Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar 2017

Ávarp félags- og jafnréttismálaráðherra á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 11.05.2017
Ellý Alda Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri talaði fyrir hönd ráðherra.

Komið þið sæl öll, góðir gestir á árlegri vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar. Það er ánægjulegt að vera með ykkur og fá að setja ráðstefnunna, sem ég geri fyrir hönd Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra. Hann átti því miður ekki kost á að vera hér í dag en bað mig fyrir góðar kveðjur til ykkar.

Það má líta á vorráðstefnuna sem nokkurs konar faglega árshátíð allra þeirra fjölmörgu sem á einhvern hátt koma að þjónustu við fötluð og langveik börn eða velferð þeirra á einhvern máta. Fólk hlakkar til þessarar ráðstefnu – hún er jafnan mjög vegleg í faglegum skilningi, vel undirbúin og fróðleg, jafnt fyrir lærða og leika. Ég leyfi mér því að segja til hamingju með daginn og er þess fullviss að ráðstefnugestir muni njóta þeirra tveggja ráðstefnudaga sem nú fara í hönd.

Ráðherra er meðvitaður um hvað þjónusta við fötluð börn og ungmenni er vandasamt viðfangsefni. Hann veit hve mikið er í húfi að þessum málaflokki sé vel sinnt og hvað það er mikilvægt að þeir mörgu aðilar sem koma að málefnum þessa fjölþætta hóps samhæfi sig og vinni saman. Honum er einnig vel ljóst hve mikilvægt er að hafa stefnu og sýn í jafn viðamiklum málaflokki. Ráðherra átti fund með Soffíu Lárusdóttur, forstjóra Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar fljótlega eftir að hann tók við embætti og fékk þá góða kynningu á starfsemi stöðvarinnar, helstu verkefnum og faglegum áherslum – og auðvitað líka hvar það er helst sem skórinn kreppir.

Varðandi stefnu í þessum málum, þá er ánægjulegt að geta kynnt hér í dag drög að tillögu til þingsályktunar að framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017 – 2021, en sú kynning er á dagskrá ráðstefnunnar á morgun. Í tengslum við gerð áætlunarinnar var vitanlega haft samráð við Greiningar- og ráðgjafarstöðina um áherslur inn í áætlunina sem gæti orðið til þess að styrkja og styðja við þjónustuhlutverk stofnunarinnar.

Biðlistar, rík krafa um greiningar og grá svæði þar sem ábyrgð þjónustuaðila og verkaskipting þeirra reynist ekki nógu skýr eru sígild umfjöllunarefni í þessum málaflokki og ekkert þeirra verður leyst í eitt skipti fyrir öll.

Hvað varðar gráu svæðin þá eru þau ofarlega á baugi í skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga sem birt var í fyrra – og þau eru sérstakt viðfangsefni svonefndar Grábókar Sambands sveitarfélaga sem var sérstaklega skrifuð um grá svæði á sviði velferðarþjónustu fyrir fáeinum árum. Umfjöllun af þessu tagi er mikilvæg og ýtir undir úrbætur og breytingar. Það er alltaf hægt að bæta úr því sem áfátt er og engin verkefni eru svo flókin að ekki megi leysa þau.

Í fyrrnefndri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs er gert ráð fyrir stofnun landshlutateyma til að auka samfellu í þjónustu, efla þjónustu og stuðning í nærumhverfi hlutaðeigandi barna og síðast en ekki síst að styrkja þjónust við landsbyggðinna. Þetta er mikilvægt.

Einnig er lagt til að sett verði viðmið um biðlista fyrir greiningar hjá börnum og markmið um hámarksbið eftir þjónustu, ásamt aðgerðaáætlun til að ná því markmiði. Þá er gert ráð fyrir að hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar á sviði ráðgjafar og fræðslu nái til ungs fólks á aldrinum 18 – 24 ára.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er og á að vera þriðja stigs þjónustustofnun. Hún er helsta þekkingarstofnun okkar á þessu sviði. Þar á að sinna þeim sem þurfa á þeirri sérhæfðu fagþekkingu sem er fyrir hendi á stofnuninni. Þjónusta við þau börn sem ekki þurfa eins sérhæfðrar þjónustu við á að veita annars staðar á viðeigandi þjónustustigi. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Til að þetta gangi betur eftir þarf að efla fyrsta- og annars stigs þjónustuna og Greiningar- og ráðgjafarstöðin getur komið að því verki með ráðgjöf og fræðslu.

Þetta fellur vel að stefnu stjórnvalda um að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars með sálfræðiþjónustu í heilsugæslu og í framhaldsskólum, jafnframt því að stuðningur verði aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.

Allir eru sammála um hvað snemmtæk íhlutun er mikilvæg og mikils virði og getur skipt sköpum um hvernig mál þróast hjá hlutaðeigandi barni og fjölskyldu þess. Til að styðja við þessa áherslu var tekið upp nýtt verklag í samstarfi Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og Reykjavíkurborgar sem felst í því að greina reglubundið biðlista hjá stofnuninni, kanna aðstæður barnanna sem bíða greiningar og skoða hvort og hvaða þjónustu sé mögulegt að veita þeim á fyrsta og öðru þjónustustigi. Þá erum við að tala um skólana, félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilsugæsluna á fyrsta stigi  - og þjónustu Þroska- og hegðunarstövðarinnar, sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, þjónustu barnadeilda sjúkrahúsa og sjálfstætt starfandi sérfræðinga á öðru þjónustustigi. Þetta er gott dæmi um aðgerð sem styður við snemmtæka íhlutun og mætir að nokkru leyti þeim vanda sem langir biðlistar sannarlega eru.

Félags- og jafnréttismálaráðherra ræddi fyrir skömmu um biðlista og greiningar í fyrirspurnartíma á Alþingi. Þar koma fram skýrar áherslur ráðherra sem snúast einmitt um að efla 1. og 2. stigs þjónustuna, stuðla að snemmtækri íhlutun eins og kostur er og vinna markvisst gegn kerfisvanda sem skapast ef þriðja stigs þjónustan þarf að takast á við verkefni sem eiga heima neðar í þjónustukeðjunni.

Ráðherra vísaði til nýlegrar skýrslu um úttekt á menntun fyrir alla, án aðgreiningar og vakti athygli á að þar er bent á kerfisvanda af þessum toga. Þá vísaði hann til þess þegar börn þurfi á tiltölulega einfaldri aðstoð að halda en aðstoðin sé bundin við að greining hafi átt sér stað þar sem sveitarfélögin veiti ekki fjármagn nema að formleg greining liggi fyrir.

Ráðherra leggur áherslu á að þetta skapi einmitt umræddan vanda. Fyrsta þjónustustiginu virðist ekki treyst fyrir greiningum sem það er þó í stakk búið til að sinna, of mikil áhersla sé lögð á formlegar greiningar og með þessu verði biðlistarnir lengri en efni standa til.

Ráðherra var í fyrirspurnartímanum á Alþingi spurður hvort stjórnvöld hyggist beita sér fyrir átaki til að stytta bið eftir greiningum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og Þroska- og hegðunarstöðinni.

Fundarstjóri, góðir fundarmenn, ég leyfi mér hér að vitna beint í svör ráðherra fyrir þessari fyrirspurn þar sem svar hans var eftirfarandi:

„Já, við hyggjumst gera það. Ég held að það sé nauðsynlegt. Þetta er algjörlega óásættanlegur biðtími sem við horfum upp á. Hér bíða hundruð barna eftir greiningu á hverjum tíma en ég held að mjög stór hluti þess vanda liggi í kerfisvandanum, þ.e. að í samstarfi við sveitarfélögin breytum við þessari nálgun þannig að menntakerfinu sjálfu verði treyst betur til að sinna fyrsta stigs greiningu og að við einbeitum okkur þegar kemur að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð að þeim börnum sem þurfa á víðtækari úrræðum að halda og getum þá sinnt þeim betur. Fjárveiting sveitarfélaganna ætti ekki að vera skilyrt formlegri greiningu heldur lagður metnaður í að grípa strax inn í, veita börnunum strax þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Hvort sem það er síðan mat að á endanum þurfi barnið á formlegri greiningu að halda eða frekari úrræðum á það ekki að tefja fyrstu viðbrögð menntakerfisins.“

Þetta er skýr afstaða af hálfu ráðherrans sem leggur áherslu á að það verði skoðað í samstarfi við sveitarfélögin hvernig megi breyta þessu til betri vegar. Samstarf Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og Reykjavíkurborgar sem ég nefndi áðan fellur vel að þessu.

Það er ánægjuleg staðreynd að leik- og grunnskólar hér á landi eru faglega öflugir með vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Þar er mikil þekking fyrir hendi og hana má styrkja enn frekar í því skyni að draga úr tilvísunum hjá mjög sérhæfðri stofnun eins og Greiningar- og ráðgjafarstöðinni. Samstarf við sveitarfélögin hvað þetta varðar þarf líka að snúast um að sveitarfélögin tryggi skólunum fjármagn til að grípa strax til viðeigandi úrræða þegar nemendur þurfa þeirra með og að ekki þurfi að bíða eftir formlegri greiningu.

Góðir gestir.

Ég fer brátt að ljúka máli mínu. Framundan er mikil dagksrá sem má segja að lýsi því vel hvað málefni þess hóps barna og ungmenna sem hér um ræðir eru umfangsmikil og fjölþætt. Það er ekki að ástæðulausu að rík áhersla er jafnan lögð á að veita heildstæða þjónustu, að þjónusta sé samþætt og að þjónusta taki mið af einstaklingbundnum þörfum þeirra barna sem hennar þurfa með. Þetta gerir miklar kröfur til þjónustukerfanna; til skólakerfisins, félagslega kerfisins og heilbrigðiskerfisins – kröfur um sveigjanleika og samstarfsvilja milli ólíkra stjórnsýslustiga og stjórnunareininga.

Ég gæti haldið lengi áfram, því möguleg umræðuefni eru mörg og þau verða seint tæmd. Mannréttindi í víðu samhengi, rétturinn til sjálfstæðs lífs, atvinnumál, búsetumál, gæði og eftirlit með þjónustu við fatlað fólk, allt þetta og margt margt fleira er mikilvægt og þarfnast stöðugrar umfjöllunar og eftirfylgni þannig að okkur miði í rétta átt.

Það er margt vel gert á sviði þjónustu við fötluð börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra. Við skulum meta það sem vel er gert, en vera jafnframt opin fyrir gagnrýni og ávallt reiðubúin til að endurskoða hugmyndafræði okkar, viðhorf og vinnubrögð.

Ég vil að lokum ítreka góðar kveðjur Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra til ykkar og óska öllum sem hér eru fróðlegra og ánægjulegra ráðstefnudaga.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta