Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rannsókn á ofbeldi gegn konum

Góðir gestir.

Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er rík, enda um mikilvæg mannréttindi að ræða. Þau geta hins vegar verið vandmeðfarin þegar grunur vaknar um að brotið sé á fjölskyldumeðlimum í skjóli friðhelginnar.

Mikilvæg breyting var gerð á hegningarlögum árið 2005 þegar lögfest var ákvæði um þyngingu refsingar þegar náin tengsl eru milli geranda og þolanda ofbeldis.

Þegar ég ræddi þá lagabreytingu við ráðherra sagði hún mér að hún hefði raunar viljað ganga lengra og setja inn ákvæði þar sem heimilisofbeldi væri skilgreint sérstaklega, en af því varð ekki. Frumvarpi dómsmálaráðherra vegna lagabreytingarinnar fylgdu hins vegar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála sem að hennar mati voru mjög til bóta við meðferð slíkra mála.

Heimilisofbeldi er óhugnanleg birtingarmynd kúgunar og valdbeitingar þar sem einstaklingur misnotar stöðu sína gagnvart öðrum sér nákomnum. Heimilisofbeldi er alvarlegur glæpur sem ekki er hægt að líða og verður að berjast gegn með öllum ráðum. Forsenda þess að ná árangri í þeirri baráttu er að þekkja staðreyndirnar að baki. Slík þekking er einnig nauðsynleg til að efla hjálparaðgerðir sem nýtast konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi og ekki síður börnum þeirra.

Árið 2006 samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem gildir til ársins 2011. Hún er viðamikil og tekur til hátt í fjörutíu mismunandi aðgerða. Einstökum ráðuneytum hefur verið falin ábyrgð á framkvæmd einstakra aðgerða eftir verkefnasviðum þeirra.

Samráðsnefnd ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum hefur það hlutverk að fylgja eftir framkvæmd áætlunarinnar, en formennska þeirrar nefndar er í höndum félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Símakönnunin sem kynnt verður hér á eftir er liður í áætluninni. Einnig er hún hluti af fjölþjóðakönnun sem Sameinuðu þjóðirnar hvöttu til að ráðist yrði í, í kjölfar kvennaráðstefnunnar í Peking, sem haldin var árið 1995.

Rannsóknin eins og sú sem nú er unnið að hefur nú þegar verið gerð í tíu löndum. Hér á landi náði könnunin til 3.000 kvenna um allt land. Um var að ræða konur á aldrinum 18–80 ára sem valdar höfðu verið tilviljanakennt úr þjóðskrá. Svörun var góð eða 68%. Framkvæmdin var í höndum Rannsóknaseturs um barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands.

Ráðherra bað mig að koma því sérstaklega til skila að hún þakkar öllum þeim sem hafa unnið að undirbúningi og framkvæmd hennar fyrir einstaklega vönduð og vel unnin störf.

Þegar ég stend hér þá get ég ekki látið undir höfuð leggjast að minnast á útgáfu fræðslurita fyrir fagstéttir um ofbeldi gegn konum í nánum samböndum. Þau voru unnin á vegum fyrr­nefndrar samráðsnefndar og gefin út af félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Þessi útgáfa var einnig liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og mér finnst hafa tekist einstaklega vel til. Mér er kunnugt um að fagstéttir hafi tekið þessum ritum fegins hendi. Eftirspurn eftir þeim reyndist mun meiri en ráðgert hafði verið og hefur því þurft að endurprenta þau. Það hefur sýnt sig, að fagfólk þyrstir í aðgengilega fræðslu og þekkingu um þessi mál. Heimilisofbeldi sem lengst af lá í þagnargildi er komið upp á yfirborðið og óhætt er að segja að það hafi orðið vitundarvakning í íslensku samfélagi um þessi mál.

Ég ætla ekki að halda orðinu mikið lengur þar sem við bíðum öll eftir kynningu á helstu niðurstöðum símakönnunarinnar. Þess verður svo ekki langt að bíða að niðurstöður annars hluta rannsóknarinnar um þessi efni verði kynntar þar sem byggt er á viðtölum við starfsfólk félagsþjónustu og barnaverndar.

Þá hefst á næstunni gerð þriðju rannsóknarinnar þar sem rætt verður við skólastjórnendur í tíu grunnskólum. Verður henni ætlað að kanna hvort og hvernig starfsfólki skóla birtist vitneskja um heimilisofbeldi gegn börnum og hvernig skólarnir bregðast við þegar grunur vaknar um slíkt. Í haust verður svo gerð rannsókn hjá lögreglunni, en á næsta ári hjá heilbrigðiskerfinu og félagasamtökum, eins og Kvennaathvarfi og Stígamótum.

Heimilisofbeldi er falinn vandi. Eins og ég sagði áðan er þekking og fræðsla forsenda þess að hægt sé að vinna gegn honum og bregðast rétt við til að liðsinna þolendum og rjúfa þann vítahring sem heimilisofbeldi alltaf er.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta