Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing Samtaka um almannaheill

Góðir gestir.

Samtökin Almannaheill efna til málþings þegar yfir samfélaginu hvílir skuggi alvarlegustu efnahagskreppu sem þjóðin hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Þessi erfiða staða er raunar tilefni málþingsins þar sem spurt er hvernig íslensk samtök sem starfa í almannaþágu geti brugðist við afleiðingum fjármálakreppunnar og átt þátt í því að byggja upp nýtt og betra samfélag. Ég þakka þeim fyrir sem efna til umræðunnar og vekja um leið athygli á þeim krafti sem býr í almannaheillasamtökum á Íslandi.

Fjölbreytt samtök stóðu að stofnun Almannaheilla í júní í sumar. Stór og smá samtök sem vinna að margvíslegum og ólíkum málefnum, svo sem neytendamálum, heilbrigðismálum, náttúruvernd, hjálparstarfi, æskulýðsstarfi og fleira.

Það sem almannaheillasamtök eiga sameiginlegt er að mikið af því starfi sem sinnt er á þeirra vegum er unnið í sjálfboðavinnu fyrir frjáls framlög almennings. Ég nefni einnig sjálfseignarstofnanir sem reknar eru án hagnaðarsjónarmiða og hafa orðið til vegna áhuga á því að veita þjónustu á tilteknum sviðum velferðarmála sem þótt hefur vanta. Stundum hafa félagasamtök komið á fót þjónustustarfsemi sem ríkið hefur síðar tekið yfir en eins eru sjálfseignastofnanir sem sinna rekstri slíkrar þjónustu en fá greitt rekstrarfé frá ríkinu. Nærtæk dæmi um slíkt eru margar öldrunarstofnanir víða um land.

Það er eðli almannaheillasamtaka að sinna brautryðjendastarfi og ég nefni sérstaklega að mörg félagasamtök hafa lyft grettistaki í baráttu fyrir ýmsum réttindamálum minnihlutahópa.

Góðir gestir.

Ég geri mér vel ljóst að starfsemi félaga og samtaka sem hér um ræðir er gífurlega mikilvæg í íslensku samfélagi. Trúlega mun mikilvægari en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Oft er þetta starfsemi sem ber ekki mikið á og fer ekki mikið fyrir í opinberri umræðu en myndi rýra lífsgæði velferðarsamfélagsins ef hennar nyti skyndilega ekki lengur við.

Samtökin Almannaheill hafa bent á að samtök og stofnanir í þriðja geiranum svokallaða hafi oft umfangsmikinn rekstur með höndum sem geri nauðsynlegt að setja þeim skýrari ramma með heildstæðri löggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.

Ég tel það skiljanlega og skynsamlega kröfu Almannaheilla að sett verði heildstæð en almenn löggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana og um réttindi þeirra og skyldur. Þetta er ég reiðubúin að taka til skoðunar með hliðsjón af reynslu annarra þjóða af slíkri lagasetningu. Það þarf hins vegar að stíga gætilega til jarðar.

Það má ekki kæfa með regluverki starfsemi sem sprettur upp úr grasrótinni af hugsjónum og eldmóði einstaklinga sem hafa mikið fram að færa og vilja leyfa öðrum að njóta þess. Hið opinbera má ekki taka ráðin af félögum sem starfa í þágu almennings, reyna að stýra starfi þeirra eða ætlast til þess að þau sinni verkefnum sem með réttu eiga að vera á hendi hins opinbera og firra sjálft sig ábyrgð.

Þá má heldur ekki viðgangast að hið opinbera veiti félagasamtökum fé til að sinna viðkvæmum verkefnum í velferðarþjónustu án skuldbindinga, skýrra reglna og eftirlits. Við höfum brennt okkur á slíku og enginn vill að það gerist aftur.

Stjórnvöld þurfa að finna leið til þess að virða, meta og viðurkenna í verki allt það mikilvæga starf í almannaþágu sem frjáls félagasamtök inna af hendi, án þess að hefta þau eða kæfa. Það þarf að efla slíka starfsemi með umgjörð sem hvetur en ekki letur og sem styður en stjórnar ekki.

Það leikur enginn vafi á því að mikilvægi þeirrar starfsemi sem þegar er sinnt í ríkum mæli í samfélaginu af hálfu frjálsra félagasamtaka á eftir að aukast verulega á næstunni vegna erfiðra aðstæðna í samfélaginu. Því er ég þakklát Almannaheillum fyrir að efna til þessa málþings til að ræða hvernig samtök sem vinna að velferð í samfélaginu geti tekið þátt í því að byggja upp nýtt og betra samfélag.

Mikilvægt er að stjórnvöld sýni því skilning að ekki má draga úr framlögum eða styrkjum til almannasamtaka á þessum erfiðu tímum, ekki síst þegar hætt er við að draga muni úr frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Starfsemi þeirra er mikilvægari nú en nokkru sinni og þau munu gegna stóru hlutverki í því endurreisnarstarfi sem framundan er.

Samfélagið þarf á öllum tiltækum kröftum að halda og það er mikilvægt að virkja allt það afl sem býr í samfélaginu til góðra verka. Það er einnig von mín að á tímum vaxandi atvinnuleysis muni margir finna kröftum sínum farveg og ganga til liðs við samtök á þessum vettvangi. Það verður nóg að starfa fyrir vinnufúsar hendur, fólk sem vill og getur lagt mikið af mörkum í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.

Lokaorð mín við upphaf þessa málþings eru þau að eitt af brýnustu verkefnum samfélagsins nú er að standa vörð um velferðina, ekki síst velferð þeirra sem standa höllum fæti. Félags- og tryggingamálaráðuneytið er í raun velferðarráðuneyti sem fjallar um málefni er varða velferð fólks frá vöggu til grafar.

Þótt ég telji íslenska velferðarkerfið að mörgu leyti afar gott viðurkenni ég fúslega að án starfsemi almannaheillasamtaka væri mikils misst og margir verr settir en ella. Við skulum öll taka höndum saman, sjáum til þess að á Íslandi verði ávallt til traust velferðarkerfi og tryggja með öllum ráðum að þótt erfiðir tímar séu framundan þurfi enginn sem þarfnast aðstoðar að koma að lokuðum dyrum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta