Jafnréttisþing 2009
Ágætu þinggestir.
Jafnréttisþing er nú haldið í fyrsta sinn samkvæmt nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem samþykkt voru á Alþingi í febrúar síðastliðnum.
Hlutverk jafnréttisþings
Hlutverk þess samkvæmt jafnréttislögum er þríþætt. Í fyrsta lagi ber mér sem ráðherra jafnréttismála að leggja fyrir jafnréttisþing skýrslu um stöðu og þróun í jafnréttismálum á nýliðnum árum. Þar er jafnframt farið yfir efndir og árangur verkefna í fyrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem rann sitt skeið á enda á síðasta ári. Skýrslan hefur verið afhent ykkur með öðrum gögnum þingsins.
Í öðru lagi þá er það hlutverk þingsins að skila inn ábendingum og hugmyndum sem geta nýst mér og ráðuneyti mínu við gerð þingsályktunartillögu um næstu framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem gilda á til ársins 2012. Þess vegna er gert ráð fyrir því í jafnréttislögunum að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar verði ekki fullunnin fyrr en að loknu jafnréttisþingi. Þetta er einmitt ástæða þess að ég hef ekki lagt fram tillögu um nýja framkvæmdaáætlun á Alþingi heldur mun gera það á vorþinginu sem hefst í næstu viku.
Ég hvet ykkur til að hafa þennan tilgang þingsins í huga í málstofunum þar sem tími gefst til umræðna og lýsi eftir framsýnum hugmyndum sem geta orðið grundvöllur markvissra aðgerða í jafnréttismálum. Jafnréttisráð ber ábyrgð á að taka saman umræður þingsins og því munu ábendingar ykkar rata rétta leið inn í vinnuna að nýrri framkvæmdaáætlun. Til að styðja við umræðurnar legg ég fyrir ykkur vinnuskjal sem ég kalla umræðugrundvöll vegna nýrrar áætlunar. Þar er lýst þeim gildum og markmiðum sem verða leiðarljós nýrrar áætlunar og nokkrum verkefnum sem ég vil setja í forgang.
Í þriðja lagi þá er jafnréttisþingi ætlað að vera virkur samræðuvettvangur um jafnréttismál. Hingað er stefnt almenningi, alþingis- og sveitarstjórnarmönnum, fulltrúum stofnana, fyrirtækja, aðila vinnumarkaðar og frjálsra félagasamtaka sem láta sig jafnréttismál varða til að taka stöðuna á jafnréttisbaráttunni, líta yfir farinn veg og horfa til framtíðar – til opinnar umræðu um eitt af dýrmætustu gildum samfélags okkar, jafnrétti, jafngildi og jafnræði kynjanna.
Nýtum krafta kvenna
Það er lífsspursmál fyrir okkur sem þjóð að menntun, reynsla og þekking allra, kvenna og karla, séu nýtt til fulls og metin að verðleikum. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að mismuna kynjunum. Kynbundin mismunun, hvort sem er í launum, við ráðningar í störf eða skipanir í stjórnir og embætti, felur í sér að mannauður samfélags okkar er ekki nýttur sem skyldi. Pólitískar ráðningar sem verða til þess að hæfileikaríkasta fólkið er sniðgengið bitnar á okkur öllum. Slíkt framferði hefur reynst samfélaginu dýrkeypt.
Konur hafa ekki krafist þess að þeim sé hyglað, að þeim veitist framgangur án verðleika. Þær hafa einungis krafist þess að sanngjörn og málefnaleg sjónarmið ráði för. Ég er viss um að staða samfélagsins væri önnur og betri hefðu konur átt þann sess sem þeim ber í atvinnulífinu, í fjármálastofnunum, í stjórnmálum og almennt í stofnunum samfélagsins.
Frestun jafnréttisþingsins
Í haust ákvað ég að fresta jafnréttisþinginu um tvo mánuði og vakti það eðlilega blendin viðbrögð. Sumum þótti sannast að jafnréttismál væru gæluverkefni og ekki tiltökumál að ýta þeim til hliðar vegna annarra mála sem talin væru brýnni. Undir þessi sjónarmið mun ég aldrei taka enda er ég þess fullviss að ákvörðun um frestun þingsins var rétt og nauðsynleg á þeim tíma. Ástæðan var einkum sú að allar aðstæður í þjóðfélaginu gjörbreyttust eins og hendi væri veifað við hrun bankanna. Ég taldi mikilvægt að breyta dagskránni sem þá lá fyrir þar sem óhjákvæmilegt er að umræður þingsins taki mið af þessum nýju aðstæðum.
Jafn miklar breytingar á efnahagslífinu og nú blasa við, samdráttur í atvinnulífi, vaxandi atvinnuleysi, niðurskurður í opinberum rekstri, fjárhagserfiðleikar heimila og fyrirtækja, allt eru þetta þættir sem munu hafa mikil og að einhverju leyti ólík áhrif á stöðu kvenna og karla.
Helstu umfjöllunarefni
Ég ætla mér hér á eftir að stikla á stóru um stöðu og þróun jafnréttismála og helstu verkefni á því sviði sem unnið hefur verið á síðustu misserum. Ýmis verkefni eiga rætur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er kveðið á um gerð áætlunar til að draga úr óútskýrðum launamun hjá ríkinu um allt að helming fyrir lok kjörtímabilsins og um endurmat á störfum kvenna hjá því opinbera, sérstaklega í stéttum þar sem konur eru í miklum meiri hluta.
Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar skal koma á samvinnu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera til þess að finna leiðir til þess að eyða kynbundnum launamun á almennum vinnumarkaði. Þá skal stefnt að því að tryggja jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins og loks tryggja rétt launafólks til að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs.
Reynsla af nýjum jafnréttislögum
Í nýjum jafnréttislögum eru nokkur merk nýmæli. Eftirlitsheimildir Jafnréttisstofu með framkvæmd laganna eru efldar auk þess sem Jafnréttisstofu er nú heimilt að fylgja þeim eftir með dagsektum í vissum tilvikum, til dæmis ef fyrirtæki eða stofnanir gera ekki lögbundna jafnréttisáætlun eða sinna ekki upplýsingaskyldu sinni við stofuna.
Þegar hefur reynt á þessar nýju heimildir Jafnréttisstofu. Eftir stofnun ríkisbankanna óskaði hún eftir upplýsingum um ráðningar í stjórnunarstöður. Aðeins einn banki veitti Jafnréttisstofu upplýsingar innan tilskilins frests. Í kjölfarið var hinum bönkunum tveimur veittur viðbótarfrestur og jafnframt upplýst að dagsektum yrði beitt, kæmu upplýsingarnar ekki innan frestsins. Til þess kom þó ekki þar sem umbeðnar upplýsingar bárust Jafnréttisstofu á tilteknum tíma.
Í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann var sett inn í jafnréttislög ákvæði um að starfsmönnum skyldi alltaf heimilt að upplýsa um launakjör sín ef þeir kjósa svo. Þetta er stórt skref í rétta átt, en það er eðlileg krafa til atvinnurekenda að launakerfin séu gagnsæ og byggð á málefnalegum sjónarmiðum sem starfsmenn eru upplýstir um.
Kærunefnd jafnréttismála
Annað mikilvægt nýmæli varðar kærunefnd jafnréttismála, en í stað þess að gefa frá sér álit eins og áður var eru úrskurðir hennar nú bindandi. Reynslan af þessari breytingu á eftir að koma í ljós, en það er alveg ljóst að hugsunin á bak við hana var að styrkja kærunefndina og þá réttarvernd gegn kynbundinni mismunun sem lögin eiga að veita brotaþola.
Þegar litið er til álita kærunefndar jafnréttismála á síðastliðnum árum kemur fram að álitum þar sem nefndin telur að jafnréttislögin hafi verið brotin við stöðuveitingar hefur fækkað hlutfallslega allt frá árinu 2004 og það verulega. Hefur kærunefndin meðal annars vísað til þess svigrúms sem atvinnurekendur eru taldir hafa við val á umsækjendum um störf.
Þetta er sannarlega umhugsunarvert sjónarmið sem ástæða er til að ætla að geti haft óæskileg áhrif á þróun jafnréttis í landinu. Enn er ekki farið að reyna á hin nýju lög að því er þetta varðar. Ég veit að margir eru hugsi yfir þessari þróun og spyrja hvað valdi og með þessu verður grannt fylgst.
Kynbundinn launamunur
Það er óþolandi staða hve illa gengur að uppræta kynbundinn launamun sem enn viðgengst hér á landi. Virðist stöðnun ríkja í þeim efnum. Á fyrri hluta síðasta árs fól ég Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera könnun á launum karla og kvenna á vinnumarkaðnum í heild. Frumkvæðið kom frá ráðgjafarhópi um launajafnrétti og var tilgangur hennar meðal annars að mynda viðmiðunargrundvöll fyrir síðari kannanir þar sem reynt verði að meta árangur væntanlegra aðgerða gegn kynbundum launamun. Í þessari könnun koma fram mjög athyglisverðar niðurstöður sem ræddar verða í málstofu á þessu þingi.
Þrír starfshópar um launajafnrétti kynja
Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar voru árið 2007 skipaðir þrír starfshópar til að vinna að launajafnrétti. Tvo þeirra skipaði ég sem félagsmálaráðherra, annan til að vinna tillögur um leiðir að launajafnrétti á almennum vinnumarkaði og jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja, en hinum var falið að vera mér til ráðgjafar og fylgjast með árangri þeirra aðgerða sem gripið yrði til. Fjármálaráðherra skipaði síðan hóp um leiðir til launajafnréttis hjá því opinbera. Ég hafði gert mér vonir um að raunhæfar tillögur lægju fyrir í haust um opinbera markaðinn, en það er skemmst frá því að segja efnahagsþrengingar og ástandið í samfélaginu hafa meðal annars tafið þá vinnu.
Nú þegar liggur þó fyrir að nefndin mun leggja til aukið eftirlit og eftirfylgni með launaákvörðunum hjá hinu opinbera og að innleitt verði reglubundið skoðunarkerfi í þeim tilgangi.
Að mati nefndarinnar, ekki síst í ljósi niðurstaðna könnunar sem nefndin lét vinna meðal forstöðumanna ríkisstofnana, og greint verður betur frá í málstofu síðar í dag, má leiða að því líkur að með slíku skoðunartæki yrði spornað mjög gegn kynbundnu launamisrétti hjá hinu opinbera.
Vonir standa síðan til að endurmat og endurskilgreining á kjörum í hefðbundnum kvennastéttum hjá hinu opinbera og tillögur í þeim efnum liggi fyrir nú í vor.
Ábyrgð forstöðumanna opinberra stofnana
Ég ætla að víkja að ábyrgð forstöðumanna opinberra stofnana á framkvæmd launastefnu og þar með á launajafnrétti kynja. Með starfsmannalögunum frá 1996 var forstöðumönnum veitt heimild til að greiða einstökum starfsmönnum viðbótarlaun vegna hæfni, álags eða árangurs í starfi. Kveðið var á um að fjármálaráðherra setti um þetta reglur, en þær litu fyrst dagsins ljós ellefu árum síðar. Þrátt fyrir skort á reglum hafa forstöðumenn lengi nýtt sér heimildina. Að minni beiðni skoðaði Ríkisendurskoðun hvernig að greiðslunum var staðið og birti um það skýrslu árið 2004.
Viðbótargreiðslur komu einkum fram í yfirvinnugreiðslum þar sem ekki var krafist vinnuframlags á móti, en einnig notuðu nokkrar stofnanir þóknanir í þessu skyni. Eins taldi Ríkisendurskoðun að akstursgreiðslur væru að einhverju leyti í raun viðbótarlaun. Kom fram sláandi munur milli kynja konum í óhag sem reyndust fá um 56% af þeim greiðslum sem karlar fengu. Þetta er óviðunandi og sýnir að þeim sem koma að launaákvörðunum er ekki ljós sú ábyrgð sem þeir bera.
Þegar fjármálaráðuneytið setti almennar reglur um greiðslur viðbótarlauna árið 2007, ellefu árum eftir gildistöku starfsmannalaganna, var kveðið á um að forstöðumönnum bæri að setja nánari reglur um útfærslu þeirra innan hverrar stofnunar og kynna þær starfsmönnum sínum.
Ég tel bráðnauðsynlegt að skoða hvernig þessum málum er háttað nú, hvort forstöðumenn hafi sett þær reglur sem þeim ber og hvort kynjunum sé enn mismunað eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós á sínum tíma. Ég skora á forstöðumenn opinberra stofnana að sýna ábyrgð í verki og endurskoða vinnubrögð sín með jafnrétti kynjanna að leiðarljósi, hafi þeir ekki þegar gert það.
Ég veit að á þessu verður tekið í þeim tillögum sem starfshópur fjármálaráðuneytisins um leiðir að launajafnrétti mun skila af sér því þetta þolir ekki bið.
Starfshópur um launamun á almennum vinnumarkaði
Starfshópur, sem ég fól að finna leiðir til að eyða kynbundnum launamun á almennum vinnumarkaði, skilaði tillögum sínum í október síðastliðnum. Hópurinn telur þrjár leiðir helst færar. Þær eru starfsmat, eins og hefur verið við lýði á sveitarstjórnarstiginu um nokkurra ára bil, jafnréttisstaðallinn og vegvísir um jafnlaunaúttektir í fyrirtækjum og stofnunum sem er nokkurs konar hliðarafurð af vinnu starfshópsins.
Vegvísirinn er ígildi handbókar sem byggð er á hugmyndum mannauðsstjóra nokkurra stærstu fyrirtækja landsins sem telja vísinn vera leið að launajafnrétti og ekki fela í sér það fé og fyrirhöfn sem fylgir starfsmatskerfi eða staðlagerð. Tæplega fimmtíu fyrirtæki, með um fimmtán þúsund starfsmönnum, hafa lýst sig reiðubúin til að fylgja honum. Ég hef þegar sett mig í samband við hvert og eitt þessara fyrirtækja og fagnað áhuga þeirra. Um leið vil ég hvetja þau til að taka út laun kvenna og karla í fyrirtækinu fyrir og eftir innleiðingu vegvísisins, en það gefur tækifæri til að meta árangur af notkun hans og það er tækifæri sem ekki má láta ónotað.
Jafnréttisstaðall
Í bráðabirgðaákvæði með nýjum jafnréttislögum var mér falið að láta þróa vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins.
Við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 var einnig gerð bókun um setningu staðals fyrir vottun á framkvæmd jafnréttisstefnu fyrirtækja. Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og ráðuneyti mitt gerðu með sér samkomulag á ársfundi Alþýðusambandsins á kvennafrídaginn 24. október síðastliðinn, um að ráðast sameiginlega í þetta verk og fela Staðlaráði Íslands að hafa umsjón með því. Staðlaráð hefur skipað svokallaða tækninefnd til að stýra vinnunni og er jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins formaður hennar. Samkvæmt metnaðarfullum tímaramma í ákvæðum laganna á verkinu að ljúka nú fyrir árslok. Vonir mínar standa til þess að atvinnurekendur muni sjá ávinning í því að fela óháðum vottunaraðilum úttekt á launa- og starfsmannastefnu sinni því þannig verði hafið yfir allan vafa að þeir virði jafnrétti kvenna og karla.
Staða kvenna í nefndum og ráðum
Ágætu þingfulltrúar.
Í nýjum jafnréttislögum segir að þess skuli gætt við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga að hlutur hvors kyns sé ekki minni en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta á einnig við um stjórnir hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag eru aðaleigandi að. Kveðið er á um að tilnefna skuli bæði karl og konu nema hlutlægar ástæður geri það ekki mögulegt og þarf þá að rökstyðja að svo sé.
Hlutur kvenna í nefndum innan Stjórnarráðsins hefur aukist hægum skrefum og var orðinn 36% fyrir ári. Þrjú ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið, hafa náð markmiði laganna. Við nýskipanir í nefndir eftir síðustu ríkisstjórnarskipti var hlutur kvenna 39% – það stefnir í rétta átt þótt okkur miði of hægt að mínu mati.
Áhrifastöður og stjórnmál
Skipting kynjanna meðal forstöðumanna ríkisstofnana var í janúar 2007 þannig að 77% þeirra voru karlar en konur 23%. Hér hefur lítið sem ekkert dregið saman með kynjunum síðustu ár.
Á Alþingi sitja konur í 37% þingsæta, konur eru þriðjungur ráðherra, þriðjungur af formönnum í fastanefndum þingsins og þriðjungur ráðuneytisstjórar. Hlutfallið er lægra konum í óhag meðal skrifstofustjóra og deildarstjóra í ráðuneytunum. Af þessum upplýsingum að dæma þurfa ráðuneytin verulega að taka sig á.
Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 var hlutur kvenna í sveitarstjórnum tæp 36% sem var 4,8% aukning frá kosningunum 2002. Í september síðastliðnum voru konur rétt rúmur fjórðungur starfandi bæjarstjóra eða sveitarstjóra.
Glerþak og krítískur massi
Þessar tölur eru í skýrslunni sem ég nefndi í upphafi, en ég vil draga þetta saman. Tölurnar hlaupa fram og til baka um nokkur prósent, flestar í kringum hlutfallið 70 á móti 30. Ég veit að hér inni eru margir sem þekkja til hugtaksins glerþaksins, sem komst inn í jafnréttisumræðuna fyrir nokkrum árum. Hér eru einnig örugglega margir sem þekkja til kenningarinnar um hinn krítíska massa.
Í stuttu máli lýtur hún að því að meiri hlutinn, hin ráðandi öfl, geti þolað minni hluta og varnað honum raunveruleg áhrif meðan honum er haldið innan um það bil þriðjungs hlutar í sætunum og stöðunum.
Við getum spurt hversu lengi þess er að bíða að konur, sem eru minnihlutahópur sé litið til valda og áhrifa í íslensku samfélagi, reki höfuðið upp í gegnum glerþakið, rjúfi fjötra minnihlutahópsins, og komist til meirihluta áhrifa, sem sannarlega væri fróðlegt að sjá hvaða áhrif hefði á mótun samfélags.
Einkamarkaður til vansa
Konur eru þó ekki minnihlutahópur þegar kemur að því að leggja til samfélagsins vinnukraft sinn, metnað og hugvit. Hlutur kvenna á íslenskum vinnumarkaði var tæplega 46% árið 2007 sem þýðir að atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því mesta sem gerist á byggðu bóli. Við vitum að þær eru líka í fararbroddi sé litið til menntunar. En! Af framkvæmdastjórum fyrirtækja voru 19% þeirra konur á móti um 80% karla. Árið 2005 var þetta hlutfall 18% svo lítið hefur breyst. Upplýsingar um stjórnir félaga í úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands árið 2007 eru sláandi. Af 83 stjórnarmönnum hjá fimmtán félögum voru þrjár konur á móti 80 körlum.
Sama ár var hlutfall kvenna í hópi framkvæmdastjóra hjá fyrirtækjum með 100 starfsmenn eða fleiri aðeins 9% samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Það er furðulegt að atvinnulífið skuli ekki átta sig á sóuninni sem felst í því að útiloka helming mannauðsins frá virkri þátttöku við uppbyggingu, rekstur og stjórnun fyrirtækja. Raunverulega er það forkastanlegt og ólíðandi.
Konur reka fyrirtækin betur.
Lítum á dæmi.
Rannsókn sem unnin var á vegum finnsku atvinnulífsnefndarinnar sýndi að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla. Rannsóknin náði til allra finnskra fyrirtækja með tíu starfsmenn eða fleiri.
Rannsóknir sýna líka að konur eru varfærnari í fjármálum en karlar. Þær eru hagsýnni, stofna síður til skulda og leggja minna upp úr yfirbyggingu í rekstri. Þá hafa rannsóknir sýnt að minni líkur eru á að fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum og jafnframt að fyrirtæki eru alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn.
Ég get ekki varist þeirri hugsun, hvort við hefðum farið eins illa út úr fjármálakreppunni eins og raun ber vitni, ef konur hefðu verið virkari þátttakendur í stjórnun þeirra atvinnu- og fjármálafyrirtækja og eftirlitsstofnana sem mestu réðu um að svo fór sem fór. Ég hef sannarlega mínar efasemdir í þeim efnum.
Efling kvenna í atvinnulífi
Góðir þingfulltrúar.
Stjórnvöld hafa sitthvað gert til að efla hlut kvenna í atvinnurekstri og má þar nefna sérhæft nám í frumkvöðlafræðum og ráðgjöf af ýmsu tagi til að virkja konur með nýjar viðskiptahugmyndir og hvetja þær til fjárfestinga í atvinnulífinu. Þá hafa verið veittir styrkir til atvinnuuppbyggingar kvenna og ég nefni í því sambandi árlega styrki félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þótt þessar aðgerðir séu aðeins dropi í hafið, þá sjáum við samt árangur. Konur eru í æ ríkari mæli að hasla sér völl á eigin forsendum og einmitt í einni málstofunni á eftir gefst tækifæri til að kynnast konum sem eru sannkallaðir leiðtogar á sínu sviði.
Þessar tölur um stöðu kvenna í stjórnunarstöðum hjá því opinbera og í atvinnurekstri og stjórnun fyrirtækja sýna að okkur miðar einfaldlega of hægt. Því tel ég nauðsynlegt að skoða af mikilli alvöru hvort stjórnvöld geti tekið fastar á málum en hingað til og beitt róttækari aðgerðum.
Kynjakvótann ber að skoða
Ég hallast æ meir að notkun kynjakvóta til þess að uppfylla ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnan rétt kvenna og karla og vil ég að við hugleiðum alvarlega slíka lagasetningu. Það er óumdeilanlega hlutverk löggjafans og stjórnvalda, með setningu laga og reglna, að sníða samfélaginu þann stakk og leikreglur sem hæfa markmiðum okkar um sanngirni, réttlæti og siðlegt samfélag með grundvallargildi lýðræðis og jafnrétti að leiðarljósi.
Það má gera því skóna að stjórnvöld og löggjafinn hafa á undanförnum árum átt í vök að verjast hvað þetta hlutverk varðar gagnvart þeim sem engum leikreglum vilja lúta, gagnvart þeim sem hafa viljað segja sig úr lögum hvað ábyrgð þeirra gagnvart samfélaginu í heild varðar, og með því slíta sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Konur hafa sannanlega hlutverki að gegna í að snúa við þessari öfugþróun.
Reynsla Norðmanna
Á síðasta ári færðust Norðmenn upp í fyrsta sæti á lista World Economic Forum yfir þær þjóðir sem virða jafnrétti kynjanna hvað best. Meginástæðan er að lögin um jafnrétti í stjórnum stórra fyrirtækja sem skráð eru á markaði eru að fullu gengin í gildi.
Árið 2003 samþykkti norska þingið lög sem kváðu á um 40% lágmarkskvennakvóta í stjórnum fyrirtækja sem skráð voru í norsku kauphöllina, hvort sem þau voru í einkaeign, hlutafélög eða í eigu ríkisins. Gefinn var tveggja ára aðlögunartími fyrir ríkisfyrirtæki en önnur fengu fjögurra ára frest eða til 2007. Viðurlögin voru að leysa mætti stjórnir fyrirtækja upp að loknum aðlögunartíma hefðu þau ekki náð tilsettum árangri.
Samtök norskra atvinnurekenda leggjast á sveif með lögunum
Í fyrstu mættu lögin nokkurri andstöðu af hálfu atvinnurekenda en síðar ákváðu samtök þeirra að söðla um og ýta úr vör eigin áætlun til að efla konur í stjórnum og stjórnunarstöðum. Það heitir á ensku Female Future eða Framtíð með konum og gengur meðal annars út á leiðtoga- og stjórnendaþjálfun fyrir konur og gagnabanka þar sem fyrirtæki geta leitað að hæfum konum til stjórnarsetu. Það er mat manna að aðgerðir atvinnurekenda hafi tekist afar vel og veitt fyrirtækjum verulegan stuðning við að uppfylla lagaskilyrðin. Í fyrstu var því borið við að erfitt yrði að finna konur til setu í stjórnum en raunin hefur orðið önnur og hefur verkefni norsku atvinnurekendasamtakanna átt þar mikinn þátt.
Þar er skemmst frá því að segja að áður en lögin gengu í gildi voru konur 7% stjórnarmanna í stærri fyrirtækjum í Noregi. Í júlí 2008 var talan komin upp í 39%. Hafa rannsóknir sýnt að þau fyrirtæki sem tefla fram konum í jafn ríkum mæli og körlum njóta aukins velvilja og virðingar jafnt á markaði sem og meðal viðskiptavina.
Nú er til umræðu að víkka lögin út þannig að þau nái til fyrirtækja í eigu sveitarfélaga og meðalstórra fyrirtækja. Víða um lönd er fylgst náið með fordæmi Norðmanna og hafa Spánverjar fetað í fótspor þeirra.
Kynbundið ofbeldi
Ágætu þinggestir.
Kynbundið ofbeldi, kynferðisleg misnotkun og vændi eru meðal þess skelfilegasta sem viðgengst í samfélaginu. Að hluta til eru þetta afbrot sem framin eru innan veggja heimilanna sem gerir erfiðara en ella að upplýsa þau og ná til þolenda með aðstoð. Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er unnið af fullum krafti í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi undir stjórn samráðsnefndar um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum.
Fyrir nokkrum dögum voru gefin út fimm fræðslurit um ofbeldi í nánum samböndum og eru fjögur þeirra eru skrifuð fyrir starfshópa sem framar öðrum komast í tengsl við þolendur ofbeldis. Því getur hæfni þeirra til að greina einkenni ráðið úrslitum um að þolendum sé veitt viðeigandi aðstoð og réttarvernd. Þessi rit liggja til kynningar hér í forsalnum og einnig er hægt að nálgast þau á vef ráðuneytisins.
Þá hef ég falið Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands að annast viðamikla rannsókn á umfangi og eðli kynbundins ofbeldis hér á landi. Fyrstu niðurstöður ættu að liggja fyrir í vor. Niðurstöður hennar verða samanburðarhæfar við erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna og þannig gefst okkur færi á að meta hvernig okkar þjóðfélag er að þessu leyti miðað við önnur.
Verkefnið Karlar til ábyrgðar var endurvakið en um er að ræða sérhæft meðferðartilboð fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum. Reynslan af slíku meðferðarstarfi er góð bæði hérlendis og erlendis og stendur metnaður okkar til þess að finna leiðir til að auðvelda körlum utan höfuðborgarsvæðisins að nýta sér þessa meðferð.
Ég er sannfærð um að með aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis tökum við stórt skref fram á við í baráttunni gegn þessari meinsemd. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur þegar veitt verulega auknu fjármagni til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi sem mun skila okkur öllum betra samfélagi. Það sama gildir um það góða samstarf sem stjórnvöld eiga við ýmis frjáls félagasamtök í þessari baráttu.
Mansal
Ég get ekki skilið við ofbeldismálin án þess að fara nokkrum orðum um einn viðurstyggilegasta vágestinn sem alþjóðasamfélagið glímir við í dag og líkur benda til að hafi sett okkar litla land á sitt kort.
Ég á við mansal sem hjá okkur virðist einkum taka það form að konur eru þvingaðar til kynlífsþjónustu. Við höfum verið vanbúin til að takast á við þessi mál.
Fyrir tæpu ári skipaði ég starfshóp sem skyldi semja aðgerðaáætlun gegn mansali. Í starfi sínu hefur hópurinn undirbúið að Ísland geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi og viðauka hans um mansal og jafnframt samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.
Í þessari vinnu þarf að líta í mörg horn – til útlendingalaga og laga um félagsþjónustu og barnavernd, til rannsóknaraðferða og heimilda lögreglu, til úrræða um heilbrigðisþjónustu, aðstoð, vernd og endurhæfingu fórnarlamba, til alþjóðlegra tengsla og samstarfs til að unnt sé að tryggja fórnarlömbum endurkomu til heimalandsins án þess að þeim sé stefnt beint aftur í gin þeirra sem seldu þau og til fræðslu þeirra starfsstétta sem gætu verið í aðstöðu til að greina möguleg fórnarlömb.
Nú er verið að leggja lokahönd á þessa vinnu og mun ég leggja fram tillögu að aðgerðaáætlunin á vorþingi. Með henni munum við rísa undir skyldum sem við höfum gengist undir í samfélagi þjóðanna.
Umræðugrundvöllur um framkvæmdaáætlun
Góðir þinggestir.
Í lokin vil ég minna ykkur á vinnuskjalið sem ég ætla að geti orðið umræðugrundvöllur vegna nýrrar framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Gerð framkvæmdaáætlunarinnar var fest í jafnréttislög árið 1985 og var fyrsta áætlunin lögð fram ári síðar. Form hennar hefur tekið litlum breytingum á þessum tíma, en í henni hafa verið talin upp margvísleg verkefni, stór og smá, og listuð upp undir einstaka ráðuneytum. Sum þeirra hafa verið sjálfsögð verkefni stjórnsýslunnar sem ættu að vera liður í reglulegri starfsemi hennar. Skýrslan sem hér liggur fyrir hefur síðan fylgt áætluninni að allri uppbyggingu.
Hvorki framkvæmdaáætlunin sjálf né skýrslan um efndir og árangur hennar hefur borið með sér svo skýrt sé hver er hin eiginlega forgangsröðun stjórnvalda í jafnréttismálum, hver eru hin pólitísku markmið um jafnrétti kvenna og karla sem við viljum leggja mesta áherslu á hverju sinni.
Framkvæmdaáætlun með breyttu sniði
Þessu hyggst ég breyta. Næsta framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum mun því verða með skýrari sýn og skarpari markmiðssetningum en verið hefur í fyrri framkvæmdaáætlunum. Það er brýn nauðsyn að við gerð hennar verði tekið sérstakt mið af þeim breyttu aðstæðum sem nú eru í samfélaginu. Með því vonast ég til að áætlunin verði okkur öflugra verkfæri til að hraða allri þróun í átt til aukins jafnréttis og tryggja það í uppbyggingu samfélagsins til framtíðar. Við þurfum að flétta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í endurreisn Íslands og konur verða á komandi mánuðum, misserum og árum að gegna lykilhlutverkum í endurreisn samfélagsins við að skapa hér ný gildi og verðmætamat í samfélaginu. Það gæti ráðið úrslitum um að vel til takist.
Við þurfum því að greina hvernig ríkisvaldið getur beitt stjórntækjum sínum til að tryggja fullan þátt kvenna í uppbyggingarstarfinu. Við þurfum á hagsýni þeirra að halda í ábyrgðarstöðum í atvinnulífinu og stjórnmálum þannig að samfélagið fái notið krafta þeirra til fulls. Takist okkur að láta hin lýðræðislegu gildi um jafnræði, jafngildi og jafnrétti kvenna og karla lýsa okkur leið inn í framtíðina, þá munum við rata rétta leið. Þá mun endurreisnin verða farsælli fyrir þjóðina.
Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta fyrsta jafnréttisþing og bind miklar vonir við að umræður hér í dag verði fræðandi, hvetjandi og skapandi. Að við setjum markmið enn hærra og eflum samtakamátt okkar allra til að ná þeim markmiðum.