ekki síst snúið að því að bæta stöðu lífeyrisþega, barna og ungmenna og barnafjölskyldna almennt.

Unnið er af fullum krafti að því að styrkja hag og velferð barna og fjölskyldna þeirra í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisins og mörg mála á þeim vettvangi hafa þegar komist í höfn.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu einu og sér er raunaukning fjármagns til málefna barna og barnafjölskyldna um 500 milljónir króna á ári og jafngildir það um það bil 45% aukningu til málaflokksins.

Auk þess munu barnabætur hækka svo nemur milljörðum króna á næstu árum. Allt þetta eru skýr dæmi um að verkin eru látin tala og loforð efnd um að setja málefni barna og ungmenna í forgang.

Kjör lífeyrisþega hafa verið bætt og þau verða varin. Ákvarðanir hafa þegar verið teknar um kjarabætur sem jafngilda 18% hækkun á heilu ári, auk verulegs hvata til aukinnar virkni á vinnumarkaði með hækkun frítekjumarka atvinnutekna og afnámi makatenginga í bótakerfinu.

Með setningu lágmarksframfærsluviðmiðs var tryggt að tekjur þeirra sem verst hafa staðið munu um næstu áramót hafa hækkað um allt að 30% frá upphafi til loka þessa árs. Tekjur þessa hóps hafa ekki verið hærri í 13 ár.

En umbreytingum á almannatryggingum er ekki lokið. Um áramótin mun séreignarsparnaður lífeyrisþega verða undanþegin öllum skerðingum og þá verða einnig komnar í ljós tillögur endurskoðunarnefndar sem starfar á mínum vegum, um einfaldara og skilvirkara almannatryggingakerfi.

Þar vænti ég þess að böndum verði komið á víxlverkanir almannatryggingagreiðslna og lífeyrissjóðstekna sem leitt hafa til óviðunandi skerðingar á kjörum lífeyrisþega. Því verður að breyta.

Kjör lífeyrisþega hafa verið bætt meira í tíð þessara ríkisstjórnar en dæmi eru um á svo skömmum tíma og um þessar kjarabætur verður staðið vörð. Ólíkt því sem áður hefur tíðkast verða lífeyrisþegar ekki látnir dragast aftur úr þegar harðnar á dalnum.

En það þarf einnig að stórefla þjónustu og búsetuúrræði aldraðs fólks. Þegar hefur verið kynnt ítarleg framkvæmdaáætlun um uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma sem ætti að eyða biðlistum eftir þessari mikilvægu þjónustu og stórauka framboð á hvíldarrýmum og aðstöðu fyrir heilabilaða. Auk þess gerir áætlunin ráð fyrir 380 rýmum til viðbótar til að breyta fjölbýlum í einbýli en í dag deila um 850 aldraðir einstaklingar herbergi með öðrum.

Þá hefur raunaukning til málefna fatlaðra aukist að raungildi um 1.250 milljónir króna á þessu og næsta ári. Skattleysismörkin sem sérstaklega bæta hag þeirra sem höllustum fæti standa hækka úr 95 þúsundum í 113 þúsund krónur á mánuði á næsta ári og 2011 verða þau komin í 139 þúsund krónur.

Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að styrkja stöðu heimilanna á húsnæðismarkaði. Afnumið var viðmið lána Íbúðalánasjóðs við brunabótamat, hámarksfjárhæðin hækkuð og stimpilgjald á fyrstu eign afnumið. Þessar aðgerðir bættu verulega stöðu fasteignakaupenda.

Húsaleigubætur hafa jafnframt verið hækkaðar verulega, en þær höfðu ekki hækkað í sjö ár og á næstu fjórum árum verða veitt niðurgreidd lán til uppbyggingar 3.000 félagslegra íbúða sem stórefla leigumarkaðinn. Þá er unnið að breytingum á Íbúðalánasjóði.

Ekki eru mörg misseri síðan þær raddir voru háværar að koma ætti Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Þær raddir hafa hljóðnað enda hefur sjóðurinn sannað gildi sitt svo um munar, en hann einn ásamt lífeyrissjóðunum halda nú uppi fasteignaviðskiptum.

Allt skiptir þetta máli í þeim þrengingum sem nú eru á fasteignamarkaði. Ég vil að við mótum húsnæðisstefnu til framtíðar sem byggir á fjölbreyttum úrræðum og meðal annars á öflugum almennum leigumarkaði og búsetufyrirkomulagi eins og þekkist víða í öðrum löndum. Traustur húsnæðismarkaður og öruggt húsaskjól eru meðal hornsteina þessa velferðarsamfélags sem við ætlum að tryggja.

Framangreind atriði bera því glöggt vitni að sú ríkisstjórn sem nú situr var ekki síst mynduð um velferðarmál. Sú staðreynd að fjölmörgum verkefnum á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd mun reynast almenningi í landinu styrkur í þeim þrengingum sem við göngum nú í gegnum.

Ágætu landsmenn.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mörg ykkar horfast nú í augu við mikla fjárhagslega erfiðleika. Samhent getur íslenska þjóðin undir forystu þessarar ríkisstjórnar og með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins siglt örugg í gegnum þann ólgusjó sem við erum í ásamt ótal öðrum þjóðum um allan heim.

Stoðir okkar eru styrkar og sóknarfærin mörg. Þetta eru tímar samstöðu - samstöðu um grundvallargildi velferðar og jafnaðarstefnu, jafnvægis milli nýsköpunar og kröftugrar uppbyggingar annars vegar og velferðar fólksins í landinu hins vegar.

Þá vakt mun Samfylkingin og ríkisstjórnin standa af einurð og trúfestu.

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta