Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á ráðstefnu og vinnustofum um farsælt samfélag fyrir alla – tækifæri barna og ungmenna í íþróttastarfi
Ágætu ráðstefnugestir.
Hreyfing og heilbrigður lífsstíll barna og ungmenna getur haft afgerandi áhrif á heilsufar og stuðlað að betri andlegri og líkamlegri líðan. Íþróttir geta því verið sjálfseflandi, aukið félagslega færni og lagt þannig grunn að færni einstaklinga til þess að takast á við ýmsar áskoranir sem upp kunna að koma á lífsleiðinni. Ég þekki gildi þess að stunda íþróttir í eigin lífi, sem fyrrverandi grindahlaupari fyrir örfáum árum síðan.
Í gegnum tíðina hafa íþróttir fatlaðs fólks mætt litlum skilningi og notið lítillar athygli. Þetta tengist að stórum hluta þeim almennu viðhorfum sem ríkt hafa í samfélaginu til fötlunar og að fatlað fólk hafi ekki forsendur til þess að láta að sér kveða á sviði íþrótta. Þetta má líka kalla því nafni sem það nefnist þ.e.a.s. fordómar.
Afstöðu almennings má einnig rekja til þess að litið var á íþróttir sem keppni um hreysti og styrk og það væri einungis á fárra færi að vera í þeim hópi svo eftir væri tekið. Sjálfur gerðist ég vissulega sekur um þetta, enda valdi ég grindahlaup þar sem þar voru ætíð mjög fáir keppendur og sigurlíkur því meiri.
Þegar gildi almenningsíþrótta komst á flug á síðustu áratugum síðustu aldar breyttist afstaðan og var þá farið að líta á íþróttir sem nauðsynlegan þátt í lífi fatlaðs fólks. Þessar breytingar áttu einnig rætur í öflugri réttindabaráttu fatlaðs fólks þar sem litið var á íþróttir sem eðlilegan þátt í því að geta notið sjálfstæðis í lífi og starfi.
Íþróttasamband fatlaðra var sett á laggirnar, sem hafði það hlutverk að aðstoða fatlað fólk í íþróttastarfi og veita þeim aðstoð við þátttöku í starfi almennra íþróttafélaga.
Þarna gerðust hlutir á skömmum tíma.
Special Olympics var hleypt af stokkunum og var ætlunin að veita íþróttafólki með þroskahömlun tækifæri til að upplifa þá spennu og gleði sem fylgir þátttöku í íþróttum og hins vegar að bæta líkamlega og félagslega getu sem og almennt heilsufar. Öll keppni á Special Olympics byggir á jafningjahugsjóninni.
Paralympics, ólympíumót fatlaðs fólks er síðan vettvangur þar sem aðeins þeir fremstu í heiminum keppa í hverri grein.
Þessi þróun hefur leitt til þess að fjölmörg fötluð börn og ungmenni hafa öðlast betri lífsskilyrði og aukin lífsgæði.
Þó er ýmislegt enn ógert. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var fullgiltur á Íslandi 2016 segir m.a.:
Aðildarríkin eigi að gera viðeigandi ráðstafanir til að fatlað fólk eins og aðrir geti tekið þátt í tómstundastarfi, frístundastarfi og íþróttastarfi.
Til að gera fötluðu fólki kleift að taka, þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi eins og aðrir :
- Þarf að hvetja til og vinna að þátttöku fatlaðs fólks, í íþróttastarfi á öllum stigum.
- Þarf að tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og tryggja líka viðeigandi leiðsögn, þjálfun og fé.
- Þarf að tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum.
- Þarf að tryggja fötluðum börnum, eins og öðrum börnum, aðgang að leikjum og tómstundastarfi, frístundastarfi og íþróttastarfi. Líka innan skólakerfisins.
- Og síðast en ekki síst þarf að tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundstarfs, ferðamennsku, frístundastarfs og íþróttatarfs.
Við þurfum að gera betur til þess að ná þeim markmiðum sem við stefnum að.
Þessi ráðstefna og vinnustofur er einn áfangi á þeirri leið - og við þurfum að láta verkin tala. Við höfum því sett okkur tvö markmið með þessari vinnu okkar hér í dag.
Í fyrsta lagi ætlum við að koma auga á þær áskoranir sem við stöndum ennþá frammi fyrir til þess að geta náð þeim áherslum sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um.
Í öðru lagi ætlum við að efla samstarf og samvinnu fulltrúa notenda, íþróttafélaga, íþróttasambanda og þjónustukerfa ríkis og sveitarfélaga þannig að þessir aðilar geti unnið saman að mótun tillagna til að tryggja þátttöku og virkni fatlaðs fólks á eigin forsendum.
Fötluð börn og ungmenni eiga að fá tækifæri og viðeigandi stuðning til þess að taka þátt í almennu íþróttastarfi ef þau svo kjósa.
Kæru ráðstefnugestir.
Um leið og ég þakka kærlega fyrir það tækifæri að koma og ávarpa ykkur þá vil ég segja ykkur að ég hlakka til að sjá afrakstur þessarar ráðstefnu og treysti því að þið finnið farvegi fyrir góðar og ferskar hugmyndir sem unnið verður áfram með á vinnustofum sem haldnar verðar 19. maí næstkomandi.
Verkefnin sem bíða okkar eru hvetjandi og spennandi og þær lausnir sem við finnum við þeim munu vonandi stuðla að því að gera gott samfélag enn betra.