Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Konudagur á Hallveigarstöðum

Gaman að hittast hér í þessu merka húsi, ung að árum sat ég á Hallveigarstöðum í orðsins fyllstu merkingu, reyndar áður en húsið var byggt. Arkitekt hússins, Sigvaldi Thordarson, var faðir vinkonu minnar og hann gerði módel af húsinu, það notuðum við oft við leik, sem koll til að sitja á, við spilamennsku eða hannyrðir.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þennan fund og sérstaklega fyrir það að til hans skuli boðað á konudaginn. Við erum vanari því að á þessum degi dynji skilaboð til karla um að nú skuli þeir gefa konum sínum blóm eða skartgrip eins og nú er auglýst grimmt. En hér í dag ætlum við ekki að láta karlana mæra okkur sem eiginkonur eða kærustur heldur erum við hingað komnar til að ræða pólitík. Oft var þörf en nú ber brýna nauðsyn til. Yfirskrift fundarins er Konur í pólitík, hvernig vegnar þeim í breyttu samfélagi? Þessi spurning er áleitin og svarið við henni liggur ekki í augum uppi.

Ég var beðin um að fjalla aðeins um sjálfa mig og minn feril í pólitíkinni. Stjórnmál hafa verið samofin mínu lífi frá því á háskólaárunum. Í þá daga varð margt ungt fólk yfir sig leitt á stöðnuðum stjórnmálaflokkum um leið og þjóðfélagsgagnrýni ungu kynslóðarinnar sem kennd var við árið ‘68 varð bæði hávær og róttæk. Mín fyrstu afskipti af pólitík á þessum árum urðu þegar ég stóð ásamt fleirum að stofnum O-flokksins, eða Framboðsflokksins sem bauð fram í alþingiskosningunum 1971. Þótt framboðið væri í bland grín og flipp, eins og einhver myndi segja, þá var í því broddur. Viðreisnarstjórnin hafði verið við völd í tólf ár, kreppa hafði skollið á þegar síldin hvarf, úti í heimi geisaði hið illræmda Víetnam-stríð, ungt fólk krafðist þess að á það væri hlustað og Rauðsokkahreyfingin nýstofnuð hristi aldeilis upp í kynjahlutverkunum. Þá voru uppi kröfur um aukið lýðræði eins og nú. Þá sat ein einasta kona á Alþingi, Auður Auðuns. Í kosningunum ‘71 voru þrjár konur í þriðja sæti á lista gömlu flokkanna, ofar komust þær ekki. Ragnhildur Helgadóttir var í þriðja sæti hjá Sjálfstæðisflokknum, Svava Jakobsdóttir í þriðja sæti hjá Alþýðubandalaginu og ég í kvennasæti, þriðja sætinu hjá Framsóknarflokknum. Að þessu var óspart gert grín.

Næstu beinu stjórnmálaafskipti mín urðu þegar ég tók þátt í að stofna kvennaframboðið hér í Reykjavík 1982. Ég held að sagan muni dæma þá aðgerð sem eitt af því merkilegasta sem gerst hefur í kvennabaráttunni á síðari árum. Dagvistarmál, jafnréttismál, samfelldur skóladagur – allt voru þetta mál sem þá komust í fyrsta skipti af alvöru á dagskrá stjórnmálanna. Og ekki þarf að fara mörgum orðum um áhrif framboðs Kvennalistans 1983. Á þeim tólf árum sem þá voru liðin frá því Auður Auðuns sat sem eina konan á Alþingi hafði konum aðeins fjölgað um tvær. Við kosningarnar 1983 fjölgaði þeim úr þremur í níu og þar af voru Kvennalistakonurnar þrjár. Hinir flokkarnir fjölguðu þá sínum konum á þingi um helming – þannig ýtti stofnun Kvennalistans rækilega við hinum flokkunum og styrkti stöðu kvenna innan þeirra, þó enn væri hún frámunalega veik. Sjálf var ég virk í Framsóknarflokknum um þetta leyti, kölluð til vegna framboðs Kvennalistans og komst tvisvar inn á þing sem varamaður á næstu árum, fyrst 1987 og síðar 1992. Annars var ég bara mest upptekin á þessum árum við að mennta mig, ala upp börnin mín og starfa hér og þar, heilmikið í fjölmiðlum, við kennslu og fararstjórn og í ýmsum pólitískum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Eitt af því skemmtilegasta sem ég tók mér fyrir hendur í þeim efnum var stjórnarseta í Landssambandi Framsóknarkvenna á árunum 1983 til 1989. Kom á fyrsta landsfund LFK með tillögur í vasanum norður í land að því að við krefðumst kvennakvóta á framboðslistum. Engin kvennasamtök höfðu lagt til svo róttækar aðgerðir í þágu jafnréttis. Valgerður Sverrisdóttir var þá með mér í vinnuhópi á LFK þinginu þar sem ég lagði tillögurnar fram og við ákváðum að hún sem landsbyggðarkona kynnti þær frá málefnahópnum. Ég óttaðist að Reykjavíkurfulltrúi næði síður samstöðu um tillöguna. Tillagan var samþykkt á þinginu og vakti mikla athygli.

Það urðu svo gagnger þáttaskil á mínum ferli 1995 þegar ég sveigði af Framsóknarleiðinni. Þá hafði ég verið í fimm ár í starfi sem deildarstjóri félagsmála- og upplýsingadeildar Tryggingastofnunar. Reynsla mín af starfi mínu innan Tryggingastofnunar hafði djúp áhrif á mig, áhrif sem tóku sér bólfestu í mér og mörkuðu mig pólitískt til frambúðar. Þar kynntist ég hinni hliðinni á Íslandi, skuggahliðinni þar sem hin íslenska sól skein ekki alltaf í heiði. Þar kynntist ég fátækum ellilífeyrisþegum, sérstaklega eru mér minnisstæðar konurnar sem höfðu þrælað allt sitt líf en áttu enga sjóði, engin réttindi í lífeyrissjóðunum. Þar kynntist ég öryrkjunum, langveikum, foreldrum veikra barna og fötluðum sem höfðu vart til hnífs og skeiðar. Þessi kynni breyttu mér. Í gegnum veika stöðu þessara hópa skynjaði ég betur völd þeirra sem bjuggu við forréttindin í samfélaginu. Ég fann að ég var jafnaðarmaður í hjarta mér.

Þá lágu leiðir okkar Jóhönnu Sigurðardóttur aftur saman, en við flugum saman hjá Loftleiðum á árum áður. Við urðum samferða um það markmið að reyna að endurnýja jafnaðarmannahreyfinguna á Íslandi með stofnun Þjóðvaka. Jóhanna hafði þá sagt skilið við Alþýðuflokkinn og ég við Framsóknarflokkinn. Í kosningunum 1995 náði ég svo inn á þing fyrir Þjóðvaka en þinglokkur hans var fyrsti blandaði þingflokkurinn með fleiri konum en körlum, 75% konur! Við vorum þrjár, Jóhanna Sigurðardóttir, Svanfríður Jónasdóttir og ég, og einn karl Ágúst Einarsson nú rektor á Bifröst – öflugur hópur.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um Þjóðvaka sérstaklega, en ég tel að í honum og í Reykjavíkurlistanum hafi verið sáð til þeirra tíðinda sem síðar urðu, þegar Samfylkingin var stofnuð í þeim tilgangi að verða breiður kvenfrelsissinnaður jafnaðarflokkur sem yrði fær um að verða leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Og nú hafa þau tíðindi gerst að í fyrsta skipti er kona forsætisráðherra á Íslandi og í fyrsta skipti er hlutur kvenna í ríkisstjórn hér á landi jafn á við karla. Ég er stolt af því að eiga þátt í því og ég veit að konur úr öllu litrófi stjórnmálanna líta á þetta sem mikilsverðan áfanga í jafnréttisbaráttunni.

Við sem höfum verið virkar í jafnréttisbaráttunni og í stjórnmálunum höfum oft upplifað okkur á svolítið skrýtnum stað – við þurfum og eigum að fagna og gleðjast yfir öllum áföngum, smáum og stórum, sem við konur höfum náð og sem samfélagið í heild hefur náð í átt til aukins jafnréttis. Við vitum að staða jafnréttis kvenna og karla er mælikvarði á lýðræði, á lífsgæði, á samkeppnishæfni samfélaga, já, á siðmenningarstig okkar. Þetta er mælt til dæmis af World Economic Forum og við Íslendingar lendum þar árvisst í einhverju af efstu sætunum með öðrum Norðurlandaþjóðum. Svolítið breytilegt hver er í hvaða sæti frá ári til árs. Á síðasta ári skutust Norðmenn upp í fyrsta sætið og því réð kynjakvótinn sem þeir hafa komið á í stjórnum fyrirtækja bæði innan opinberra fyrirtækja og fyrirtækja á einkamarkaði.

Á sama tíma má okkur ekki bresta óþolið gagnvart því sem ógert er. Okkur má ekki renna móðurinn. Við þurfum bæði að hafa þol í langhlaupin og kunna að taka sprettinn. Við höfum enn verk að vinna og vígi að fella. Og það er ekki laust við að það sé sársaukafullt að uppgötva að árangur á einum tíma getur gengið til baka á öðrum tíma ef við höldum ekki vöku okkar.

Gott dæmi um það er staða kvenna á Alþingi einmitt nú. Árið 1998 var efnt til mikils átaks til að fjölga konum í stjórnmálum. Þverpólitísk nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum, fyrst undir forystu Sivjar Friðleifsdóttur og síðar Hildar Helgu Gísladóttur, tók þá til starfa og efndi til margvíslegra aðgerða. Hún setti af stað auglýsingaherferð sem enn er í minnum höfð og hefur núna verið notuð um nokkurra ára skeið sem kennsluefni í samfélagsmiðuðum herferðum við virtan bandarískan háskóla. Hún efndi til námskeiða fyrir stjórnmálakonur og verðandi stjórnmálakonur um allt land, og hélt ráðstefnur og fjöldann allan af fundum.

Í kosningunum 1999 juku konur hlut sinn á Alþingi um heil 10%, úr 25 í 35%, og höfðu aðgerðir nefndarinnar örugglega sitt að segja. Ég vil líka halda því til haga að það munaði verulega um konur í þingflokki nýstofnaðrar Samfylkingar sem urðu alls 9 af 23 konum á Alþingi. En hvað gerðist? Pendúllinn sveiflaðist til baka í kosningunum 2003 og fór hlutur kvenna þá niður í 30%. Í kosningunum 2007 skreið hann síðan upp í 31,6%. Og nú vegna þess að þó nokkrir karlar hafa hætt þingmennsku á kjörtímabilinu hefur hlutur kvenna aukist þar sem þær eru oft í varamannasætunum og er hlutur þeirra nú kominn upp í 36%.

Ég vil í þessu sambandi minna á að kvenframbjóðendum fjölgaði reyndar milli kosninganna 2003 og 2007, úr 43% í 47%, þannig að líkur kvenframbjóðanda á að komast inn á þing rýrnuðu á milli þessara tveggja kosninga. Svo ég haldi því líka til haga þá sveiflaðist pendúllinn einnig til baka innan míns flokks, því miður. Þar munar mest um það heilkenni á íslenskum stjórnmálum að konur virðast eiga mest á brattann að sækja í landsbyggðarkjördæmunum.

Það er athyglisvert að rýna í tölur um konur á þingi. Frá því Alþingi Íslendinga var endurreist 1845 hafa þar setið 655 aðalmenn. Af þeim eru konurnar aðeins 69, eða 10,5%. Konur sem aðalmenn hafa að meðaltali setið í sjö og hálft ár, eða tæp tvö kjörtímabil. Þingmennska karla varir lengur en kvenna og meðal karla hefur það verið mun algengara að þeir sitji megnið af sínum starfsaldri á þingi. Aðeins fjórar konur hafa setið á Alþingi í 20 ár eða lengur. Tvær þeirra eru enn á þingi, þær Jóhanna Sigurðardóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Jóhanna hefur setið lengst allra, eða í 31 ár. Tíu konur til viðbótar hafa setið í 11 til 19 ár, eða, svo ég orði þetta öðruvísi, aðeins 14 konur hafa setið á þingi sem aðalmenn í meira en 10 ár. Þótt löng seta á Alþingi eigi kannski ekki að vera markmið í sjálfu sér þá er munurinn á kynjunum verulegur hvað þetta varðar og athyglisverður.

Ég hef sem ráðherra jafnréttismála sent stjórnmálaflokkunum bréf og brýnt þá til þess að gæta að hlut kvenna á framboðslistum, ekki síst í öruggum sætum. Við getum ekki liðið það að konum sé kerfisbundið skipað neðar á listum. Við konur í öllum flokkum þurfum að láta í okkur heyra svo eftir verði tekið innan allra stjórnmálaflokkanna.

Ég orðaði það þannig í ræðu í þinginu um daginn að stjórnmálaflokkarnir þurfi að þessu leyti að svara kalli tímans. Og þá er ég aftur komin að yfirskrift þessa fundar: Hvernig mun konum í pólitík vegna í breyttu samfélagi? Hvert er kall þessara tíma sem nú eru í íslensku samfélagi til okkar og til stjórnmálanna almennt?

Það er full ástæða til þess að hafa af því áhyggjur að versnandi staða heimilanna muni letja konur til að gefa kost á sér í næstu kosningum. Hvort meira álag á fjölskyldunum, sem konur axla fremur en karlar, muni halda aftur af þeim í ríkari mæli en körlum. Prófkjörsbaráttan hefur að öllu jöfnu verið frambjóðendum dýr og margir hafa hingað til leitað styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum ef þeir hafa ekki sjálfir milljónirnar til að draga upp úr vasanum. Við vitum að konur hafa síður haft aðgang að slíkum fjármunum og líklega síður aðgang að styrkjafé. Því hafa margir talið prófkjörin beinlínis vinna gegn konum og er skemmst að nefna nafn Auðar Styrkársdóttur í því samhengi. Þess vegna eru það góð tíðindi sem núna berast úr herbúðum margra stjórnmálaflokka að reglur hafi verið settar í þeim tilgangi að draga úr útgjöldum frambjóðenda. En það er líklegra að þessu ráði fremur sá stutti tími sem er til undirbúnings framboða og andúð almennings á fjáraustri við þær aðstæður sem nú ríkja, fremur en viljinn til að koma til móts við konur sérstaklega.

En það hefur aldrei verið jafn brýnt og nú að hlutur kynjanna verði jafnaður í hvers kyns valda- og áhrifastöðum og ekki síst á þingi. Okkar bíður ekki aðeins það verkefni að takast á við afleiðingar efnahagsástandsins heldur líka að breyta innviðum samfélagsins, breyta því hvernig með völdin er farið í þessu samfélagi, jafnt í viðskiptalífinu, efnahagslífinu og í stjórnmálunum.

Við viljum hefja ný gildi til vegs og virðingar í samfélaginu. Gildi ábyrgðar, jöfnuðar, lýðræðis og faglegra stjórnarhátta. Með fullri virðingu fyrir samherjum mínum í stjórnmálum þá veit ég að þetta verður ekki gert öðruvísi en að konur taki og fái þann sess sem þeim ber. Þetta er kall tímans.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta