Endurreisn samfélagsins krefst jafnréttis kynja
Um 78% viðmælenda í fréttum útvarps- og sjónarpsstöðva á síðasta ári voru karlar en konur tæp 22%. Frétt um þetta birtist nýlega í Morgublaðinu samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu Creditinfo. Mér hnykkti við þegar ég sá þetta, því hér er um beinharðar staðreyndir að ræða. Árið 2005 var gerð könnun á hlut kynja í sjónvarpsefni, í fréttum, fréttatengdu efni og auglýsingum. Hlutur kvenna í fréttum og fréttatengdu efni var svipaður þá og nú. Konur voru tæp 30% þeirra sem birtust í auglýsingum en karlar rúm 70%. Karlar voru í meiri hluta í öllum hlutverkum nema sem fyrirsætur, þar voru konur 85%. Þulir í auglýsingum voru í 84% tilvika karlar en 16% konur.
Burt með klisjur og fordóma
Ég blæs á margtuggnar klisjur sem bornar hafa verið á borð til að skýra kynjahalla í fjölmiðlum, s.s. að konur séu tregari en karlar til viðtala og að fólk í forystu fyrirtækja, stofnana eða í stjórnmálum sé í svo miklum meiri hluta karlar að fjölmiðlar eigi fyrst og fremst erindi við þá, ekki konur. Dæmi um hlut kvenna í auglýsingum benda líka til þess að ástæðurnar eigi sér aðrar og dýpri rætur. Vandinn snýst fyrst og fremst um fordóma og úrsérgengin viðhorf til kynjanna. Við vitum að kynbundinn launamunur er enn vandamál á Íslandi. Þá er átt við launamun sem ekki er hægt að skýra með stöðu, ábyrgð, menntun, vinnuframlagi eða öðrum rökum, heldur eingöngu með því að kynjunum er mismunað, konum í óhag. Nýleg launakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sýndi að kynbundinn launamunur á vinnumarkaði er 16,3%. Hann er meiri á almennum vinnumarkaði en hjá því opinbera og hann er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, tæp 28%.
Karlar axli ábyrgð í jafnréttismálum
Við vitum að konum gengur erfiðlega að hasla sér völl í æðstu stöðum, jafnt í stjórnmálum, í stjórnum stofnana og fyrirtækja, nefndum og ráðum. Þetta er hvorki vegna þess að konur vilji ekki gegna ábyrgðarmiklum stöðum og enn síður að þær valdi ekki slíkri ábyrgð. Æðstu stjórnunarstöður og embætti eru þéttsetin körlum og þeim virðist hugnast betur að hafa kynbræður sína sér við hlið frekar en að hleypa konum að. Karlar! Ég bið ykkur um að axla ábyrgð í jafnréttismálum. Það liggur fyrir að hlutur kvenna í fjölmiðlum hefur lítið sem ekkert aukist síðustu ár, allt of hægt hefur gengið að eyða kynbundnum launamun og það er óskiljanlegt að konur skuli enn eiga jafn erfitt með framgang í æðstu stöður og embætti, hvort sem er í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fjármálakerfinu eða á almennum vinnumarkaði. Við vitum að þessu þarf að breyta til að byggja upp réttlátt og gott samfélag.
Hagsýni frekar en áhættufíkn
Það er ekki langt síðan að stórfelld umsvif í viðskiptum, miklar lántökur og taumlaus útþensla var kennd við áræðni til varð nýrðið „áhættusækni.“ Við vitum hvert þessar áherslur leiddu okkur og við höfum ríkar ástæður til þess að endurskoða þær. Við vitum að konur eru varfærnari í fjármálum en karlar, stofna síður til skulda, fara rólegar af stað í upphafi viðskipta og leggja minna upp úr yfirbyggingu í rekstri. Sýnt hefur verið fram á þetta með rannsóknum og einnig að minni líkur eru á að fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum. Þá eru fyrirtæki alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn. Viðamikil finnsk rannsókn sýndi að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki sem karlar stjórna. Við vitum að tími áhættusækninnar margrómuðu er liðinn undir lok. Samfélagið þarfnast þess að kraftar kvenna séu nýttir til fulls og farsælast tel ég að konur og karlar vinni hlið við hlið og deili með sér ábyrgð og áherslum sínum.
Fjölmiðlar eiga brýn erindi við konur
Konur eru nær helmingur landsmanna og virkir þátttakendur á öllum sviðum samfélagsins. Ef allt væri með felldu ættu fjölmiðlar við þær mörg brýn erindi og sömuleiðis allir þeir sem vilja byggja upp traust og fjölhæft atvinnulíf og öfluga, vandaða stjórnsýslu hins opinbera. Framundan er mikið starf við að endurreisa íslenskt samfélag. Órofa hluti af endurreisnarstarfinu er að byggja upp jákvæða ímynd lands og þjóðar, gagnvart okkur sjálfum og gagnvart umheiminum. Þetta mun því aðeins takast að öllum eðlilegum leikreglum verði fylgt og jafnræðis verði gætt á öllum sviðum. Ein mikilvæg forsenda uppbyggingarinnar er að tryggja í verki jafna stöðu, rétt og tækifæri karla og kvenna þannig að kraftar og hæfileikar allra verði nýttir og metnir að verðleikum.
Oft var þörf, nú er nauðsyn
Framundan eru ekki aðeins tækifæri til þess að ná árangri í jafnréttismálum heldur tímar sem krefjast þess að jafnrétti kynja sé tryggt í orði og verki. Við höfum ýmis úrræði í lögum til þess að styðja og efla jafnrétti karla og kvenna. Þau þarf að nýta út í æsar en ef þörf krefur tel ég vel koma til greina að styrkja lagaumhverfið enn frekar í þessu skyni. Vert er að minna á jafnréttið í dag en nú eru 30 ár liðin frá því að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu samning um afnám allrar mismununar gegn konum.
Grein Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um jafnrétti kynja sem birtist í Morgunblaðinu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2009.