Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á opnunarhátíð Fundar fólksins 2022
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
Ágætu gestir og aðstandendur Fundar fólksins.
Það er mér sönn ánægja að taka þátt í sjöundu opnunarhátíð lýðræðishátíðarinnar Fundar fólksins,
Hátíðir af sambærilegu tagi hafa víða fest sig vel í sessi á Norðurlöndunum. Þær eru uppspretta nýrra hugmynda og lausna.
Allt hófst, árið 1968, á því að sænski stjórnmálaleiðtogi Olaf Palme vatt sér upp á vörubílspall á Gotlandi og talaði við fólkið í kring. Opinn, lýðræðislegur fundur undir berum himni. Nú eru norrænu lýðræðishátíðirnar orðnar þungamiðja opinskárrar og hreinskiptrar umræðu. Umræðu milli almennings, frjálsra félagasamtaka og stjórnmálafólks sem heldur um taumana hverju sinni.
Umræðan hverfist um framtíðaráskoranir. Hvernig á að leysa aðkallandi vanda? Hvar eru góðu hugmyndirnar? Hvernig á að grípa þær? Hvað segja fundagestir, hver er með snjöllustu lausnirnar?
Stærstu og fjölmennustu viðburðir af þessu tagi eru Almedalsveckan í Svíþjóð, Arendalsuken í Noregi og Folkemödet á Bornholm í Danmörku. Þar berjast félagasamtök og stjórnmálafólk um að fá að taka þátt og þurfa að panta sér pláss snemma til þess hreinlega að komast að á palli. Þar vilja allir vera, sýna sig og sanna.
Fundur fólksins er líka að festa sig í sessi hér, þroskast og dafna eins og vönduð dagskrá ber með sér.
Á dagskrá má sjá mikilvæg mál sem falla þétt að því ráðuneyti sem ég stýri. Ég nefni t.d. málstofu um framfærslu sveitarfélaga á vegum EAPN-samtaka fólks í fátækt. Fyrirlestur Einhverfusamtakanna um skort á þekkingu á einhverfu sem blasir við einhverfu fólki þegar það leitar eftir þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu og hjá félagsþjónustunni.
Einnig viðburð á vegum Öryrkjabandalagsins um áhrif lögfestingar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á framtíð ungs fólks. Gríðarlega mikilvæg málefni fyrir alla.
Þá sé ég að ræða á mál sem er mikilvægt að ræða fordómalaust og fjallar um aðþað þarf að takast á við öfl sem skilja ekki þörf einstaklinga til að skilgreina sig og fá að vera þau sjálf án þess að vera skilgreind af öðrum.
Mín pólitík er að greiða veg þess að við fólkið getum komið okkar skoðunum á framfæri, okkur öllum til gagns, og haft áhrif á hvernig samfélag við sköpum. Það er ekki bara nauðsynlegt og gagnlegt heldur er það líka gaman og spennandi og þannig á það að vera.
Það er einnig ánægjulegt að sjá alla viðburðina sem tengjast umhverfismálum.
Lýðræðishátíð unga fólksins er nú haldin undir hatti Fundar fólksins. Hana skipuleggur unga fólkið sjálft út frá þeim málefnum sem á þeim brenna. Flott framtak. Það verður spennandi að fylgjast með þeim.
Það er fagnaðarefni að Lýðræðishátíðin er komin aftur á fulla ferð. Það er að finna í samfélaginu að fólk lætur mál sig meira varða en undafarinn áratug. Þúsundir manna sameinast í fylkingar með nýtingu samfélagsmiðla eins og dæmin sýna.
Ég óska Almannaheillum, Norræna félaginu og öðrum þeim sem koma að skipulagningu Fundar fólksins til hamingju með vandaðan undirbúning og glæsilega dagskrá.
Ég hvet alla þátttakendur til að láta til sín taka, nýta tækifærið sem þessi vettvangur skapar og hafa hátt. Vonandi taka sem flestir þátt í fundinum til að finna sem bestar framtíðarlausnir. Gangi okkur vel með það.