Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu

Ágætu fundarmenn.

Ég ber ykkur öllum góða kveðju Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, sem því miður komst ekki á fundinn eins og hún hafði ætlað sér. Ég mæli því fyrir munn ráðherra hér á eftir.

Fyrir tæpu ári hitti ég ykkur stjórnendur í öldrunarþjónustu á fundi sem þið buðuð félagsmálaráðherra til í ljósi breytinga sem voru að ganga í garð um skipulag öldrunarþjónustu í landinu. Mánuði síðar varð breytingin að veruleika og heildarábyrgð á málefnum aldraðra fluttist frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis ásamt ábyrgð á lífeyrishluta almannatrygginga.

Á fundinum þá sagði ég að flutningur málaflokksins markaði tímamót sem myndu fela í sér umtalsverðar breytingar og jafnframt ný tækifæri. Um þetta er ég jafnsannfærð nú og ég var þá. Það verður auðvitað að segjast eins og er að það stórkostlega áfall sem þjóðin hefur orðið í efnahagsmálum og viðblasandi kreppa mun setja strik í reikninginn varðandi ýmsar fyrirhugaðar framkvæmdir og úrbætur í öldrunarþjónustu. Ég mun hins vegar berjast fyrir því með oddi og egg að hagsmunir aldraðra verði ekki fyrir borð bornir og að áfram verði unnið að framförum í málaflokknum eins og nokkur kostur er.

Nokkru fyrir áramót, þegar línur voru farnar að skýrast um fyrirkomulag breyttrar verkaskiptingar ráðuneytanna, setti ég á fót ráðgjafarhóp til að gera tillögur um helstu áherslur sem leggja bæri til grundvallar við mótun stefnu í málefnum aldraðra til næstu ára. Í hópnum sat fólk sem ég ber mikið traust til og gjörþekkir til málefna aldraðra frá ýmsum sjónarhornum, og er þekkt fyrir þekkingu sína og einlægan áhuga á velferðarmálum.

Megináherslur hópsins voru skýrar og tillögur hans sömuleiðis. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra sem fékk þær til umsagnar tók undir tillögur hópsins og markmiðin að baki þeirra um bætta þjónustu og aukna uppbyggingu í þágu aldraðra. Á grundvelli þessarar vinnu og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar setti ég fram helstu áhersluatriði sem unnið skal að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu á næstu misserum. Af þeim nefni ég hér aukna áherslu á stuðning við aldraða í heimahúsum, að virða rétt aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfsforræðis, einföldun almannatryggingakerfisins og betur skilgreind réttindi aldraðra, breytt fyrirkomulag greiðsluþátttöku aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum, fjölgun dagvistar- og hvíldarrýma, fjölgun hjúkrunarrýma og aflagningu fjölbýla. Síðast en ekki síst var sett markmið um flutning öldrunarþjónustu til sveitarfélaga árið 2012.

Eitt fyrsta verkefnið í samræmi við þetta var að hrinda af stað vinnu við gerð áætlunar um endurbætur á öldrunarstofnunum, einkum til að eyða fjölbýlum, og jafnframt um fjölgun hjúkrunarrýma til að mæta þörf miðað við núverandi aðstæður og fyrirsjáanlega fjölgun aldraðra á næstu árum. Um mitt sumar gat ég kynnt tímasetta áætlun til fjögurra ára um að koma á fót 780 hjúkrunarrýmum þar sem 380 rýmum er ætlað að mæta fækkun. Í áætluninni er jafnframt gert ráð fyrir umtalsverðri fjölgun hvíldarrýma.

Eins og þið þekkið flest var í þessari áætlun meðal annars gert ráð fyrir nýrri leið við fjármögnun uppbyggingar nýrra hjúkrunarheimila með því að fara svokallaða leiguleið. Þá er miðað við að samið sé við sveitarfélög um greiðslu húsaleigu í stað stofnkostnaðar. Breytingin felst í því að framlög Framkvæmdasjóðs eru greidd út á löngum tíma sem húsaleiga. Nú þegar liggur fyrir að einhver sveitarfélög sem eru inni á áætlun ráðuneytisins hafa af því áhyggjur að geta ef til vill ekki lagt út fé við núverandi aðstæður í byggingu nýrra hjúkrunarheimila og önnur fjármögnun er eins og við er að búast í uppnámi. Við þurfum því að staldra við og sjá hvaða aðrir kostir eru í stöðunni.

Töluvert hefur verið byggt upp af íbúðum fyrir aldraða í allmörgum sveitarfélögum á síðustu misserum, oft í tengslum við kjarna þar sem veitt er þjónusta fyrir aldraða. Þegar er komið á daginn að margir aldraðir sem höfðu ætlað sér að skipta um húsnæði og flytja í slíkar íbúðir verða frá að hverfa þar sem þeir geta ekki selt núverandi húsnæði sitt. Þetta er slæmt ástand en við verðum að sjá hvort hægt sé að snúa því á einhvern hátt til góðs. Ég mun því skoða möguleika þess að breyta íbúðarhúsnæði fyrir aldraða sem annars myndi standa autt í hjúkrunar- eða hvíldarrými til að mæta þörf þar sem hún er brýn í samræmi við framkvæmdaáætlun um fjölgun hjúkrunarrýma og fækkun fjölbýla sem ég kynnti í ágúst síðastliðnum. Ég tek fram að enn er þetta aðeins hugmynd sem eftir er að vinna úr, en ég viðra hana hér og mun setja í gang vinnu við að skoða þetta í ráðuneytinu í samvinnu við sveitarfélögin og aðra sem þurfa að koma að málinu.

Fjölgun dagvistar- og hvíldarrýma, þar með talin sérstök úrræði fyrir heilabilaða, eru meðal mikilvægra verkefna á dagskrá ráðuneytisins. Ég tel mig hafa tryggt fjármuni í þetta verkefni og reikna með því að geta á næstu dögum tilkynnt um heimild til nokkurra sveitarfélaga um fjölgun þessara úrræða í samræmi við mat á þörf. Þar sem þetta er ekki fyllilega fast í hendi er hins vegar of snemmt að lýsa einhverju yfir núna.

Vinna við einföldun almannatryggingakerfisins hefur staðið yfir um nokkurn tíma og ýmsar breytingar hafa þegar verið gerðar sem stefna að því marki. Þetta er verkefni sem ég legg áherslu á að verði unnið áfram af kappi, enda hefur síður en svo dregið úr mikilvægi þess við þær aðstæður sem upp eru komnar. Breytt fyrirkomulag vegna greiðsluþátttöku aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum er einnig mál sem ég mun ekki hvika frá. Ég segi sem fyrr, burt með vasapeningafyrirkomulagið, við þurfum annað fyrirkomulag þar sem er ljóst og skýrt hvað fólk er að greiða fyrir og jafnframt að fólk fari sjálft með forræði yfir sínu eigin fé.

Flutningur málefna aldraðra til sveitarfélaganna er verkefni sem hefur verið unnið að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu af krafti síðustu misseri og þeirri vinnu verður haldið áfram. Þessi þjónusta er í eðli sínu nærþjónusta og á best heima hjá sveitarfélögunum. Það þori ég að fullyrða að þjóni best hagsmunum aldraðra og sömuleiðis er ég viss um að þannig fáist betri nýting fjármuna, hægt sé að veita meiri og betri þjónustu fyrir hverja krónu.

Akureyringar veit ég að hafa mjög sterka skoðun á þessu máli þar sem þeir hafa borið ábyrgð á þjónustu við aldraða til margra ára. Reynsla þeirra hefur verið góð, þrátt fyrir að ýmsir vankantar séu á samningsfyrirkomulagi sveitarfélagsins og ríkisins um þetta efni. Þar á ég einkum við að daggjöld vegna dvalar- og hjúkrunarrýma byggjast á sama fyrirkomulagi og annars staðar. Daggjöld eru greidd í samræmi við nýtingu á hverju rými. Takist sveitarfélaginu að veita góða heimaþjónustu og draga þannig úr þörf fyrir dvalar- og hjúkrunarheimilisvist nýtur það ekki ávinningsins. Þannig vantar í raun fjárhagslegan hvata til sveitarfélagsins til að styrkja og bæta þjónustu við aldraða í heimahúsum. Ég tek fram að í þessum orðum mínum felst ekki gagnrýni á öldrunarþjónustu bæjarfélagsins sem ég tel að hafi staðið vel undir ábyrgð sinni.

Þegar áætlunin um uppbyggingu hjúkrunarrýma var kynnt í sumar lagði ríkisstjórnin einnig fram yfirlýsingu um fleiri verkefni á sviði öldrunarþjónustu sem unnið yrði að samhliða uppbyggingunni. Þar kom meðal annars fram að á gildistíma áætlunarinnar yrði unnið að því að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum til að gera fólki kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Heilbrigðisráðuneytinu var falið að vinna, í samvinnu við félags- og tryggingamálaráðuneytið, að vinna áætlun um uppbyggingu samþættrar heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu um allt land. Ég held að flestir eða allir séu sammála um að sá aðskilnaður sem verið hefur á þjónustu við aldraða heima, þar sem ábyrgð á heimaþjónustu er hjá sveitarfélögunum en ábyrgð á heimahjúkrun hjá ríkinu, sé fráleitur. Stjórnendur og starfsfólk heimahjúkrunar og heimaþjónustu hafa víða gert mjög vel í því að vinna saman til að draga úr ókostum gildandi fyrirkomulags. Samvinnan er af hinu góða en hún getur ekki komið í staðinn fyrir sameiginlegan rekstur þessara þátta. Mikilvægt skref í rétta átt var tekið fyrr í þessum mánuði þegar undirrituð var viljayfirlýsing heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurborgar um sameiginlega stjórnun heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu undir stjórn borgarinnar frá næstu áramótum. Þetta er það sem koma skal með flutningi ábyrgðar á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.

Góðir gestir.

Í sumar fékk ég tækifæri til að skrifa grein í fréttabréf ykkar um mannauð og menntun í öldrunarþjónustu. Þegar það var skrifað var veruleiki okkar annar en nú blasir við. Áhyggjur ykkar og áhyggjur mínar snérust meðal annars um viðvarandi manneklu í öldrunarþjónustu, hvort sem var hjúkrun og aðhlynningu í heimahúsum á hjúkrunarheimilum eða annarri öldrunarþjónustu. Dæmi voru um að hjúkrunarrými stæðu auð og engum að gagni þrátt fyrir knýjandi þörf vegna manneklu.

Það er ábyggilegt að mönnun öldrunarþjónustunnar verður ekki vandamál á næstu misserum þar sem atvinnuleysi er nú þegar orðið verulegt vandamál. Við megum samt ekki láta þessa staðreynd slá ryki í augun á okkur. Mönnunarvandi öldrunarþjónustunnar mun leysast tímabundið vegna aðstæðna. Þann tíma ber okkur að nýta til þess að byggja upp öflugan og vel menntaðan hóp starfsfólks sem verður viljugt og reiðubúið til að halda áfram störfum þegar betri tíð gengur aftur í garð. Því vil ég eftir sem áður endurskoða launakjör fólks í umönnunarstörfum með hliðsjón af öðrum hópum og tryggja til framtíðar að störf í öldrunarþjónustu verði eftirsóknarverður kostur fyrir fólk sem hefur áhuga á að vinna með fólki og fyrir fólk.

 

Ágætu stjórnendur í öldrunarþjónustu.

Það hefði verið ánægjulegra að hitta ykkur við aðrar og betri aðstæður og geta þá rætt af sannfæringarkrafti um mikla uppbyggingu öldrunarþjónustu í landinu. Rekstur stofnana og fyrirtækja mun ekki fara varhluta af þeirri djúpu kreppu sem steðjar að og er þegar farin að setja mark sitt á mörgum sviðum þjóðlífsins.

Það er ljóst að við eigum á brattann að sækja framundan, hvort sem um ræðir rekstur öldrunarþjónustu eða annarra málaflokka. Við megum samt ekki leggja árar í bát og gefast upp fyrir mótbyrnum. Nú reynir á fyrirhyggju og útsjónarsemi til að sinna verkefnum sem best á eins hagkvæman hátt og kostur er. Þá er mér ekki efst í huga aðhaldssemi í rekstri á öldrunarstofnunum því ég veit að stjórnendur þeirra hafa gert flest sem í þeirra valdi stendur til að hagræða í rekstri sínum. Hér er ég fyrst og fremst að vísa til breytinga á skipulagi öldrunarþjónustunnar í heild til að tryggja betur notkun úrræða í samræmi við þarfir notendanna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta