Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing Þroskaþjálfafélags Íslands um ofbeldi í starfi með fötluðu fólki

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Komið þið sæl öll og takk fyrir að bjóða mér hingað þar sem á dagskrá er viðkvæmt og vandasamt umfjöllunarefni sem mikilvægt er að ræða af fagmennsku og yfirvegun.

Ofbeldi í einhverri mynd er veruleiki fólks á ýmsum starfssviðum, þótt mismikið sé um það fjallað. Ofbeldi sem löggæslufólk mætir í sínum störfum er eitthvað sem stundum er talað um – og kemur eflaust engum á óvart, í ljósi þeirra margvíslegu verkefna sem lögreglan fæst við.

Á slysadeild Landspítalans kemur fólk oft í beinu framhaldi af næturskemmtunum sem farið hafa úr böndum, gjarna drukkið eða undir áhrifum annarra fíkniefna. Um þetta er stundum fjallað, og þetta er svo sannarlega vandamál.

Ofbeldi eins og er til umfjöllunar hér í dag horfir sennilega allt öðru vísi við okkur flestum en ofbeldi sem skapast við aðstæður eins og ég nefndi áðan. Hvort sem í hlut á fatlaður einstaklingur sem beitir ofbeldi eða starfsmaðurinn sem verður fyrir því – þá er eitthvað sem er allt öðru vísi við þetta en hefðbundið gerenda/þolendasamband – þótt hér sé ekkert síður um alvarlegt mál að ræða.

Ég sé af dagskránni hér að umfjöllunin á eftir mun fyrst og fremst snúa að þeim þáttum sem varða það að sæta ofbeldi í starfi með föltuðu fólki.  Ég ætla því að leyfa mér að horfa á málið frá annarri hlið sem skiptir auðvitað líka miklu máli, eins og þið öll vitið eflaust manna best, en það er hvernig megi draga úr líkum á því að fatlaðir beiti ofbeldi þá sem um þá annast.

Sérfræðingar mínir leggja ríka áherslu á hvernig við nálgumst þessi mál og skoða það út frá því að valdbeiting kalli á valdbeitingu. Og þarf enginn að efast um sannleikann í þeim orðum. Það er því afar mikilvægt að forðast í lengstu lög að beita valdi ef þess er nokkur kostur.

Þeir sem vinna með fötluðu fólki kannast eflaust flestir við nauðung í ýmsum myndum. Stundum kann hún að vera hluti af verklagi án þess að fólk hafi leitt hugann að því að um nauðung sé að ræða.

Það er vitað að nauðung er oftar en ekki beitt í góðum tilgangi þar sem ætlunin er að gæta velferðar hins fatlaða. Skýrt dæmi um þetta er ef fatlaður einstaklingur er með sykursýki og vegna þess meinaður aðgangur að sykri þvert gegn vilja  hans sjálfs. Hér er vert að skoða hvort aðrar leiðir séu færar – og örugglega er það oft þannig að ef mál eru skoðuð gaumgæfilega er unnt að finna leiðir sem koma í stað þess að beita bönnum, aðgangshindrunum, skerðingu á ferðafrelsi og svo mætti áfram telja.

Það var mikið og gott framfaraskref þegar sett voru lög um réttindagæslu fatlaðs fólks og í framhaldi af því frekari lagaákvæði sem fjalla um ráðstafanir til að draga úr nauðung við fatlað fólk. Þarna erum við annars vegar komin með skipulagða ráðgjöf sem lýtur að því að draga úr nauðung við fatlað fólk eins og kostur er – og hins vegar ferli sem tryggir að ef ekki reynast færar leiðir til að uppfylla brýnar umönnunarskyldur án þess að beita nauðung, þá verður það ekki gert nema að fengnu sérstöku leyfi þar til bærra aðila hjá nefnd um undanþágu frá beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. – Þetta ferli samkvæmt lögunum er enn að þróast og slípast til en ég er ekki í vafa um að þegar fram í sækir muni sýna sig að breytt verklag með þessum áherslum mun draga úr ofbeldi í vinnu með fatlað fólk.

Það er rétt að minna á að samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er öllum vinnustöðum skylt að gera áhættumat með því að greina hugsanlega áhættuþætti sem ógna öryggi. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert og að vel sé að því staðið.

Góðir gestir.

Ég geri ráð fyrir því að einhver ykkar í það minnsta hafi heyrt af nýlega stofnuðu landssamráði gegn ofbeldi sem þrír ráðherrar, að mér meðtalinni, efndu til með metnaðarfullri samstarfsyfirlýsingu sem kynnt var á síðasta ári. Samstarfsyfirlýsingin felur í sér að unnin verði aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensklu samfélagi. Landssamráðið er hafið og þegar hafa verið haldnir fjölmennir fundir til undirbúnings stefnu og aðgerðaáætlun í þessum vandasama málaflokki. Síðast í gær var haldinn einstaklega vel heppnaður vinnufundur í Iðnó um aðgerðir gegn ofbeldi þar sem um 100 manns komu saman og réðu ráðum sínum. Þar veit ég af því að ofbeldi í störfum með fötluðu fólki var gert að umtalsefni, en því hafði ekki verið gefinn sérstakur gaumur áður í þessari vinnu. Það verður hins vegar gert í framhaldi af umræðunni á fundinum í gær, því ég legg mikla áherslu á að í þeirri vinnu sem byggð verður á samstarfsyfirlýsingu ráðherranna þriggja verði ekkert undanskilið sem lýtur að ofbeldi og aðgerðum til að sporna gegn því.

Mig langar að ljúka máli mínu hér með því að segja frá því hvernig þetta víðfeðma verkefni gegn ofbeldi hefur verið brotið upp í þrjú þemu sem við köllum ,,vöffin“ þrjú. Þetta eru þrjú hugtök sem leggja grundvöll að starfinu, þ.e. vakning, - viðbrögð og valdefling.

Vakningin felst í því að upplýsa og virkja samfélagið til að taka höndum saman gegn ofbeldi. Þar undir falla forvarnir, fræðsla og rannsóknir og miðlun upplýsinga til viðeigandi hópa og samfélagsins alls.

Viðbrögð vísa til réttarvörslukerfisins og snúa að rannsókn mála, verklagi á vettvangi, vernd og bráðastuðningi við þolendur.

Loks er það valdeflingin, en í henni felst velferðarþjónustan, ráðgjöf og marþættur stuðningur til lengri tíma við þolendur og úrræði fyrir gerendur.

Góðir fundarmenn.

Mér dettur í hug í lokin að auðvitað eigum við að bæta við fjórða vaffinu – eða að minnsta kosti að hafa það alltaf með í farteskinu – en það er virðing. Virðing fyrir þeim verkefnum sem við vinnum að og virðing fyrir fólkinu sem við vinnum með. Það er alltaf gott veganesti.

 Gangi ykkur vel í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta