Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra við afhendingu styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands 19. júní 2016

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Kæru vinir, konur og karlar, innilega til hamingju með daginn.

Í dag úthlutum við styrkjum úr Jafnréttissjóði Íslands í fyrsta sinn. Þessi sjóður var stofnaður með ákvörðun Alþingis á liðnu ári þegar 100 ár voru frá því að íslenskar konur hlutu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þessum tímamótum var fagnað með myndarlegum hætti og ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka Alþingi, nefnd um 100 ára kosningaréttarafmælið, kvennahreyfingunni og Háskóla Íslands fyrir þeirra framlag til afmælisársins. Við megum vera stolt af því hvernig til tókst.

Samkvæmt ákvörðun Alþingis fær Jafnréttissjóður Íslands til ráðstöfunar 100 milljónir króna á ári af fjárlögum á árunum 2016 – 2020. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um markmið sjóðsins. Í stuttu máli er tilgangurinn að fjármagna eða styrkja verkefni sem eru til þess fallin að auka jafnrétti kynjanna. Þar er því miður af mörgu að taka, því þótt svo sannarlega hafi mörg og stór skref verið stigin í jafnréttisátt síðastliðin 100 ár, eigum við enn verk að vinna.

„Ég er því hlynntur, að konur fái jafnrétti við karlmenn, því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla, og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum. Þetta vegur því upp hvað annað.“

Þessi tilvitnun er lítið dæmi um þau viðhorf sem konur mætti fyrir rúmri öld, en ummælin féllu á Alþingi þegar rætt var um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi árið 1911 þar sem gert var ráð fyrir kosningarétti og kjörgengi kvenna til Alþingis.

Ég ætla að gera langa sögu stutta. Umræðunum á þingi 1911 lauk með því að konur fengu með lögum kosningarétt og kjörgengi til Alþingis en full stjórnmálaleg réttindi öðluðust þær ekki fyrr en með staðfestingu stjórnarskrárbreytingar þann 19. júní 1915 – og raunar með ákveðnum aldurstakmörkunum sem féllu ekki úr gildi fyrr en árið 1920.

Þegar Alþingi kom saman í fyrsta sinn eftir að stjórnarskrárbreytingin um kosningarétt kvenna hafði öðlast gildi las Ingibjörg H. Bjarnason upp ávarp reykvískra kvenna til Alþingis. Ég leyfi mér að taka upp nokkur orð úr því ávarpi, af því þau áttu ekki aðeins við þá, heldur líka í dag: Orðrétt segir:

„Vér vitum og skiljum, að kosningarréttur til Alþingis og kjörgengi er lykillinn að löggjafarvaldi landsins, sem á að fjalla um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna. Vér trúum því, að fósturjörðin, stóra heimilið vor allra, þarfnist starfskrafta allra sinna barna, jafnt kvenna sem karla, eins og einkaheimilin þarfnast starfskrafta alls heimilisfólksins, og vér trúum því, að vér eigum skyldum að gegna og störf að rækja í löggjöf lands og þjóðar, eins og á einkaheimilum.“

Góðir gestir.

Einkaheimilin þarfnast starfskrafta alls heimilsifólksins. - Enn þann dag í dag snýr mikilvæg vinna að jafnréttismálum m.a. að því að eyða kynbundnum staðalímyndum. Það er enn þörf á að jafna fjölskylduábyrgð milli karla og kvenna og vinnumarkaðurinn þarf m.a. að laga sig betur að þörfum fjölskyldunnar í þessu skyni. Í náms- og starfsvali sjáum við staðalímyndir enn ráða miklu um framtíðarvettvang drengja og stúlkna í atvinnulífinu og þar er breytinga þörf. Síðast en ekki síst skal svo nefna launamun kynja og skarðan hlut kvenna í ráðandi stöðum í samfélaginu.

Eins og sagði í tilvitnuðu ávarpi kvenna til Alþingis árið 1915 er kosningaréttur og kjörgengi lykillinn að löggjafarvaldinu sem fjalla á um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna. Að fjalla jafnt um hagsmuni karla og kvenna á Alþingi er ekki alveg eins einfalt og það hljómar. Það hefur raunar verið að renna upp fyrir okkur allt fram til þessa dags. Til marks um það má nefna þá nýjung sem verið er að innleiða í fjárlagagerð ríkisins, þ.e. kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð. Þar er samtvinnuð þekking á gerð fjárlaga og þekking á kynjamisrétti með það að leiðarljósi að stuðla að hagkvæmri og réttlátri dreifingu opinberra fjármuna.

Jafnréttissjóður Íslands þjónar þeim tilgangi að tryggja framkvæmd framsækinna verkefna, og næra stöðuga uppsprettu nýrra hugmynda og þekkingarmiðlun á sviði jafnréttismála. Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni sem miða að því að ýta til hliðar þeim hindrunum sem verið hafa á leið okkar að réttlátara samfélagi og raunverulegu lýðræði þar sem stelpur og strákar, konur og karlar búa við sömu réttindi og tækifæri.

Góðir gestir.

Í dag þökkum við öllum þeim sem hafa rutt brautina fyrir auknu kynjajafnrétti. En við skulum einnig hafa hugfast að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Við ætlum okkur meiri framfarir á sviði jafnréttismála. Ekki eingöngu vegna þess að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda heldur einnig vegna þess að við eigum að fjárfesta í mannauði karla og kvenna sem best við getum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta