Stundin er runnin upp - 40 ár frá setningu jafnréttislaga
Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
Kæru vinir.
Við erum hér saman komin í tilefni þeirra tímamóta að í ár eru fjörutíu ár liðin frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett og Jafnréttisráð skipað til að annast framkvæmd þeirra. Jafnframt er dagurinn í dag 16. afmælisdagur Jafnréttisstofu – til hamingju með daginn!
Árið 1850 var fyrsta lagalega skrefið stigið með jöfnum erfðarétti dætra á við syni og síðan hafa verið tekin fjölmörg skref til þess að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Í dag dylst engum að íslenskar konur búa við mikið lagalegt jafnrétti, bæði þegar litið er til sögulegra áfanga í jafnréttisbaráttunni og með hliðsjón af alþjóðlegum mælikvörðum.
En hvað hefur breyst á þessum fjörutíu árum? Hverfum aðeins til baka til sjöunda áratugarins en þá nam hin svokallaða Nýja kvennahreyfing land á Íslandi.
Gömlu kvennabáráttunni var löngu lokið og margir álitu að henni hefði lokið með sigri; með lögbundnum formlegum réttindum kvenna. Staðreyndin var hins vegar sú að konur voru lítt sýnilegar á opinberum vettvangi. Í öðrum löndum höfðu konur risið upp og yfirgefið félaga sína úr uppreisnarhreyfingum 68' kynslóðarinnar. Þær höfðu fengið sig fullsaddar af hugmyndum karla sinna og skoðanabræðra um nýtt og réttlátara samfélag því að í þeim var lítill gaumur gefinn að sérstöðu kvenna. Árið 1968 tóku Úurnar, ungmennahópur Kvenréttindafélags Íslands til starfa og haustið 1970 var íslenska Rauðsokkahreyfingin formlega stofnuð.
Vilborg Sigurðardóttir, sagnfræðingur lýsir ástandinu með eftirfarandi hætti í grein sinni um Rauðsokkahreyfinguna:
“Því er ekki að leyna að einkum voru það konur með róttækar skoðanir á þjóðfélagsmálum sem fundu fyrir vaxandi óþreyju vegna þess hve konur voru sniðgengnar, settar hjá alls staðar og ævinlega haldið frá opinberu lífi. Samfélagið gerði þær kröfur til kvenna að þær ræktuðu hina kvenlegu þætti, stefndu helst markvisst að giftingu á unga aldri með tilheyrandi áherslu á útlit sitt en því fylgdi málingarverk mikið, túberingar á hári, mjótt mitt og stór brjóst, skrautlegur og jafnvel hreyfihamlandi fatnaður eftir nýjustu tísku og annað eftir því. Eftir giftinguna – ef vel tókst til – átti að halda glæsilegt heimili og helga sig því, láta vandamál heimilisins ekki fara út fyrir veggi þess, hvort sem um var að ræða ósamkomulag, óhamingju, ofdrykkju eða ofbeldi. Launavinna konu utan heimilis var talin manni hennar til hneisu, vísbending þess að hann væri sá aumingi að geta ekki séð fyrir heimilinu - eða haft taumhald á konu sinni.“
Rauðsokkurnar færðu óyggjandi rök fyrir því að ástandið væri óþolandi og bentu á að til væri annað og betra lífsmynstur fyrir konur. Þær beittu ögrandi aðferðum, fengu konur til að rísa upp og andæfa óréttlætinu. Barátta kvenna þennan áratug lagði grunninn að opinberri jafnréttispólitík og skilaði okkur sannarlega betra samfélagi. Kvennafrídagurinn árið 1975 er mörgum enn í fersku minni en þá, árið áður en fyrstu jafnréttislögin urðu að veruleika voru einnig endurskoðuð lög um fóstureyðingar samþykkt á Alþingi eftir miklar og harðvítugar deilur í samfélaginu. Undir lok áttunda áratugarins breyttust áherslurnar innan kvennahreyfingarinnar – vitundarvakning hafði orðið en þó urðu konur enn fyrir hindrunum og fundu fyrir mikilli andstöðu við þátttöku á opinberum vettvangi. Þær létu þá verkin tala og fjölgaði svo um munaði sem fulltrúum í pólitískum áhrifastöðum sem breytti ásýnd íslenskra stjórnmála – konur áttu svo sannarlega „atkvæði í hrönnum“ og þær „þorðu, gátu og vildu“ láta til sín taka fyrir betra og réttlátara samfélag.
Á þeim fjörutíu árum sem liðin eru frá samþykki fyrstu jafnréttislögjafarinnar hefur ýmislegt áunnist en þó eigum við enn svo óralangt í land hvað varðar jafna möguleika karla og kvenna. Nærtækt dæmi eru möguleikar kvenna til valda og áhrifa á sviði stjórnmálanna og í atvinnulífinu. Annað dæmi er birtingarmynd kynjanna í fjölmiðlum en samkvæmt greiningu Fjölmiðlavaktarinnar voru konur 20–30% viðmælenda í fréttum og fréttatengdum þáttum árið 2015. Enn alvarlegra dæmi er kynbundið ofbeldi sem enn þann dag í dag er útbreitt mannréttindabrot og hefur skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélagið allt – ný birtingarmynd þess er hatursorðræða á netinu sem beinist gegn einstaklingum af báðum kynjum en einkum gegn konum á grundvelli kynferðis þeirra. Kynbundin hatursorðræða hefur alvarlegar afleiðingar – hún getur leitt til hatursglæpa og hún hefur skaðleg áhrif á möguleika kvenna og karla til jafnra áhrifa og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.
Íslensk jafnréttislöggjöf hefur allt frá því að fyrstu lögin voru samþykkt endurspeglað ríka áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði. Með þeirri áherslu var litið svo á að atvinnuþátttaka og efnahagslegt sjálfstæði kvenna væri forsenda framþróunar jafnréttis á öðrum sviðum samfélagsins.
Í því ljósi er athyglisvert hversu erfitt okkur hefur reynst að brjóta upp kynjaskiptingu starfa, tryggja launajafnrétti og jafna völd og áhrif kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Afleiðingar kynjaskiptingar starfa eru meðal annars þær að hlutfallslega fáar konur eru í stjórnunarstöðum, þær eru mun líklegri til að vinna hlutastörf og eru í miklum meirihuta starfsmanna á sviði umönnunar- og hjúkrunar þar sem takmarkaðir starfsþróunarmöguleikar eru fyrir hendi. Á hinn bóginn einkennast karlastörf fremur af sérhæfðum störfum með ríkari starfsþróunarmöguleikum. Samskonar mynd má draga upp þegar staða jafnréttismála er greind annars staðar á Norðurlöndunum. Í nýrri bók norsku fræðimannanna Lizu Reizel og Mari Teigen er sagt að mikil atvinnuþátttaka og hátt menntunarstig kvenna annars vegar og kynjaskipting starfa og mismunandi efnahagsleg völd kvenna og karla hins vegar feli í sér ákveðna þversögn.
Þegar velferðarkerfið fór að festa sig í sessi á fimmta áratug síðustu aldar óx umsvifamikill þjónustugeiri sem í dag er mikilvægur hluti hagkerfisins, hið svokallaða umönnunarhagkerfi þar sem konur eru þrír fjórðu hluta starfsmanna. Þær telja að stjórnvöld hafi lagt of mikla áherslu á að auðvelda konum samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á meðan of lítið hafi verið gert til að auka starfsþróunarmöguleika kvenna og jafna völd og áhrif kynjanna í atvinnulífi. Stjórnvaldsaðgerðir eins og fæðingarorlof, dagvistunarúrræði fyrir börn og ríkt framboð hlutastarfa á opinberum vinnumarkaði hafi vissulega tryggt háa atvinnuþátttöku kvenna en hafi í raun fest í sessi hefðbundnar hugmyndir um umönnunarhlutverk kvenna – með því að einblína um of á konur hafi norræn velferðarkerfi í raun heft möguleika þeirra til valda og áhrifa og viðhaldið kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði.
Í síðustu viku samþykkti Alþingi tillögu mína um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2020. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar og óraunhæft að telja þau öll upp hér.
Á gildistíma áætlunarinnar verður áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Mikilvægt er að tryggja innleiðingu jafnlaunastaðalsins og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Þann 24. október næstkomandi hyggst aðgerðahópur um launajafnrétti skila mér tillögum um framtíðarstefnu stjórnvalda og samstaka aðila vinnumarkaðarins um jafnrétti á vinnumarkaði og jafnlaunamálum. Í þeirri stefnu verður meðal annars lögð áhersla á samstilltar aðgerðir til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali, á virka fjölskyldustefnu fyrirtækja og stofnana og að unnið verði að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar barna auk áherslu á reglubundnar rannsóknir á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild.
Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum gerir einnig ráð fyrir sérstöku átaki um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu og að skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem stýri úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar löggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála. Mikilvægt þykir að kanna hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýsla jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðalega þróun og breytingar í íslensku samfélagi eða hvort tímabært þyki að leggja til breytingar á gildandi löggjöf. Í áætluninni er í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmið stefnumótunar og verkefna er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla og hef ég lagt til að skipaður verði sérstakur aðgerðahópur um þau verkefni.
Góðir gestir,
Í dag fögnum við tímamótum. Við vitum að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna á sviði jafnréttismála. Við skulum þó áfram vinna að því öll sem eitt að kynferði hefti ekki frelsi þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi. Þær geta þá vonandi þakkað okkur fyrir að hreinsa til þegar þau horfa til baka eftir 10, 20 eða 30 ár og vonandi sagt:
„Þetta er einmitt sú veröld sem ég vil.“