Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Leiðarljós í velferðarmálum

Traust velferðarkerfi er ein mikilvægasta undirstaða hvers samfélags. Það sannast best í andstreymi og þá reynir virkilega á alla þætti þess. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir þessu, koma því skýrt á framfæri í stefnumörkun sinni og haga aðgerðum í samræmi við það.

Verðmæti samfélagsins felast í fólkinu

Ríkissjóður þarf að draga úr útgjöldum svo um munar, gæta aðhalds og hagræða á öllum sviðum. Við höfum hins vegar ekki ráð á að skera niður í velferðarkerfinu og kasta þannig krónum fyrir aura. Verðmæti samfélags felast í fólkinu og þann auð þurfum við að verja eins og kostur er.

Ríkisstjórnin hefur sett sér aðgerðaáætlun í velferðarmálum sem ég kynnti nýlega. Áætlunin er meðal annars byggð á vinnu velferðarvaktarinnar sem starfar á vegum félags- og tryggingamálráðuneytisins til að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga.

Áætlunin og störf velferðarvaktarinnar sýna stefnu og vilja ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum og aðgerðir í ríkisfjármálum munu taka mið af því. Áhersla er lögð á að ekki verði ráðist í niðurskurð á einhverjum sviðum hins opinbera sem fyrirséð er að leiði til aukins kostnaðar annars staðar í kerfinu. Þessi áhætta er veruleg innan velferðarkerfisins, hvort sem er á sviði heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu eða almannatrygginga. Áform um hagræðingu og sparnað verða skoðuð í þessu ljósi. Tillögur velferðarvaktarinnar eru vegvísir til að afstýra skaða af samdrætti í efnahagsmálum.

Ekki verði ráðist í dýrkeyptan sparnað

Kapp verður lagt á að verja störf innan velferðarkerfisins þannig að sem minnst þurfi að draga úr þjónustu. Útgjöld á þessu sviði felast einkum í launakostnaði en allur sá fjöldi fólks sem sinnir velferðarþjónustu gegnir störfum þar sem niðurskurður gæti reynst samfélaginu dýrkeyptur til lengri tíma litið.

Áhersla er lögð á að versnandi fjárhagur fólks hindri ekki aðgengi þess að heilbrigðisþjónustu. Grannt verður fylgst með breytingum á aðsókn að heilbrigðisþjónustu og heilsugæslunni verður falið að sinna sérstaklega þeim sem talið er að séu í áhættuhópum.

Greining á hópi atvinnulausra sýnir að þeir sem einungis hafa lokið grunnskólanámi standa verst á vinnumarkaði. Þeir eru nú yfir 50% allra sem eru á atvinnuleysisskrá. Atvinnuleysi getur haft alvarleg áhrif á heilsufar og dregið úr starfsgetu. Hætta er því á að fólk heltist úr lestinni ef ekki er að gætt. Því er rík áhersla lögð á úrræði til að sporna við þessari þróun með samvinnu allra sem að málum koma. Það var mér því mikið ánægjuefni að finna kraftinn sem ríkti á námsstefnu um aðgerðir fyrir atvinnuleitendur sem haldin var nýlega á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Þar kom saman fólk víðs vegar að sem vinnur mjög gott starf.

Félagsvísar varði veginn

Í áfangaskýrslu velferðarvaktarinnar sem aðgerðaáætlunin byggist á eru tilgreindir þjóðfélagshópar sem ætla má að þurfi að fylgjast sérstaklega með og settar fram tillögur um aðgerðir í þeirra þágu.

Stofnaður hefur verið 30 milljóna króna mótvægissjóður sem varið verður til rannsókna og verkefna til að vinna gegn neikvæðum áhrifum efnahagsástandsins. Sérfræðingum verður falin gerð svokallaðra félagsvísa sem gera auðveldara að mæla og meta breytingar sem verða á félagslegum aðstæðum fólks í samfélaginu. Velferð barna verður í brennidepli og mikilvægt er að fylgjast sérstaklega með aðstæðum barna í jaðarhópum, svo sem innflytjendabarna og barna í stjúpfjölskyldum. Félagsvísarnir geta skipt sköpum fyrir stjórnvöld þannig að þau sjái tímanlega hvar aðgerða er helst þörf og beiti úrræðum sem best koma að gagni.

Sumarið er framundan og hefðbundnu skólastarfi lýkur eftir nokkrar vikur. Undir venjulegum kringumstæðum væri stór hluti skólafólks búinn að ráða sig til ýmissa starfa en nú er það fjarri lagi. Í menntamálaráðuneytinu eru í skoðun möguleikar þess að bjóða sumarnám á háskólastigi og hvort nýta megi aðstöðu framhaldsskólanna til að tryggja virkni ungs fólks án atvinnu. Þá verður reynt að skapa sumarstörf fyrir námsmenn. Niðurstaða þessarar vinnu er væntanleg á næstu dögum.

Markviss úrræði vegna greiðsluerfiðleika

Ég hef aðeins tæpt á hluta þeirra verkefna sem eru framundan. Afleiðingar efnahagsþrenginganna á einstaklinga og fjölskyldur eru aðeins að litlu leyti komnar fram en mörg augljós merki eru um vaxandi fjárhagsvanda. Við þessu þarf að bregðast með fjölbreyttum úrræðum sem beitt er markvisst þannig að þau komi sem flestum að sem mestum notum. Þessu má lýsa sem úrræðakeðju þar sem úrræði beinast í fyrsta lagi að þeim sem eiga í mestum vanda, í öðru lagi sé þeim veitt aðstoð sem fyrirsjáanlegt er að lendi í erfiðleikum og í þriðja lagi þarf að huga að þeim sem geta spjarað sig næstu misserin með einföldum og almennum aðgerðum stjórnvalda og lánveitenda.

Velferðarvaktin mun áfram, fylgjast með aðstæðum í samfélaginu. Ég bendi lesendum á að kynna sér störf hennar á vefsvæðinu: www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2009

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta