Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á ráðstefnu Sorgarmiðstöðvar um skyndilegan missi
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
Kæru ráðstefnugestir,
Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri að koma hér og tala um lög um sorgarleyfi.
Um leið vil ég líka nota tækifærið og þakka Sorgarmiðstöðinni fyrir að halda þessa mikilvægu ráðstefnu og aðkomu þeirra að vinnunni við gerð frumvarpsins.
Ég sé að hér verða mörg áhugaverð erindi en ég verð því miður að yfirgefa ykkur fljótlega að loknu innleggi mínu, þar sem að forseti lýðveldisins hefur boðað til ríkisráðsfundar.
Þegar ég var að undirbúa mig fyrir þetta ávarp rakst ég á alveg frábæra hugleiðingu um sorgina, eftir séra Sigurð Árna Þórðarson. Mér finnst það svo fallegt hvernig hann lýsir sorginni sem gjaldi kærleikans, sem skugga ástarinnar og sem hina hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra.
Hann segir líka: „Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgarleysu dýru verði – því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.“
Lengi vel þótti það mikill persónulegur styrkleiki að bera ekki tilfinningar sínar á torg. Það þótti allt að hetjulegt að harka af sér og bera harm sinn í hljóði – en harmurinn fór hvergi.
Sem betur fer þá erum við ekki á þessum stað lengur en áttum samt alltaf eftir að stíga fyrstu skrefin í því að viðurkenna lagalega mikilvægi þess að fólk þurfi að fá svigrúm til sorgarúrvinnslu.
Það var því orðið löngu tímabært að löggjafinn tryggði fjölskyldum leyfi frá störfum, greiðslur á meðan á því leyfi stendur, og þar með meira svigrúm til úrvinnslu á sorg sinni í kjölfar barnsmissis. Þess vegna veit ég að við fögnuðum því öll þegar frumvarpið um sorgarleyfi foreldra sem missa barn var samþykkt í júní sl.
Sorgarleyfið er líka hugsað til að foreldrar geti betur stutt við eftirlifandi systkin í þeirra sorg og við að takast á við breyttar aðstæður.
En hvaða réttindi mun fólk hafa?
Rétturinn til sorgarleyfis verður sex mánuðir og greiðslur nema 80% af meðaltali heildarlauna, þó að hámarki 600.000 kr. á mánuði. Fólk utan vinnumarkaðar eða sem er í minna en 25% starfi fá sorgarstyrk, þar á meðal námsmenn.
Það er líka gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli yfir lengra tímabil. Þ.e.a.s. sveigjanleiki er innbyggður í kerfið.
Sorgarleyfi nær líka til andvana fæðinga eftir 22. viku meðgöngu og er þá þrír mánuðir og til fósturláts eftir 18. viku og er þá tveir mánuðir. Þessi réttindi voru áður í fæðingarorlofslögunum.
Eitt af því sem mér finnst sérstaklega vænt um í lögunum er hvernig hugtakið foreldri í lögunum er skilgreint með mun víðtækari hætti en í annarri löggjöf. Það geta því fleiri en tveir einstaklingar átt rétt á sorgarleyfi. Það er líka mikilvægt að hér er um að ræða sjálfstæðan rétt hvers foreldris til sorgarleyfis.
Samkvæmt lögunum geta þannig aðrir sem gegnt hafa foreldraskyldum gagnvart barni í lengri tíma en 12 mánuði fyrir barnsmissi átt rétt á greiðslum. Þetta eru stjúp- og fósturforeldrar sem hafa verið í skráðri sambúð eða gift foreldri og/eða forsjáraðila barns. Þannig er sorg fjölskyldunnar í heild viðurkennd óháð fjölskyldugerð en með því er efni frumvarpsins ætlað að kom til móts við fjölbreytt fjölskyldumynstur í íslensku samfélagi.
Lögin um sorgarleyfi taka gildi 1. janúar 2023 og eiga við um foreldra sem verða fyrir barnsmissi frá þeim degi eða síðar. Vinnumálastofnun mun halda utan um framkvæmd sorgarleyfa og útfærsla á umsóknum er í vinnslu hjá þeim og verður tilbúin áður en að lögin taka gildi. Það verður bæði hægt að sækja um rafrænt á vef Vinnumálastofnunar – en líka með eyðublaði – en stofnunin er að vinna að rafrænum lausnum og nánari útfærslu á umsóknum um sorgarleyfi til þeirra.
Kæru ráðstefnugestir.
Mikilvægi þess að huga vel að stuðningi við börn og barnafjölskyldur í kjölfar andláts barns verður seint ofmetið, en hér er líka um mikið framfaraskref á vinnumarkaði að ræða. Mestu máli skiptir auðvitað að foreldrar og eftirlifandi systkin fái svigrúm til að vinna úr sorg sinni en með sorgarleyfi og greiðslum því tengdu má að minnsta kosti í sumum tilvikum koma í veg fyrir mögulegan og/eða varanlegan heilsubrest sem gæti meðal annars dregið úr virkni á vinnumarkaði til lengri tíma litið. Því má leiða að því líkum að sorgarleyfið geti aukið líkur á að viðkomandi eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki virkari þátt í samfélaginu að nýju eftir barnsmissi.
Það að foreldrar geti tekið sér leyfi frá störfum og að greiðslur komi til móts við tekjutap í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis er því stórt skref fram á við í félagsmálum og vinnumarkaðsmálum á Íslandi. Reyndar er það svo að sorgarleyfi þekkjast ekki víða, en þó til dæmis í Danmörku og Bretlandi. Með samþykkt fumvarpsins hefur Ísland skipað sér fremst á meðal jafningja hvað varðar réttindi tengd sorgarleyfi, þar sem að foreldrahugtakið er víðtækara hér hjá okkur og sveigjanleiki til atvinnuþátttöku samhliða leyfi rýmri en annars staðar þar sem sorgarleyfi eru í löggjöf.
En hver ættu næstu skref hjá okkur að vera?
Eitt af því sem Sorgarmiðstöðin og fleiri hafa lagt áherslu á er að líta beri á lögin um sorgarleyfi sem fyrsta skref í að auka svigrúm borgaranna til úrvinnslu sorgar þegar dauðinn knýr dyra, og halda þurfi áfram að tryggja réttindi fólks til sorgarleyfis í fleiri tilvikum en við barnsmissi, fósturlát eða andvana fæðingu. Umræður á Alþingi endurspegluðu þetta viðhorf líka og sjálfur er ég líka þeirrar skoðunar. Þess vegnar er vinna hafin í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu við greiningu á mögulegum næstu skrefum þegar kemur að sorgarleyfi.
Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir að fá að koma hér og fá að tala við ykkur um lög um sorgarleyfi. Ég hlakka til áframhaldandi samtals um næstu skref. Og, það er gaman að greina frá því að ég hef ákveðið að veita Sorgarmiðstöðinni styrk á þessu ári sem ég vonast til að geti mætt að einhverju leyti stóraukinni aðsókn og umfangi í starfsemi samtakanna.
Ég hlakka til að fá að heyra af því hvaða ábendingar koma í kjölfar ráðstefnunnar um það hvað við getum gert betur fyrir syrgjendur sem missa skyndilega ástvini.
Kærar þakkir fyrir mig og gangi ykkur vel í ykkar störfum í dag sem og aðra daga.