Ávarp ráðherra á ársfundi Vinnumálastofnunar 30. október 2009
Ég vil við þetta tækifæri byrja á því að þakka starfsfólki Vinnumálastofnunar sérstaklega fyrir frábært starf á liðnu ári. Ég veit að ég þarf ekki að lýsa fyrir ykkur því gríðarlega álagi sem verið hefur á starfsfólkinu að undanförnu. Það hefur verið nánast ofurmannlegt. Fáliðuð stofnun hefur unnið þrekvirki og það er fyrst og fremst að þakka fólki, sem hefur af samviskusemi og ósérhlífni lagt alla krafta sína í að tryggja rétta málsmeðferð þeim sem á henni þurfa að halda.
Slíkt er hvorki sjálfgert né sjálfgefið, og þeim ber að þakka sem hafa lagt svo mikið af mörkum á erfiðum tímum.
En eitt er að takast á við bráðavanda, eins og Vinnumálastofnun hefur gert. Annað er að marka okkur leið út úr vandanum til framtíðar, að marka leið til uppbyggingar svo að gott megi hljótast af, þrátt fyrir erfiðleika sem yfir okkur hafa dunið.
Að undanförnu hefur stofnunin verið gagnrýnd fyrir að sinna ekki þörfum atvinnulausra nægilega vel. Ég tek ekki undir þá gagnrýni, en ljóst má vera að til að sinna þeim þúsundum sem nú eru atvinnulausir dugar ekki ein stofnun. Við þurfum að bregðast við sem þjóð. Við þurfum samhæft átak gegn þessum gríðarlega vanda.
Við Íslendingar höfum góða reynslu af því að bregðast við náttúruhamförum. Þar leggjast allir á eitt og aðgerðir eru samhæfðar. Opinberir aðilar og sjálfboðasamtök vinna saman til að aðstoða fólk og bjarga verðmætum.
Við höfum núna lent í efnahagslegum hamförum og við þær aðstæður þarf einmitt samhæfðar aðgerðir af þessu tagi. Við þurfum öll að leggjast á árar, þessi stofnun, aðrar opinberar stofnanir, launþegahreyfingin, Rauði krossinn, þjóðkirkjan, íþróttahreyfingin og fjölmargir aðrir. Við þurfum með sameiginlegu átaki að snúa taflinu við, að breyta glímu við bráðavanda í uppbyggingar- og sóknarstarf.
Ég hef hér sérstaklega í huga unga fólkið okkar og þann auð sem í því felst og liggur nú ónýttur hjá garði.
Við höfum á undanförnum vikum með skipulegum hætti kannað aðstæður og viðhorf atvinnulausra ungmenna í þessu landi. Því miður er það svo að þúsundir þeirra sitja heima á bótum. Þau eru mörg hver vonlítil um vinnu, vonlítil um nám og vonlítil um eigin framtíð. Þeim hefur ekki tekist að finna sér stað í samfélaginu.
Við þessu verðum við að bregðast. Við getum ekki og við megum ekki láta hundruð eða þúsundir ungmenna alast upp sem bótaþega. Okkur ber skylda til að skapa þessu unga fólki tækifæri til annars konar framtíðar. Við megum ekki kastað á glæ hugviti þeirra, mannafli og krafti. Það væri ömurleg afleiðing þeirrar kreppu sem yfir okkur hefur dunið og við megum ekki láta það gerast.
Við höfum átt mjög gott samstarf við menntamálaráðuneytið um nýjar leiðir til að bregðast við þörf þess stóra hóps ungra atvinnuleitenda sem ekki hefur mikla menntun að baki. Til þessa starfs viljum við einnig leiða saman mikilvægar stofnanir og félagasamtök á borð við þær sem ég nefndi hér áðan – til samhæfðra aðgerða gegn samfélagslegri vá.
Við munum á næstu vikum og mánuðum kynna hugmyndir sem miða að því að virkja þetta atvinnulausa unga fólk til þátttöku í samfélaginu, virkja það til náms og auka því sjálfstraust og trú á framtíðina.
Ég tel að við eigum að breyta útgjöldum til bótagreiðslna ungmenna í fjárfestingu í menntun og fjárfestingu í tækifærum. Því vil ég skoða hvort ekki sé rétt að breyta bótagreiðslum til langtímaatvinnulauss ungs fólks í tímabundna náms- og virknistyrki.
Við ætlum einnig að auka til muna þá kosti sem þessu unga fólki bjóðast til náms, til sjálfboðastarfa og margvíslegra annarra verkefna. Við munum bjóða ungu fólki að vera ekki lengur einungis þiggjendur í bótakerfi, heldur gerendur og virkir þátttakendur í samfélaginu. Þessi tækifæri munum við flétta með markvissum hætti inn í umgjörð atvinnuleysisbóta.
Með þessum aðgerðum og mörgum öðrum viljum við byggja upp unga fólkið okkar, í stað þess að hafa þau heima, aðgerðalítil og afskipt, með því að veita þeim tækifæri til að takast á við verðug verkefni á hverjum degi, virkja hugmyndaflug þeirra og sköpunargleði og ekki síst til þess að þau skynji, að þau hafi að einhverju að vaka og vinna.
Með sama hætti þurfum við að tengja saman ábyrgð af virkri atvinnuleit og endurgjald. Þeir sem ekki eru að leita að vinnu eiga ekki að fá bætur. Þeir sem ekki þiggja vinnu eiga að þurfa að leggja af mörkum til að ávinna sér á ný rétt til atvinnuleysisbóta. Þeir sem vilja læra eiga að geta það – hindrunarlaust. Við munum leggja fram fjölþættar hugmyndir á næstu vikum um stóraukin úrræði fyrir atvinnuleitendur og aukna ábyrgð atvinnuleitenda.
Mikil umræða hefur farið fram að undanförnu um aðkomu aðila vinnumarkaðarins að málefnum atvinnulausra, í framhaldi af hugmynd SA og ASÍ um að aðilar vinnumarkaðarins myndu taka yfir þjónustu við atvinnulausa og framlög fyrirtækja yrðu eyrnamerkt þeim málaflokki og kæmu í stað almennra skattgreiðslna. Um þetta er rétt að hafa nokkur orð.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að nýta hið fjölþætta net samtaka launafólks út um allt samfélagið til að halda uppi tengslum við atvinnulausa og auka virkni þeirra. Margir atvinnulausir eru félagsmenn í stéttarfélögum og aðrir vildu gjarnan vera það ef þjónusta er í boði hjá félögunum. Með sama hætti hef ég áhuga á að nýta net annara félagasamtaka. Við þurfum þjóðarátak gegn langtímaatvinnuleysi, eins og ég rakti hér áðan. Ég hef því lýst áhuga á því að ræða við stéttarfélögin um að þau taki að sér einhverja þætti þjónustu við atvinnulausa. En það skiptir máli hvernig það er gert.
Ég tel að ekki komi til greina að öll þjónusta við atvinnulausa og ákvarðanir um réttindi þeirra verði færð í heilu lagi til stéttarfélaga og hið opinbera afsali sér þannig ábyrgð á framkvæmd atvinnuleysistrygginga. Slíkt samrýmist ekki nútíma kröfum um virka vinnumarkaðsstefnu þar sem áhersla er á þau borgaralegu réttindi hvers manns að fá þjónustu og úrræði við hæfi og að tryggt sé að leyst sé úr sambærilegum málum með sambærilegum hætti.
Slíkt fyrirkomulag getur hæglega rofið þá samfélagslegu samstöðu sem verið hefur um velferðarkerfið og búið til tvöfalt kerfi – þeirra sem búa svo vel að eiga samningsbundinn rétt og þeirra sem ekki eiga rétt og þurfa að reiða sig á samfélagslegar lausnir. Í öllu falli er þetta stór velferðarpólitísk spurning sem við þurfum að ræða mjög ítarlega.
Um alla Evrópu er að aukast skilningur á því að við þurfum að gæta að réttindum allra á vinnumarkaði, ekki bara sumra. Helsti atvinnuleysisvandi okkar núna er meðal ungs fólks sem ekki hefur náð að fóta sig á vinnumarkaði eða í skólakerfinu. Þetta fólk á lítinn eða engan áunninn rétt. Þess vegna er í yfirlýsingu forsætis- og fjármálaráðherra vegna framlengingar stöðugleikasáttmálans lögð höfuðáhersla á að atvinnuleysisréttindi verði áfram samræmd og bundin í lögum.
Ég hef áður minnt á að grunnatvinnuvegir landsins verði að vera í stakk búnir til að bera eðlileg gjöld til samneyslunnar. Mér hugnast ekki hugmyndir um eyrnamerkingu framlaga atvinnulífsins, þannig að Samtök atvinnulífsins geti með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar ákveðið hvernig skattpeningum frá fyrirtækjum verði ráðstafað.
Við höfum síðustu hundrað árin byggt upp samfélag jafnaðar þar sem allir eiga rétt og allir njóta þjónustu. Atvinnulífið á að sjálfsögðu að borga skatta til ríkisins með almennum hætti eins og allir aðrir. Það þarf að reka skóla, hlynna að sjúkum, sinna þjónustu við fatlaða og greiða öldruðum lífeyri. Fyrirtækin í landinu hljóta að bera kostnað af þessari samfélagsþjónustu, enda eru þau þátttakendur í samfélaginu eins og við öll.
Ég hef líka miklar efasemdir um skynsemi þess að hækka tryggingagjald frekar. Sá skattstofn leggst á laun og eykur tilkostnað af launagreiðslum. Eigum við – í mesta atvinnuleysi sem við höfum séð í áratugi – að gera það enn dýrara fyrir fyrirtæki að hafa fólk í vinnu? Þessar hugmyndir henta vel sumum atvinnugreinum eins og stóriðjunni, þar sem launakostnaður skiptir hlutfallslega litlu máli, en bitna hart á sprotafyrirtækjum og ferðaþjónustufyrirtækjum sem eru uppspretta flestra starfa í samfélaginu. Sveitarfélögin munu þurfa að hækka útsvar til að standa undir sínum hluta af skattheimtu af þessum toga. Hækkun tryggingagjalds leggst þungt á ríkið og kalla á frekari niðurskurð á opinberri þjónustu.
Við þurfum öll að borga skatta. Sumt líkar okkur vel og annað teljum við óþarfa. Félagi í Eflingu getur ekki valið að skattar hans renni bara til ákveðinna verkefna. Sama gildir um félagsmann í BSRB og atvinnulausan einstakling sem greiðir skatta af bótum sínum. Fyrirtækin í landinu geta ekki skammtað sér skyldur. Fólkið í landinu kýs stjórnmálamenn til að leggja á skatta og rekur þá svo vonandi ef þeir sinna sínu verki ekki með þeim hætti sem þjóðin þolir. Þannig á það áfram að vera.
Framundan er stórt verkefni – samfélagslegt verkefni – um að koma þeim mikla fjölda fólks sem er án vinnu til aukinnar virkni og vinnu. Það er verkefni sem við verðum öll að leysa saman.