Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnuverndarvikan 2008

Ágætu ráðstefnugestir.

Gildistaka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í ársbyrjun 1994 markaði upphafið að skipulögðu samstarfi íslenskra stjórnvalda við ýmsar stofnanir Evrópusambandsins. Þeirra á meðal er Evrópska vinnuverndarstofnunin. EES-samningurinn er umgjörðin um þetta samstarf.

Tilskipanir Evrópusambandsins á sviði vinnuverndarmála hafa haft mikil og afgerandi áhrif á það hvernig vinnuverndarstarfið hefur þróast hér á landi. Áhersla og nálgun hefur breyst.

Lykilorð í þessu sambandi er áhættumat. Í því felst skylda og ábyrgð á því að fram fari mat á áhættuþáttum í vinnuumhverfinu sem kunna hafa áhrif á heilsu starfsmanna eða stofna lífi þeirra og limum í hættu.

Þótt ábyrgðin á gerð áhættumats hvíli á herðum atvinnurekenda á þetta að vera sameiginlegt viðfangsefni þeirra og samtaka launafólks.

Sumir hafa miklað fyrir sér gerð áhættumats og tala um að það sé íþyngjandi einkum fyrir smá og meðalstór fyrirtæki. Þetta þarf alls ekki að vera rétt.

Í flestum tilvikum nægir að fylgja einföldum leiðbeiningum við matið: Að farið sé yfir starfsemi fyrirtækisins og áhættuþættir greindir; að lagt sé mat á líkur á slysi eða heilsuskaða; að tekin sé ákvörðun um fyrirbyggjandi aðgerðir; að aðgerðum sé hrundið í framkvæmd og áhættumat endurskoðað í ljósi reynslunnar.

Með þessari ráðstefnu hefst árleg vinnuverndarvika sem Vinnueftirlit ríkisins stendur fyrir í samvinnu við fjölmarga aðila, meðal annars samtök atvinnurekenda og heildarsamtök launafólks.

Hún er hluti af fjölbreytilegu samstarfi Vinnueftirlitsins við Vinnuverndarstofnun Evrópu og er liður í evrópskri vinnuverndarviku sem stofnað er til á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Að þessu sinni er yfirskrift vinnuverndarvikunnar bætt vinnuumhverfi – betra líf og undirskriftin er áhættumat og forvarnir eru leiðin.

Markmið vinnuverndarvikunnar er sem sé það að draga fram gildi áhættumatsins sem leið til að koma í veg fyrir heilsutjón og slys á vinnustöðum.

Í kynningarefni sem Evrópska vinnuverndarstofnunin hefur tekið saman fyrir vinnuverndarvikuna kemur meðal annars fram að á hverju ári deyja 167 þúsund manns í aðildarríkjum Evrópusambandsins í vinnuslysum eða af sjúkdómum sem rekja má til aðstæðna í vinnuumhverfinu.

Árlega eru meira en sjö milljónir manna í ríkjum Evrópusambandsins frá vinnu í þrjá daga eða lengur sökum vinnuslysa.

Á árinu 2007 voru skráð vinnuslys á Íslandi tæplega 1.500 en þau eru í reynd mun fleiri. Sú slæma þróun hefur einnig orðið að dauðaslysum við vinnu hefur fjölgað á ný og fórnarlömb þeirra eru að stórum hluta útlendingar.

Það liggur í augum uppi að gífurlegir samfélagslegir hagsmunir felast í því að draga úr mannlegri þjáningu sem og fjarvistum frá vinnu vegna slysa eða atvinnusjúkdóma.

Einn þáttur vinnuverndarstarfsins felst í aðgerðum sem stefna að þessu markmiði.

Annar þáttur, sem er ekki síður mikilvægur, er að búa starfsmönnum umhverfi sem eykur vinnugleði, glæðir sköpunargáfu og kallar fram frumkvæði. Þessir þættir skipta miklu um það hvort fyrirtæki lifir eða deyr í heimi hnattvæðingar og aukinnar samkeppni.

Ég get ekki látið hjá líða að geta þess í ljósi þess áfalls sem þjóðin hefur orðið fyrir á síðustu vikum að ef til vill er enn ríkari nauðsyn en oft áður að hyggja sérstaklega vel að vinnuverndarstarfinu.

Þjóðin er áhyggjufull – framtíðin er óljós og margir eru í sárum.

Þegar hefur fjölmörgum verið sagt upp vinnunni og því miður má gera ráð fyrir að fleiri bætist í þann hóp. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til atvinnurekenda að þeir sýni starfsmönnum mikla tillitssemi við þessar aðstæður og við þurfum öll að sýna hverju öðru tillitssemi og hlýju.

Ég veit að Vinnueftirlitið hefur hugað sérstaklega að þeim þáttum í vinnuumhverfinu sem gott væri að hlúa að í ástandi sem þessu og ég veit að starfsmenn þess eru til þjónustu reiðubúnir með leiðsögn og ráðgjöf sé þess óskað.

  

Góðir ráðstefnugestir.

Á þeirri vinnuverndarviku sem hefst með þessari ráðstefnu heimsækja starfsmenn Vinnueftirlitsins valda vinnustaði og eiga skoðanaskipti við atvinnurekendur og starfsmenn um gildi áhættumats.

Hvatt verður til þess að á öðrum vinnustöðum verði vikan notuð sem tilefni til að ræða aðbúnað á vinnustað og hvort ekki sé þörf á endurbótum.

Notum þetta tækifæri til að fleyta okkur fram á veginn í leit að ráðum til að draga úr vinnuslysum, bæta vinnuumhverfið og gera fyrirtækin okkar öflugri.

Oft hefur verið þörf en nú er þjóðarnauðsyn.

Ég segi ráðstefnuna setta.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta