Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á ráðstefnu Vinnueftirlitsins um framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæru ráðstefnugestir,

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það að fá að ávarpa ykkur hér í dag og setja þessa ráðstefnu um framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum. Ég sé að það er spennandi dagskrá framundan sem gagnlegt hefði verið fyrir mig að geta hlýtt á en því miður þá eru aðstæður þær að ég er staddur í opinberum erindagjörðum á erlendri grundu og get því ekki verið með ykkur í eigin persónu.  

Samstarf og samvinna er lykilatriði í vinnuvernd – eins og á svo mörgum öðrum sviðum og er þessi ráðstefna liður í vel heppnuðu samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK starfsendurhæfingar sem ber yfirskriftina „Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi.“

Á vefsíðu Vinnueftirlitsins er markmiðið Öll heil heim. Það stendur reyndar Allir heilir heim, en ég er veit að meiningin er að þetta eigi við um öll kyn. Ég held að ég sé ekkert einsdæmi þegar ég segi það að þetta er ekki það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um vinnuna mína – að það sé markmið að ég komist heill heim úr vinnunni. Er þetta ekki bara eitthvað sem er alveg sjálfsagt? 

Það ætti að minnsta kosti að vera það – en þannig er það því miður ekki alls staðar. Fyrstu hugrenningatengslin mín eru snöggir atburðir sem verða til þess að við komum ekki heil heim úr vinnu þann daginn – þar höfum við lyft Grettistaki á sumum sviðum. Ég kem úr sveit og þegar ég var ungur drengur þá voru t.d. reglulega fréttir af slysum og dauðsföllum í tengslum við störf til sveita og um borð í fiskiskipum á Íslandi. Það var til dæmis brýnt fyrir okkur krökkunum að passa okkur á drifsköftunum sem tengdu ýmis tæki við traktorana og okkur kennt að umgangast þau af varkárni eftir að við fórum að vinna á vélunum.

Minnisstæðust eru mér þó varnaðarorð fullorðna fólksins um heyblásarann, tæki sem blés heyinu inn í hlöðu og það var mikið sport að fá að forka heyinu inn í blásarann. Pabbi hræddi okkur með sögunni af kettinum sem fór inn í blásarann og kom út sem hundur – og passaði maður sig því sérstaklega á blásaranum þó stundum væri kappsemin í hærra hlutfalli við afkastagetuna.

Á landsvísu var gripið var til markvissra aðgerða til að skapa tryggari vinnuaðstæður, þjálfa og fræða um meðferð véla og notkun öryggisbúnaðar og hefur alvarlegum slysum á sjó fækkað til muna og hafa verið hverfandi á síðustu árum. Sem betur fer þá hefur fréttum af alvarlegum slysum til sveita líka fækkað til muna. 

Þegar ég hugsaði lengur um þetta þá er það að koma heill heim auðvitað líka það að skaðast ekki af vinnunni til lengri tíma. Annað dæmi kemur úr sveitinni og það er hávaðasamir traktorar og vinnuvélar sem skaðað hafa heyrn bænda í gegnum tíðina, smátt og smátt meira og meira. Heyrnarskjól voru skyldubúnaður bæði í svínahúsinu heima og á dráttarvélunum. Oft finnum við nefnilega ekkert fyrir þeim skaða sem við erum að valda líkamanum fyrr en jafnvel eftir einhver ár… og þá er erfitt að vinda ofan af þeim skaða. Þetta á ekki síst við um áunnin vandamál í stoðkerfinu.

Þau sem vinna við umönnunarstörf vinna líkamlega erfiðisvinnu – en þar eins og hjá okkur sem sitjum við skrifborðin – er auðvelt að gleyma að beita líkamanum rétt við átak – og á meðan við finnum ekki til við átakið þá finnst okkur jafnvel þetta tuð um forvarnir ekki eiga við okkur. En síðan læðast verkirnir og stirðleikinn aftan að okkur og skellur svo allt í einu á okkur af fullum þunga. Það hefur nefnilega sýnt sig að stoðkerfisvandi og geðheilbrigði eru tvær algengustu orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og algengustu orsakir orsök örorku. Það er því mikilvægt að við vinnum að forvörum og fræðslu til starfsfólks í umönnunarstörfum. 

Til að sporna gegn þessu erum við að vinna að nýrri reglugerð um varnir gegn álagi á hreyfi- og stoðkerfi á vinnustöðum, sem mun vonandi líta dagsins ljós á þessu ári.  

Samvinna atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks í að koma á skipulagðri vinnuvernd er lykillinn að því að öll axli sameiginlega ábyrgð á góðri vinnuvernd og vellíðan á vinnustaðnum. Eins og á fleiri sviðum þá þurfum við að huga sérstaklega að starfsfólki sem tilheyrir hópum í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði.  

Vinnuvernd er í raun víðfeðmt fyrirbæri sem snertir okkur öll og snýst um lýðheilsusjónarmið og heilsu allra. Þess vegna er mikilvægt að byggja upp og hlúa að víðtæku og góðu samstarfi aðila vinnumarkaðarins.

Í mínum huga er það mikilvægt að allir stjórnendur fyrirtækja og stofnana á vinnumarkaði skapi menningu sem starfsfólk getur tileinkað sér. Ég er sannfærður um það að þið munið ræða það í dag hvernig hægt er að skapa slíka menningu innan  fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum.

Eitt það sem gefur manni mest við það að vera ráðherra er að ég fæ mörg tækifæri til að læra nýja og gagnlega hluti. Það sem ég lærði m.a. við undirbúninginn á þessum ræðustúf eru þær fimm meginstoðir vinnuverndar sem þið þekkið örugglega öll nú þegar. En það er ekki sönn vinnuvernd til staðar nema að hún byggi á öllum fimm meginstoðunum. Efni- og efnaáhættur, umhverfisþættir eins og loftgæði, lýsing og hljóðvist, hreyfi- og stoðkerfi, vélar og tæki og síðast en ekki síst félagslegt vinnuumhverfi.

Ef við lítum aftur um nokkra áratugi þá var ekki talin sérstök ástæða til að huga að þessum þáttum í tengslum við vinnu fólks. Það má eiginlega segja að það hafi orðið bylting í viðhorfum til þess hvað teljast eðlilegar aðstæður í vinnu og við eigum alveg örugglega eftir að ganga í gegnum miklar breytingar næstu áratugina. Ekki síst í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna.

Með nýjum stefnum verða til nýjar áskoranir fyrir atvinnurekendur, stjórnendur og starfsfólk. Opið rými kallar á aðrar áskoranir en lokaðar skrifstofur. Breyttar áherslur og tæknibreytingar í umönnun og hjúkrun kalla að sama skapi á aðrar áskoranir.

Við þurfum að eiga skriflegar áætlanir um öryggi og heilbrigði sem nær til allra fimm meginstoða vinnuverndarinnar. Því án formlegra áætlana er alltaf hætta á mismunandi viðbrögðum og að upplýsingarnar skili sér ekki til allra. 

Það þarf að tryggja starfsfólki nægilega fræðslu og þjálfun varðandi vinnutækni og líkamsbeitingu við hæfi og það er mikilvægt að fylgjast vel með þróun og nýsköpun í tæknibúnaði sem getur auðveldað starfsfólki störf sín.

Kæru ráðstefnugestir, um leið og ég segi þessa ráðstefnu setta þá óska ég okkur öllum að við komum heil heim og hlakka til áframhaldandi góðs samstarfs um að auka veg vinnuverndar jafnt innan umönnunargeirans sem og annars staðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta