Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Burt með launamuninn - Jafnrétti og jafnlaunamál á íslenskum vinnumarkaði

Morgunverðarfundur, 24. október 2016 kl. 08.00 – 10:30 á Hilton Nordica Hótel Reykjavík
Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir,

Verið öll velkomin á morgunverðarfund aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Hér verða kynntar tillögur aðgerðahópsins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum og fjallað um tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins sem fer senn að ljúka.

Aðgerðahópurinn hefur meðal annars haft það hlutverk að hafa umsjón með tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og að tryggja uppsprettu nýrra hugmynda og miðlun nýrrar þekkingar með gerð nýrra rannsókna á sviði jafnlaunamála.  Í fyrra kynnti hópurinn niðurstöðu rannsóknaverkefna um kynbundinn launamun og stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Tillögur hópsins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum sem kynntar verða hér í dag byggjast annars vegar á þessari nýju þekkingu og hins vegar á tilraunverkefninu um innleiðingu staðalsins. Stefnan leggur áherslu á samstilltar aðgerðir stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali, á virka fjölskyldustefnu fyrirtækja og stofnana og að unnið verði að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar barna auk áherslu á reglubundnar rannsóknir á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild.

Í síðusta mánuði samþykkti Alþingi tillögu mína um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Áfram verður unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Mikilvægt er að tryggja innleiðingu jafnlaunastaðalsins og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins.

Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins verður kynnt hér á eftir. Staðallinn tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun og hann nýtist atvinnurekendum til að bjóða starfsfólki réttláta og gagnsæja launastefnu.  Meðal afurða tilraunaverkefnisins er upplýsingasíða um staðalinn sem frá og með deginum í dag er aðgengileg öllum sem vilja koma á og viðhalda launajafnrétti á sínum vinnustað. 

Á síðunni má fræðast um forsögu verkefnisins og fá svör við algengum spurningum um ferli innleiðingar, nálgast skjöl sem þróuð hafa verið til að auðvelda atvinnurekendum verkefnið og upplýsingar um námskeið um starfaflokkun, launagreiningar, gæðastjórnun og skjölun upplýsinga. 

Á síðunni má einnig skoða jafnlaunamerkið sem veitt verður þeim vinnustöðum sem hljóta faggilda vottun á jafnlaunastaðlinum af viðurkenndri vottunarstofu. Haustið 2014 efndi aðgerðahópurinn í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands til hönnunarsamkeppni um jafnlaunamerki og bar tillaga Sæþórs Arnar Ásmundssonar sigur úr býtum.

Í umsögn dómnefndar sagði: „Í merkinu má sjá mynd sem sýnir skífurit, stimpil, rúnir og brosandi andlit tveggja ólíkra einstaklinga. Í lögun minnir merkið á mynt eða pening og gefur þannig til kynna að einstaklingarnir sem þar sjást séu metnir jafnir að verðleikum. Merkið býður upp á alþjóðlega notkun, er einstakt og lýsandi fyrir verkefnið.“

Aðgerðahópurinn fól Sæþóri einnig það verkefni að útfæra jafnlaunamerkið sem grip sem fyrirtæki og stofnanir sem hlotið hafa jafnlaunavottun fá afhent til varðveislu.

Gripurinn vísar ekki eingöngu til tveggja einstaklinga sem metnir eru jafnir að verðleikum heldur einnig til gagnsæi launastefnu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis.

Jafnlaunastaðallinn er stjórnunartæki sem er einstakt á heimsvísu og hefur hann vakið verðskuldaða athygli út fyrir landssteinana.  Hjá Staðlaráði Íslands er nú unnið að þýðingu staðalsins á ensku og því ætti innan skamms að vera hægt  að kynna hann fyrir evrópskum og alþjóðlegum staðlasamtökum.   

Sigurður Ingi Jóhansson, forsætisráðherra er einn tíu þjóðarleiðtoga sem leiða nýtt verkefni HeForShe, svokallað IMPACT CHAMPION VERKEFNI. Leiðtogarnir tíu munu takast á hendur mikilvægar skuldbindingar til að ná jafnrétti bæði innanlands, sem og á heimsvísu. Skuldbindingarnar eru unnar í samstarfi við UN Women, jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hleypti HeForShe verkefninu af stokkunum í september 2014 með ávarpi Emmu Watson góðgerðarsendiherra UN Women. Markmið HeforShe er að ná til milljarðs karla um heim allan til stuðnings jafnrétti.

IMPACT 10x10x10 verkefnið var fyrst kynnt í janúar á World Economic Forum í Davos. Það leiðir saman leiðtoga tíu þjóða, tíu fyrirtækja og tíu menntastofnana um allan heim. Allir þrjátíu leiðtogarnir hafa skuldbundið sig til að takast á við mismunandi þætti kynjamisréttis en skuldbindingar Íslands snúa meðal annars að því að útrýma launamun á Íslandi fyrir 2022, jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og fá fleiri karla til liðs við jafnréttisbaráttuna bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Hópurinn mun svo vinna saman til að nýta reynsluna af framkvæmd verkefnanna til að hvetja aðra leiðtoga til að taka upp sömu málefni í sínum ríkjum, fyrirtækjum og háskólum.

Verkefnið um jafnlaunastaðalinn hefur verið kynnt framkvæmdastjórn UN Women hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og hefur Emma Watson fallist á að koma hingað til lands og afhenda fyrstu fyrirtækjunum og stofnunum sem hljóta faggilta vottun á jafnlaunakerfum sínum -  jafnlaunamerkið.

Góðir gestir,

Við sem hér erum vitum að margir samverkandi þættir hafa áhrif á kynjajafnrétti. Sterk kvennahreyfing og mikil samstaða íslenskra kvenna um nauðsynlegar þjóðfélagslegar umbætur og breytingar á karllægri samfélagsgerð hafa skipt sköpum um framþróun jafnréttismála hér á landi – 41 ár er í dag liðið frá baráttufundi íslensku kvennahreyfingarinnar á Lækjartorgi árið 1975 og frá setningu fyrstu jafnréttislaganna og 55 ár eru liðin frá því að fyrstu lögin um launajöfnuð kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi. Þó margt hafi áunnist er enn tilefni til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, vinna að launajafnrétti og auknum aðgengi kvenna að efnhagslegum og samfélagslegum valda- og áhrifastöðum.

Sú stund að við getum staðið upp frá góðu verki er svo sannarlega ekki enn runnin upp. 

Við vitum að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna á sviði jafnréttismála. Við skulum áfram vinna að því öll sem eitt að kynferði hefti ekki frelsi og möguleika þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta