Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á vinnustofu um framtíð þjónustu við eldra fólk á Íslandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæru fundargestir og samstarfsfólk í þjónustu við eldra fólk.

Það er vel við hæfi að vinnustofan endaði á þessari góðu kynningu Magnúsar Karls Magnússonar þar sem við fengum að heyra og sjá hvernig sú vegferð er þegar leita þarf aðstoðar vegna þjónustu við eldra fólk. Vegferðarkortið sýndi okkur upplifun þjónustuþega og aðstandenda á því að fá greiningu vegna Alzheimers. Við stefnum á að gera fleiri slík vegferðakort fyrir ólíka staði á landinu og fyrir fleiri aðstæður. Við viljum nefnilega að upplifunin sé jákvæð og það sé samfella í þjónustunni.

Við erum rík þar sem sveitarfélög búa yfir miklum mannauði og þekkingu á nærþjónustu við eldra fólk, og rík því lang oftast er heilbrigðisþjónusta rétt innan seilingar. Verkefnið sem verkefnastjórn er nú að hefja snýr að því að færa saman þessar tvær mikilvægu stoðir, félags- og heilbrigðisþjónustu íbúum til hagsbóta.

Orðið samþætting hefur oft komið við sögu í dag. Samþætting kemur við sögu um heim allan og mun einn þeirra atburða sem Ísland stendur fyrir á næsta ári vegna formennsku sinnar í Norrænu ráðherranefndinni fjalla um stöðu mála þegar kemur að samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum. Og, set ég nú upp hatt samstarfsráðherra Norðurlanda.

Við vitum að aðstæður og möguleikar eru ólík milli svæða hér á landi og samþætting og uppbygging þjónustu getur því verið með ólíkum hætti. En ólíkar leiðir eiga að geta leitt til sömu niðurstöðu. Þess vegna var gaman að sjá dæmi frá mismunandi stöðum á landinu hér áðan og þróunarverkefnin þurfa líka að endurspegla mismunandi staði.

Samkenndarkortið sem við fengum líka að sjá færir okkur nær því að skilja, að þjónusta við fólk getur ekki verið vélræn og má ekki byggjast á takmörkunum opinberra kerfa. Það verður að vera markmið okkar allra sem komum að þjónustu við eldra fólk að byggja upp þjónustu þar sem einstaklingurinn er í aðalhlutverkverki og það er ætlun mín að aðgerðir þær sem settar verða fram í aðgerðaáætlun til fjögurra ára feli í sér að prófaðar verði ólíkar leiðir til að ná þeim markmiðum okkar. Ekki síður er það ætlun okkar Willums að aðgerðirnar geti leitt til þess að hindrunum á sveigjanleika og framþróun verði rutt úr vegi.

„Eldra fólk vill ekki vera málaflokkur“ eins og Sveinn Einarsson fyrrum þjóðleikhússstjóri sagði í viðtali frá árinu 2015 á þeirri ágætu vefsíðu Lifðu núna og nú nýlega hefur verið vitnað í á samfélagsmiðlum. Og hann segir jafnframt í viðtalinu „En samfélagið hefur ekki vit á að nota þá reynslu og þekkingu sem við búum yfir. Þess vegna verður eldra fólk útundan, það verður málaflokkur“.

Við viljum fjölga þeim einstaklingum sem taka virkan þátt í samfélaginu og með öruggri og réttri aðstoð til að búa heima þá tekst okkur það. Sjálfur hef ég upplifað mikinn kraft í eldri borgurum þegar ég hitti þau. Ekki gleyma að við eigum öll að eiga tækifæri til að blómstra í leik og starfi og ég veit að með virkni allra í samfélaginu þá verður fjölbreytileikinn meiri. Mín stefna er að veita öllum farveg til að vera virk og hafa hlutverk í okkar samfélagi. 

Hér í dag var lagt upp með að aðeins 50 ár eru síðan árið 1972 var og aðeins 50 ár eru til ársins 2072. Hefur þjónustan breyst nógu mikið á þessum 50 árum? Lára dró upp mynd af því sem var og Ragnheiður Eva hvernig framtíðin gæti orðið. Sameinumst nú um að taka stærri skref næstu ár til að bregðast við áskorunum vegna hækkandi meðalaldurs íbúa um leið og við stefnum að félagslegri sjálfbærni í samræmi við Norræna velferðarlíkanið.

Þið hafið í dag fengið kynningu á þeirri vinnu sem framundan er við gerð aðgerðaáætlunar og einnig hvernig horft er til þess að þegar aðgerðaáætlunin til fjögurra ára verði gerð upp liggi fyrir skýr framtíðarsýn og heildarstefna stjórnvalda sem felur m.a. í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru og hægt verið að leiða okkur áfram í rétta átt þegar kemur að þjónustu við eldra fólk. Og, ég er mikill áhugamaður um gerð landsáætlunar um að umbylta kerfinu.

Ég veit að fjólubláklædda tvíeykið sem talaði hér í upphafi dags eiga sér þann draum að árið 2072 verði það talið mikils virði að 50 árum fyrr hafi verið farið í að skapa framtíðarumgjörð þjónustu við eldra fólk þar sem virðing var höfð að leiðarljósi.

Þakkir til allra sem komu og tóku þátt og mörg höfðu um langan veg að fara.

Gangi ykkur vel og það eru forrréttindi okkar allra að fá að taka þátt í byltingunni.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta