Ávarp félags- og tryggingamálaráðherra við opnum afmælishátíðar Félags heyrnarlausra
Félag heyrnalausra fagnar í dag 50 ára afmæli félagsins. Af því tilefni var efnt til opnunarhátíðar á Hótel Loftleiðum. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði gesti og fer ávarpið hér á eftir:
Góðir gestir.
Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag í tilefni 50 ára afmælis Félags heyrnarlausra. Á hátíðarstundum sem þessari er oftast tilefni til að gleðjast saman yfir mikilvægum góðum áföngum í réttindabaráttu. En sú langa saga mistaka, fordóma og forræðishyggju sem einkennt hefur viðhorf stjórnvalda til heyrnarlausra lengst af yfirskyggir allt þegar horft er til baka.
Áratugum saman meinuðu stjórnvöld heyrnarlausum að njóta tjáskipta á því máli sem þið áttuð möguleika á að tileinka ykkur, táknmálinu. Afleiðingin varð sú að margar kynslóðir heyrnarlausra fóru á mis við þau tækifæri til þroska og menntunar sem okkur finnst öllum sjálfsagt að njóta. Einangrun heyrnarlausra varð verri en en hún hefði þurft að vera. Mörg ykkar sem þurftuð að ganga þessa þrautagöngu eruð stödd hér í dag. Full ástæða er til að viðurkenna ábyrgð stjórnvalda á þessum mistökum, biðjast afsökunar á þeim og draga af þeim lærdóma.
Þessu til viðbótar liggur nú fyrir skýrsla vistheimilanefndar um Heyrnleysingjaskólann sem staðfestir að hið opinbera brást í því grundvallarhlutverki sínu að verja nemendur fyrir misnotkun og ofbeldi. Skýrslan er mikill áfellisdómur yfir stjórnvöldum og við forsætisráðherra höfum beðið afsökunar á þeirri vanrækslu sem stjórnvöld gerðu sig sek um. Ég hef líka vakið máls á því við Félag heyrnarlausra að stjórnvöld vilji koma að því að styðja félagið í að glíma við afleiðingar þessara misgerða fortíðarinnar.
Við höfum heitið því að eftirlit með velferðarþjónustu verði skilið alfarið frá ákvörðunum um hvaða þjónustu eigi að kaupa eða veita. Niðurstaða vistheimilanefndar er sú að í öllum tilvikum vanrækslu og ofbeldis gagnvart börnum á fyrri tíð hafi opinbert eftirlit brugðist. Í sumum tilvikum var jafnvel þeim sem báru ábyrgð á starfseminni ætlað að hafa eftirlit með henni. Slíkt má aldrei henda aftur. Ný sjálfstæð eftirlitsstofnun mun vonandi taka til starfa á þessu ári.
Með þessa forsögu í huga verður hlutur þess hugrakka og framsýna fólks sem stóð fyrir stofnun félagsins fyrir 50 árum okkur sífellt aðdáunarefni. Það er full þörf að þakka forystufólki félagsins og félagsmönnum öllum fyrir starf þeirra um áratugi.
Við getum ekki breytt fortíðinni, en við getum lært af henni. Okkar bíður líka að sanna með verkum okkar að áherslur eru aðrar og skilningur á þörfum heyrnarlausra, eins og annarra hópa fatlaðra, en meiri en fyrr. Þess vegna óskum við samstarfs um átak í uppbyggingu þjónustu við heyrnarlausa.
Við í félags- og tryggingamálaráðuneytinu höfum í kjölfar skýrslunnar ákveðið að hefja heildstæða stefnumörkun í málefnum heyrnarlausra. Við munum í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti endurmeta þjónustuþörf heyrnarlausra og hlökkum til náins samstarfs við félagið um það verkefni. Mér er engin launung á því að ég horfi í því sambandi mjög til þess fordæmis sem hefur verið skapað með Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sem þegar hefur verið komið á fót og starfar í nánum tengslum og mikilli sátt við þá sem á þeirri þjónustu þurfa að halda.
Framundan er átak í réttindagæslu fatlaðra. Við hyggjumst leggja fram lagabreytingar á grundvelli skýrslu sem samin var af starfshóp um það efni í fyrra. Þá er í bígerð lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Við erum með í vinnslu frumvarp um það efni, en þörf er fjölþættra lagabreytinga til að veita honum lagagildi hér á landi.
Eins og ég nefndi áðan getum við ekki breytt fortíðinni, en við berum ábyrgð á framtíðinni. Við þurfum að taka höndum saman um að vinna gegn einangrun heyrnarlausra, auka veg táknmálsins og leitast við að mæta þjónustuþörfum hvers og eins einstaklings. Með slíka framtíðarsýn hlakka ég til samstarfs við félagið og óska því allra heilla í starfi næstu 50 árin.