Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra á norrænni ráðstefnu um fjármálakreppu, húsnæðismarkaðinn og heimilin

Góðir ráðstefnugestir 

Verið velkomin á ráðstefnuna og erlenda gesti býð ég sérstaklega velkomna til landsins.

Við Íslendingar þurfum nú að endurmeta húsnæðisstefnu okkar í kjölfar fjármálakreppunnar. Óábyrg útlánastafsemi bankanna átti stóran þátt og stærstan þátt í innistæðulausri fasteingaverðbólu undanfarra ára. Eftir sitja íslensk heimili skuldugri en nokkru sinni fyrr og skulda nú í íbúðaskuldum meira en 10 sinnum meira en þau skulduðu árið 2003.  

Okkur var sagt áratugum saman að hömlur á útlánafrelsi, lög um greiðsluaðlögun og takmarkanir á frelsi banka til að lána, myndu koma í veg fyrir aðgang fólks að lánsfé. Við getum hinsvegar séð af reynslu undanfarinna ára, að skortur á löggjöf - sérstaklega  um greiðsluaðlögun og annarri löggjöf sem takmarkar rétt kröfuhafa og styrkir rétt skuldara - hefur leitt til óábyrgrar útlánastarfsemi og alið á óábyrgri hegðun fjármálastofnana.

Við bjuggum við húsnæðislánakerfi sem var forfjármagnað, þar sem kjörin sem í boði voru á hverjum tíma byggðust á skuldabréfum sem þegar höfðu verið seld á markaði. Í útlánabólu undanfarinna ára gengu hinsvegar nýeinkavæddir bankar fram með offorsi og buðu útlánakjör sem þeir höfðu engar viðskiptalegar forsendur til að bjóða. Af allri þessari reynslu þurfum við að læra. Við þurfum líka að læra af óábyrgri samkeppni sveitarfélaga um framboð á lóðum þar sem allir vildu vera fremstir í röðinni. Sú samkeppni leiddi líka til þeirrar uppbyggingarbólu sem við erum nýkomin út úr.

Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja sterkari grunn fyrir íbúðarmarkaðinn. Við viljum byggja á því sem vel hefur tekist á undanförnum áratugum, sem er hið opinbera húsnæðislánakerfi. Við viljum líka vinna með hinum nýendurreistu bönkum og styðja þá til ábyrgrar þátttöku í útlánastarfsemi. En mikilvægast af öllu er að treysta líka stoðir félagslegs húsnæðiskerfis. Við þurfum að skapa aukið svigrúm fyrir leiguíbúðafélög. Við þurfum að tryggja þeim lífvænlegar forsendur til lengri tíma litið þannig að örugg leiga sé raunverulegur valkostur í séreign. Svo þurfum við að stuðla að öryggi í framboði á lánsfé til að draga úr þeirri áhættu sem óumflýjanlega fylgir séreignarfyrirkomulagi. Við þurfum á öllum Norðurlöndunum að læra af reynslu undangenginna ára. Þótt eignaverðbólan á fasteignamarkaði hafi verið mikil hér þá var hún líka ámóta mikil á mörgum hinna Norðurlandanna.  

Ég vona að ráðstefnan verði okkur öllum uppspretta nýrra hugmynda og ferskrar sýnar á það hvernig við vinnum okkur út úr þeirri stöðu sem við erum nú í dag.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta