Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Afhending viðurkenningar Jafnréttisráðs 2008

Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að óska styrkþegum Jafnréttissjóðs til hamingju með styrkina og rannsóknarverkefnin þeirra sem nú geta orðið að veruleika.

Sömuleiðis vil ég fagna þeirri nýju þekkingu á sviði jafnréttismála sem okkur var kynnt hér í dag. Stefnumótun og starf að jafnrétti kvenna og karla þarf að byggjast á haldgóðri þekkingu á stöðu kynjanna og þess vegna er starf Jafnréttissjóðsins einkar mikilvægt fyrir jafnréttisbaráttuna í landinu.

Jafnréttisráð hefur veitt viðurkenningar árlega frá árinu 1992. Viðurkenningu geta hlotið einstaklingar, hópar, fyrirtæki eða félagasamtök sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála. Tilgangurinn er að verðlauna fyrir vel unnin störf í þágu jafnréttis kvenna og karla og hvetja um leið til frekari dáða.

Á þessum 16 árum hafa margvíslegir aðilar hlotið viðurkenninguna. Fjórum sinnum hafa þau verið veitt félagasamtökum, tvisvar sinnum sveitarfélögum, þrisvar sinnum menntastofnunum, tvisvar sinnum hefur viðurkenningin verið veitt einstaklingum, einu sinni opinberu fyrirtæki og fjórum sinnum fyrirtækjum á almennum markaði. Hafa sumir þessara viðurkenningarhafa verið umdeildir, en ekki fyrir árangur sinn í jafnréttismálum.

Ég vil beina sjónum mínum að jafnréttislögunum sjálfum. Meginmarkmið þeirra er að tryggja konur og karla gegn því að vera mismunað á grundvelli kynferðis.

Helstu réttindin sem þau kveða á um snúa að vinnumarkaðnum, það er réttinum til launajafnréttis, til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar á vinnustöðum og til starfa þannig að störfum sé ekki skipt í kvenna- og karlastörf.

Jafnréttislögin kveða einnig á um að atvinnurekendur geri starfsfólki sínu kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu og þeir eiga einnig að gera ráðstafanir til að fólk sæti ekki kynferðislegri áreitni á vinnustöðum sínum.

Lögin leggja líka atvinnurekendum þá skyldu á herðar að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í stuttu máli, þá eiga jafnréttislög að tryggja öllu launafólki, konum og körlum, jafnrétti hvar svo sem það starfar. Við vitum að víða hallar á konur og að það þarf markvissa stefnumótun og ötult starf til að ná árangri á sviðum þar sem við ævagamlar hefðir og rótgrónar venjur er að etja. Þess vegna fögnum við ávallt þegar árangur næst.

Í ár fellur viðurkenning Jafnréttisráðs í skaut Alcoa Fjarðaáls.

Stefna Alcoa Fjarðaáls um að ráða að jöfnu konur og karla til starfa í fyrirtækinu hefur verið áberandi frá upphafi starfsemi þess. Þeirri stefnu var framfylgt af krafti með markvissum atvinnuauglýsingum og kynningarfundum sem konum var boðið sérstaklega til, en þeir voru haldnir í öllum byggðakjörnum á Austurlandi, auk þess sem almennir íbúafundir voru haldnir til að kynna ráðningarstefnu fyrirtækisins.

Árangur þessarar stefnu er að 28% af 450 starfsmönnum Alcoa Fjarðaáls eru konur, 34% í framleiðslustörfum og 27% í framkvæmdastjórn. Þetta er besti árangur í jafnréttismálum sem náðst hefur innan Alcoa samsteypunnar og líkur til að um heimsmet í áliðnaðinum sé að ræða.

Alcoa Fjarðaál vinnur eftir nýrri jafnréttisáætlun sem tekur mið af nýsamþykktum jafnréttislögum nr. 10/2008. Með henni fylgir metnaðarfull framkvæmdaáætlun sem leggur áherslu á áframhaldandi jöfnun kynjahlutfalls starfsmanna á öllum sviðum, áætlun um að tryggja launajafnrétti og samræmingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

Athygli vekja áætlanir um að hvetja og styrkja konur til iðnmenntunar og áhersla á að bæði kynin noti rétt sinn til fæðingarorlofs og veikindadaga barna. Þá tekur Alcoa Fjarðaál árlega þátt í launakönnun Intellecta sem nær til þeirra starfsmanna sem semja sjálfir um laun sín og hafa konur verið hækkaðar í launum í kjölfar þessara kannana.

Jafnréttisráð telur árangur Alcoa Fjarðaáls í því að vinna gegn kynbundnu starfsvali og kynjaskiptingu vinnumarkaðar til fyrirmyndar, en alkunna er að á Íslandi hefur reynst erfitt að brjóta upp hefðbundið náms- og starfsval kynjanna. Kynskipting vinnumarkaðar á þátt í að viðhalda kynbundnum launamun og því hafa aðgerðir sem eru til þess fallnar að draga úr henni jákvæð áhrif á launamun kynjanna.

Þessi árangur Alcoa Fjarðaáls er ekki síst mikilvægur í ljósi þess að kannanir benda til að launamunur kynjanna sé meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það er von mín að árangur Alcoa megi verða öðrum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum hér á landi hvatning til dáða.

Viðurkenningargripur ársins 2008 er postulínsstytta eftir Guðrúnu Indriðadóttur myndlistarmann sem ber heitið Snúum bökum saman.

Mig langar að bjóða Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra Alcoa á Íslandi, að koma hingað og taka við viðurkenningu Jafnréttisráðs 2008.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta