Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Vinnumálastofnunar 2008

Góðir gestir.

Þessi ársfundur Vinnumálastofnunar 2008 er haldinn við aðstæður sem eru með slíkum ólíkindum að ekkert okkar hefði getað látið slíkt sér til hugar koma fyrir fáeinum vikum, hvað þá fyrir ári síðan.

Til margra ára hefur atvinnuástand hér á landi verið með því besta sem þekkist. Atvinnuleysi hefur verið lítið sem ekkert. Í ýmsum atvinnugreinum hefur verið skortur á starfsfólki og þurft að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Mikill fjöldi erlends verkafólks hefur komið hingað til starfa, einkum við virkjanaframkvæmdir og í byggingariðnaði en einnig í fleiri greinum. Nú er öldin önnur.

Ég ætla hér á eftir að draga upp mynd af stöðunni á vinnumarkaði eins og hún blasir við okkur núna. Síðan mun ég ræða um mögulegar aðgerðir til að bregðast við vandanum og helstu áherslur mínar framundan í ljósi aðstæðna.

Í janúar 2008 var skráð atvinnuleysi 1% að meðaltali, eða um 1.500 manns. Í lok september voru um 2.500 manns skráðir atvinnulausir. Við lokun hjá Vinnumálastofnun í gær voru 4.140 skráðir án atvinnu, um það bil 2.240 karlar og 1.890 konur. Þetta þýðir 2,3% atvinnuleysi í landinu. Og það fjölgar hratt á atvinnuleysisskránni. Á síðustu vikum hafa 50-70 einstaklingar skráð sig atvinnulausa á degi hverjum hjá skrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum skrifstofum stofnunarinnar er samanlagður fjöldi nýskráninga á bilinu 30-40 á dag.

Hópuppsagnir gefa vísbendingu um versnandi atvinnuástand. Til loka september hafði um 1.500 manns verið sagt upp með hópuppsögnum, flestum í byggingariðnaði, flugrekstri og svo verslun og þjónustu. Nú allra síðustu daga hefur Vinnumálastofnun borist mikil hrina hópuppsagna sem ná til yfir 2.000 einstaklinga sem hætta munu störfum eftir einn til þrjá mánuði í flestum tilvikum. Einkum er um að ræða fyrirtæki í byggingariðnaði og fjármálastarfsemi, en nokkur úr öðrum atvinnugreinum. Samtals hefur verið tilkynnt um hópuppsagnir sem taka til 3.500 manna á árinu og síðasti dagur mánaðarins er enn ekki liðinn. Ég held fast í þá von að þessar uppsagnir þurfi ekki allar að koma til framkvæmda.

Vinnumálastofnun telur að ástand á vinnumarkaði muni versna mjög hratt næstu vikur, ekki síst miðað við upplýsingar um fjölda hópuppsagna. Einnig er vitað um fjölda annarra uppsagna sem koma til framkvæmda á næstunni en falla ekki undir hópuppsagnir. Þá er ljóst að gjaldþrotum fyrirtækja mun fjölga.

Vegna ört versnandi ástands spáir Vinnumálastofnun enn meira atvinnuleysi en hún gerði fyrr í þessum mánuði og telur líkur á að það verði um eða yfir 7% í lok janúar, eða um 13-14 þúsund manns. Tekið skal fram að erfitt er að spá við þessar aðstæður og rétt að hafa fyrirvara á þessum tölum.

Stofnunin áætlar að um 4.000 manns flytjist af landinu á næstu þremur mánuðum, að stærstum hluta útlendingar sem starfa í byggingariðnaði og fleiri iðngreinum en einnig íslenskir iðnaðarmenn í vaxandi mæli ásamt fólki sem starfað hefur í bankakerfinu og þjónustustörfum af ýmsu tagi, svo sem hjá arkitekta- og auglýsingastofum. Þá er gert ráð fyrir að yfir 1.000 manns muni ekki sækja um atvinnuleysisbætur heldur fara í skóla en taki að sér tímabundin verkefni.

Þeir sem eru að missa vinnu þessa dagana og skrá sig atvinnulausa koma flestir úr byggingariðnaði og flutningastarfsemi þar sem fjöldauppsagnir tengdar flugrekstri fyrr á árinu vega þungt. Einnig hefur fjölgað fólki á atvinnuleysisskrá úr ýmsum þjónustu- og verslunargreinum og raunar úr flestum starfsgreinum. Þetta á þó ekki við um opinbera starfsmenn. Þeir sem bætast í hóp atvinnulausra hafa fjölbreytta menntun að baki þó flestir séu með litla menntun. Fjölgunin hefur þó verið mest meðal fólks með stúdentspróf og meðal iðnaðarmanna.

Atvinnuleysi mun aukast heldur meira meðal karla en kvenna, enda samdrátturinn meiri í þeim greinum þar sem karlar eru í meirihluta, svo sem byggingariðnaði, flutningastarfsemi, ýmsum iðnaði og fjármálaþjónustu. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist einkum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum næstu tvo mánuði. Einnig má búast við aukningu á Suðurlandi og Norðurlandi eystra strax á næstu mánuðum. Í öðrum landshlutum er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítið næstu daga og vikur en byrji að aukast í desember og þó einkum í janúar.

Ætlað er að fjöldi erlends verkafólks hafi náð hámarki seinni part árs 2007, var þá rúmlega 17.000 manns eða 9%. Töluverð fækkun varð um síðustu áramót en svo fjölgaði erlendu verkafólki aftur í sumar. Í haust tók að fækka í hópi þess og síðustu tvo mánuði hefur erlent verkafólk streymt af landi brott samfara snörpum samdrætti í byggingariðnaði og fleiri greinum þar sem þeir það hefur starfað í miklum mæli. Erfitt er að fá tölur um fjölda útlendinga sem hverfa af vinnumarkaði, en Vinnumálastofnun gerir þó ráð fyrir að útlendingum á vinnumarkaði fækki niður undir 10.000 fyrir árslok og verði þá um 5-6% af vinnuaflinu. Af þeim sem nú eru skráðir atvinnulausir eru útlendingar um 16% af heildarfjölda, eða um 600 manns.

Það lá alltaf fyrir að fjöldi erlends verkafólks kom til að starfa tímabundið hér á landi en hugðist ekki setjast að. Því má hins vegar ekki gleyma að stór hópur hefur fest hér rætur, býr í eigin húsnæði eða er með bindandi leigusamning, hefur stofnað fjölskyldu, er með börn í skóla og annað sem fylgir fastri búsetu. Mikilvægt er að stofnanir samfélagsins geti sinnt fólki úr þessum hópi sem misst hefur vinnuna en þarf sérstaka aðstoð vegna tungumálaörðugleika eða af því það skortir þekkingu á íslensku samfélagi og stofnunum þess.

Þótt mjög hafi dregið úr ráðningum fyrir milligöngu Vinnumálastofnunar er samt töluvert enn um slíkar ráðningar. Í október voru þær nálægt fimm ráðningum á dag að meðaltali í margs konar störf, svo sem í umönnunar- og gæslustörfum og í stöku iðngreinum eins og málmiðnaði. Þá veitir stofnunin fólki aðstoð við að finna sér störf erlendis, einkum í gegnum evrópska vinnumiðlunarkerfið EURES og hefur það skilað töluverðum árangri.


Góðir fundarmenn.

Það sækir að manni kuldahrollur við það eitt að nefna þær tölur sem hér hafa komið fram um atvinnuástandið, þróun þess síðustu daga og fyrirsjáanlega versnandi ástand á næstunni. Á bak við þessar svörtu tölur eru einstaklingar, konur og karlar, mæður og feður, fólk á öllum aldri sem sér fram á atvinnuleysi til lengri tíma. Fólk sem hefur nú þungar áhyggjur af framfærslu sinni og fjölskyldu sinnar frá degi til dags, afborgunum af lánum og öðrum fjárhagslegum skuldbindingum. Á bak við þessar tölur eru stór og smá fyrirtæki sem við venjulegar aðstæður áttu mörg hver góða framtíð fyrir sér en hafa nú misst rekstrargrundvöll sinn og fara jafnvel í þrot.

Nú ríður á að missa ekki kjarkinn. Ég sem ráðherra vinnumála, Vinnumálastofnun, samtök atvinnurekenda og launþega, við þurfum að vinna þétt saman. Ákvarðanir um aðgerðir þarf að taka hratt en þó af yfirvegun.

Eins og ég sagði áðan er skriða hópuppsagna farin af stað og hafa Vinnumálastofnun borist upplýsingar um hópuppsagnir síðustu daga sem ná til um 2.000 einstaklinga sem hætta störfum á næstu einum til þremur mánuðum. Við verðum með öllum ráðum að stemma stigu við þessu eins og nokkur kostur er.

Nú er grundvallaratriði að við nýtum öll tækifæri og hlustum á reyndustu menn hér á landi og í alþjóðasamfélaginu dag frá degi og bregðumst hratt við til þess að tryggja virk úrræði vinnandi fólki og fyrirtækjunum til handa.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur átt frábært samstarf við aðila vinnumarkaðarins undanfarna daga, sem ég er afar þakklát fyrir, og mótaðar hafa verið tillögur sem þessir aðilar eru sannfærðir um að muni skipta máli.

Samráðshópur félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins kynnti nýlega tillögur um leiðir til að sporna við vaxandi atvinnuleysi sem fela í sér hvatningu til fyrirtækja um að lækka frekar starfshlutfall starfsfólks en að grípa til hópuppsagna sé það mögulegt.

Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt að senda frumvarp um hlutabætur Atvinnuleysistryggingasjóðs til þingflokka. Endanlegt kostnaðarmat mun liggja fyrir eftir helgi en ég bind vonir við að það fái skjóta meðferð á Alþingi og æskilegt er að það komi til framkvæmda sem allra fyrst.

Í frumvarpinu felst í fyrsta lagi að sá tími sem heimilt er að greiða fólki tekjutengdar atvinnuleysisbætur verður lengdur hlutfallslega í samræmi við lækkað starfshlutfall.

Í öðru lagi verður skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf felld niður.

Í þriðja lagi verður komið í veg fyrir að réttindi sem launafólk hefur áunnið sér skerðist.

Frumvarpið gengur í raun út á það að í stað þess að segja starfsfólki upp eða lækka við það launin yrði samið um lækkað starfshlutfall og á móti myndi Atvinnuleysistryggingasjóður greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur vegna þess starfshlutfalls sem sagt yrði upp.

Í samanburði við algert atvinnuleysi myndi þessi leið draga mjög úr lífskjaraskerðingu láglaunafólks og fólks með millitekjur og gagnvart þeim sem hafa tekjur undir 315.000 fyrir fullt starf gæti dæmið litið svona út:

Ef starfshlutfallið yrði lækkað úr 100% í 50% myndi launþeginn halda 85% af fyrri launum í allt að sex mánuði.

Auk þess er rétt að undirstrika að launafólk sem nýta sér þessa leið halda að fullu réttindum sínum í Ábyrgðarsjóði launa, Fæðingarorlofssjóði og réttindi foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Ég hvet stjórnendur stofnana og fyrirtækja að semja við starfsfólk um lægra starfshlutfall fremur en að beita hópuppsögnum eða segja upp starfsfólki ef þess er nokkur kostur. Verði frumvarpið að lögum vona ég að það verði atvinnurekendum aukin hvatning til að fara þessa leið. Ég vil jafnframt nota tækifærið og biðja ykkur sem hér eruð að koma þessum skilaboðum á framfæri sem víðast og kynna þær aðgerðir sem felast í frumvarpinu sem ég vona að geti orðið að lögum fljótlega.

Fyrir utan þessar tillögur vil ég nefna samstarf félags- og tryggingamálaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins um tillögur um að Atvinnuleysistryggingasjóður styrki nýsköpunarstörf. Hugsunin er sú að hluti þeirra sem nú sjá fram á að missa vinnu sína geti þegar hafið störf við nýsköpunarverkefni.

Mikilvægt er að virkja þá krafta sem liggja í sprotafyrirtækjum og fjölda hugmyndaríks fólks sem hefur haft samband við stjórnvöld undanfarna daga. Við verðum að hlusta á fólkið og við verðum að virkja fólkið. Þannig, og einungis þannig, munum við efla samfélagið og fá hjólin til þess að snúast með eðlilegum hætti.

Ég vil jafnframt nefna hér að stjórnvöld munu nú leggja áherslu á að virkja starfsmenntaúrræði í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi. Þannig hafa aðilar vinnumarkaðarins unnið með stjórnvöldum í útfærslu tillagna sem afar mikilvægt er að þeir sem sjá fram á atvinnuleysi geti nýtt sér. Ég vil að mótaðar verði skýrari og sveigjanlegar reglur um möguleika fólks í atvinnuleit og á atvinnuleysisbótum til að sækja nám eða námskeið samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Slíkar reglur/leiðbeiningar væru að mínu viti mikilvægar fyrir ráðgjafa Vinnumálastofnunar og ættu í leiðinni að tryggja aukið gagnsæi og jafnræði í þessum efnum.

Starfsfólk Vinnumálastofnunar hefur staðið sig mjög vel á síðustu mánuðum. Því hafði verið spáð fyrir hrunið mikla nú í október að atvinnuleysi myndi aukast töluvert á næstu mánuðum. Stofnunin hefur sinnt vel undirbúningi til að mæta aukningunni, þótt auðvitað hafi hún ekki búið sig undir neitt í líkingu við þessar aðstæður. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, flytur skýrslu ársins 2007 á eftir en mun einnig segja frá helstu verkefnum sem unnið hefur verið að af hálfu stofnunarinnar á árinu en ýmislegt hefur verið gert til að mæta aðstæðum atvinnulausra og þróa slík úrræði í samvinnu við ýmsa aðila.

Má þar nefna aukna áherslu á ráðgjöf, ekki síst fyrir þá sem taldir eru í mestri hættu á langtímaatvinnuleysi, ýmis konar námskeiðahald og uppbyggingu símenntunarmiðstöðvar.

  

Góðir gestir.

Ég tel ótvírætt að efla þurfi starfsemi Vinnumálastofnunar á næstunni til að mæta því gríðarlega álagi sem þar er. Mér er fullkunnugt um mikið álag á starfsfólk stofnunarinnar og ég vil að það komi skýrt fram að ég met mikils þá miklu og erfiðu vinnu sem þið hafið axlað að undanförnu.

Því má heldur ekki gleyma að bráðum bætast við ný verkefni þegar atvinnumál fatlaðra færast frá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra til stofnunarinnar um næstu áramót. Það er verkefni sem ég tel rétt og eðlilegt að Vinnumálastofnun sinni, en auðvitað þarf að styrkja hana sérstaklega til að mæta því. Þessi tilfærsla endurspeglar nýja og breytta sýn á aðstæður fatlaðra. Við verðum að standa vörð um stöðu fatlaðra og annarra hópa sem hafa staðið veikum grunni og nú verðum við að gæta sérstaklega að unga fólkinu.

Um helmingur fólks á aldrinum 18-24 ára hefur hugleitt að flytjast af landi brott ef marka má niðurstöður könnunar Capacent Gallup sem birtust á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Tæpur þriðjungur allra svarenda sögðust hafa hugleitt möguleikann, en hlutfallið fór lækkandi með hærri aldri svarenda. Þetta eru skelfileg tíðindi sem við verðum að taka mjög alvarlega. Við þurfum að koma í veg fyrir atgervisflótta og grípa til allra mögulegra ráða í því skyni. Við sem hér erum í dag þurfum því líka að skoða allar leiðir sem við teljum færar til að huga að þessum hópi.


Ágætu ársfundargestir.

Ég hef nú farið yfir margvísleg atriði og verkefnin framundan í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er.

Það er grundvallaratriði að hjól atvinnulífsins snúist áfram og að fólki bjóðist hér atvinna. Án hennar og án starfsemi fyrirtækjanna verður erfitt að standa vörð um velferðarkerfið.

Atvinnumálin eiga að vera í algjörum forgangi og stjórnvöld eiga að taka höndum saman með aðilum vinnumarkaðarins til þess að tryggja það. Meginviðfangsefnið framundan er endurreisn atvinnulífsins og að standa vör um heimilin. Um það verðum við öll að standa saman um. Þannig vinnum við okkur út úr vandanum og gefum fólkinu trú á betri framtíð.

 

Ágætu ársfundargestir.

Ég óska ykkur alls góðs í ykkar mikilvægu störfum í dag og á næstu mánuðum og misserum og heiti ykkur fullum stuðningi mínum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta