Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

,,SPEGILL, SPEGILL HERM ÞÚ MÉR" - Stefnumót fjölmiðla og Félags kvenna í atvinnulífinu

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra á morgunverðarfundi Félags kvenna í atvinnulífinu, 20. september 2016.

Ágætu gestir,

Mér er það mikill heiður að fá tækifæri til að ávarpa málþing Félags kvenna í atvinnulífinu um aukna ásýnd kvenna í fjölmiðlum.

Fyrir nokkrum dögum var þess minnst á málþingi norður á Akureyri að á þessu ári eru 40 ár liðin frá setningu fyrstu jafnréttislaganna. Á þessum fjörutíu árum hefur sannarlega mikið áunnist á sviði jafnréttismála enda langt síðan hægt var að fullyrða að hér búa konur og karlar við formlegt jafnrétti. Við eigum þó enn svo óralangt í land hvað varðar jafna möguleika karla og kvenna. Nærtækt dæmi eru möguleikar kvenna til valda og áhrifa á sviði stjórnmálanna og í atvinnulífinu. Annað dæmi er birtingarmynd kynjanna í fjölmiðlum en samkvæmt greiningu Fjölmiðlavaktarinnar sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið fyrir síðasta jafnréttisþing voru konur 20–30% viðmælenda í fréttum og 27–39% í fréttatengdum þáttum frá september 2014 til september 2015 en samkvæmt þessum tölum hafði sýnileiki kvenna í fjölmiðlum lítið sem ekkert breyst frá árinu 2001.

Á síðasta fögnuðum við því að 100 ára voru liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Það var virkilega gefandi og skemmtilegt að skynja þann ótrúlega kraft sem einkenndi alla umræðu um jafnréttismál. Meðal annars var rætt um borgaraleg réttindi kvenna og tengsl þeirra við lýðræðisþróun. Lýðræði snýst auðvitað ekki eingöngu um kosningarétt og þau sjálfsögðu mannréttindi að geta haft áhrif á samfélagsþróun – lýðræði snýst einnig um að við eigum öll að eiga jafna möguleika á þátttöku.

Fjölmiðlar gegna hér lykilhlutverki og þeir eiga að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins. Rannsóknir sem kynntar voru á síðasta ári og hér í dag sýna að konur og karlar birtast ekki í jöfnum hlutföllum í fjölmiðlum og sú mynd sem dregin er upp af konum endurspelgar hvorki fjölda þeirra á vettvangi stjórnmála, í forystu atvinnulífsins né hið háa menntunarstig íslenskra kvenna. Kynjaskekkju gætir einnig meðal fréttamanna og fjölmiðlafólks og konur eru í minnihluta þeirra sem taka stefnumótandi ákvarðanir í fjölmiðlum þar sem þær eru enn í minnihluta stjórnenda og eigenda miðlanna.

Með öðrum orðum fjölmiðlar endurspegla ekki raunveruleikann. Kynjuð og stöðluð framsetning um konur og karla og hlutverk þeirra vinnur gegn markmiði okkar um aukið jafnrétti – það gera líka auglýsingar sem birta snyrtar og afbakaðar ljósmyndir af konum og körlum og bjóða stúlkum og drengjum upp á takmarkað úrval fyrirmynda. Framsetning fjölmiðla hefur meðal annars áhrif á vaxandi klámvæðingu í öllum miðlum og við verðum að halda vöku okkar gagnvart því hvernig stöðluðum hlutverkum kynjanna er miðlað í samfélaginu.

Þau sem starfa á sviði jafnréttismála þekkja að jafnréttisbarátta og femínismi mæta andstöðu. Umræða um kerfisbundið og rótgróið misrétti milli kvenna og karla, stúlkna og drengja og hvernig okkar miðar við að uppræta misréttið byggist oft á fordómum og misskilningi. Opinber umræða, sem heldur á lofti og áréttar stöðugt staðlaðar kynjamyndir, umræða sem býður ekki upp á þátttöku allra vinnur gegn jafnréttismálum.

Á ráðstefnu um borgaraleg réttindi kvenna í október í fyrra sagði Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, að ein helsta ógnin við aukið jafnrétti kynjanna væri ríkjandi sjónarmið ungs fólks um að fullu jafnrétti væri náð og við gætum þar af leiðandi slakað á aðgerðum. Við þurfum að vera meðvituð um það bil sem enn þarf að brúa og við þurfum að vera vakandi fyrir því hvernig við miðlum efni til unga fólksins.

Í síðustu viku samþykkti Alþingi tillögu mína um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2020. Í kafla um kyn og lýðræði er lagt til að á gildistíma áætlunarinnar beiti mennta- og menningarmálaráðuneyti sér fyrir framkvæmd könnunar á aðgengi og birtingamyndum kvenna og karla, stúlkna og drengja í fjölmiðlum og að unnið verði að stefnumótun og vitunarvakningu fjölmiðla á þessu sviði.

Með samhentu átaki getum við breytt stöðunni. Við eigum að hampa fjölbreytileikanum, nýta mannauð samfélagsins, efla þekkingu á kerfisbundnu misrétti og ræða opinskátt um samfélagslegan ávinning af auknu jafnrétti.

Takk fyrir!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta