Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stjórnvöld segja mansali stríð á hendur

Ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn mansali. Þetta eru mikil tíðindi enda löngu tímabært að stjórnvöld segi mansali stríð á hendur með markvissum aðgerðum. Mansal er eitthvert andstyggilegasta form skipulagðrar, alþjóðlegrar glæpastarfsemi sem virðir engin landamæri. Áætlunin eflir möguleika stjórnvalda á að koma lögum yfir gerendur mansals þannig að þeim verði refsað og tryggja fórnarlömbunum skjól og vernd.

Við vitum að mansal þrífst á Íslandi líkt og víða annars staðar. Berjast þarf gegn þessum skelfilegu glæpum með öllum ráðum. Við þurfum að taka fullan þátt í baráttu alþjóðasamfélagsins gegn mansali og úthýsa úr samfélaginu hvers konar starfsemi þar sem líklegt er að glæpir af þessu tagi fái þrifist.

Kaup á vændi verða refsiverð og starfsemi nektarstaða bönnuð

Áætlunin felur í sér aðgerðir í 25 liðum og tengjast margar þeirra ákvörðunum um fullgildingu alþjóðlegra samninga á sviði áætlunarinnar. Aðrar endurspegla afdráttarlausan vilja stjórnvalda til að ganga ákveðið til verks.

Hegningarlögum verður breytt þannig að kaup á vændi verða refsiverð og fylgjum við þar fordæmi Svía og Norðmanna. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um þetta efni sem ég vonast til að verði samþykkt á yfirstandandi þingi en þar með væri þessu markmiði náð. Einnig verður gerð lagabreyting sem bannar starfsemi nektarstaða afdráttarlaust án nokkurra undantekninga. Frumvarp um þetta er til umfjöllunar í allsherjarnefnd og vona ég að það verði að lögum fyrir kosningar. Settar verða siðareglur fyrir opinbera starfsmenn þar sem meðal annars verður lagt skýlaust bann við kaupum á kynlífsþjónustu af nokkru tagi. Forsætisráðuneytið mun hafa forgöngu um setningu reglnanna.

Fullgilding alþjóðlegra samninga

Stefnt er að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2000 gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi, samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali frá árinu 2005 og samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun frá árinu 2007.
Ýmsar lagabreytingar eru forsenda fyrir fullgildingu samninganna og hefur verið unnið að undirbúningi þeirra um skeið. Meðal annars þarf að færa skilgreiningu almennra hegningarlaga á mansali til samræmis við efni þeirra og liggur frumvarp um slíka breytingu fyrir Alþingi.

Fórnarlömb mansals fá aukna vernd

Samkvæmt aðgerðaáætluninni mun ég skipa hóp sérfræðinga til að samræma aðgerðir í baráttunni gegn mansali og tryggja yfirsýn yfir málaflokkinn. Honum er einnig ætlað að vera stjórnvöldum til ráðgjafar, efna til rannsókna og sinna fræðslu fyrir fagstéttir og almenning.

Meðal verkefna hópsins verður að fylgja eftir vísbendingum um mansal og sjá til þess að fórnarlömbum mansals verði veitt aðstoð, skjól og vernd. Í því felst meðal annars að tryggja að ætluðu fórnarlambi sé aldrei snúið til baka til heimalands nema öryggi þess hafi verið tryggt í samstarfi við til þess bæra aðila í heimalandinu. Lagt verður fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga þannig að fórnarlömb mansals fái dvalarleyfi í tiltekinn tíma sem er ætlaður þeim til að gera upp hug sinn um samstarf við lögreglu.

Kveðið er á um það ferli sem fara þarf af stað ef grunur leikur á að barn undir 18 ára aldri sé fórnarlamb mansals. Áhersla er lögð á að bæta aðferðir til að greina og styðja ætluð fórnarlömb þannig að barnaverndarhagsmunir ráði skilyrðislaust för við meðferð mála. Þetta er afar mikilvægt því fram hafa komið vísbendingar um að glæpamenn hér á landi hafi notfært sér fíkn og bága stöðu ungmenna með því að selja að þeim kynferðislegan aðgang.

Aðstæður lögreglu til að rannsaka mansalsmál verða bættar

Eitt meginmarkmiða aðgerðaáætlunarinnar er að efla rannsókn lögreglu á mansalsmálum, vændi og barnaklámi þannig að lögum verði komið yfir brotamenn. Vettvangseftirlit verður eflt og komið á fót teymi sérþjálfaðra rannsóknarlögreglumanna innan kynferðisbrotadeildar lögreglunnar til að sinna þessum málum. Þá mun ríkislögreglustjóri taka í notkun nýjan tæknibúnað sem eflir verulega getu embættisins til rannsókna á barnaklámi. Tæknin gerir lögreglunni kleift að bera kennsl á barnaklám og annað ólögmætt efni í tölvum sem hald hefur verið lagt á og felur í sér aukna möguleika til að rannsaka uppruna og dreifingu barnakláms. Gert er ráð fyrir náinni samvinnu við lögregluyfirvöld annars staðar á Norðurlöndunum.

Frá orðum til athafna

Með aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur vilji stjórnvalda til að taka á þessum skelfilegu glæpum af alvöru verið staðfestur. Fyrirhugaðar aðgerðir eru skýrar og framundan ærin verkefni við að hrinda þeim í framkvæmd. Aðgerðirnar krefjast víðtækrar samvinnu en ég er þess fullviss að með aðgerðaáætlunina að leiðarljósi munum við ná miklum árangri gegn þeim mikla vágesti sem mansal er.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2009)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta